08.03.1977
Sameinað þing: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

170. mál, stóriðja á Norðurlandi og Austurlandi

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hafði á vissan hátt ástæðu til þess að biðja um frestun á umr. um þetta mál, því að ég ætlaði mér alltaf að taka þátt í umr., en ástæður mínar eru þannig nú, að ég á svolítið erfitt með að sjá frá mér og nær mér raunar líka gleraugnalaust. En ég sé þó ekki ástæðu til þess að fara fram á frestun, stytti aðeins mál mitt. En ég get ekki neitað því, að ég hef ástæðu til og löngun að styðja nokkuð mál mitt sérstökum gögnum, því þó að hv. flm. hafi tekið svo til orða í lok ræðu sinnar, að hann vonaðist til þess að umr. yrðu hér hófsamlegar, sem er sjálfsagt að taka undir, og með rökum, þá getur hann tæpast búist við því, þegar slíkt mál kemur fram sem þetta. að það verði ekki verulegar umr. um það og ekki verði margir sem leiða hugann að því máli sem hér er hreyft.

Sannleikurinn er sá, að hér er verið að hreyfa einhverju stærsta máli sem hugsast getur fyrir íslensku þjóðina. Hér er í raun og veru verið að marka stefnu í atvinnumálum sem ég held að eigi sér satt að segja ekki þann hljómgrunn á Alþ. að hægt sé að búast við því, að það gangi þegjandi fyrir sig eða í sérstökum rólegheitum. En hitt er satt og undir það vil ég taka með hv. Flm., að það er sjálfsagt og eðlilegt að ræða þetta mál með fullum rökum. Og ég tel að ég hafi mótað afstöðu mína gagnvart þessari till. og gagnvart því málefni, sem hún fjallar um, með fullum rökum og af því að ég hef reynt að fylgjast með hvaða afleiðingar slíkt mál sem þetta getur haft og raunar hvaða afleiðingar þetta mál er þegar búið að hafa fyrir okkur íslendinga. Við vitum miklu meira nú um stóriðju en áður, og stóriðjudraumurinn er áreiðanlega fyrir mörgum ekki jafnglæsilegur nú eins og hann var fyrir segjum 10–15 árum, þegar fyrst er farið út í verulega stóriðju hér á landi. Og ég held að menn hafi lært ýmislegt á þeim tíma, og raunar er það svo, að hv. flm. þessa máls, fyrri flm., sem hér talaði, hefur líka lært þó nokkuð frá þeim tíma, og er það vissulega ánægjulegt. Ég ætla ekkert að fara að sproksetja hann og er ekki að elta uppi einhver ummæli sem hann kann að hafa haft um það, hversu margar álbræðslur skyldi reisa á Íslandi. Ég hirði ekkert um það og veit í rauninni ekkert um það. En hitt veit ég, að það hafa verið menn í landinu, ef hann er ekki einn af þeim, og þ. á m. ýmsir ráðamenn, bæði hér og þar, sem hafa einmitt verið með hugmyndir af þessu tagi. Ég segi kannske ekki að þeim hafi dottið í hug, að reisa 20 álbræðslur, en ég er ekki frá því að til hafi verið þeir menn, þó að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sé ekki í hópi þeirra, sem hafa nefnt slíka tölu. En við skulum ekki deila um það.

Skoðun mín er sú, og ég vil að það komi hér fram og hef raunar áður látið það koma fram hér á hv. Alþ. og víðar, að ég álít að við eigum að hafna með öllu þessum fyrirætlunum um svokallaða stóriðju. Þess vegna hlýt ég að verða á móti þessari till. eins og hún er orðuð, vegna þess að hún felur hreinlega í sér stefnumörkun af hálfu Alþ. um það, að út á þessa braut skuli leggja. Ég vildi gjarnan að ég hefði haft aðstöðu til þess að lesa hér upp ýmis gögn, sem ég hefði viljað hafa hjá mér og rökstyðja mál mitt með því, en það er nú kannske, þegar á allt er lítið, aðeins tímasóun og ég læt nægja að minnast á þetta. En ég vil taka það mjög skýrt fram, að ég er andvígur þessari till. vegna þess að hún felur í sér ákveðna stefnumótun í atvinnumálum, sem ég tel ákaflega skaðlegt og óhyggilegt að Alþingi taki.

Ég minntist á það, að menn hefðu lært talsvert mikið á síðustu 10–15 árum um stóriðju og stóriðjufyrirtæki, og ég held satt að segja að það hljóti að vera heyrnarsljóir og ólæsir menn sem ekki hafa getað dregið þær ályktanir af þessum málum, að það sé mjög óhyggilegt af okkur að fjölga stóriðjufyrirtækjum í landinu. (Gripið fram í: Er ekki nóg að segja illlæsir?) Kannske væri hægt að nota það orð. En a. m. k. tel ég að það jafngildi ólæsi að draga ekki þær ályktanir af því, sem við nú vitum um stóriðju, raunar hér á Íslandi, hvað þá í öðrum löndum, að það er ákaflega óhyggilegt fyrir okkur íslendinga að fara að ráðast í fleiri slík fyrirtæki. Við lifðum, og þ. á m. ég fyrrum margir í þeirri trú, og það er gamall stóriðjudraumur frá þjóðskáldum og öðrum ágætum fyrirmönnum þjóðarinnar, að það væri hægt að rífa íslendinga upp úr eymd með því að virkja fallvötn og virkja með það fyrir augum að reisa hér stórar bræðslur af ýmsu tagi eða verksmiðjur, og m. a. trúðum við því, að þetta yrði til þess að sjálfsögðu að auka fjölbreytni atvinnulífsins, eins og það er kallað, þetta yrði til þess að auka efnahag þjóðarinnar, og ekki nóg með það: með þessu mætti m. a. líka halda uppi jafnvægi í byggð landsins. En nú hugsum við öðruvísi og vitum í raun og veru allt annað. Við vitum að það getur verið stórhættulegt fyrir jafnvægi í byggð landsins að fara að demba niður þessum stóru bræðslum og verksmiðjum sem áætlanir eru uppi um. Það er alveg stórhættulegt fyrir jafnvægi í byggð landsins að demba þessu niður úti um dreifbýlið og ofan í okkar fámennu byggðir. Þetta vitum við nú, þannig að ég er dálítið hissa á jafn-vellesnum manni og prýðilega gerðum manni eins og hv. 1. flm. þessa máls, að hann skuli ekki hafa lesið þetta út úr reynslu annarra og þeim umr. sem orðið hafa um þessi mál, að við erum ekki að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að koma upp þessum álbræðslum.

Það vill svo til að ég á heima í því héraðinu úti um landsbyggðina sem er einna stærst og öflugast og mundi kannske, svona eftir teoriunni, þola hvað best að taka við þessu, —- þeirri teoríu sem ég er hér að lýsa, um það, að þetta geti haft áhrif á veikar og smáar byggðir. En samt fór nú svo að eyfirðingar og þar með taldir akureyringar risu upp gegn þessari hugmynd. Þegar búið var að pukrast með þetta á bak við þá nokkuð lengi og það er síðan opinberað að það eigi að demba þessu yfir okkur, þá urðu margir til þess að rísa upp gegn þessu og að lokum svo, að almenningsálitið er algjörlega andsnúið þeirri hugmynd að setja þarna álbræðslu.

Ég skal viðurkenna það, að ég hef heyrt raddir manna og heyri þær enn, þ. á m. á Norðurlandi og jafnvel Austurlandi, sem trúa því, að það verði til styrktar byggðunum, þessum litlu byggðum okkar, kannske með innan við 1000 íbúa, — að það verði þeim til styrktar að fá álbræðslu sem reiknað er með að mundu kannske vinna 500–600 manns í. Ég held samt sem áður að þeir, sem svona hugsa, og þeir alþm., sem svona hugsa, ættu að athuga sinn gang betur og skoða hvaða afleiðingar þetta mundi hafa fyrir byggðarlög af þessu tagi, fyrir nú utan það að margar af þessum verksmiðjum, sem hér er um að ræða, eru þannig, að þær forpesta allt andrúmsloft og sjó og jörð í kringum sig. Um þetta vissu menn að vísu svolítið fyrir. En það sem þeir vita meira um núna, það eru þær félagslegu afleiðingar sem þetta hefur. Og ég ætla að biðja hv. þm. að hugleiða vel þann þáttinn, því að hann er e. t. v. engu veigaminni þegar um þetta er rætt. Það má vel vera að í mörgum tilfellum og við tilteknar aðstæður sé hægt að koma í veg fyrir alvarlegustu mengun, en ég er ekki viss um það verði auðvelt að koma í veg fyrir þá alvarlegu röskun á byggð landsins sem við margir sjáum og skiljum nú að hlýtur að verða ef á að fara að demba þessum verksmiðjum niður svo sem eins og á Austfjörðum og á Norðurlandi. Það mundi hafa mikla röskun í för með sér, og a. m. k. höfum við gert það upp við okkur, eyfirðingar og akureyringar, að það mun hafa ekki einasta forpestandi áhrif á loftið og sjóinn, heldur mun það líka gjörbreyta samfélagi okkar, félagsháttum okkar og atvinnulífi, og þess vegna m. a. stuggum við þessu frá okkur.

En, herra forseti, ég skal ekki eyða lengri tíma í þetta. Ég vil aðeins endurtaka það, að ég er mjög andvígur þessari till. og tel að það væri til óþurftar að samþ. hana, þó að ég hafi ekkert á móti því að hún gangi til nefndar og verði þar rædd. En ég vara hins vegar við því að hún verði samþ.