08.03.1977
Sameinað þing: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

170. mál, stóriðja á Norðurlandi og Austurlandi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., er, eins og hefur fram komið, veigamikið mál sem er áreiðanlega þess vert að það sé rætt og athugað nákvæmlega, hvað í þessu felst og að hverju við eigum að stefna í þessum málum. Að vísu er tillgr. ekki löng, hún er aðeins um það að Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta gera athugun á heppilegasta staðarvali til stóriðju á Norðurlandi og Austurlandi. Heppilegasta staðarvali? Er það hugsað út frá hafnarskilyrðum eða er það hugsað út frá orkunni eða er það hugsað út frá einhverju öðru — hinu félagslega?

Ég held að ef á að fara að athuga slíkt mál, þá sé það ekki einn þáttur, sem þurfi að kanna, heldur margir. Og það er ekki hægt að finna það, hvorki í tillgr. né í grg., hvað eigi að kanna í raun og veru. En þó finnst manni við að lesa þetta yfir, að það muni vera fyrst og fremst hafnaraðstaðan. Það væri hægt að halda það. En það er bara einn þáttur. Og öll umr., sem fer fram um þessi málefni, er í raun og veru ekki miðuð við það strjálbýla land og það fámenni sem við búum hér við. Er ekki kominn tími til að koma fram með till. hér á Alþ. um að athuga hvernig við eigum að byggja upp okkar atvinnulíf, að hverju við eigum að stefna í þessum málum?

Ég vil alls ekki segja að við eigum skilyrðislaust að hafna stóriðju. Ég vil ekki segja það. En ég vil segja það, að við eigum fyrst og fremst að athuga alla aðra möguleika. Ég trúi því að við þurfum ekki að notfæra okkur þá möguleika, nægir aðrir séu fyrir hendi í okkar góða landi og miðað við okkar fámenni, að við þurfum ekki á slíkri stóriðju að halda. Er það virkilega þannig, að hv. flm. vilji fara að láta byggja einhvers staðar verksmiðjubæ, einhæfan verksmiðjubæ? Ef ætti að byggja upp stóriðju annars staðar ú Norður- og Austurlandi en við Eyjafjörð, þá yrði það vitaskuld verksmiðjubær eingöngu. Það er hvergi til sá fólksfjöldi þar nokkurs staðar sem mundi henta slíku. Það yrði að byggja það upp að mestu leyti frá grunni, miðað við þær hugmyndir sem a. m. k. erlendir menn tala um hver stærðin þurfi að vera til þess að það borgi sig.

Ég verð að játa það alveg hreinskilnislega, að þær umr., sem hafa farið fram að undanförnu um þessi mál, næstum að segja skelfa mig. Það er í sjálfu sér eins og menn séu farnir að trúa því að við getum alls ekki komist hjá því að byggja stóriðjuver hér og þar, það sé okkar einasta lífsvon. Ég lít allt öðruvísi á þetta mál. Ég held að við þurfum ekkert á stóriðju að halda, og ég vil taka undir þau orð hv. 1. þm. Norðurl. e., að það er enginn vafi á því að það er ekki til þess að halda hér uppi byggðajafnvægi að byggja upp stóriðju, jafnvel þó hún væri á Norðurlandi og Austurlandi, heldur hið gagnstæða, því að slík stóriðja mundi draga að sér fólkið í næsta umhverfi utan um slíka verksmiðju.

Ég fellst á það, að við getum auðvitað ekki virkjað í stórum stíl öðruvísi en að hafa stóran orkukaupanda. Ég fellst á það. En þurfum við að flýta okkur endilega að virkja bestu möguleikana, gera það á nokkrum áratugum? Er ekki betra fyrir okkur að hafa þá stefnu að byggja landið allt og byggja á okkar atvinnuvegum fyrst og fremst?

Það er auðvitað margt hægt að segja um þessi mál, en ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Þessi till. kemur mér mjög einkennilega fyrir sjónir. Það er engin skilgreining á því hvað eigi að athuga. Ég hélt að þarna væru margir þættir. Ef menn ætla að láta gera athugun á svona máli til þess að það sé nokkurt gagn að því, þá þarf að skoða það frá óteljandi hliðum. Kannske eru hafnarmannvirkin þar ekki það stærsta, a. m. k. ekki í mínum huga.

Ég mun því ekki ljá þessari till atkv. mitt. Hins vegar mundi ég vilja standa að því, að það yrði samþ. till. á Alþ. um hvernig við eigum að byggja upp okkar atvinnulíf, það yrði kannað hvernig að því á að standa á næstunni. Komi það í ljós eftir nákvæma könnun, að við getum ekki haldið uppi fullri atvinnu í þessu landi öðruvísi en með einhverri stóriðju, þá verður að athuga það þegar þar að kemur. En ég trúi því ekki.