08.03.1977
Sameinað þing: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2474 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

170. mál, stóriðja á Norðurlandi og Austurlandi

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Hér hefur verið lögð fram till. þess efnis, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta gera athugun á heppilegasta staðarvali til stóriðju á Norðurlandi og Austurlandi. Af þessum texta má skilja að þar með sé ákveðið að ráðast í stóriðju í þessum landsfjórðungum. En ég skildi það ekki svo í framsögu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, að það væri í reynd till. flm., og ég tel því ástæðulaust að vera í sjálfu sér að hártoga þennan texta. Hann er í sjálfu sér óheppilegur.

En í fyrsta lagi er það afskaplega slæmt í öllum umr. um stóriðju, að það liggur í reynd engin skilgreining fyrir á því orði, hvað það er sem menn eiga við þegar rætt er um stóriðju. Er það fyrirtæki, þar sem vinna þetta og þetta margir starfsmenn, eða er það fyrirtæki, sem notar orku, sem fer umfram ákveðið mark, eða eru það eingöngu álbræðslur og járnblendiverksmiðjur? Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að við reynum að koma okkur niður á hvað það er sem menn eiga við þegar rætt er um stóriðju, því að það kemur í ljós að það er afskaplega mismunandi eftir því hver flytur málið.

Ég er þeirrar skoðunar eins og flestir, að það eigi ekki og beri ekki að byggja orkuver hér á Íslandi sérstaklega fyrir stóriðju. Hins vegar hefur það komið upp og orðið hlutskipti okkar að þurfa að taka ákvörðun um það, um leið og virkjun er ákveðin eins og Sigölduvirkjun, hvað eigi að gera við þá orku og hvort eigi að byggja stóriðjufyrirtæki samhliða þeirri og öðrum virkjunum. Ég tel að þá hafi í reynd verið tekin ákvörðun varðandi járnblendiverksmiðju, þegar ákvörðun um Sigölduframkvæmdirnar var tekin. Fram hjá því verður ekki komist.

Í sambandi við till. eins og þessa hlýtur að koma upp í hugann: Hvað er það sem vantar fyrst og fremst í landsfjórðungum eins og Norðurlandi og Austurlandi? Í fyrsta lagi vantar þar orku, og það eru uppi áform um að byggja orkuver til að fullnægja þeirri þörf. Á Austurlandi er uppi áform um Bessastaðarárvirkjun sem á að fullnægja þörfum fyrir grunnorku í fjórðungnum eins og nú háttar og fyrir nokkra framtíð. Í öðru lagi vantar fjölbreyttara atvinnulíf í þessum landsfjórðungum, og í því sambandi sem menn almennt fullvissir um að það beri að leggja áherslu fyrst og fremst á þá atvinnuvegi, sem þar eru fyrir og leggja áherslu á smærri fyrirtæki. En fram hjá því verður hins vegar ekki gengið, að miklir virkjunarmöguleikar eru í þessum landsfjórðungum. Það eru miklir virkjunarmöguleikar t. d. á Austurlandi, og við stöndum frammi fyrir því í nánustu framtíð að þurfa að taka ákvörðun um einhverja þessara kosta, því að það er ljóst að virkjun eins og Bessastaðaárvirkjun mun ekki nægja um alla framtíð.

Það má segja að okkur vanti flestar forsendur til að taka ákvörðun um það sem menn kalla stóriðju. Ég hefði því viljað fyrst og fremst að það færi fram athugun á áhrifum stóriðju á félagslegar aðstæður og byggð í þessum landshlutum. Það er fyrst og fremst slík athugun sem okkur vantar til þess að geta tekið ákvarðanir þegar þar að kemur. Ég vil alls ekki hafna öllum hugmyndum um stóriðju, því að í mínum huga er mikil breidd í því orði. Það geta verið fyrirtæki þar sem vinna starfsmenn allt frá kannske 70 og upp í 1000, eða fyrirtæki sem notar orku á bilinu 20–30 mw. eða upp í mörg hundruð mw., þannig að það er í reynd enginn í aðstöðu til þess að hafna slíku í eitt skipti fyrir öll. En okkur vantar nákvæmar rannsóknir á félagslegum áhrifum og áhrifum á byggð í þessum landsfjórðungum. Ég efast ekkert um að það kemur ekki til greina að fara að skella niður, hvorki á Norðurlandi né Austurlandi, fyrirtæki þar sem vinna — ja, við skulum segja 500–600 manns. Byggðin í kring mundi bíða ómetanlegt og óbætanlegt tjón. En hins vegar getur vel komið til greina að setja upp miklu minna fyrirtæki, þar sem gætt er ítrustu varkárni varðandi mengun og önnur áhrif á byggðina. Það eru þessar athuganir sem þarf fyrst og fremst að láta gera. Þess vegna vildi ég beina því til flm., að ég teldi heppilegra að beina slíkum athugunum í þá veru, en ekki að rígbinda slíkar athuganir við eitthvert ákveðið staðarval.