08.03.1977
Sameinað þing: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2475 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

170. mál, stóriðja á Norðurlandi og Austurlandi

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson) :

Herra forseti. Ef hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur skilið mig svo, að ég væri á móti umr. um þetta mál, þá er það mesti misskilningur. Ég tel einmitt að umr. um þetta mál séu mjög æskilegar, ekki síst umr. á þann veg sem hér hafa farið fram, hóflegar umr. þar sem komið hafa fram rök og gagnrök, bæði hjá þessum hv. þm. og öðrum þeim, flestum a. m. k., sem hér hafa talað. En það voru einmitt þessi félagslegu sjónarmið sem þessi till. í raun réttri fjallar um. Og það stendur skýrt og greinilega í grg., orðrétt, með leyfi forseta: „Ljóst er að till. þessi hnígur ekki að því að tekin sé ákvörðun um frekari stóriðjuframkvæmdir.“ En það er ekki tilefnislaust að við flytjum till. um að athuga bæði félagslegar aðstæður, hafnaraðstæður o. s. frv., sem hér var vikið að. Það er ekki að tilefnislausu, vegna þess að hér sunnan- og suðvestanlands, frá a. m. k, þremur byggðarlögum, hafa komið áskoranir frá áhrifamönnum um að næsta stóriðjuver, sem á Íslandi rísi, yrði í þessum landshluta. Það er fyrst og fremst það sem við erum að undirstrika, að við erum algerlega mótfallnir því, og ég a. m. k. mundi vera eindregið á móti því að fleiri verksmiðjur en þær, sem teknar hafa verið ákvarðanir nm, verði byggðar í þessum landshluta. Auðvitað hefur ákvörðun verið tekin um málmblendiverksmiðjuna og við greitt um hana atkv. Þar komu fram þessi félagslegu sjónarmið öll sömun sem hér er verið að fjalla um. Ég gerði þá upp hug minn. Ég teldi óhætt að ein slík verksmiðja til viðbótar álverinu og síðan efnaverksmiðjunni eða sjóefnaverksmiðjunni, eða hvað hún nú heitir, mætti rísa hér á þessu svæði, það væri ekkert á móti því að ein slík verksmiðja kæmi á Vesturlandi. Og þá auðvitað gerði ég upp minn hug um það, hvort ég væri með þessu eða móti og ákvörðunin var tekin, þótt það hafi síðan komið aðrir aðilar inn. Og frá félagslegu sjónarmiði get ég ekki séð að það sé óæskilegra að hafa norðmenn heldur en bandaríkjamenn, þó að okkur þyki öllum vænt um þá líka.

Þessi till. er sem sagt um stefnumörkun að því einu leyti, að við mörkum þá stefnu að við viljum ekki fleiri stóriðjuver hér sunnanlands, nema við einhvern tíma í framtíðinni, þegar slík iðjuver, eitt eða tvö, hefðu risið annars staðar, teldum það vera óhætt.

Og ég vil nú segja að við getum ekki á þessu stigi heldur fordæmt alla stóriðju. Hér hefur réttilega verið vikið að því að 500–600 manna verksmiðja gæti raskað byggðajafnvægi og mundi vafalaust gera það að einhverju leyti. En eftir 2–3–4 ár kann vel að vera að einhver orkufrekur iðnaður þurfi ekki mannafla nema 50 eða 104 manns, en það getur verið geysilega merkilegt og gott fyrirtæki engu að siður. Ég veit ekki neitt um það tæknilega. Við vitum bara að tækniframfarir í heiminum eru gífurlega miklar, og þess vegna finnst mér alveg jafnfráleitt eins og það væri að byggja 20 álbræðslur að afskrifa þann möguleika um alla framtíð að við förum út í frekari orkufrekan iðnað. Og auðvitað greiðir það fyrir virkjunum eins og Blönduvirkjun, ef orkusölusamningur er fyrir hendi. En það, sem átt er við í grg. um Hrauneyjafoss og Blönduvirkjun, á ekki heldur að fara á milli mála. Við segjum að við áteljum það að Hrauneyjafoss er ákveðinn, vegna þess að virkjunarundirbúningur var ekki nægjanlega langt kominn. Og ég veit ekki hvern á að saka um það. Það verður að játa eins og er, að það var hópur heimamanna andvígur Blönduvirkjun og það hefur dregist um of að ná þar samkomulagi, ella hefðu vafalaust orðið meiri rannsóknir á síðasta ári. En við erum ekki að átelja þar einn eða neinn. Við viðurkennum eingöngu að það varð að taka ákvörðun um Hrauneyjafoss vegna þess að undirbúningsrannsóknir á öðrum stöðum voru ekki nægilega langt komnar, og það er vissulega hryggilegt, því að ég hygg að allir þm. séu sammála um að það væri æskilegri stefna, að ein stórvirkjun kæmi úti á landsbyggðinni, heldur en að ein til viðbótar kæmi hér á Þjórsársvæðinu, þó ekki væri nema af öryggisástæðum. Þess vegna er ekki verið að deila á einn eða neinn með þessu.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr., en ég lýsi aðeins yfir ánægju minni með að þær skuli hafa farið fram einmitt á þann veg sem þær hafa gert. Og að því er varðar ræðu síðasta ræðumanns, þá er ég vissulega til viðræðu við þá sem hafa sömu sjónarmið og hann, og ég veit að meðflm. er það líka, — viðræðu um að breyta eitthvað till. og taka enn þá meira mið af félagslegum sjónarmiðum. En það eru þó fyrst og fremst þau sem við einmitt erum að ræða hér um.

Við erum að vekja athygli á þessum félagslegu sjónarmiðum fyrst og fremst, að það megi ekki kollvarpa landinu með því að öll stóriðja eigi að vera hér á einu horni. Það er það sem er stefnumörkun í þessari till., ekkert annað. Það er skýrt tekið fram, að engin ákvörðun felist í henni um frekari stóriðju. Með hliðsjón af þessu hélt ég satt að segja, að við gætum orðið nokkuð mikið sammála hér í þessum sal um afgreiðslu þessarar till. Ef hún veldur misskilningi, þá er auðvitað sjálfsagt að leiðrétta þann misskilning, og fyrstur skal ég verða til þess að breyta orðalagi og undirstrika það, sem fyrir okkur vakir, og það er þetta eitt, að ekki verði teknar ákvarðanir um fleiri stóriðjuframkvæmdir á Suðvesturlandi, fyrr en búið er þá a. m. k. að athuga hvort slíkar verksmiðjur, ein eða fleiri, gætu komið annars staðar. Og þá kemur að því að taka ákvörðun, hvort við viljum verksmiðju eða viljum verksmiðju ekki, og auðvitað hljótum að meta hvert einstakt tilvik alveg óháð öðrum tilvikum.

Eins og ég sagði áðan, þá eru miklar tækniframfarir. Núna er að vísu verið að tala um verksmiðju sem tæki kannske 500–600 manns, þar sem er tilboð eða umræður við Norsk Hydro. Við eigum að taka til þess sjálfstæða afstöðu. Ég hef í mínum huga gert það upp við mig, að ég er á móti þeirri verksmiðju nema hugsanlega norðanlands og austan, ef þar eru einhverjir staðir þar sem fólkið vill fá verksmiðjuna. Og mér finnst meira að segja að það megi gjarnan ræða um og huga að því sem hv. þm. Stefán Valgeirsson nefndi hér verksmiðjubæ. Það þarf ekki að vera endilega einn verksmiðjubær. Það þyrfti ekki allt fólkið, sem ynni í verksmiðjunni, að búa í þeim bæ, kannske engir. Það gæti búið í nálægum byggðarlögum ef samgöngur væru nægilega góðar. Mér finnst ekki ástæða til að afskrifa þann möguleika algerlega að byggja bæ þar sem væri ekkert nema verksmiðjan og höfnin og kannske einhverjir eftirlitsmenn, en síðan kæmi starfsfólk úr nálægum byggðarlögum, 100–200 manns, ef það væri hægt að fá arðvænlega verksmiðju, sem notaði talsvert mikla orku, en þyrfti ekki meiri mannafla en þetta. En það er einmitt einkenni orkufreks iðnaðar eða á að vera, að það þarf lítinn mannafla, en á að skapa mikla auðlegð.

Nú er búið að rífast mikið um Búrfellsvirkjun og álbræðsluna og ég hef satt að segja ekki unnt að taka þátt í því rifrildi síðari árin, af því að það er alltaf endurtekið það sama sem talað var um fyrir 12 eða 14 árum. Það er ekki nokkur lifandi leið, a. m. k. ekki fyrir mann sem stóð daglega í því að rífast um þetta á þeim tíma starfsins vegna, að nenna að fara að taka þátt í þessum ósköpum upp aftur og aftur. En við skulum þó huga að því, að það líður nú ansi ört á afskriftatíma þessarar virkjunar og verksmiðju og tíminn er furðufljótur að líða. Við skulum segja að við hefðum engan hagnað haft af þessu eða lítinn fram að þessu. Hann verður þá ekki lítill þegar allt þetta er afskrifað og orðið okkar eign skuldlaust. En það má líka hafa hliðsjón af því.

En sem sagt, ég ætlaði ekki að taka hér upp almennar deilur um stóriðju og mun ekki gera.

En ég er ánægður með þessar umr. Ég held, að þær hafi verið upplýsandi, og vona að þær haldi áfram, bæði í þingsölunum og eins úti um allt land, þannig að menn geti gert þetta upp við sig öfga- og hleypidómalaust.