08.03.1977
Sameinað þing: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2493 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

170. mál, stóriðja á Norðurlandi og Austurlandi

Sigurður Magnússon:

Hæstv. forseti. Þær eru býsna fróðlegar þessar umr., sem fara nú fram um þessa þáltill. um stóriðju á Norður- og Austurlandi. og að mörgu leyti ánægjulegar. Það má heyra það á máli þeirra, sem hér hafa talað, flestra, að þeir eru andsnúnir þessari stóriðjustefnu, og meira að segja flm. till. reyna að gera sem minnst úr henni, telja að þáltill. sé ekki stefnumótandi þrátt fyrir það að hún sé það vitaskuld eins og orðalag hennar er. Meira að segja þeir, sem fremst vilja ganga, vilja draga úr till. Það er því ljóst, og það kemur mér reyndar ekki á óvart og er ekki alveg nýtt fyrir mér, en það er ljóst að áhugi á þessari stóriðju á Íslandi er miklu minni nú en hann var fyrir nokkrum árum, þegar hvað skeleggast var barist fyrir þessari stefnu í tíð viðreisnarstjórnarinnar, og er það út af fyrir sig ánægjulegt. Það, sem veldur, er e. t. v. fyrst og fremst tvennt. Í fyrsta lagi eru allt aðrar aðstæður í okkar þjóðfélagi í dag en voru á árunum í kringum 1966 og 1967 þegar reynt var að ryðja þessari stefnu braut. Þá voru atvinnuleysistímar og erfiðleikar hjá verkafólki vegna þess að slælega hafði verið haldið á atvinnumálum þjóðarinnar um langt árabil. Undir þessum kringumstæðum notfærðu stjórnvöld sér ástandið og boðuðu hina erlendu stóriðjustefnu til þess að bjarga þjóðinni frá atvinnuleysi og efnahagshruni. Það tókst hins vegar að sanna það í tíð síðustu ríkisstj., að við íslendingar þurfum engu að kvíða um atvinnu okkar ef vel og rétt er á málum þjóðarinnar haldið, og það var eitt af mörgu góðu sem sú stjórn gerði, það var að sanna þetta fyrir þjóðinni. Veruleg uppbygging íslenskra atvinnuvega átti sér þá stað, og sjaldan hafa jafnmörg störf og jafnmikil atvinna verið hjá þjóðinni en einmitt á þessu stjórnartímabili. Áhrifa þess gætir enn í dag. Það er sem sagt vegna þessa ekki jafnauðvelt að telja íslensku launafólki, íslenskum almenningi trú um að stóriðjustefna sé sú stefna sem fylgja skuli í atvinnumálum.

En það kemur einnig annað til, og það er sú reynsla sem við íslendingar höfum þegar fengið af þeirri stóriðju sem þó er til í landinu, þ. e. a. s. af álverinu í Straumsvik. Hún talar vitaskuld sínu máli. Og það er reyndar rétt sem kom fram hjá einum þm., að í þessari þáltill. er orðið stóriðja ekki skilgreint. en þó er það nú á vörum manna yfirleitt notað yfir stóriðju eins og álver og kísiljárnverksmiðjur. En vitaskuld er til ýmis stóriðja af öðru tagi. Það má hugsa sér margs konar stóriðju úr íslenskum hráefnum, og reyndar er þegar til í landinu slík stóriðja, bæði í áburðarframleiðslu og sementsframleiðslu. Og ég vil taka það skýrt fram hér, að margs konar slík iðja getur vitaskuld í framtíðinni verið staðsett á Norður- og Austurlandi, eins og víða annars staðar á landinu. En ég held að það fari þó ekki á milli mála, að í þessari þáltill. eina flm. fyrst og fremst við þá stóriðju sem algengast er að menn hafi í huga þegar þetta orð er notað, enda er sérstaklega vitnað í það í grg. að fram hafi farið athuganir á því að staðsetja álver við Eyjafjörð og síðar hafi svo verið nefnt Suður- og Suðvesturland. Þáltill. er flutt m. a. vegna þessara athugana, þannig að ég held að það fari ekkert á milli mála hvað flm. till. eiga við þegar þeir tala þarna um stóriðju.

Það er reyndar ekkert nýtt að tala um stóriðju við Eyjafjörð. Þannig rakst ég á það nýlega í ræðu sem hv. þm. Jóhann Hafstein flutti hér á Alþ. 1966 eða 1967, ég man ekki hvort heldur var; þegar gerð var fsp. um ákveðið efni varðandi álverksmiðjuna í Straumsvík, en þá segir hann einmitt að sá svissneski aðili, sem þá var verið að semja við, hafi áður verið búinn að gera athuganir á uppsetningu eða staðsetningu álverksmiðju við Eyjafjörð, en það hafi reynst vera verulega miklu dýrara vegna þess að þar þyrfti að koma fyrir dýrari eða meiri mengunarvörnum. Þannig hefur sem sagt oft áður verið talað um að koma fyrir stóriðju af þessu tagi á Norðurlandi.

Ég sagði að sú reynsla, sem fengist hefði af álverinu í Straumsvík, ætti sinn þátt í því að móta skoðanir almennings á stóriðjustefnu í dag. Ef við skoðum nokkra þætti þess máls, — þetta er reyndar margslungið mál og ég ætla mér ekki að fara ofan í það við þessa umr., — en ef við skoðum bara tvo veigamikla þætti þessa máls sem gjarnan eru ræddir í sambandi við stóriðjuna, þ. e. a. s. mengunarþáttinn og svo aftur orkusölumálin, þá kemur í ljós að reynslan af þessum tveim veigamiklu þáttum er mjög neikvæð fyrir okkar þjóð.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um mengunarhlið málsins. Hér á Alþ. hefur nýlega verið flutt skýrsla af sjálfum heilbrrh. um ástand þeirra mála, og væntanlega munu þau mál verða rædd frekar í þinginu á næstu dögum. En það neitar því enginn og það viðurkenna það allir, þrátt fyrir að ágreiningur væri um það á sínum tíma, að mjög alvarleg mengunarhætta hefur stafað af þessari stóriðju. Á það bæði við lífríkið umhverfis verksmiðjuna og eins heilsu þess fólks sem vinnur í verksmiðjunni. Þarna hefur verið mjög neikvæð reynsla sem þjóðin hlýtur vitaskuld að draga lærdóma af.

Hinn þáttur málsins er hvað varðar orkusöluna, og á hann vildi ég sérstaklega drepa hér. En það var nú m. a. tilefni þess að ég stóð hér upp, að því er enn einu sinni haldið fram hér í ræðustól og nú af hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, að raforkusalan til ÍSALs hafi verið hagkvæm. Hann gat þess reyndar að hann nennti ekki að rífast lengur um þetta, hann hefði gert það svo oft áður, og ég ætla í sjálfu sér ekki að fara að rífast um þetta við hann. En tölurnar um þetta tala sínu máli og hljóta að vera auðskildar hverjum þeim sem vill hafa það sem sannara reynist. Mig langar aðeins að víkja að þessu máli.

Hv. þm. gat þess t. d. áðan eða gaf það fyllilega í skyn, að álverið í Straumsvík væri nú að mestu búið að borga niður hina stóru og góðu virkjun, Búrfellsvirkjun. En ég vil halda því fram að það hafi ekki verið álverið í Straumsvík sem hafi borgað þessa virkjun niður. Meginbyrðarnar af þessum virkjunarframkvæmdum hafa hvílt á herðum almennings í landinu, og því verður ekki mótmælt. Ef við skoðum einfaldlega orkunotkunina á þessu tímabili annars vegar til álversins og hins vegar til annarra kaupenda raforku og skoðum jafnframt það fé, sem álverið hefur lagt þessari virkjun eða Landsvirkjun, og svo annars vegar það fé, sem almenningur hefur lagt þessu fyrirtæki, þá tala þær staðreyndir sínu máli. Og ég vil t. d. í þessu sambandi benda á að 1969 borgar ÍSAL um það bil 68% af því orkuverði sem aðrir kaupendur raforku greiða. Þetta hlutfall heldur svo áfram að rýrna með hverju árinu allt fram á þennan dag, er árið 1975 orðið 24%. Þetta er mjög athyglisverð þróun. Sem sagt, hlutur ÍSALs í orkubúskapnum hvað varðar Landsvirkjun rýrnar stöðugt á þessum árum. Og það er út af fyrir sig mjög einföld skýring á því máli. Hún liggur í því, að hækkunarreglurnar, sem gilda um raforkuna til álversins í Straumsvík, eru bundnar verði á áli, ákveðnu heimsmarkaðsverði á áli, en ekki verðlagsþróun í landinn, verðbólgunni á Íslandi eða þróun vísitölunnar. Raforkuverðið er fastbundið álverð í heiminum, og á þessu tímabili, sem um ræðir, eru sem sagt erfiðleikar n heimsmarkaði hvað varðar verð á áli sem hafa bein áhrif á raforkuverðið hér heima. Sem sagt, þó að samningurinn við ÍSAL hafi verið slæmur 1969, þá má segja að hann hríðversni öll árin fram til dagsins í dag, sé miðað við það verð sem aðrir kaupendur raforkunnar greiða Landsvirkjun. Það er líka mjög athyglisvert, ef þetta er skoðað, að á árabilinu kringum 1970 og 1971 fer að verða mjög verulegur halli á rekstri Landsvirkjunar. Þetta geta þeir skoðað sem vilja skoða reikninga þeirrar stofnunar. Hvað gerist þá? Þá gerist það að raforkuverð til annarra en ÍSALs stórhækkar og fer að fylgja þróun framfærsluvísitölu í landinu. Og það má segja að verðhækkanir á raforku til annarra frá og með þessum árum fram til þessa dags hafi fylgt hækkun vísitölu í landinu, á sama tíma og það gerist ekki með raforkuverðið til ÍSALs, þannig að ég held að það fari ekkert á milli mála að byrðarnar af okkar raforkuframleiðslu hafi verið lagðar á landsmenn.

Það má skoða þessar tölur frá mörgum hliðum. Svo að ég upplýsi þm. enn frekar, þá kaupir ÍSAL, þetta mikla stóriðjufyrirtæki í Straumsvík, á árinu 1975 raforku af Landsvirkjun fyrir 490 millj. Þetta er greiðsla á 1027 gwst. Aðrir kaupendur raforku greiða á því ári Landsvirkjun 1 milljarð 547 millj. fyrir 787 gwst. Ég greip þarna niður í árið 1975, og sambærilegar tölur getur maður haft um öll þessi ár, þær tala náttúrlega sínu máli. Það er rétt að það komi fram líka í þessum umr., að þrátt fyrir nýjan raforkusamning sem gerður hefur verið við ÍSAL á árinu 1976, þá lagast þetta ástand mjög lítið miðað við árin á undan. Enn vantar mikið á að verðið til ÍSALs eftir þessa nýju samninga sé í hlutfalli við þær greiðslur, sem aðrir inna af hendi til Landsvirkjunar, jafngott og það var 1969. Það er svipað og það var á árunum 1973–1974 gæti ég trúað. Og það er líka nokkuð ljóst að það mun fljótlega sækja í sama farið, því að enn eru þessir samningar fastbundnir verði á áli, en ekki verðþróun í landinu.

Ég held þannig að það fari ekkert á milli mála að af raforkusamningum við stóriðjufyrirtæki eins og ÍSAL, sem við hljótum að skoða sérstaklega því að það er sú reynsla sem við höfum, sé mjög slæm reynsla fyrir okkar orkubúskap. Það vantar mikið á að þessi stóriðja hafi greitt það orkuverð sem þjóðin hefur þurft að fá vegna þeirrar miklu fjárfestingar sem hún hefur lagt í sínar virkjanir.

Ég vil bæta því við, að 1975 kemur það fram í upplýsingum frá Sambandi ísl. rafveitna um orkusölu til notenda, að heildsöluverðmæti raforkunnar það ár hafi verið 6 milljarðar 859 millj. kr. Á því sama ári sem ég hef notað sem viðmiðun, 1975 greiðir ÍSAL þessar umræddu 490 millj. eða rétt rúm 7% af heildarsöluverðmætinu. Ég get ekki séð betur en ef maður skoðar þessar tölur, að þá megi setja dæmið upp þannig, að með því að hækka raforkuverð í landinu um 7–8%, sem þýðir í kringum 1 kr. á kwst., — þó er verðið eitthvað breytilegt, en hér í Reykjavík mun þetta þýða sennilega um eða innan við 1 kr. á kwst. — með því að hækka raforkuna um þessa prósentu á alla aðra notendur raforku, þá mætti skrúfa fyrir raforkuna til álversins og fá samt sömu tekjur til orkuveranna. (Gripið fram í.) Já, ég ætla nú einmitt að bæta því við, og þá verður náttúrlega að taka með að þá fáum við 140 mw. til ráðstöfunar og á annað þúsund gwst. Þetta er staðreynd málsins um orkusölusamninginn við ÍSAL. Við getum sem sagt skrúfað fyrir álverið, hækkað raforkuna á kwst. um 1 kr. til landsmanna og fengið sömu tekjur til orkuveranna, — orkuveranna sem einhver nefndi hér áðan að stóriðjan væri að greiða niður fyrir landsmenn. Og enn aðrar hliðar eru vitaskuld á þessu máli. Ég er nú ekki mikill stærðfræðingur, en það hefur einhver sagt mér það og það væri út af fyrir sig gaman að fá það reiknað út, ágætur stærðfræðingur hefur sagt mér það, að ef teknar væru með allar þær miklu fjárhagsskuldbindingar, sem þjóðin hefur tekið á sig vegna þessarar stóriðju í virkjunum sínum og raforkuframkvæmdum, en allt það mikla fé, sem þar hefur verið lagt fram, hefur vitaskuld verkað á raforkuverðið allan tímann, þá mætti lækka raforku til landsmanna um 30% um það bil. Sem sagt, vegna þessarar stóriðju í Straumsvík er þjóðin að borga miklu hærra raforkuverð en hún þyrfti ella.

Ég ætla ekki að hafa orð mín um þessa þáltill. hér lengri að þessu sinni. Það mun vafalaust gefast tækifæri til þess á næstu dögum í þinginu að ræða enn frekar þessi stóriðjumál, m.a: þegar frv. um járnblendiverksmiðju á Grundartanga kemur aftur fyrir þingið, ef það kemur þá aftur, sem maður er nú reyndar farinn að stórefast um og vonandi yrði niðurstaðan. Ég ætla sem sagt ekki að lengja þessar umr. meira að sinni.