27.10.1976
Efri deild: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

37. mál, tollskrá

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það er vert að þakka fyrir þær góðu undirtektir sem þetta frv. eða þessi frv. okkar hafa fengið, og við vitum auðvitað um þann hug sem er áreiðanlega á Alþ. og áður hefur verið tekið fram af fyrri flm. alstæður til þessa frumvarpsflutnings voru auðvitað mjög sterkar óskir frá aðilum sem höfðu árangurslaust reynt að fá nokkra leiðréttingu sinna mála. Það ber því að fagna því ef Tryggingastofnunin hefur nú tekið þessi mál upp að nýju og ætlar að afgreiða þau, að því er mér skilst, á jákvæðari hátt og finna sem sagt fleiri leiðir og frekari til hjálpar fötluðum en verið hefur. Þar hefur að vísu mikið verið gert. En þetta atriði t.d. hefur legið þarna eftir. Það hafði áður verið reynt mjög rækilega af einstökum aðilum, að vísu held ég með hjálp heildarsamtakanna, að ná þessu fram í gegnum Tryggingastofnun ríkisins og það hafði ekki tekist. Það hafði einnig verið reynt að koma því í gegnum fjvn. með því að fá heimildagr. í fjárl., en um afdrif þess veit ég ekki, nema sú grein hefur ekki heldur séð dagsins ljós. Og þá sáum við flm. þessa leið eina til úrlausnar þessum málum.

Út af þeirri brtt. sem hér er komin fram frá hv. 12. þm. Reykv., þá er auðvitað góðra gjalda vert fyrir n. að skoða hana. En sé þessi lausn á næsta leiti, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. var hér að minnast á áðan, og að Tryggingastofnunin tæki þetta þá alfarið að sér, þá auðvitað reikna ég með því að við flm. mundum frekar fallast á þá leið. Hún er þá auðvitað um leið sjálfsagðari og eðlilegri ef á því er kostur. Ég vildi aðeins taka það fram, að þessar leiðir höfðu verið reyndar til þrautar af einstökum aðilum sem áttu í miklum erfiðleikum varðandi þetta. Til okkar hafði verið leitað alveg sérstaklega um þetta, og okkur hafði ekki tekist í gegnum þessar ágætu stofnanir að fá þarna nokkra leiðréttingu á, og því voru þessi frv. flutt.