08.03.1977
Sameinað þing: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2500 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

170. mál, stóriðja á Norðurlandi og Austurlandi

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. þm. Páll Pétursson tók það enn á ný fram, að SÍS hefði ekki af miklu að má eignalega. Ég vona að ræða mín hafi ekki gefið honum tilefni til þess að endurtaka þetta, því ég tók það einmitt fram að eignir SÍS væru ekkert til að fíkjast í. Ég lét þess hins vegar getið að þetta væri kannske ekki fært allt saman til nútímaverðlags. Það er þá líka kannske af hógværðarsökum, eins og SÍS sýnir í öðru, í framkvæmdum sínum og rekstri, og á það þá allt vel saman. En ég legg áherslu á það, að tillöguflutningur þessi er ekki til þess gerður að marka stefnu um frekari stóriðjuframkvæmdir. Ef menn lesa annað út úr tillgr. sjálfri, þá geta þeir séð það í grg. fram tekið að svo er alls ekki.

Hv. þm. geta sjálfsagt orðið sammála um fæst í sambandi við stóriðju, enda margþætt mál. En um eitt hygg ég þó að landsbyggðarmenn ættu að geta orðið sammála, og það er að um frekari stóriðjuframkvæmdir að sinni verði ekki að ræða á suðvesturhorninu, í aðalþéttbýli landsins, sem nægjanlega sogar til sín fjármagn og mannafla, eins og raun ber vitni um. Um þetta ættu landsbyggðarþm. hv. a. m. k. að geta verið sammála. Og þess vegna er það, að okkur flm. þykir ástæða til að kannaðir verði þessir möguleikar sem um getur í till., vegna þess að ef til þess dregur nú að atorkusamur og framfarasinnaður ráðherra úr röðum Alþb. sest á nýjan leik í orkuráðherrastól og knýr svo fast fram eins og raun ber vitni um hæstv. fyrrv. orkuráðh. um nýja stóriðju, þá og ef svo kann að ske er alveg nauðsynlegt að okkar dómi að fyrir liggi rannsókn á því, hvort hægt er af félagslegum og öllum öðrum ástæðum að byggja upp stóriðju úti á landsbyggðinni, því ella er augljóst mál að henni yrði valinn staður hér í þéttbýlinu. Þetta er ein meginástæðan til þess að okkur þykir ekki ráð nema í tíma sé tekið að þessi rannsókn fari fram, því maður veit aldrei hvenær stjórnarskipti verða í landinn. Það hefur sýnt sig að þau getur borið að með óvæntum hætti. Ég er ekki spámannlega vaxinn og get ekki sagt fyrir um þetta, en miðað við fyrri reynslu frá árinu 1973, síðast á því ári, og þó aðallega fyrri hluta árs 1974, getur maður alveg eins átt von á því, að ef svo ber til að Alþb. kemst að stjórnarvelinum, að ég tali nú ekki um að eignast orkuráðh., þá verði djarflega tekið til höndum um uppbyggingu nýs stóriðnaðar. Við höfum ekkert annað fyrir okkur í þessu en sögulegar staðreyndir og reynsluna sem við verðum að byggja á. Ég á enn, þó ég hafi það ekki undir höndum nú, það plagg sem okkur var afhent í þingflokki Sjálfstfl. frá hæstv. þáv. orkuráðh. um samningsgerð og tillögugerð um byggingu stóriðjunnar eða járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Og satt best að segja var það skyssa að þingflokkur Sjálfstfl. skyldi ekki láta líklega við hæstv. þáv. orkuráðh. í þessu máli, því þá hefði þetta verið lagt fram á þingi í frumvarpsformi, á því leikur enginn vafi. Ef við hefðum tekið lipurlegar undir þetta, án þess þó að lofa neinu sérstöku, því það gátum við ekki gert við þá stjórnarherra, þá er enginn vafi á því að þetta hefði verið lagt fram hér á hinu háa Alþ. vorið 1974. Út af fyrir sig skiptir það engu höfuðmáli, því allt liggur það bókað fyrir um þá miklu forustu sem þáv. hæstv. orkuráðh. eða þáv. iðnrh. hafði í þessu máli.

Ég hygg að þessar umr. ættu alveg að taka af tvímæli um það, hvers eðlis þáltill. þessi er. Ég hef hins vegar ekkert á móti því að sú n., sem fær hana til meðferðar, taki til athugunar með hliðsjón af þessum umr. að breyta efni hennar á þann veg að ekki verði misskilið hvað við er átt. Hún er örstutt og í greininni sjálfri verður ekki fyrir komið öllu sem þyrfti að segja í þessu sambandi. Hér er aðeins lagt til að könnuð verði þessi mál, en ítrekað tekið fram af okkur flm., að því fer alls fjarri að verið sé að leggja til að hefjast handa um enn frekari stóriðju.