09.03.1977
Efri deild: 49. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2502 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

104. mál, sauðfjárbaðanir

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þskj. 353 er frv. til l. um sauðfjárbaðanir. Frv. þetta var flutt á síðasta þingi og endurflutt á þessu þingi og flutt í hv. Nd.

Frv. er að meginefni samið af milliþn. Búnaðarþings vegna margra og ítrekaðra áskorana um breytingar á löggjöfinni um baðanir í þá átt að létta böðunarskylduna. Frv. gerir ráð fyrir því að þetta verði gert á þann hátt, að ráðh. verði heimilt að veita undanþágu í tilteknum hólfum þar sem óþrif hafa ekki sést á fé um árabil.

Til þess að auka öryggi um að böðunarundanþágan verði ekki til þess að stuðla að óþrifum á sauðfé er sett í frv. ákvæði um vottorðsgjafir frá tilteknum opinberum og hálfopinberum starfsmönnum er mæli með undanþáguheimild.

Það ákvæði í frv., að ekki skuli að öllum jafnaði baða fyrr en fé er komið á hús, á að sporna við að óbaðað og baðað fé renni saman og um leið að minnka líkur á dreifingu óþrifa í sauðfé frá einum bæ til annars. Ákvæði í núgildandi lögum um sérsmölun vegna baðana er því fellt niður.

Meginbreytingin, sem í frv. felst, — undanþáguheimildin — verður að teljast réttmæt því hún á að geta sparað fjáreigendum fé og fyrirhöfn, og þess má vænta að hún verði fjáreigendum brýn hvatning á landssvæðum, sem ekki fá undanþágu frá böðunarskyldu, til þess að herða sóknina og útrýma óþrifum í fé sínu með öllu. Væri vel farið ef svo tækist til.

Þær breytingar, sem hv. Nd. gerði á frv., hef ég ekkert við að athuga og legg því til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.