09.03.1977
Efri deild: 49. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2503 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

104. mál, sauðfjárbaðanir

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af því, sem hv. 6. þm. Suðurl. sagði, vil ég taka það fram, að ég geri ráð fyrir að það verði gefin út reglugerð í sambandi við þessi lög, og ég mun halda mig við þann skilning sem var í upphaflegu greininni, að hér eigi ekki að vera um tilslökun að ræða. Ég lagði einmitt svo fyrir þegar frv. var samið í rn., að það, sem riði mest á, væri að ekki væri verið að baða á einum stað núna og öðrum síðar. Ég lít svo á og vil lýsa því hér með yfir, að ég tel að þrátt fyrir þetta orðalag eigi það að gilda að fé eigi að vera komið í hús og á sama svæði sé baðað samtímis, en ekki veittar undanþágur þar um, því það skiptir mestu máli um framkvæmdina.