09.03.1977
Efri deild: 49. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2503 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

49. mál, opinberar fjársafnanir

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta frv., sem flutt var hér í Ed., er nú komið aftur frá Nd. eftir eina breyt. sem þar var á því gerð. Sú breyt. var gerð í samráði við mig sem flm. frv., og ég vænti þess að hv. allshn. þessarar deildar hafi ekkert við það að athuga. En breyt. er á þá leið, að inn í 7. gr. komi svo hljóðandi ákvæði:

„Nú stendur söfnun yfir um lengri tíma en eitt ár, og skal þá með sama hætti birta opinberlega ársreikning innan 6 mánaða frá lokum hvers almanaksárs. Heimilt er lögreglustjóra að framlengja fresti þessa. Yfirlýsingu samkvæmt 2. málslið 6. gr. skal og birta með sama hætti.“

Þetta er auðvitað eðlilegt ákvæði ef söfnun tekur langan tíma, vegna þess að auðvitað getur þetta verið söfnun sem á sér lengri aðdraganda og stendur lengur yfir en safnanir almennt gerast, og þá er rétt að það sé gefið um það yfirlit innan 6 mánaða frá lokum hvers almanaksárs hvernig söfnunin stendur og hvernig mál standa þar. Ég tel þetta eðlilegt ákvæði og samþykkti það fyrir mitt leyti.