09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég er flm. að þessu frv. ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, og efni þess er einfaldlega á þá lund, að tekinn verði upp aftur stuðningur ríkisins við byggingu elliheimila, en hann var felldur niður í sambandi við bandormsfrv. ríkisstj. sem kennt var við sparnað í ríkisrekstri, en breytti skipan ýmissa útgjalda á milli ríkis og sveitarfélaga.

Mér eru mikil vonbrigði að meiri hl. n. skuli leggja til að þetta frv. verði fellt. Þeir nota að vísu þá röksemd að verið sé að endurskoða bandorminn og þar með útgjaldaskiptingu milli sveitarfélaga og ríkisins. Venjulega er sýnd sú kurteisi við slíkar aðstæður að vísa þá frv. til ríkisstj., þannig að sú n., sem er að endurskoða lögin, taki tillit til þess sem fram er komið á Alþ. Það er því óvenjulegt og hlýtur að sýna annaðhvort fullkomið skilningsleysi eða fjandskap, að þessir þrír nm., sem teljast til meiri hl., skuli leggja til að frv. verði fellt.

Hér er ekki um venjulega skiptingu útgjalda milli ríkis og sveitarfélaga að ræða. Varðandi byggingu elliheimila eru nokkuð sérstakar aðstæður í landinu. Hér hefur lengi verið rekið með miklum myndarskap landshappdrætti sem hefur byggt afburðagóðar stofnanir á þessu sviði hér á þéttbýlissvæðinu við höfuðborgina. Um þetta er ekkert nema gott að segja og engin ástæða til að gera á því nokkra breytingu, heldur hvetja til þess að haldið verði áfram á þeirri braut sem þar er farin. En ekki er hægt að ganga fram hjá því, að þrátt fyrir þennan myndarskap við byggingu elliheimila hér á höfuðborgarsvæðinu þurfa slíkar stofnanir að rísa annars staðar á landinu, og það hefur reynst sveitarfélögum ákaflega þungur baggi að gera það. Út úr þessu kemur augljóslega misrétti, vegna þess að samtök einstaklinga og félaga, sem hafa staðið fyrir landshappdrætti og reist myndarlegar stofnanir hér, létta að sjálfsögðu þó nokkru af þessu verkefni af Reykjavíkurborg og nágrannabyggðum. Ég mun ekki sjá eftir því. En ég vil veita hliðstæða aðstoð öðrum sveitarfélögum sem undantekningalaust eru minni sveitarfélög. Þess vegna tel ég að það eigi að taka upp á nýjan leik ríkisstyrkinn til elliheimilabygginga, og ég harma það ef niðurstaðan af stuttri meðferð þessa máls verður sú, að meiri hl. Nd. reynist vera beinlínis fjandsamlegur málinu með því að fella það. Það þýðir að meiri hl. vill ekkert hafa með þetta mál að gera.

Það er lágmark að þessi sjónarmið fái að fara til þeirrar n. sem sagt er að sé að endurskoða bandorminn um sparnað í ríkisrekstri. Að vísu er slíkt frv. samansett af hinum ólíkustu málum sem höfðu ekkert sameiginlegt annað en að í þeim fólst tilfærsla á útgjöldum. Ég er í sjálfu sér ekki að mótmæla, þó að mörgum þyki bandormar hvimleið starfsaðferð, að stundum þarf að flytja þá. En það er í eðli bandormsins að málefnalega eru greinar eða efnisþættir gjörsamlega óskyldir hver öðrum. Þess vegna er ekkert við það að athuga þó að Alþ. geri breytingar á einni grein, og þess vegna er engin ástæða til að ríghalda í bandormsformið og halda því fram að það megi ekki endurskoða neinn af þeim efnisþáttum, sem þar eru, án þess að taka frv. sem heild.

Ég vil því mælast eindregið til þess í fyrsta lagi, að d. stigi það augljósa skref að samþ. frv. og taka upp aftur það sem Alþ. áður hafði samþ. og gert að lögum, sem sagt ríkisstyrk til elliheimilanna. Ef menn geta ekki fallist á það, e. t. v. af því að það eru stjórnarandstæðingar sem flytja frv., þá finnst mér lágmarkskurteisi og velvild við málið að afstöðu meiri hl. verði breytt frá því að heimta, að frv. verði fellt, í það að heimila að n. þeirri, sem er að endurskoða það, að líta á þetta mál án þess að því fylgi neikvæð umsögn frá hálfu Alþingis.