27.10.1976
Efri deild: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

38. mál, fjarskipti

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Svo er háttað um þetta frv. eins og hið fyrra, sem við fjölluðum um nú fyrir stundu, að það var lagt fram á síðasta þingi, en náði þá eigi fram að ganga. Hér er svo ráð fyrir gert að heimilt verði ráðh. að fenginni umsögn tryggingaráðs og Tryggingastofnunar ríkisins að veita fötluðu fólki, lömuðu eða bækluðu til gangs undan þágu frá greiðslu starfrækslugjalds vegna talstöðva í bifreiðum þess. Hér er kveðið á um það í grg. með líkum hætti og í hinu fyrra frv., að til þess sé ætlast að undanþága þessi nái einungis til fólks sem svo er illa bæklað til gangs að það kemst tæpast eða ekki hjálparlaust milli húss og bifreiðar í sæmilegu veðri, en slíkt fólk gæti átt líf sitt undir því, ef bíll bilar úti á vegum eða festist í ófærð, að geta þá kallað á hjálp.

Samkv. upplýsingum Landssímans var starfrækslugjald talstöðva frá 1. apríl 1976 10200 kr. auk söluskatts. Hér er þess að geta, að þarna er um að ræða starfrækslugjald af falstöðvum sem Landssíminn viðurkennir, sams konar stöðvum og þeim sem fyrr var um getið, er fjallað var um hið fyrra frv. þessa máls, að kostuðu nú í kringum 460 þús. kr. og Landssíminn veitir þjónustu við í gegnum stöðvar sínar. Hér hlýt ég aftur að minnast á almenningstalstöðvarnar, sem nú eru í notkun í 7–8 þús. bílum hér á landi, og geta þess að Landssíminn tekur einungis 1400 kr. starfrækslugjald af þeim stöðvum, sem er eins konar eftirlitsgjald og skrásetningargjald, en tekur ekki, svo sem að líkum lætur, gjöld fyrir þá þjónustu sem Landssíminn neitar að veita fólki sem þessar stöðvar á, þannig að ef um það yrði að ræða, sem sennilegt er, að Tryggingastofnun ríkisins kynni að velja þessar tiltölulega mjög ódýru, en virku og sterku stöðvar, eins og Lafayette-stöðvarnar, eða svokallaðar Effekt-stöðvar, sem senda út á 27 megariðum, þá yrði að sjá fyrir þjónustu við þessar stöðvar, að knýja það fram að Landssíminn tæki upp þjónustu við þær. Mætti þá ætla að starfrækslugjaldið hækkaði upp í nokkurn veginn það sama og um getur í grg. með þessu frv. hérna eða í kringum 10200 kr. miðað við verðið í apríl í vor sem leið.

Ég ætla aðeins, þó að ég muni nú stytta mál mitt um þetta frv., að víkja að þeim ákvæðum í frv., sem lúta að því að tryggingaráð og Tryggingastofnun ríkisins skuli veita umsögn um það hvaða fötluðu fólki sé nauðsyn að fá eftirgjöf af þessu tagi, sem verður þá hið sama fólk og aðstoðað er við að eignast talstöðvarnar eða komast yfir þær. Það er efalaust að kveða yrði á um það í reglugerð hvaða fólk telst þurfa þessar stöðvar. Og ég efast ekki um að læknar, sem um slíkt fjölluðu, mundu komast að þeirri niðurstöðu að einnig fólk, sem ekki bæri ytri merki fötlunar eða bæklunar, svo sem brjóstholssjúklingar, hlytu að njóta sams konar fyrirgreiðslu. En ég er alveg ugglaus um það, að ákvæði sem þessi yrðu misnotuð. Þar kemur tvennt til, að þeir læknar, sem um slík mál fjalla, gera sér fullljósa grein, að ég ætla, fyrir hættunni sem í því fælist að víkja frá settum reglum í þessum efnum, og ég hygg að samtök öryrkja séu nú betur á verði en þau áður voru um að undanþágur af þessu tagi séu ekki misnotaðar.

Ég legg svo til að þessu frv. verði að umr. loknum vísað til samgn.