09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2508 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Áður en ég lýsi skoðun minni á þessu frv. og nál. vil ég aðeins leiðrétta nokkurn misskilning sem kemur fram í grg. með frv. og reyndar mátti heyra líka örla á hjá hv. síðasta ræðumanni.

Í grg. segir að á höfuðborgarsvæðinu séu reist stór og myndarleg dvalarheimili fyrir happdrættisfé. Þetta er rétt hvað viðkemur hinu fyrra. En í hinni síðari fullyrðingu stenst þetta ekki, vegna þess að að sjálfsögðu eru margar fleiri tekjulindir, sem þau samtök, sem hér er óbeint vitnað til, Sjómannadagssamtökin, hafa til þess að standa undir og fjármagna framkvæmdir sínar, þótt sá hluti, sem þau hafa af happdrættisfé Happdrættis DAS, sé vissulega þýðingarmikill.

Og áfram segir í grg. að önnur sveitarfélög hafi ekki slíka tekjulind. Nú hefði náttúrlega verið ódýrt fyrir mig að segja: Þau sveitarfélög geta auðvitað bæði safnað fé og komið sér upp happdrætti þótt ekki verði á landsvísu. En ég vil benda á að það eru nú 14 ár síðan tekjum af Happdrætti DAS var skipt. Það hafði ekki starfað nema í rúmlega 8 ár þegar tekjum þess var skipt og 40% af tekjunum tekin og sett í svokallaðan Byggingarsjóð aldraðra. Hafa nokkrar breyt. verið gerðar á lögunum um þann sjóð síðan. Hann hefur þó lítið gert annað en að safna þessu fé sem þar er til. Það hefur lítið frá honum farið, eins og ég segi. En þær breytingar, sem gerðar hafa verið á lögunum, hafa m. a. opnað þann möguleika og ætlast var til þess með þeim breyt. og getið um það í framsöguræðum fyrir þeim breyt. á hv. Alþ., að sveitarfélög úti um land ættu einmitt kost á því að leita í þessi 40% af tekjunum til sinnar ráðstöfunar. Mér er ekki kunnugt um hvað mikið hefur verið gert að þessu.

Um tekjur happdrættisins er rétt að geta þess vegna orða síðasta hv. ræðumanns um að mikið af happdrættiságóðanum komi utan af landi, að það er mikill misskilningur í þessu fólginn, vegna þess að það er á milli 70 og 80% af tekjunum sem kemur úr Reykjavíkurkjördæmi og Reykjaneskjördæmi. En hins vegar eru 40% af tekjunum sett í þennan sjóð. Umrædd samtök, sem hafa hér komið til umr. og hefur verið vitnað til óbeint, hafa aldrei fengið neina krónu úr þessum sjóði. Þeim hefur verið tjáð að þau muni ekki fá það frekar en annars staðar, hvorki frá ríki né bæ. Má þess vegna segja sem svo, að það sé sama fyrir þau hvar þessi baggi liggur.

Það er nú samt sem áður svo, að ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið fljótræði að breyta þessum lögum. Ég er stuðningsmaður þessa frv., en ég hlusta hins vegar á þau rök sem hafa komið fram frá meiri hl. n. um, að þessi athugun standi yfir sem við vitum að stendur yfir um skiptingu á verkefnum á milli sveitarfélaganna og ríkisins. Ég tel að það væri eðlilegt að fullnaðarafgreiðslu þessa frv. yrði frestað fram undir það að sæist hvað þar væri að ske og hver stefnumótunin yrði. Og ég vil fara þess á leit nú þegar við forseta að hann ljúki ekki umr. þegar menn hafa lokið ræðum sinum, heldur fresti umr. svo að mönnum gefist tóm til þess að flytja till. um að málinu verði vísað til ríkisstj. Ef ekki verður hægt að verða við því mun ég greiða atkv. með frv.

Hv. síðasti ræðumaður kom nokkuð inn á atriði sem ég tel ákaflega þýðingarmikið að bæði Alþ. og sveitarstjórnir snúi sér frekar að heldur en gert hefur verið. Það sjá auðvitað allir að það verður ekki hægt að byggja dvalarheimili fyrir aldraða í öllum sveitarfélögum landsins. Það verður að koma þar til samstaða hinna minni sveitarfélaga um byggingar á hentugum stöðum, og þeir hentugu staðir eru skilyrðislaust í mínum huga þar sem læknisþjónusta er fyrir hendi. Ég held að í þessu sé nokkuð almennur skilningur. Hins vegar minntist hún réttilega á að það er annað sem getur komið til og orðið til mikillar hjálpar í sambandi við vandamál aldraðra og kannske þó sérstaklega í hinum minni sveitarfélögum víðs vegar í kringum landið, t. d. sjávarútvegsplássunum. Það eru svokölluð dagvistunarheimili aldraðra. Í sjálfu sér tel ég að ekki sé minni þörf fyrir slík dagvistunarheimili heldur en fyrir dagvistunarheimili barna, því oft og tíðum er um svipað vandamál að ræða á heimilum fólks, en þó kannske öllu verra þegar aldraðir eiga í hlut sem eru orðnir þannig á sig komnir að það er ekki hægt fyrir börn þeirra, sem hafa þá á sínu heimili og vilja hafa þá þar, að biðja nágrannann um að passa aldraða, þótt það sé hægt hins vegar með börnin oft og tíðum. Þess vegna held ég að víða, þar sem ég þekki til um landið, geti þetta orðið lausn og þar með sparað dýrar byggingar — dýrar í byggingu og reyndar enn dýrari í rekstri. Þótt ég sjálfur segi frá held ég að það sé merkileg tilraun sem verið er að gera núna í sambandi við byggingu hins nýja dvalarheimilis aldraðra í Hafnarfirði á vegum Sjómannadagssamtakanna, en þar er einmitt ætlað að vera með slíka vistdeild. En þetta hugtak er ekki til í íslenskum lögum og því síður í hugum sveitarstjórnarmanna, og ég hefði talið nauðsynlegt að sett yrði ákvæði í lög um dagvistunarheimili aldraðra. Hvort það eigi að koma inn í sjálf lögin um dvalarheimili aldraðra skal ég ekki segja um. Það gæti orðið sjálfstæð löggjöf, miðað við það sem er um dagheimili barna, og væri ekki óeðlilegt að svo væri. Mig minnir að það hafi verið afstaða sem einróma var samþ. á síðasta Alþýðusambandsþingi að taka ætti, og það var í áskorunarformi á Alþ., að mig minnir líka. En það voru einmitt fulltrúar kvenfélaganna á því fjölmenna stéttarþingi sem voru einmitt mjög á því að þessa leið ætti að fara.

Það mætti auðvitað hafa langt mál um það sem kom fram í fæðu hv. síðasta ræðumanns, frú Sigurlaugar Bjarnadóttur. um það rými sem væri hér syðra og það væri ómannúðlegt að flytja fólk hingað suður. Ég bið til guðs að það verði aldrei fluttur neinn með valdi hingað til þeirra heimila sem eru full út úr dyrum og með langa biðlista, og þeir biðlistar eru ekki eingöngu af því svæði sem þessi heimili standa á, heldur alls staðar af landinu, vegna þess að þessi heimili sem eru hér á svokölluðu höfuðborgarsvæði, eins og segir í grg., hafa aldrei verið byggð fyrir þau sveitarfélög sem þau standa í, heldur fyrir allt landið, fyrir öll sveitarfélög, enda er held ég bæði á Elliheimilinu Grund og Hrafnistu í Reykjavík vistfólk alls staðar að af landinu. Ég skal fúslega taka undir það, að æskilegast er ef þetta fólk getur verið í sínum heimabyggðum sem lengst og helst til hinstu stundar. En það er bara svo margt annað sem þar kemur inn í og veldur því að þetta er ekki hægt. Það, sem ég hef orðið var við að sé aðalástæðan fyrir vilja fólks til að flytja hingað, hefur verið lengst af óttinn við heilsuleysi og óttinn við að næg læknishjálp fengist ekki á viðkomandi stöðum. Við vitum að t. d. sérfræðiþjónusta, sem nú er veitt á hinn besta hátt á þessum heimilum hér syðra, hefur ekki verið til mjög víða um landið fyrir aldrað fólk. Líka verður að koma inn í þetta dæmi hinn mikli tilflutningur fólks víðs vegar að af landinu á þetta landsvæði hér suðvestanlands. Aldraða fólkið hefur viljað fylgja börnum sínum eftir eða öðrum skyldmennum og vera í grennd við þetta skyldfólk sitt. Fleira kemur einnig til. Ég held að um leið og þeirri hugsun eða skoðun er veitt full athygli og stefnt að því að gamla fólkið geti verið sem lengst í sínum heimabyggðum, þá eigum við líka að hafa í huga að varast að það sé stofnað til nýrrar sveitfesti sem áður þekktist hér á landi. Auðvitað á þetta fólk, þótt aldrað sé orðið, fullan rétt og frelsi til að velja sér búsetu ekki síður en hinir yngri, og það á ekki að setja það í neins konar hefðar- eða búsetuhöft. Ég vildi nú aðeins láta þetta koma fram.

Ég hef látið í ljós skoðun mína á frv. Ég held að það hafi verið fljótræði á sínum tíma að breyta þessum lögum í þá átt sem gert var. Og þótt ég hafi e. t. v. misjafnar skoðanir á þeim sem sitja hverju sinni í fjvn. Alþingis, þá tel ég að fenginni reynslu af skiptum við sum sveitarfélög að öllu betra sé þó að eiga við fjvn. heldur en stjórnendur sumra sveitarfélaganna.