09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2515 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykn. ræddi hér um hvernig heilbr.- og trn. þessarar d. skiptist í ýmsa hluta. Það er rétt, að það er nokkuð athyglisverð reikningsleg skipting sem við höfum fyrir framan okkur á skjölum, en ég vil gjarnan sem 1/7 hluti þessarar n. lýsa afstöðu minni í þessu máli.

Ég er ekki sammála þeim hluta n., sem á þskj. er nefndur meiri hl. n., og ég er ekki heldur sammála þeim hluta n., sem kallar sig minni hl. n. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að þetta mál sé þannig vaxið að það sé æskilegast á allan hátt að vísa því til ríkisstj. Ég tel að það sé ekki heppilegt, eins og mál standa nú, að Alþ. taki ákveðna afstöðu með eða móti þessu eina einangraða verkefni þegar verkefnaskipting ríkis og sveitarfélaga er til endurskoðunar í heild. Afstaða manna til þess, hvort samþ. beri þetta frv. eða ekki, hlýtur að fara eftir því hvaða önnur verkefni koma til skoðunar að færist á milli, færist til sveitarfélaga eða frá sveitarfélagi til ríkis eftir þessa endurskoðun. Þess vegna sýnist mér það ekki heppilegt og óþarfur bindingur fyrir fram um afstöðu manna annaðhvort að fella þetta frv. nú eða greiða ákveðið atkv. með því.

Ég tek undir þau orð, sem hv. 9. landsk. þm. hafði hér áðan, að það ber að leggja mikla áherslu á að hraða starfi endurskoðunarnefndar. Nú veit ég að verkefnaskipting ríkis og sveitarfélaga er eitt af eilífðarumræðuefnunum í íslenskri pólitík. Ég man ekki svo langt aftur að ég hafi ekki heyrt um það talað sem eitthvert það verkefni sem mest væri aðkallandi þá stundina, þ. e. a. s. nýja verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Menn hafa stundum í lok umr. annaðhvort um skólamál, um heilbrigðismál, um velferðarmál aldraðra og fleira allir orðið sammála um, að nú þurfi að athuga málið á breiðum grundvelli og taka til skoðunar verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. En af hverju skyldi þetta verkefni hafa tekið áratugi og hin ýmsu verkefni ævinlega sveiflast tilt og frá á milli aðila? Ýmist hefur ríkið átt að leggja til 2/5, 1/3 eða ekki neitt í byggingu elliheimila, og svipaða sögu er að segja um ýmsa þætti skólamála. Hitt er annað mál, að það er jafnsatt í dag og það hefur oft verið áður, að þetta mál er vissulega mjög aðkallandi, — heildarendurskoðun á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

En það er ekki einungis verkefnaskiptingin sem kemur til skoðunar. Meginmálið er e. t. v. tekjustofnaskiptingin. Þess vegna er þetta mál sem við þurfum vissulega að hafa í huga þegar skattamálapólitík ríkisins er tekin til endurskoðunar. Það getur vel verið að það ætti að flytja viss verkefni að öllu leyti yfir til sveitarfélaga, en önnur verkefni óskyld ættu að vera að öllu leyti á kostnað ríkisins. Það hefur oft leitt til mikilla erfiðleika að hafa mörkin mjög fljótandi á þessum sviðum, þannig að eilífar kröfugerðir séu af hálfu annars aðilans á hendur hinum í sambandi við greiðslu kostnaðar. Hitt er svo annað mál, að þar sem ríki og sveitarfélög standa sameiginlega að kostnaði, annaðhvort heilbrigðismála eða skólamála, hvort heldur er að stofnkostnaði eða rekstrarkostnaði, þá er það alveg ljóst að gæta þarf þess að hafa þau hlutföll þannig að þeir, sem annast framkvæmdina, hafi beinan fjárhagslegan ávinning af því að gæta ráðdeildar í rekstrinum eða þá að gæta hagsýni í fjárfestingu eða byggingu. Hætt er við, eins og nú er t. d. í sambandi við skiptingu stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar sjúkrahúsa, að þar verði niðurstaðan sú, að ábyrgðin verði um of á höndum annars aðilans, þess sem ekki annast framkvæmdina. Þessi atriði hljóta vitanlega að koma öll til skoðunar í n. sem hefur þetta viðtæka verkefni til athugunar.

Að því er varðar þetta verkefni sérstaklega, frv. um breyt. á l. um dvalarheimili aldraðra, þá vil ég gjarnan undirstrika það, að ég held þrátt fyrir allt að núgildandi fyrirkomulag um aðild að stofnkostnaði hafi leitt til nokkurs góðs. Þá á ég við að menn hafa jafnvel frekar hyllst til þess að reisa íbúðir fyrir aldrað fólk heldur en það sem lengi hefur verið kallað elliheimili í hefðbundnum stíl. En íbúðirnar eru fjármagnaðar á annan hátt en sjálf dvalarheimilin eða elliheimilin. Þess vegna hefur þetta á vissan hátt stuðlað að aukningu í byggingu íbúðanna og það tel ég að sé af hinu góða. Ég held að einmitt sá þáttur í byggingarmálum aldraðra hafi verið verst haldinn. Þetta hefur nú mjög lagast hér í Reykjavíkurborg a. m. k., og þyrfti þó sannarlega að gera meira á því sviði og stuðla að því að einstaklingum yrði gert auðveldara en nú er að tryggja sér fyrir fram hentugan bústað í ellinni, einhvers staðar þar sem hann gæti verið í tengslum við þjónustustofnun, þannig að fólk gæti með öryggi horft fram á ellidaga sina. Eins og nú er, þá er það svo, jafnvel þótt menn séu bærilega bjargálna, að þeir hafa engin ráð til þess að tryggja aðbúnað sinn á ellidögum. Þegar þar að kemur, þá lenda þeir einfaldlega á sínum stað á biðlistanum í viðkomandi elliheimili opinberra aðila, en hafa ekki lengur þó þann möguleika, sem menn hafa á starfsaldri, að geta einfaldlega selt sína stærri íbúð og keypt sér minni íbúð ef þeim sýnist það hagkvæmara. Þegar þeir þurfa jafnvel mest á að halda að fá íbúð sem er nákvæmlega við þeirra hæfi, þá er það e t. v. ekki mögulegt, þá er íbúð ekki á boðstólum neitt í námunda við þá aðstöðu sem gamalt fólk og lasburða þarf á að halda. E. t. v. á eftir að renna upp sá tími að einstaklingar á miðjum aldri og við góða heilsu taki sig saman og komi sér sjálfir upp tryggingu af þessu tagi til elliáranna.

En ég mun ekki hafa fleiri orð almennt um þetta mál. Með hliðsjón af því, sem ég hef sagt, að ég er ekki sammála því að greiða atkv. með frv., ekki heldur með því að fella það, þá vil ég leyfa mér að bera hér fram skrifl. till. um að vísa málinu til ríkisstj. Við erum fleiri þm. sem flytjum þessa till. Till. er fram borin af 2/7 hlutum heilbr.- og trn., það er auk mín hv. 9. landsk. þm., og við fengum liðsstyrk frá hv. 8. þm. Reykv. Till., sem við þremenningarnir berum fram, hljóðar svo:

„Með hliðsjón af því, að n. á vegum ríkisstj. vinnur að endurskoðun á lögum þeim sem gilda um skiptingu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga, er lagt til að frv. þessu verði vísað til ríkisstj.

Ég bið hæstv. forseta velvirðingar á því, að þessi till. er skrifleg og nokkuð seint fram komin.