09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Mér er nokkurn veginn sama hvort þessu frv. verður vísað til ríkisstj. eða það verði fellt, en þó hneigist ég heldur til fylgis við álit meiri hl. nm. sem mættir voru á fundi, svo að það valdi ekki misskilningi, þ. e. a. s. að frv. verði fellt.

Ég er satt að segja dálítið undrandi á þeim umr., sem hér hafa farið fram, og reyndar því, sem segir í áliti minni hl. heilbr.- og trn. Satt að segja sýnist manni eins og allt sé að farast í þessum málum vegna þess að lögum, sem sett voru 1973 um dvalarheimili aldraðra, var breytt 1975. Í tvö ár var í gildi þetta ákvæði um að ríkissjóður skyldi greiða 1/3 hluta kostnaðar við byggingu og kaup nauðsynlegra tækja vegna dvalarheimila aldraðra, og svo er sagt að breytingin, sem gerð var með lögunum 1975, hafi verið óréttlát og valdið sveitarfélögunum margvíslegum erfiðleikum og geysilegu misrétti. Þetta er alls ekki rétt sem hér er verið að segja. Það er rétt að með lögunum 1973 voru ýmis sveitarfélög hvött til þess að fara af stað með byggingar dvalarheimila aldraðra í trausti þess að fjárveitingar fengjust á Alþ. Svo varð hins vegar aldrei. Fjárveitingar urðu ekki nægar, og þrátt fyrir þessi lög hefði enginn átt að láta sér detta í hug að sveitarfélög um land allt ættu einhvern lögvarinn rétt til þess að krefjast fjárveitinga úr ríkissjóði þegar þeim dytti í hug, enda varð ekki sú raunin á. Nokkur sveitarfélög fóru að vísu af stað með byggingar dvalarheimila aldraðra, og það er vissulega rétt að þeim er viss vandi á höndum þegar þessum fjárveitingum er svo kippt í burtu.

En það er ekki heldur rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Gíls Guðmundssyni, að ekkert hafi verið gert í staðinn fyrir sveitarfélögin þegar þau tóku við hinum auknu verkefnum með lagasetningunni í des. 1975. Það er alls ekki rétt hjá honum. Sveitarfélögin fengu þá í formi aukinna framlaga í gegnum Jöfnunarsjóð yfir 500 millj. kr. á árinu 1976. Það fé skyldi m. a. renna til þess að þau gætu sinnt þessum verkefnum sem öðrum sem þeim voru með þessum lögum falin. Og ég er satt að segja alveg undrandi á því að svo skuli enn farið að tala um málefni almenningsbókasafnanna, eins og hv. þm. Gils Guðmundsson gerði hér og talaði um það sem forsmán og Alþ. og ríkisstj. til hinnar mestu vansæmdar að þessi smánarlega fjárupphæð, sem veitt var til bókasafna úr ríkissjóði, skuli tekin af. Það er eins og það skipti hér sköpum þegar ríkissjóður hættir að greiða þessi framlög til sveitarfélaganna. Þau skiptu nákvæmlega engu máli, og það er alls ekki vegna þessara fjárframlaga ríkissjóðs sem bókasöfn hafa orðið til í landinu. Ég segi að þrátt fyrir það hafa þau orðið til í landinu og þróast. En það kemur nú reyndar ekki þessu máli við og ég ætla ekki að segja meira um almenningsbókasöfnin, nema það að ég sat ráðstefnu sem haldin var á s. l. hausti um almenningsbókasöfn. Ég átti þess kost að sitja þá ráðstefnu og ég varð satt að segja alveg undrandi á þeim barlómi sem þar var ríkjandi, einkum hjá þeim sem starfa við bókasöfnin. Það var einmitt þetta sama sem hv.þm. Gils Guðmundsson var hér að tala um, að það var eins og allt væri að hrynja, bókasöfnin mundu ekki geta starfað áfram vegna þess að þessi fjárveiting var ekki lengur fyrir hendi frá ríkinu. Ég held nú að sú ráðstefna hafi þrátt fyrir allt orðið til góðs vegna þess að það hafi runnið upp fyrir starfsmönnum þessara safna að þau væru ekki í þeirri hættu sem ýmsir hafa viljað vera láta. En þeir, sem tala svona, eru einmitt þeir menn sem ekki geta hugsað sér að þessi verkefni verði alfarið í höndum sveitarstjórnanna. Það eru þeir alþm. sem telja sig geta haft vit fyrir öllu og öllum. Það eru þeir alþm. sem treysta ekki sveitarstjórnunum fyrir þessu verkefni frekar en öðrum, þeir eigi að hafa vitið fyrir þeim.

Ég þarf ekki að hafa um þetta í sjálfu sér miklu fleiri orð. Það má rétt vera hjá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur að þetta mál, verkefnaskipting milli ríkis og sveitarfélaga, hafi verið hér á dagskrá svo lengi sem elstu menn muna. Ég held þó satt að segja að þetta málefni hafi ekki verið tekið fyrir með skipulegum hætti í svo mjög mörg ár. Það eru kannske um það bil 8 ár síðan veruleg umr. hófst um það, og það var að frumkvæði Sambands ísl. sveitarfélaga sem mótaði í þessum málum ákveðna stefnu. Stefnan er nefnilega til. Það er því ekki rétt sem hv. þm. Gils Guðmundsson segir, að við höfum enga stefnu í þessum málum. Sveitarstjórnarmenn hafa mótað sína stefnu, og í þessu máli hefur Alþ. líka mótað sína stefnu. Alþ. hefur samþykkt að þetta verkefni skuli vera í höndum sveitarfélaganna, og það er alveg óþarfi að fara að taka þá stefnu til endurskoðunar nú á þessu þingi. Það er alger óþarfi.

Það hafa ekki verið miklar sveiflur í þessum verkaskiptingarmálum. Í gegnum árin hefur þetta verið að þróast einmitt í þá áttina að ríkisafskiptin aukast sí og æ. Kröfurnar hafa vissulega komið frá sveitarstjórnarmönnum líka, að ríkið styrki þennan málaflokkinn og hinn, og þannig hefur þetta þróast, ekki fyrir neina ákveðna stefnu, heldur nánast fyrir tilviljun. Síðan vakna sveitarstjórnarmenn upp við það einn góðan veðurdag að þeir ráða engu. Þeir þurfa að sækja allt undir ríkið, ef þeir ætla að byggja elliheimili, ef þeir ætla að byggja leikskóla, dagheimili, ef þeir ætla að gera eitthvað í bókasafnsmálum og svo mætti lengi telja. Þeir geta sem sagt ekkert gert nema leitað til ríkisins með fjárframlög. Þegar ríkið hefur gert sveitarstjórnirnar þannig háðar sér, þá er ríkið líka farið .að ráða hvernig málin verði leyst heima fyrir, hvernig byggingarframkvæmdum verði hagað, hvað á að byggja dýrt, sem sagt, sveitarstjórnirnar ráða engu. Og það er furðulegt að það skuli vera til hér á hv. Alþ. málsvarar þessarar bónbjargarstefnu. Hún er röng, og sveitarstjórnarmenn hafa hafnað henni. Þeir vilja ekki þessi afskipti, þeir treysta sér til þess að sjá um þessa málaflokka sjálfir. Það er þess vegna ekki rétt sem hv. þm. Gils Guðmundsson sagði, að sveitarstjórnarmenn væru ekki tilbúnir til þess að móta heppilega stefnu í þessum málum þegar ríkið hætti sínum stuðningi. Þessi stefna er alveg skýr hjá sveitarstjórnarmönnum, og ég held því fram að hún sé líka skýr hjá meiri hl. Alþingís.

Það var með lögunum um verkefnayfirfærsluna í des. 1975 í raun stigið fyrsta skrefið til þess að vinda ofan af þessari vitleysu sem viðgengist hefur og verið sífellt að aukast í gegnum árin. Nokkuð var reynt að höggva á þessa samskiptahnúta reyndar á dögum vinstri stjórnarinnar þegar löggæslan var flutt alfarið yfir á ríkið. En með lögunum 1975 var einmitt snúið við, þ. e. a. s. meiri verkefni voru færð til sveitarfélaganna, og það er sú stefna sem ber að fylgja. Þess vegna á ekki að breyta þessum lögum. Það á ekki að samþykkja þetta frv. sem hér er til umr. Með því væri verið að hverfa til þess fyrirkomulags sem ekki á að fylgja.

Að lokum lýsi ég vonbrigðum mínum yfir því sem hv. 8. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson, sagði hér af viðskiptum sínum við sveitarstjórnarmenn. Þó að hann treysti fjvn.- mönnum illa, þá skilst mér að hann treysti sveitarstjórnarmönnum enn þá verr (PS: Sumum.) Já, sumum. Ég ætlaði aðeins að ráðleggja honum það, að þegar hann sem formaður Sjómannadagsráðs beitir sér að næsta stórverkefni í málefnum aldraðra, þá velji hann sér aðra viðmælendur sem hann á þá betur skap með.