09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2523 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs aðallega út af ummælum sem komu fram í ræðu hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildar Helgadóttur, sem sagði að það hefði verið til góðs að afnema lögin frá 1973 um ríkisstyrk til — (Gripið fram í.) Ja, það hefði orðið til góðs að ríkisstyrkurinn væri ekki lengur fyrir hendi vegna þess að sveitarfélögin hefðu þá fremur farið út í það að byggja smáíbúðir fyrir aldraða heldur en dagheimill. En þetta vil ég leiðrétta hjá hv. þm., vegna þess að lögin hefðu hér ekki orðið neinn þrándur í götu. Í 1. gr. þessara laga stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Dvalarheimili aldraðra eru ætluð öldruðu fólki sem ekki þarfnast vistunar á sjúkrahúsi. Dvalarheimill aldraðra getur jöfnum höndum verið ætlað til dagvistunar sem fullrar vistunar. Íbúðir fyrir aldraða geta verið hluti dvalarheimilis.“

Það var sjónarmið vinstri stjórnarinnar að til þessara þriggja byggingarhátta eða lífsforma skyldi tekið hið fyllsta tillit, og þar voru því lögin fremur til stuðnings og styrks heldur en hitt.

Ég get fyllilega tekið undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði um málflutning hv. þm. Ólafs G. Einarssonar. Við höfum heyrt þessa ræðu oft áður hjá hv. 5. þm. Reykn. þegar hann er að reyna að verja það sem hann telur alveg fullmótaða stefnu og engir aðrir eigi yfirleitt að hafa neina skoðun á, bara kyngja henni. Það kann vel að vera að hugmyndir sveitarstjórnarmanna, ef þær eru þá svo eindregnar sem hann vill vera láta, reynist réttar að einhverju leyti, að það sé fyllilega réttlætanlegt að sveitarfélög standi undir ýmsum þeim málaflokkum sem ríkið hefur lagt fjármagn til, og jafnvel málaflokkum sem vinstri stjórnin tók upp á arma sína. Það kann vel að vera að þær reynist réttar einhvern tíma í framtíðinni ef tekjustofnar reynast nægir. En sannleikurinn er bara sá, og það veit hv. þm. jafnvel og aðrir, að tekjustofnar eru ekki fyrir hendi og þeir voru alls ekki fyrir hendi í des. 1975 þegar bandormsfrv. var samþ. hér á þingi. Þetta vissi ríkisstj. og þetta vissu stjórnarsinnar. En það skorti samt ekki á fullyrðingar um að þessum málaflokkum væri vel borgið í höndum sveitarfélaga af því að þeim væri fengið fé á móti. Það voru málamyndaupphæðir, sem allir vissu, hver einasti þm. vissi að voru engan veginn nægilegar til þess að sveitarfélögin réðu við þetta.

Að baki þessari breytingu árið 1975 lá engin stefna um það, hvað rétt væri að ríkið sinnti eða sveitarfélögin sinntu. Að baki lá einungis ákvörðun um að skera niður útgjöld ríkisins, og það var engin tilviljun hvaða málaflokkar voru teknir fyrir. Það voru tekin fyrir félagsmál og menningarmál. Sú stefna, sem lá þarna að baki, var einfaldlega stjórnarstefnan, og þarna toguðust á andstæð sjónarmið félagshyggju og íhalds. Málið var nú svo einfalt. Þegar þarf að skera niður í útgjöldum ríkisins, þá fer íhaldsstjórn alltaf í það að skera niður til félagslegra verkefna og til menningarmála. Það var engin önnur stefna sem lá að baki þessari breytingu, enda hafa þeir stjórnarsinnar, sem hér hafa talað, beint og óbeint viðurkennt að sveitarfélögin hafi ekki þá tekjustofna sem þarf enn í dag til þess að sinna málaflokkum eins og dvalarheimilum aldraðra.

Ég held að þetta sé ekki eina málið í tíð þessarar ríkisstj. sem sýnir þann hug sem hún ber til málefna aldraðra. Alþ. samþykkti fyrir einu eða tveim árum heimild til ríkisstj. að veita ellilífeyrisþegum frían síma, og hæstv. samgrh. hefur lýst því hér yfir á Alþ. að hann ætli sér alls ekki að nota þessa heimild, það væri ekki hægt að leggja það á Póst og síma að borga það. Honum var bent á að það hefði aldrei verið ætlunin að Póstur og sími greiddi það, að stofnunin stæði undir því, heldur ríkissjóður. En það kom fyrir ekki. Þetta stendur óhaggað, ráðh. ætlar ekki að nota sér þessa heimild. Og meðan hið opinbera heldur að sér höndum við að veita nauðsynlega félagslega aðstoð til aldraðra sem búa á heimilum sínum, þá er alveg tómt mál að tala um mismunandi leiðir sem fara eigi í málefnum aldraðra. Það er staðreynd, að það er enginn munaður fyrir gamalt fólk að hafa síma. Það getur verið lífsnauðsyn. Ég hef tekið þetta sem eitt dæmi, en þau eru ótalmörg. Hér þurfa að koma til samræmdar aðgerðir. Dvalarheimill þurfa að vera til fyrir þá sem þurfa þess og önnur þjónusta verður að vera fyrir hendi til þess að þeir, sem geta verið á heimilum sínum og hugsað um sig sjálfir, geti verið öruggir þar innan veggja.