09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru fyrst örfá orð til hv. 4. þm. Reykn. í sambandi við það hvað er meiri hl. og hvað er minni hl. í 7 manna n. Það mun rétt vera, að nú í vetur og e. t. v. á allra síðustu árum hefur það komið fyrir að minni hl. n., sem er þó meiri hl. á fundi sem afgreiðir frá sér mál, undirritar sem meiri hl. Ég lýsi því aðeins yfir sem minni skoðun, að ég tel þetta algerlega óeðlilegt, og ég hygg að ég fari ekki með rangt mál þegar ég segi að þetta sé fremur nýtilkomið, þetta hafi ekki verið venja áður fyrr, að nefna annan meiri hl. n. heldur en hreinan meiri hl., burt séð frá því hverjir hafi verið mættir á fundi við afgreiðslu máls. Þetta er svo sem ekki stórt atriði, en mér virðist það koma nokkuð greinilega fram beinlínis í sambandi við þetta mál, að það er í sjálfu sér það eina eðlilega að 4 menn hið minnsta kalli sig meiri hl. n., því að ég get ekki séð betur en hér séu greinilega komnir fram þrír minni hl. þessarar n. Það hafa allir nm. tjáð sig. Þrír nm. vilja fella frv., tveir vilja samþykkja það og tveir vilja vísa því til ríkisstj. og hafa flutt um það till., þannig að þarna er greinilega um þrjá minni hl. að ræða. Svo ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það.

En þá eru það fáein orð til sessunautar míns, hv. 5. þm. Reykn., sem ég sé nú ekki í salnum að vísu, en vænti þess að hann sé einhvers staðar nærstaddur. Hv. 2. landsk. sagði eitthvað á þá leið, að honum hefði komið ræða hans dálítið á óvart. Ég verð að segja það, að það er nokkuð til í því að það er farið að koma manni á óvart þegar íhaldsmenn hér á þingi tala eins og íhaldsmenn, segja það sem þeir meina. En þetta gerir hv. þm. a. m. k. öðru hverju. Það var í sambandi við annað mál hér í fyrra fremur en hittiðfyrra sem ég mun hafa komist þannig að orði að gefnu tilefni, að skoðanir hans á því máli virtust hafa mótast einhvern tíma fyrir fyrra stríð. Síðan leiðrétti ég það og taldi ofsagt og þetta hefði líklega verið á tímum Jóns Þorlákssonar, kringum 1923–1924, sem skoðanir hv. þm. á því máli hefðu mótast. Nú finnst mér stundum þegar hann er að tala í öðrum málum að ég ætti eiginlega að taka þessa leiðréttingu aftur, því að flestar skoðanir hans, a. m. k. þegar hann talar eins og hann meinar, sem hann gerir stundum og oftar en margir aðrir, virðast vera mótaðar fyrir fyrra stríð.

Það er dálítið einkennilegt, að í hvert skipti, sem minnst er á bandorminn frá því fyrir jólin 1975, þá kemur hv. 5. Reykn. upp í pontu, ef hann er nærstaddur, og fer að verja þá aðgerð. Ég fer að ímynda mér að hann hafi verið þarna eitthvað nákominn, því að það er ekki annað að heyra en þetta sé eins og þegar móðir er að verja afkvæmi sitt. Og það vita allir að þegar vandræðabörnin eiga í hlut, þá eru foreldrar einna viðkvæmastir, og svo virðist vera um þennan hv. þm. þegar farið er að víkja að þessari handaskömm sem þeir hv. stjórnarþm. samþykktu fyrir jólin 1975, af því að þeim lá svo mikið á að komast í jólagæsina sem var að verða köld, að þeir máttu ekki vera að því að kynna sér í rauninni hvað væri verið að gera í sambandi við þennan bandorm. Jú, það var verið að fullnægja, segir hv. 5. þm. Reykn., kröfu frá ýmsum sveitarstjórnarmönnum um skýrari verkaskiptingu. Sú krafa hefur vissulega verið uppi og hún er réttmæt. Hún er það enn í dag. En það þurfti vitanlega að hafa eðlilegan aðdraganda að þessu máli eins og öðrum, og það var vissulega ekki haft, heldur var því fleygt hráu á borð þm. og stjórnarþm. urðu að gera svo vel að samþykkja ef þeir áttu ekki að koma að jólagæsinni kaldri.

Hv. 5. þm. Reykn. minntist á annað mál sem ég tók hér sem eitt lítið dæmi um með hverjum hætti þessi breyting var gerð, hvað það var sem ráðist var á 1975 og með hverjum hætti það var gert. Það var bókasafnsmálið. Hann gerði mjög lítið úr því að lög um almenningsbókasöfn hefðu í rauninni á undanförnum áratugum haft nokkurt gildi, það hefðu verið svo litlir fjármunir sem til þessara hluta hefðu farið. Ég fullyrði að á fyrstu árunum eftir að þau lög voru sett gerðu þau stórmikið gagn. Þá var mjög verulega mikill stuðningur að þessum lögum. Þá voru það umtalsverðir fjármunir sem runnu til þessara hluta. En sá galli var á þessum lögum eins og mörgum öðrum, að framlagið var bundið við krónutölu og þess vegna var orðið fyrir löngu mjög brýnt að endurskoða þessi lög og láta þau verka á nýjan leik, þannig að þau yrðu til verulegrar og stórfelldrar uppbyggingar, eins og þau voru vissulega á sínum fyrstu árum. En það var ekki þetta sem var gert. Það hefur að vísu verið samið frv., að mörgu leyti ágætt frv. sem því miður var allt of lengi að velkjast hér á milli: hjá ríkisstj., bæði vinstri stjórninni og svo hjá hæstv. núv. menntmrh. og svo á Alþ. og hefur ekki komist í gegn, en það var ekki verið að vinna að því að bæta þetta frv. eða koma því í gegn, heldur var þarna bókstaflega skorið á og ákveðið að sveitarfélögin skyldu sitja uppi með það sem þau vildu gera í bókasafnsmálum, ríkið skyldi þar ekki nærri koma. Og svo er hv. 5. þm. Reykn. alveg hissa á því þegar bókasafnsmenn þinga, og hann segir nánast að þeir hafi verið svo vitlausir að vera á sama máli og Gils Guðmundsson, að það hafi verið skyssa að afnema þessi lög. Það var hægt að laga þau. Hv. þm. segir líka að ýmsir sveitarstjórnarmenn séu í rauninni sammála flm. og stuðningsmönnum þessa frv. sem við erum að ræða hér, um dvalarheimili aldraðra, — þeir eru bara svo vitlausir að þeir eru ekki sammála í þessu héraðshöfðingjanum úr Garðabæ. Nei, ég held, að hv. 5. þm. Reykn. ætti að temja sér það heldur meira en hann gerir, jafnvel þó að hann haldi fram sinum íhaldssjónarmiðum sem ég mun alltaf, bæði fyrr og síðar, virða hann fyrir að gera af meiri hreinskilni en flestir þeir íhaldsmenn sem eru bæði hér innan og utan veggja, þá held ég að hann ætti að temja sér svolítið minna yfirlæti, svolítið minni hroka, jafnvel þó að hann sé sveitarstjórnarmaður í þeim ágæta bæ Garðabæ.