14.10.1976
Efri deild: 3. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

21. mál, leiklistarlög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. er hér fram komið svo árla þings og vil þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa lagt það fram nú. Það er óskandi að þetta frv. komist nú það vel áleiðis að það verði að lögum. Það er rétt sem hæstv. ráðh. tók fram, að það er mikið áhugamál sérstaklega leikfélaganna úti á landsbyggðinni að þetta frv. nái fram að ganga.

Ég vil taka það fram, að það hlýtur að vera nauðsynlegt að lita eitthvað um leið á frv, til l. um Þjóðleikhús, að því leyti sem það tengist þessu frv., en á hitt legg ég áherslu, að afgreiðsla þessa frv. á vitanlega alls ekki að tengjast þjóðleikhúsfrv. Það frv. hefur verið lengi hér í sölum Alþ. Ég veit ekki hvort þar hillir undir einhverja lausn og það muni fá afgreiðslu. En þó svo að það dagi nú uppi hér enn einu sinni, þá held ég að það sé engin nauðsyn á því að þetta frv. geri það einnig. Ég held að það sé einmitt mikilvægt að þessi rammalöggjöf fáist fram þó að hún sé, eins og hæstv. ráðh, tók fram, nokkuð rúm og við.

Hitt er svo auðvitað alveg rétt, að við leggjum einnig áherslu á það, sem höfum starfað í áhugaleikfélögunum, að 16. gr. þjóðleikhúsfrv. komi sem allra fyrst til framkvæmda eins og hún er nú í þessu frv., sérstaklega varðandi gistileikarana og leikstjóra til leiðbeiningar, þó þar hafi orðið nokkur breyting á til hins betra á síðustu árum. Við gerum okkur hins vegar ljóst, að það er aðalatriðið að fjárframlögin til þessarar starfsemi hækki nokkuð. Ekki er ég að fara fram á neinar stökkbreytingar í því efni, en ég sé á frv. til fjárlaga fyrir árið 1977 að þar er allt óbreytt bæði til Bandalags ísl. leikfélaga og eins til leiklistarstarfsemi í landinu á vegum áhugaleikfélaga. Þar er ekki einu sinni um verðlagshækkun að ræða Ég treysti því, að í meðförum fjvn. breytist þetta a.m.k. á þann veg að það fylgi eðlilegri þróun, þó ekki sé nú meira, en auðvitað skiptir það öllu máli fyrir hin ýmsu leikfélög að fjárframlögin a.m.k. haldi sínu raungildi. Það er það minnsta sem hægt er að búast við.

Ég gerði ýmsar minni háttar athugasemdir við þetta frv. í fyrra. Ég lýsti því þá að ég væri meginmálinu í þessu frv. samþykkur. Ég benti hins vegar þá á ákvæðið um sveitarstjórnirnar í 2. gr., þar sem þær eiga að veita jafnháa upphæð til hvers leikfélags og ríkissjóður greiðir samkv. 3. gr., og benti á að e.t.v. yrði þarna um of stíft ákvæði að ræða þó að sjálfsagt sé að sveitarfélögin leggi þessum málum nokkurn stuðning. Ég þykist vita að í ýmsum byggðarlögum kynni að verða nokkuð erfitt fyrir sveitarstjórnirnar að leggja fram jafnháa upphæð ef í því sama byggðarlagi væri fært upp gott og allviðamikið leikrit sem væri góðrar styrkveitingar vert af hálfu hins opinbera.

Á það var bent í sambandi við 4. gr. frv. í fyrra — ég fékk um það nokkrar ábendingar — að hlutverk leiklistarráðsins svokallaða kynni að vera ansi stíft, en það var ekki mín skoðun í því efni: „stuðla að stefnumótun á því sviði á hverjum tíma“, þ.e.a.s. í leiklistarmálum. Menn óttuðust að þetta leiklistarráð ætlaði að fara að gerast allfjölþreifið um leiklistarstefnuna í landinu. Ég ber engan kvíðboga fyrir því og held að það séu ástæðulausar áhyggjur sem menn bera fyrir því.

En ég benti einnig á viðbótarhlutverk þessa leiklistarráðs, sem ég held að væri mjög nauðsynlegt, þ.e.a.s. að skipulögð kynning færi fram á íslenskum leikverkum á erlendum vettvangi. Og ég vildi gjarnan skjóta því til hv. menntmn. að hún kannaði það, hvort þetta ákvæði gæti ekki að skaðlausu komið þarna inn í, því að það, sem þarna hefur verið að gert, hefur verið gert af næstum að segja höfundunum sjálfum, en borið verulegan árangur og vakið mikla athygli á íslenskum leikritum. Þetta væri því verðugt hlutverk þessa leiklistarráðs, að sinna þessu einnig. En um þetta mun ég flytja sérstaka brtt. ef ég sé að hv. menntmn. gerir ekki á þessu nauðsynlega breytingu eða nauðsynlegan viðauka.

Aðrar athugasemdir mínar voru minni háttar. Hæstv. ráðh. kom inn á það áðan að menn þyrftu ekki að bera kvíðboga fyrir því að þetta leiklistarráð, þótt fjölmennt væri, yrði til mikils kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Það kemur saman til fundar einu sinni á ári og er ólaunað. Það er aðeins framkvæmdastjórnin, þriggja manna, sem fer með þessi málefni milli funda.

Aðaláherslu vil ég svo leggja á það, að ríkisvaldið þarf að styðja þessa starfsemi sem ég ber sérstaklega fyrir brjósti, þ.e.a.s. áhugastarfsemina í leiklistarstarfseminni, — styðja hana mjög öfluglega. Þessi lög, sem hér er gert ráð fyrir að verði sett um þetta, segja í raun og veru ekkert um það á hvað myndarlegan hátt ríkisvaldið styrkir þessa starfsemi, en þau eru æskilegur vinnurammi og þau eru um leið allgóður barátturammi fyrir þessi lög.

Bandalag ísl. leikfélaga, sem ég hef átt mikinn þátt í að móta núna síðustu árin, þ.e.a.s. áhugamannahópurinn í þessum efnum, hann á sterk ítök í þessu leiklistarráði og mun þar vel að vinna og fá barna í raun og veru í fyrsta skipti eðlilegan baráttuvettvang til að sinna hugðarefnum sínum og reyna að koma skoðunum sínum á framfæri.

Ég get ekki stillt mig um, þrátt fyrir allt. að benda á bað hvað enn er mikið ósamræmi í stuðningi ríkisvaldsins við hinn opinbera aðila, Þjóðleikhúsið, sem ég vil þó ekki vanmeta á nokkurn hátt því Þjóðleikhúsið hefur sitt veigamikla hlutverk, nær yfir allt landið og á að sinna margvíslegum hlutverkum, en engu að síður get ég aldrei annað en undrast þann mikla mun sem er á framlagi hins opinbera til Þjóðleikhússins annars vegar og til starfsemi allra áhugaleikfélaganna hins vegar með sín 50–60 verkefni á ári og sum þeirra allmerkileg. Ég sé það á frv. til fjárlaga nú að Þjóðleikhúsið er með sínar 260 millj. rúmlega og veitir sjálfsagt ekkert af. Það verður sjálfsagt ekki ofhaldið af því, með eitthvað milli 10 og 20 verkefni og auðvitað með allt sitt veigamikla hlutverk. En áhugaleikfélögin með sín 50–60 verkefni fá á fjárlagafrv núna 4,7 millj. Þetta þarf að breytast mjög til hækkunar til þess að örva enn betur bann mikla áhuga sem er hjá leikfélögunum. Kostnaður allur hefur vaxið svo gífurlega, að þó að leikendurnir sjálfir leggi fram alla sína vinnu endurgjaldslaust, þá eru upphæðirnar, sem fara í kostnað, orðnar gífurlegar, og það er rétt sem hæstv. ráðh. sagði: Gróskan er mikil. — En erfiðleikarnir eru einnig miklir að brúa það bil sem er oft á milli kostnaðar og þeirra tekna sem fást í hinum dreifðu byggðum.

Ég legg sem sagt aðaláherslu á það, að frv. nái fram að ganga. Ég held að það verði okkur mjög til bóta sem að þessum málum höfum starfað og félögunum í heild hvati til nýrra átaka.

Og ég treysti þeim ágæta áhugamanni í þessum efnum, formanni menntmn. Ed., til þess að afgreiða þetta frv. hér út úr d., fá það afgreitt hér út úr d. án þess að tengja það nauðsynlega aftan í þjóðleikhúsfrv.