27.10.1976
Neðri deild: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

18. mál, skylduskil til safna

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða mikið um þetta frv. Ég vitna til þeirra orða sem ég hef áður sagt um frv. af þessu tagi.

Þetta mun nú vera í þriðja sinn sem slíkt frv. er lagt fram, af orðum hæstv. menntmrh. að dæma. Hann gat þess í framsöguræðu sinni að frv. þetta, ef samþ. yrði, mundi draga nokkuð úr framlögum til ákveðinna bókasafna á landinu, og það verður að telja að svo sé. Eins og við vitum öll var frv. til l. um almenningsbókasöfn samþ. á síðasta Alþ., í nokkrum fljótheitum samt, þó að það mái hafi verið lengi á döfinni. Ef þau nýju lög eru skoðuð kemur í ljós, að ég ætla, að þau rýri hlut ýmissa bókasafna, sérstaklega héraðsbókasafna úti um land. Að þessu þarf vandlega að hyggja. Það er dálítill galli að þessi frv.: frv. til l. um almenningsbókasöfn og frv. til l. um skylduskil til safna, skyldu ekki verða samferða hér á hv. Alþ. Ég á hér sérstaklega við bókasöfnin í Stykkishólmi, Ísafirði og Seyðisfirði sem hingað til hafa notið góðs af skylduskilum. Þegar þess er gætt að hlutur þeirra er a.m.k. ekki bættur með nýjum lögum um almenningsbókasöfn, eins og ég gat um, og ríkisvaldið vanrækti þau í raun og veru stórlega árum saman, þá verður að virða mér það til vorkunnar þó að ég lýsi ekki yfir fylgi mínu við þetta frv. í öllum atriðum þegar á þessu stigi málsins. Ég mun láta þessi orð nægja, en fylgjast með því hvernig þessu frv. reiðir af hér í þingsölum.