21.03.1977
Efri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2660 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Frsm. meiri hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti. Iðnn. hefur tekið mál það, sem hér er á dagskrá, til meðferðar. N. varð hins vegar ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt, en minni hl., þeir Steingrímur Hermannsson og Stefán Jónsson, leggur til að frv. verði vísað til ríkisstj.

Frv. þetta gerir ráð fyrir að ríkisstj. sé heimilað að veita Andakílsárvirkjun leyfi til þess að reisa og reka vatnsaflsstöð við Kljáfoss í Hvítá í Borgarfirði með allt að 13.5 mw. afli og orkuveitu til samtengingar við orkuflutningskerfið í Borgarfirði.

Þá gerir frv. ráð fyrir að heimila ríkisstj. að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lán er Andakílsárvirkjun tekur, allt að 2 200 millj. kr. eða jafngildi þeirrar upphæðar í erlendri mynt, til greiðslu þessara mannvirkja. Einnig er ríkisstj. heimilað fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán, er komi að hluta eða öllu leyti í stað ábyrgðar, og endurlána Andakílsárvirkjun.

Enn fremur er gert ráð fyrir í þessu frv. að felld verði niður aðflutningsgjöld og söluskattur af efni, tækjum og vélum til þessarar virkjunar og Andakílsárvirkjun sé undanþegin tekjuskatti, stimpilgjaldi, útsvari, aðstöðugjaldi og öðrum gjöldum til ríkis, sýslusjóða og sveitarfélaga. Er þetta í samræmi við það sem kveðið er á um þessi efni í öðrum hliðstæðum lögum.

Þetta mál á sér langan aðdraganda. Undirbúningur að virkjun Kljáfoss í Hvítá má segja að hafi átt sér stað um langan tíma. Hann var hafinn á árunum 1963–1964 og þá gefið út virkjunarmat. Virkjunarrannsóknir voru svo framkvæmdar og aðrar rannsóknir síðan gerðar. Allur þessi undirbúningur hefur verið unninn að frumkvæði Andakílsárvirkjunar og á kostnað Andakílsárvirkjunar.

Virkjunarmat það, sem út var gefið þegar árið 1964, bar það með sér að virkjun Hvítár við Kljáfoss væri hagstæð virkjun borið saman við aðra valkosti og með tilliti til þess öryggis sem raforkuverið mundi veita Vesturlandi.

Svo sem kunnugt er, þá eru eigendur Andakílsárvirkjunar Akraneskaupstaður og Mýra- og Borgarfjarðarsýslur. Þetta frv., sem hér er til umr., var raunar flutt að beiðni stjórnar Andakílsárvirkjunar og eignaraðila virkjunarinnar. Þess má einnig geta, að fyrir hendi er algjör samstaða eigenda Andakílsárvirkjunar um að eignaraðild að fyrirhugaðri virkjun við Kljáfoss verði aukin þannig að Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla ásamt Dalasýslu verði meðeigendur orkuversins og þannig stefnt að því að öll grunnorkuvinnsla á Vesturlandi verði sameign íbúanna sem sjálfstæð Vesturlandsveita.

Þá vil ég einnig láta þess getið, að Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og fleiri aðilar, sem þetta mál snertir, hafa rætt málið á fundum sínum og gert einróma samþykktir um að skora á Alþ. og ríkisstj. að greiða fyrir því að Kljáfoss verði virkjaður og enn fremur áskorun til þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, að þeir myndi sameign um orkuverið.

Stjórn Andakílsárvirkjunar og bændur, sem lönd eiga að Hvítá þar sem landsspjöll verða vegna fyrirhugaðrar virkjunar, hafa átt með sér fund þar sem rætt var um bætur fyrir umrædd landssvæði. Á þeim fundi var algjör samstaða um málið og samkomulag um málsmeðferð ef til þess kæmi að ekki næðist samkomulag milli aðila án matsákvörðunar.

Þessi virkjun, sem hér er um að ræða, er áættað að hafi 13.5 mw. afl með 88 gwst. árlegri orkuvinnslugetu, en forgangsorka er talin vera 75 gwst. Virkjunarkostnaður er áætlaður 1722 millj. kr., en að meðtöldum kostnaði við tengingu orkuversins við orkuflutningakerfið, greiðslum fyrir vatns- og landsréttindi og vöxtum á byggingartíma er stofnkostnaður alls áætlaður 2172 millj. kr. Með tilliti til þessa verður kostnaðarverð forgangsorkunnar, miðað við 40 ára afskriftatíma og 8% vexti, ásamt 0.75% stofnkostnaðar í rekstri, kr. 2.65 á kwst. Verður því að telja að miðað við stærð virkjunar virðist um hagkvæman virkjunarvalkost að ræða.

Þá er ekki heldur lítandi fram hjá því, hvaða öryggi skapast fyrir íbúa Vesturlands með tilkomu slíkrar virkjunar sem þessarar. Með tilkomu Kljáfossvirkjunar þrefaldast vatnsorkuvinnsla á Vesturlandi, og með tilliti til þess, að orkuverið er í miðju Borgarfjarðarhéraði, eykur það mikið öryggi rafmagnsnotenda á svæðinu og minnkar orkutap af flutningi, en þar er einnig um mikil verðmæti að ræða.

Þá skilur og á milli þessarar virkjunar og okkar stærstu virkjana á Þjórsársvæðinu að þar er virkjað á hinu eldvirka svæði, svo sem kunnugt er, en hér er ekki um slíkt að ræða. Einnig af þessum ástæðum hefur staðsetning virkjunarinnar á þessum stað þýðingu af öryggisástæðum sem óþarft er að fjölyrða um hér.

Iðnn. leitaði álits um frv. þetta bæði hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkustofnun. Báðir þessir aðilar sendu n. bréf. Ég skal ekki fara að rekja efni þeirra bréfa, en aðeins taka það fram, sem er aðalatriði í þessu sambandi, að báðir þessir aðilar telja ekkert til fyrirstöðu því að sú heimild sé veitt til virkjunar sem frv. gerir ráð fyrir. Orkustofnun víkur að vísu að því, að það hefði mátt undirbúa þetta frv. betur. En af niðurstöðum Orkustofnunar er það hins vegar ljóst, að þrátt fyrir þá ágalla sem Orkustofnun telur vera hér á, en ég tel vafasamar fullyrðingar, telur Orkustofnun ekkert því til fyrirstöðu að Alþ. veiti þá heimild sem frv. gerir ráð fyrir.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, varð iðnn. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Minni hl. n. hefur lagt til að málinn verði vísað til ríkisstj., en við hin, sem erum í meiri hl., leggjum til, eins og ég hef áður sagt, að frv. verði samþ. óbreytt.