21.03.1977
Efri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Frsm. meiri hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Það virðist ekki vera ágreiningur um það, að virkjun Kljáfoss sé hagkvæm framkvæmd. Ég skildi hv. 2. þm. Vestf. á þann veg, að hann teldi virkjunina hagkvæma, ég skrifaði það eftir honum. Hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Norðurl. e., sagðist vera í flestum eða öllum atriðum sammála hv. 2. þm. Vestf. um þetta mál. Ég heyrði ekki hann heldur halda því fram að virkjunin væri óhagkvæm. Það hefur enginn aðili, sem hefur verið spurður um álit á þessari virkjun, haldið slíku fram. Það hefur enginn haldið slíku fram.

Hér er hins vegar komin upp spurning um starfshætti, og það er það sem hv. 2. þm. Vestf. og að ég ætla hv. 5. þm. Norðurl. e. leggja áherslu á, að það þurfi að breyta um starfshætti, það þurfi að liggja nánar fyrir ýmsar upplýsingar um þessa framkvæmd áður en Alþ. veitir þá heimild sem farið er fram á með þessu frv. sem hér er til umr. Að þessu leyti eru þessir hv. þm. ósammála Rafmagnsveitu ríkisins og Orkustofnun, því að það er enginn vafi á því að Orkustofnun telur enga annmarka vera á að veita heimildina, sem hér er farið fram á, og ekki heldur Rafmagnsveitur ríkisins. M. ö. o.: þessir hv. þm. virðast gera í þessu efni meiri kröfur en Orkustofnun og Rafmagnsveitur ríkisins. Það er þeirra mál. Og það er auðvitað mál Orkustofnunar ef henni finnst, eins og fram kemur, að það hefðu mátt liggja meiri upplýsingar fyrir um þetta mál til þess að fylgja þessu frv. heldur en raun ber vitni um. En þrátt fyrir þessa formgalla að mati Orkustofnunar — og það skulum við athuga — þrátt fyrir þetta leggur Orkustofnunin til að heimildin sé veitt. Hv. 2. þm. Vestf. vitnaði í bréf Orkustofnunar og las þar upp nokkrar setningar. Ég ætla ekki að endurtaka það, en ég ætla að lesa framhaldið sem hann las ekki upp:

„Þrátt fyrir þessa annmarka á framlögðum gögnum er ekki ástæða til að efast um að Kljáfossvirkjun sé hagkvæm virkjun, einkum þegar stærð hennar er höfð í huga.“

Þetta er kjarni málsins í því sambandi þegar bornar eru brigður á að Orkustofnun mæli með að veita heimildina. Þrátt fyrir það að hún geti hugsað sér og telji æskilegt að fyrir liggi betri upplýsingar, þá er þetta svo góður virkjunarvalkostur að það hefur ekki áhrif á þá niðurstöðu Orkustofnunar.

Ég hef enga tilhneigingu til þess að taka ekki tillit til þess sem Orkustofnun segir. Auðvitað á að gera það. En við eigum ekki að líta svo á að það séu alger lög í þessu efni sem Orkustofnun segir. Það megum við ekki gera. Við verðum að meta málið efnislega og taka efnislega afstöðu til málsins, hvað sem Orkustofnun kann að segja.

Hv. 2. þm. Vestf. nefndi Suður-Fossárvirkjun. Orkustofnun gaf umsögn um Suður-Fossárvirkjun. M. a. gerði hún því skóna, að það gæti verið stjórnarskrárbrot sem fólst — afsakið, ég er að rugla saman tveim málum, sem eru mér hugstæð, en við skulum taka fyrst Suður-Fossárvirkjun. Komið var upp í huga mér Orkubú Vestfjarða, en ég skal koma að því á eftir. En um Suður-Fossá var það svo, að eftir að fyrir lágu kostnaðaráætlanir sem gert var ráð fyrir að væru endanlegar, þá fór Orkustofnun yfir þessar áætlanir og gætti þar áreiðanlega fyllstu gagnrýni. En niðurstaða Orkustofnunar varð sú, að kostnaðaráætlun þyrfti að hækka um nokkra tugi millj. kr, 40–50 millj. eða svo. Var talið að það réði engum úrslitum um hagkvæmni þessarar virkjunar. En það, sem gat ráðið úrslitum, var það, að eftir að Orkustofnun gerir þessa aths. fer fram önnur athugun á málinu, áður en útboð fara fram, og þá hækkar kostnaðaráætlunin um helming. Ef við hefðum farið eftir niðurstöðum Orkustofnunar í þessu efni, þá er ég hræddur um að við hefðum ekki komist að sömu niðurstöðu og við höfum nú komist, að það verði að athuga allt þetta mál miklu gaumgæfilegar en gert var.

Ég nefndi Orkubú Vestfjarða. Orkustofnun gerði því skóna, að það fælust þýðingarmikil ákvæði í frv. um Orkubú Vestfjarða sem gætu verið stjórnarskrárbrot, hvorki meira né minna. Við hv. 2. þm. Vestf. tókum ekkert mark á þessu. Við sáum, að þetta hafði ekki við neitt að styðjast, og létum þetta ekki hafa nein áhrif á okkur. (Gripið fram í.) Já, það er eðlilegt kannske, og þó skal ég ekki ætla hv. 5. þm. Norðurl. e. nokkra tilhneigingu til þess að brjóta stjórnarskrána. En honum finnst eðlilegt að við hv. 2. þm. Vestf. höfum ekkert við það að athuga. Það er mikill misskilningur. Við mundum taka það mjög alvarlega, ef við teldum að verið væri að brjóta stjórnarskrána.

Ég sagði áðan, að ég hefði enga ástæðu til þess að gera lítið úr umsögnum Orkustofnunar. Ég geri mér grein fyrir því, að hún er ekki óskeikul frekar en aðrar stofnanir í okkar landi, og við verðum að meta og vega efnislega hvert mál, en ekki ganga út frá því að það sé endilega rétt. En þessar hugleiðingar um Orkustofnun eru að segja má nánast óþarfar. Þær ættu a. m. k. að vera það þegar við höfum í huga að þrátt fyrir ágalla, sem Orkustofnun telur á undirbúningi málsins, mælir hún með því að frv. verði samþykkt. Og það er lögð ákaflega mikil áhersla á að þetta frv. verði samþykkt. (Gripið fram í: Af hverjum?) Af eignaraðilum að Andakílsárvirkjun, — eignaraðilum, sem gert er ráð fyrir að við bætist við tilkomu þessarar virkjunar, og af Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi. Það er lögð mjög mikil áhersla á að frv. verði samþ., vegna þess að menn gera sér grein fyrir að það þarf að halda áfram rannsóknum á þessari virkjun, en það kostar fjármuni og Andakílsárvirkjun og samtök almennings í Vesturlandskjördæmi hafa ekki mikinn áhuga á því að vera að eyða fjármunum — miklum fjármunum á mælikvarða þeirra — til rannsókna þar ef ekki eru möguleikar á því að af framkvæmdum verði ef rannsóknirnar verða jákvæðar. Þess vegna er lögð áhersla á þetta.

Hér er um að ræða mjög þýðingarmikið mál fyrir þetta byggðarlag og byggðir Vesturlandskjördæmis. En hér er líka um að ræða anga af miklu stærra vandamáli sem er kominn tími til að reyna að finna lausn á. Það er einmitt svo, að það hefur mjög skort á rannsóknir á virkjunarskilyrðum vítt og breitt um landið. Hins vegar hafa þessar rannsóknir verið stundaðar af miklu kappi og fyrirhyggju af hálfu Landsvirkjunar á umráðasvæði Landsvirkjunar, með þeim afleiðingum, að þegar við höfum þurft að taka ákvarðanir um meiri háttar virkjanir, en þá hefur verið jafnan svo að við höfum þurft að hafa hraðan á, þá hefur ekki verið talinn tími til þess að bíða eftir frumrannsóknum og öðrum rannsóknum á öðrum virkjunarskilyrðum í landinu, þannig að það hefur orðið að taka þann kostinn sem Landsvirkjun bauð, án þess að færi fram eðlilegur samanburður á virkjunarkostum víðs vegar um landið, vegna þess að rannsóknum annars staðar var svo skammt komið. Við þurfum að breyta þessu ástandi. Þó að e. t. v. í litlu sé í þessu frv., þá miðar það að því að breyta þessu ástandi. Og menn verða líka að hafa í huga, m. a. hv. 2. þm. Vestf., að þó að stórvirkjanir og stóriðja séu góð latína, þá þarf að hyggja að fleiru en stórvirkjunum og stóriðju í orkumálum landsins. Þetta mætti líka hv. 5. þm. Norðurl. gera sér ljóst.

Það er margt sem mælir með því að Alþ. samþykki það frv. sem hér liggur fyrir. Ég held að Alþ. megi ekki vera svo formfast í kröfum um gögn með slíku frv. sem þessu, að það eigi að hafna því á þeirri forsendu þegar það liggur fyrir að þeir aðilar, sem hafa verið kvaddir til að segja til um hagkvæmni þessara virkjana, mæla með virkjuninni, og þegar það liggur fyrir, að það er forsenda fyrir áframhaldandi rannsóknum og undirbúningi að þessari virkjun að þetta frv. verði samþykkt.

Ég vil taka það fram, að ég get í sjálfu sér tekið undir allt, sem hv. 2. þm. Vestf. og 5. þm. Norðurl. e. sögðu um mikilvægi þess að undirbúa mál vel. Við hljótum allir að vera sammála um slíkt. Það leikur enginn vafi á því, að það er sjálfsagt að gera það. En menn verða að hafa í huga í sambandi við frv. sem þetta, að hér er um að ræða heimild til ríkisstj., og það liggur í augum uppi að ríkisstj. getur ekki tekið ákvörðun um það, hvort hún beiti þessari heimild, nema undirbúningi málsins sé haldið áfram. Og til þess að það verði gert af þeim eignaraðilum, sem vilja kosta þann undirbúning, þá þurfum við að samþykkja þetta frv. og gera þannig mögulegt að nauðsynlegur undirbúningur fari fram, svo að fyllsta öryggis verði gætt þegar ríkisstj. tekur að lokum ákvörðun um það, hvort hún beiti heimildinni eða ekki.