21.03.1977
Efri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2679 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths., reyndar leiðrétting við það sem hæstv. ráðh. sagði áðan.

Það fer fjarri því að ég hafi fullyrt að þetta lægi þannig fyrir að hægt væri að taka ákvörðun. Ég sagði áðan, að þeir aðilar, sem hafa unnið að þessum málum, fyrirtæki sem þarna hefur unnið að, þeir aðilar teldu að það væri þannig búið að að vinna að nokkurn veginn fullnaðarhönnun lægi fyrir. Það eru þeir aðilar sem hafa fullyrt þetta, og ég tek töluvert mark á þeim, þótt það kunni vel að vera að þeim skjátlist í þessu atriði og þeir fari þar með rangt mál. (Iðnrh.: Er nú ekki rétt að byggja á því, sem rafmagnsveitustjóri ríkisins segir, hann er yfirmaður og framkvæmdastjóri rafmagnsveitnanna sem hafa þetta mál með höndum?) Jú, það kann að vera að það sé meira að marka. En ég vildi nú kannske leggja þá nokkurn veginn að jöfnu, þessa tvo aðila, því að þessir aðilar, sem þarna er um að ræða, hafa unnið mjög vel að þessu og höfðu að hluta til með forrannsóknirnar að gera einnig, þannig að ég hef tekið og viljað taka töluvert mark á þeim einnig í þessu sambandi. Hitt er rétt, að þarna greinir þessa aðila á. En það, sem ég vakti athygli á hér áðan, var fyrst og fremst það, að þessi aðili fullyrðir það, að þannig standi mál, og þarna er í raun og veru um að ræða fullyrðingu gegn fullyrðingu. (Iðnrh: Má ég spyrja, hvaða aðili er það?) Þetta er Hönnun hf., sem hefur þarna unnið að, aðilar frá þeim. Og það hefur ekki verið breitt út neitt um það, að þetta lægi fyrir á þann hátt, nema þá frá ýmsum þessara aðila, sem þarna hafa að unnið og hafa viljað um það fullyrða, að þetta lægi ljósar fyrir heldur en Rafmagnsveitur ríkisins hafa fullyrt. Það er þessi aðili, sem ég vitna þarna í að hafi talið þessi mál lengra komin en e. t. v. kann að vera að rétt sé.

Ég skal lýsa yfir fullu fylgi mínu, eins og ég hef alltaf gert, við þá samtengingu sem hér er um að ræða milli orkukerfisins í heild og Austurlandsins og það ber sannarlega að fagna henni. Ég kom ekki inn á það áðan, en hæstv. ráðh. vék að því, og það er auðvitað gert með fullu samþykki okkar. Og ég tek ekki undir þær ádeilur, sem hafa komið núna upp á síðkastið austan að hvað það snertir, að við eigum að neita ölmusurafmagni að norðan, eins og það hét í ályktun frá þeim austfirðingum nýlega.