21.03.1977
Efri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2682 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Ragnar Arnalds:

Já, herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls við þessa umr„ en vegna síðustu orða hæstv. iðnrh. sé ég mig til knúinn að gera nokkrar aths. við hans mál.

Ég hjó eftir því, að hann lýsti yfir að uppi væru tvær stefnur í raforkumálum hér á landi: Önnur stefnan væri að byggja flestar stærstu virkjanirnar á svæðinu í kringum Þjórsá og reisa síðan háspennulínur sem flyttu orku þaðan vítt og breitt um byggðir landsins. Hin stefnan væri að gera ráð fyrir því, að þó að samtenging raforkukerfisins ætti sér stað væri jafnframt um að ræða grunnaflsvirkjanir sem reistar væru í hverjum landsfjórðungi.

Ég vil lýsa því yfir, að ég tel að þeir séu ekki margir sem halda því fram að hin fyrri stefna, sem hæstv. ráðh. lýsti, eigi rétt á sér, þó að þeir kunni að vísu að vera til og þá ekki hvað síst meðal forsvarsmanna raforkukerfisins hér á höfuðborgarsvæðinu. A. m. k. get ég lýst því yfir hvað minn flokk snertir, Alþb., að við erum eindregið samþykkir hæstv. iðnrh. hvað það snertir, að æskilegt og nauðsynlegt er að reisa grunnaflsvirkjanir í hinum ýmsu landshlutum jafnframt því sem samtenging raforkukerfisins á sér stað. En munurinn á stefnu okkar annars vegar og stefnu hæstv. iðnrh. hins vegar í orkumálum er sá, að við viljum að virkjanir séu byggðar með hliðsjón af væntanlegri raforkuþörf, að vitað sé nokkurn veginn með vissu hvað ætlunin sé að gera við þá orku sem fæst úr virkjunum sem ákveðið er að byggja. Ég tel að það dæmi, sem hann nefndi hér áðan, þ. e. a. s. ákvörðunin um Hrauneyjafossvirkjun, sé einmitt dæmi um það hvernig rangt er að farið í þessum efnum þar sem tekin er ákvörðun um stórvirkjun án þess að fyrir liggi nokkrar áætlanir um hvernig orkunni verði varið.

Hæstv. ráðh. lét þess getið, að ekki væri skynsamlegt að gera ráð fyrri því að orka virkjunar væri fullnýtt þegar eftir að virkjunin hefði verið byggð, og þetta er að sjálfsögðu laukrétt hjá hæstv. ráðh. Hitt er allt annað mál, að æskilegt er að vita, á hve mörgum árum ætlunin er að virkjunin verði fullnýtt, og reyna að haga ákvörðunum í einhverju samræmi við orkumarkaðinn. Það liggur ekkert fyrir um það, hvort ætlunin er að Hrauneyjafossvirkjun nýtist fyrst og fremst á Landsvirkjunarsvæðinu eða hvort hún á að nýtast landinu öllu. Af orðum hæstv. ráðh. virðist mega ætla að aðeins verði um Landsvirkjunarsvæðið að ræða vegna þess að hann leggur svo þunga áherslu á að byggðar verði grunnaflsvirkjanir í öðrum landshlutum. En gerir þá hæstv. ráðh. sér grein fyrir því, að miðað við almenna notkun á Landsvirkjunarsvæðinu fullnýtist ekki orka Hrauneyjafoss fyrr en að 12 árum liðnum? Það tekur tólf ár að nýta orku þessarar virkjunar, og er þá óeðlilegt þó að spurt sé hvort það sé virkilega ætlunin að fara í virkjun Hrauneyjafoss með þetta í huga, að það taki 12 ár að nýta hana? Er ekki eðlilegt að menn gruni og það með ærnum rökum að annað búi á bak við, að með þessu sé ætlunin að fara út í virkjun, sem hlýtur að tengjast stóriðjuframkvæmdum, og koma til Alþ. eftir eitt eða tvö ár og segja: Þessi virkjun var útilokuð, eins og hver maður hlýtur að sjá nema sala til stóriðju ætti sér stað? Þetta er greinilega það sem nú er verið að undirbúa. Það er verið að undirbúa jarðveginn þannig, að Alþ. og alþm. sjái sig til neydd að taka ákvörðun um stórsölu frá þessari virkjun að nokkrum árum liðnum.

Hæstv. ráðh. sagði áðan að það væri ljóst að orka Kröfluvirkjunar og orka Sigölduvirkjunar yrði fullnýtt á árabilinu 1980–1981, og ekki skal þessu mótmælt. Þetta er laukrétt hjá ráðh. En það þýðir ekki endilega að þá komi engin önnur virkjun til greina þar næst á eftir en Hrauneyjafossvirkjun. Benda má á það, að Bessastaðaárvirkjun gæti verið tilbúin til notkunar jafnsnemma og Hrauneyjafossvirkjun og því ekkert því til fyrirstöðu að sú virkjun yrði næst í röðinni. Eins er um Villinganesvirkjun í Skagafirði. Hún er svo til fullhönnuð og tekur tiltölulega skamman tíma að reisa hana. Í raun og veru væri ekkert því til fyrirstöðu að þessar tvær virkjanir yrðu þær næstu sem ráðist yrði í, þannig að komið yrði í veg fyrir orkuskort á samtengdu svæði Landsvirkjunar, Laxárvirkjunar og Austurlands.

Það er bersýnilegt að ákvörðunin um Hrauneyjafoss er tekin með hliðsjón af þeim áformum að ráðist verði í nýtt stóriðjuævintýri hér syðra. Þessu til viðbótar kemur svo það áform hæstv. ráðh. að ráðast í Blönduvirkjun, sem lýsir sér í nýframlögðu frv. um það efni, en eftir því sem orkuspáin, sem birt er með því frv., segir til um, er að sjálfsögðu útilokað að nokkur þörf geti verið fyrir Blönduvirkjun eftir að Hrauneyjafossvirkjun með 210 mw. og 925 gwst. er komin í gagnið, fyrr en að mjög löngum tíma liðnum. Þar virðist einnig vera að verki áform um stóriðju enda þótt ekki fáist upp gefið hver þau áform séu.

Ég skal ekki reyna meira á þolinmæði herra forseta, vegna þess að ég veit að hann mun nú fljótlega fara að slíta fundi. Ég vil bara eindregið að loknum þessum hugleiðingum mínum um orkumálin almennt lýsa yfir stuðningi við þá till. sem minni hl. hæstv. iðnrn. gerir við afgreiðslu þessa máls, að þessu máli verði vísað til ríkisstj., vegna þess að mér þykir einsýnt að það verði að skoða miklu betur en gert hefur verið hvernig ætlunin er að haga stefnunni í orkumálum og nýtingu þeirrar orku, sem fyrir liggur og áformað er að fá á næstunni, áður en nýjar áákvarðanir um virkjanir eru teknar.