21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2688 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykn. lét mig vita um þessa umr. utan dagskrár í morgun, og er ég honum þakklátur fyrir það og tel að þannig eigi að standa að málum þegar menn telja sig þurfa að koma að málum utan dagskrár. Ég féllst að sjálfsögðu á að reyna að svara þeim fsp. sem hann hafði fram að færa, en ég verð því miður að tjá herra forseta og öðrum þingheimi að vegna annarra anna hef ég ekki tækifæri til að ræða þessi mál neitt verulega í dag. En það þýðir alls ekki það að ég sé ekki reiðubúinn að ræða þau. Það eru aðrar annir hjá mér nú sem kalla að, heimsókn utanrrh. svía. En ég skal þó reyna að gera þessu efni dálítil skil.

Vegna þessarar fsp. er rétt að geta þess strax, að hvorki varnarmálanefnd né varnarmáladeild var kunnugt um þessa flutninga fyrr en eftir á. Þess vegna var ekki sótt um nauðsynleg leyfi til þeirra. Hefur þessu þegar verið mótmælt við varnarliðið og óskað eftir fullri grg. um málið, sem væntanleg er seinni partinn í dag. Erfitt er að gera þessu máli full skil fyrr en sú grg. liggur fyrir og þau gögn sem henni munu fylgja, svo sem útsending á sjókortum um staðinn þar sem losun fór fram og sýnishorn af þessum hylkjum, en allt mun þetta verða kynnt réttum yfirvöldum. Hylki þessi eru sívöl og munu vera um 31/2 þumlungur á hæð og um 1 þumlungur á breidd, þyngd um 1 kg. Þau eru notuð til þess að losa hlustunardufl frá könnunarflugvélum. Til þess að losna við þessi hylki, sem farin voru að safnast saman á Keflavíkurflugvelli, lét varnarliðið pakka þeim í kassa og samdi svo við eigendur vélbátsins Aðalbjargar um að flytja þau út á sjó og kasta þeim þar s. l. fimmtudag, 17. þ. m. Farmurinn mun hafa vegið um 19 tonn samtals. Haft var samráð við lögreglustjóraembættið um flutninginn út af Keflavíkurflugvelli, og íslenskur starfsmaður varnarliðsins mun hafa haft samráð við Landhelgisgæsluna um hvar mætti henda farminum fyrir borð, og mun það hafa verið á svonefndu Syðra-Hrauni eða nánar tiltekið 64° 13' n. br. og 22° 25' v. lgd., en á sjálfu hrauninu mun hvorki hægt að stunda togveiðar, net- eða línuveiðar. Sumum hylkjanna var komið fyrir í þeim kössum sem þau komu í hingað til lands. Þessir kassar eru merktir þannig að sprengiefni sé í þeim, og varð það til þess að lögreglan í Keflavík stöðvaði flutninginn í bili meðan verið var að rannsaka innihald kassanna.

Varnarliðið fullyrðir að þessi notuðu hylki séu með öllu skaðlaus og geti engu tjóni valdið lífinu í sjónum. Engu að síður er hér ekki rétt að farið. Vegna aðildar okkar að Oslóarsamningnum, sem hv. 3. þm. Reykn. gat um, og samningi sem gerður var í London um varnir gegn mengun sjávar, og báðir hafa verið staðfestir af hv. Alþ., ber að sækja um leyfi fyrir slíkri losun til réttra yfirvalda. Það var ekki gert og því hefur þegar verið mótmælt. Er því sjálfsagt að framvegis verði framkvæmdinni hagað í samræmi við þá alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.

Spurningum þeim, sem hv. 3. þm. Reykn. setti fram, skal ég reyna að svara nú þegar þó að fyllri svör gætu legið fyrir síðar.

Í fyrsta lagi vil ég segja það, að a. m. k. mér og ég held öllum í okkar rn. sé fullkunnugt um bæði samninginn, sem gerður var í Osló, og eins samninginn, sem gerður var í London, því að ég man ekki betur en að ég hafi lagt báða þessa samninga fyrir hv. Alþ. til samþykktar og þeir verið samþ. hér. Er því ekki til að dreifa að fákunnátta sé hjá okkur um þetta atriði.

Það má í öðru lagi sem svar við annarri spurningu segja sem svo, að við hefðum átt að tilkynna varnarliðinu um tilvist þessara samninga. Það hefur mér vitanlega ekki verið gert, en telst að mínu viti algjör óþarfi.Ég tel að stjórnvöld Bandaríkjanna eigi að vera það vel að sér um það, sem fram fer á alþjóðavettvangi, að þau eigi að vita um tilvist slíkra samninga, enda hygg ég tæpast að öðru sé til að dreifa.

Í þriðja lagi á ég erfitt með að gefa yfirlit nákvæmlega um eftirlit með úrgangi sem af vallarsvæðinu fer, ég hef það ekki svo í huga í einstökum tilvikum hvað um þetta drasl verður. En við erum að sjálfsögðu mjög fúsir til að upplýsa það með dálitlum fyrirvara — eða ég þarf dálítinn fyrirvara til að gera því efni full skil. Ég veit þó að þær matarleifar, sem fluttar eru út af flugvellinum, fara á aðeins einn stað undir eftirliti og það er á svínabú á Reykjanesskaganum. Margumrædd Sala varnarliðseigna sér um flutninga á ýmsum afgangshlutum af þessum blessaða Keflavíkurflugvelli. Fleiri útrásir kunna að finnast fyrir afgangsvöru þaðan sem ég er ekki nægilega undirbúinn að gefa fullnægjandi skýrslu um.

Um síðustu spurningu hv. þm. vil ég segja það, að við munum að sjálfsögðu, eins og ég sagði í mínum fáu orðum, kanna þetta tilvik til hlítar og koma í veg fyrir að slíkt verði gert framvegis.