21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2703 í B-deild Alþingistíðinda. (2030)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég er í meira lagi undrandi, svo að vægt sé til orða tekið, á því að hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, sem er þar að auki forseti þessarar hv. d., skuli leyfa sér að fara með þau svívirðilegu ósannindi sem hún gerði áðan úr þessum ræðustól. Hún var að rekja hvernig borið hefði að þegar hún lagði þetta frv. fram sem nú er til umr. Hún rakti það m. a., að hún hefði boðið mér að vera meðflm. að því frv. Þetta er rétt hjá henni. En síðan sagði hún, að „þá stund, sem ég hefði haft þetta plagg hennar í höndum sem trúnaðarmál. hefði ég rétt á meðan,“ eins og hún tók til orða, „lagt mitt frv. fram í skjalasafni þingsins.“ Ég veit ekki alveg hvort hún er að saka mig hér um trúnaðarbrot eða stuld eða hvort tveggja. En ég vísa þessu á bug og ég krefst þess, herra forseti, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sanni mál sitt úr þessum ræðustól. Það er það minnsta sem hún getur gert. Hún sannaði það ekki áðan, og ég krefst þess, að hún geri það nú hér á eftir.

Ég hef mörg vitni að því að hv. þm. fer með helber ósannindi. Það er rétt hjá henni, að hún bauð mér að gerast meðflm. frv. Það er líka rétt hjá henni, að hún kom að máli við mig um þrjúleytið s. l. mánudag. Ég sagði henni hins vegar að það væri enginn þingflokksfundur hjá okkur alþb.-mönnum á mánudögum og ég ætti erfitt með að gefa henni svar samdægurs. Hún reyndist ófáanleg að veita mér frest fram yfir næsta þingflokksfund. Hún reyndist ófáanleg að veita mér frest til morguns, og það mun algert einsdæmi. Okkar orðræðu lauk svo, að hún sagði að ég gæti þá skrifað undir hjá skjalaverðinum fyrir kvöldmat. Þrátt fyrir þessa óbilgirni í minn garð sýndi ég henni þá kurteisi að reyna að hafa samband við sem flesta af samflokksmönnum mínum. En ég þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þm. hvað það er erfitt að eltast við menn um þinghúsið eða ræða við þá um stórmál þegar þingfundur stendur yfir og annað er á dagskrá, enda tókst mér ekki að ná tali af öllum mínum félögum. Þrátt fyrir það að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hafi sagt að sín vegna nægði að ég skrifaði bara undir í skjalasafninu, þá sýndi ég henni þá kurteisi að leita hana uppi á þingflokksfundi, mætti henni reyndar á ganginum þar fyrir framan, og ég lét hana vita að ég mundi ekki gerast meðflm., en leita annarra leiða. Þetta hafði hún rétt eftir mér. Þetta var um fimmleytið. Ég var þá á leið út í Þórshamar á framkvæmdastjórnarfund, en þeir eru haldnir hjá okkur kl. 5 á hverjum mánudegi. Ég ræddi við aðila á framkvæmdastjórnarfundinum, sem ég taldi að mundu láta sig mál þetta varða, og var það raunar ekki í fyrsta sinn sem alþb.-menn höfðu um þetta mál fjallað. Ég útbjó mitt frv. eftir þetta, lét síðan senda eftir því út í Þórshamar og kom því til skjalavarðar einhvern tíma á bilinu milli 6 og 7. Mér datt ekki annað í hug en þá væri frv. hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur komið inn, úr því að hún sýndi mér þessa óbilgirni fyrr um daginn og sagði að ég gæti skrifað einhvern tíma fyrir kvöldmat. Það kom mér algerlega á óvart að frv. hennar skyldi ekki vera komið, enda frétti ég síðar að hún hafði veitt Alþfl. frest þó að hún hefði ekki veitt mér þennan frest.

Hvað stuldinn varðar, ef það er það sem hún á við, þá er það auðvitað ákaflega mikill barnaskapur af þessum hv. þm. ef hún heldur það að þingflokkur Alþb. hafi ekki rætt lög um atvinnuleysistryggingarnar og áhrif skerðingarákvæðisins á atvinnuleysisbætur og fæðingarorlof. Hún þarf ekki um það að sakast við neinn nema sjálfa sig ef hún heldur það. Það mál var einmitt tekið sérstaklega til umr. á þingflokksfundi hjá okkur viku áður, og sú leið, sem ég hef lagt til í frv. því sem ég mælti fyrir í dag, var ein af þeim leiðum sem við töldum hugsanlegt að fara. Og að loknum næsta framkvæmdastjórnarfundi þar á eftir varð það ofan á að fara þá leið. Hér er því hvorki um að ræða trúnaðarbrot né stuld. En það er eftirtektarvert, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir er ekki að harma að ég skyldi ekki hafa boðið henni að gerast meðflm. að mínu frv., eða bjóða samkomulag sem mér hefði verið ljúft að gera ef hún hefði ekki verið búin að taka af skarið fyrr um daginn, að hún mundi alls ekki bíða eftir því lengur en fram að kvöldmat og ekki einu sinni fram að þeim tíma að ég gæti rætt þetta mál við hana að undangengnum eðlilegum umr. í mínum þingflokki.

Ég hygg, herra forseti, að ég hafi gefið nægilega skýringu á því, að ummæli hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, forseta Nd., um að þá stund, sem ég hef haft plagg hennar í höndum, hafi ég rétt á meðan lagt frv. mitt fram í skjalasafni þingsins, eru ósönn. Ég skilaði henni hennar plaggi kl. 5. Ég fékk ekki einu sinni ljósrit af því. Og mitt frv. fór inn síðar og þó alls ekki sem neinn stuldur, heldur sem endanleg niðurstaða umr. í þingflokki vikuna á undan og síðan við aðila sem sóttu framkvæmdastjórnarfund.

Ég harma það að forseti Nd. skuli lúta svo lágt að fara með ósannindi. Það kemur heldur ekkert málefninu við. Það er eitthvað, sem snertir skaplyndi þessa hv. þm., sem hefur komið henni til þess að gera þetta, og hún verður að eiga það við sjálfa sig. Það er engu líkara en hún túlki stöðu sina svo hér á Alþ. í þessum umr. í dag sem hún hefði beðið persónulegan ósigur í kapphlaupi. Ég ætla ekki að fjölyrða meira um það, enda verður ekki lesið í það. En hegðun hennar gefur þó þessa túlkun til kynna, og get ég ekki látið hjá líða að vitna í hið fornkveðna, með leyfi hæstv. forseta, að „lítil er lundin ef lygin er eina haldreipið.“

Það var eftirtektarvert í ræðu hv. síðasta ræðumanns, Sighvats Björgvinssonar, að hann taldi að unnt væri að samræma þessi tvö frv. Það tel ég líka, og ég tók það fram þegar ég mælti fyrir mínu frv. Ég tel ákaflega óeðlilegt að skerðingarákvæðið skuli vera látið gilda í þeim tilfellum þegar um atvinnuleysisbætur er að ræða, úr því að farið er að hrófla við því á annað borð. Ég var satt að segja ákaflega undrandi á því, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir taldi að það mætti bíða endurskoðunar hvort ætti að afnema skerðingarákvæðið varðandi atvinnuleysisgreiðslur, en hitt ætti að afgreiða án umsagnar. Hér er vissulega mikill munur á hug þessa hv. þm. til afgreiðslu mála og til þessara beggja þátta. Í báðum tilfellum er um að ræða lagabreytingu. Þetta er ekki eins einfalt og hv. 1. flm. vill vera láta. Ef svo væri, þá þyrfti auðvitað ekki að bera fram frv. Hér er ekki um að ræða einfalda breytingu á framkvæmd, heldur breytingu á sjálfum lögunum.

Ég legg á það áherslu, að það er mikið jafnréttismál að skerðingarákvæðið verði afnumið með öllu. Ég tel algerlega óviðunandi að giftar konur skuli vera sviptar atvinnuleysisbótum með öllu ef tekjur maka ná vissu marki. Í þessu sambandi verða hv. þm. að hafa það í huga, að lögin um atvinnuleysistryggingar eru fyrst og fremst til komin vegna þess ástands á vinnumarkaði er atvinnuleysi verður. Það er m. ö. o. frumhlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs að bæta mönnum upp tekjuleysi vegna atvinnumissis. Ef skerðingarákvæðið verður afnumið þannig að það nái til þessa hlutverks, þá fylgir hitt sjálfkrafa í kjölfarið og þá komumst við hjá óeiningu og sundrungu milli þeirra kvenna sem njóta eiga greiðslna úr sjóðnum. Ég vil í þessu sambandi minna á grein eða bréf í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum þar sem var einmitt bent á það, að fleiri yrðu fyrir skerðingu en þær konur sem þyrftu á fæðingarorlofi að halda. Þá var einmitt bent á þetta, að konur nytu ekki atvinnuleysisbóta vegna þessa sama ákvæðis sem hér um ræðir.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frekar, herra forseti. En ég vil benda á að það er ekki hægt að gera hvort tveggja, að telja fæðingarorlof heyra undir atvinnuleysistryggingar og halda því samt fram, að þær greiðslur séu annars eðlis. Formið býður ekki heldur upp á það. Og eina rétta lausnin og ég hygg að eina lausnin, sem konur í verkalýðsfélögum muni sætta sig við, er að þarna sé ekki gert upp á milli, að eitt atriði sé ekki tekið út úr þegar um skerðingu er að ræða, heldur sé það látið gilda fyrir allar greiðslur.