21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2713 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst rétt nú við þessa 1. umr. þessa máls að segja hér örfá orð þar sem ég er einn af flm. þessa frv.

Þegar frv. um fæðingarorlof var hér til umr. á sínum tíma var ég einn í hópi þeirra sem töldu ekki rétt að þetta væri sett í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð og sett á hann sem útgjaldalið. Nú er þetta eigi að síður staðreynd sem a. m. k. ég vil horfast í augu við. Svona er þetta í dag og eftir samþykkt laganna sem eru búin að vera í gildi á annað ár.

Það frv., sem hér er nú til umr., er fram komið fyrst og fremst og raunar einvörðungu vegna þeirrar ákvörðunar stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að skerða greiðslu fæðingarorlofs til kvenna ef maki viðkomandi aðila hefur haft ákveðið tekjumark varðandi þénustu. Ég lít á greiðslur fæðingarorlofsins nokkuð öðrum augum en atvinnuleysisbætur. (EðS: Það hefði átt að gera með lagasetningu á sínum tíma.)

Vitanlega hefði það þurft. Í mínum huga er á annan veg farið greiðslu á fæðingarorlofi heldur en greiðslu atvinnuleysisbóta. Mér finnst raunar þessi ákvörðun stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs vera með ólíkindum og ekki hvað síst það, að sá dómur, ef dóm skal kalla, skuli ekki vera felldur fyrr en heilt ár er liðið með framkvæmd laganna og greiðslur úr sjóðnum vegna fæðingarorlofsins. Það líður allt árið 1976 sem þetta virðist a. m. k. látið óátalið af hálfu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að engin skerðingarákvæði séu þarna varðandi greiðslu fæðingarorlofs. (Gripið fram í.) Ja, það virðist a. m. k. vera staðreynd að í allflestum tilfellum hefur það gilt. Meira að segja hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, einn af stjórnarmönnum Atvinnuleysistryggingasjóðs, vill ekki ótvírætt lýsa því yfir, eða mér virtist að hann vildi ekki segja það hér, að þetta hefði ekki gilt svona. (Gripið fram í.) Nei, sem sagt, hann er í vafa, sjálfur stjórnarmaðurinn. (EðS: Ég hef enga aðstöðu til þess að dæma um það.) Hvað þá með okkur hina? Við lítum svo á vegna þess að þessi úrskurður er ekki felldur af hálfu stjórnarinnar fyrr en heilu ári á eftir og kemur ekki til framkvæmda fyrr. (Gripið fram í.) Ég vil einnig taka undir það sjónarmið hv. þm., sem var hér síðast að tala, að mér finnst það ákaflega óviðurkvæmilegt af fulltrúum Alþýðusambandsins og verkalýðshreyfingarinnar í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, að þeir skuli leita til lögfræðinga úti í bæ, sama þótt prófessorar séu, til að leita lögskýringa og skjóta sér síðan bak við það. Mér finnst það ákaflega óviðurkvæmilegt og ég efast mjög um það, er reyndar fullviss um að þetta hefði vart verið gert í öðrum tilvikum en þessu af fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar.

En þó að ég hafi verið á sínum tíma andvígur því að þessi leið verði farin, að þetta væri sett á Atvinnuleysistryggingasjóð, þá, eins og ég sagði áðan, vil ég horfast í augu við þær staðreyndir, sem við blasa, og vil, að framkvæmdin verði sú sem til var ætlast, þangað til lögunum verður breytt í annað form. Ég er a. m. k. þeirrar skoðunar, að þessi löggjöf um greiðslu fæðingarorlofs sé annars eðlis en greiðslur atvinnuleysisbóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Hér er því að mínu viti a. m. k. um sérstakt réttlætismál að ræða, að þessu verði breytt, að allar konur á vinnumarkaðnum, sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru samkv. lögunum og reglugerðinni, sitji við sama borð. Ég skal fúslega taka undir það, að vissulega eru öll skerðingarákvæði í þessum efnum þyrnir í mínum augum, og það frv., sem hér var verið að ræða á undan þessu, á fyllsta rétt á sér, frv. hv. þm. Svövu Jakobsdóttur um að afnema þessi skerðingarákvæði varðandi greiðslu atvinnuleysisbóta. En ég er mjög efins í því, að þessi hv. þm. hefði flutt það frv. hefði þetta mál ekki komið upp. Ég er ekkert viss um það a. m. k. að það hefði verið vakið hér upp núna ef ekki hefði svo staðið á að þetta hróplega ranglæti, sem verið er að fremja gagnvart tugum, hundruðum eða þúsundum kvenna í landinu með því að skerða greiðslu fæðingarorlofsins, — ef það hefði ekki komið upp, þá er mér til efs að þetta hefði verið tekið upp hér nú. (SvJ: Hlustaði ræðumaður ekki á framsöguræðu mína? Jú, jú, ég hlustaði að mestum hluta á hana. (SvJ: Mestum hluta?) Mestum hluta, já. En hvað sem því við kemur, þá er þetta mín skoðun, að ég er mjög efins um að hv. þm. hefði dregið þetta mál hér inn nú, og breytir þar engu um þótt hv. þm. fórni höndum. En ég skal ekkert um það fullyrða hvort grundvöllur er fyrir því, en mér finnst ekkert ólíklegt, a. m. k. tel ég fulla ástæðu til að athuga það, hvort hægt er að samræma þessi tvö mál sem hér eru nú til meðferðar, þannig að menn geti verið á eitt sáttir. En takist það ekki, þá vil ég a. m. k. fyrir mitt leyti láta það koma alveg ótvírætt fram, að ég lít á greiðslu fæðingarorlofsins, þó í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð sé, öðrum augum en greiðslur bóta í atvinnuleysistilfellum. Ég tel að það eigi alveg tvímælalaust að koma í veg fyrir að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs í skjóli lögfræðings haldi áfram að beita þessu skerðingarákvæði. Ég get alveg verið sammála hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni um það, og það kom raunar fram mjög við umr. um fæðingarorlofsfrv. 1975, að það er ekki endalaust hægt að hlaða böggum á Atvinnuleysistryggingasjóð. En ef hann er um það efins nú að Atvinnuleysistryggingasjóður þoli þennan bagga, þ. e. a. s. fæðingarorlofið, nema því aðeins að skerða það, hvað þá með það sem inn kemur ef samþ. yrði frv. hv. þm. Svövu Jakobsdóttur? Enn þá meiri baggi yrði það á Atvinnuleysistryggingasjóði, ef það yrði samþ., heldur en þó að hitt yrði samþ. eitt sér, ef menn á annað borð eru hræddir um að hér sé verið að stefna stöðu og getu sjóðsins í voða.

Ég vil sem sagt ítreka að þetta eru mér mikil vonbrigði. Ég veit að vísu að allir stjórnarmenn, að ég best veit, í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem voru þegar þessi lög voru samþ. 1975, voru andvígir löggjöfinni eins og frá henni var gengið. Mér er það ljóst og hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga. En þeir eiga ekki að beita lagakrókum til þess að koma í veg fyrir að andi þeirrar löggjafar og réttlætið, sem átti að nást í gegnum þá löggjöf, nái fram að ganga, þó að þeir hafi sjálfir verið andvígir löggjöfinni eins og hún var þegar hún var samþ. hér á Alþ. Ég er a. m. k. ekki í neinum vafa um að flestir, ef ekki allir hv. þm., hvort sem þeir voru andvígir því að greiða þetta í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð eða ekki, hafa ekki gert ráð fyrir að slík skerðing á greiðslu fæðingarorlofs yrði upp tekin af hálfu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, þó að þeir menn, sem sæti áttu í þeirri stjórn, hafi verið andvígir löggjöfinni. Menn verða að sætta sig við þær staðreyndir sem við blasa þó að þeir gjarnan hefðu viljað fara aðrar leiðir. En þetta er búið og gert, a. m. k. í bili, og við verðum að horfast í augu við þær staðreyndir þó að við sumir hverjir höfum viljað fara aðrar leiðir. Og ég trúi því ekki að hv. þm. Eðvarð Sigurðsson sé andvígur því að breyta löggjöfinni í það horf sem fullnægir stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs til að afnema skerðingarákvæðin í þessu máli. Ég trúi því ekki að hann sé á móti því. (EðS: Hlustaði þm. ekki á ræðu mína áðan?) Ég hlustaði líka á ræðu þína, jú, (Gripið fram í.) Ja, ég á ákaflega bágt með að trúa því að eins verkalýðssinnaður maður og þessi hv. þm. er ætli að beita sér gegn þessari leiðréttingu. (Gripið fram í.) Ég dreg þetta mjög í efa og ég bið og sé hvað setur, þangað til endanlega verður úr því skorið hvort hv. þm. ætlar að beita sér gegn þessari leiðréttingu. En verði sú raunin á, þá sýnist mér líka að menn með slíku hugarfari í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hafi beinlínis verið að leita eftir ástæðum til þess að beita skerðingu í þessu tilfelli. (SvJ: Veit ræðumaður hvað hv. þm. Eðvarð Sigurðsson sagði um mitt frv.?) Ég er nú ekki hér í neinni yfirheyrslu hjá hv. þm. Alþb. En ég er til viðtals við þá hvenær og hvar sem er um þetta mál.

Ég tel sem sagt að það sé alveg ljóst, og ættu hv. þm. Svava Jakobsdóttir og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson líka — og ég veit að hann gerir það a. m. k. — að gera sér grein fyrir hvað þetta skerðingarákvæði hefur geysilegt óréttlæti í för með sér, t. d. varðandi fjölda kvenna í sjávarplássum sem vinna í fiskiðnaðinum. Líklega langsamlega flestar þessara kvenna yrðu með þessari framkvæmd skertar í rétti til greiðslu fæðingarorlofs vegna þess að maki viðkomandi hefur meiri tekjur en hann má hafa samkv. skerðingarákvæðinu. Og mér finnst afar ólíklegt að nokkur hv. þm. hafi, þegar þetta gerðist hér á Alþ., samþykkt þessarar löggjafar, verið með það í huga að láta svo og svo stóran hóp útivinnandi kvenna, t. d. í fiskiðnaðinum, vera afskiptan þessum réttindum. Mér finnst það afar ólíklegt.

Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson átti líka hlut að máli í gegnum samninga að kauptrygging væri greidd að hluta af Atvinnuleysistryggingasjóði. Mér finnst því að með það í huga ætti hann ekki að vera mjög andvígur því að hliðstætt sé upp tekið varðandi fæðingarorlof, þó að ég hins vegar viti að hann hefði miklu fremur og helst kosið að þessar greiðslur kæmu hvorar tveggja eftir öðrum leiðum. En þetta var þó samningsatriði á sínum tíma.

Ég held því að allt bendi til þess, ef menn á annað borð hafa eitthvert réttlæti í huga, að þá verði ekki komist hjá því að breyta löggjöfinni um fæðingarorlofið á þann veg að ekki verði til nein trappa til þess að skerða eða koma í veg fyrir að lögin nái þeim tilgangi sem þeim var ætlað. (EðS: Er réttlæti að skilja þá atvinnulausu eftir?) Að skilja þá atvinnulausu eftir? Ég held að ég hafi verið að segja það áðan, og ég veit að hv. þm. er mér sammála um það, að hann lítur öðrum augum á greiðslu fæðingarorlofsins heldur en atvinnuleysisbótanna. Á. m. k. sá ég að hann kinkaði kolli þegar ég lýsti þeirri skoðun minni að ég liti það öðrum augum, fyrir utan nú hitt, að ég er alveg sammála hv. þm. um að það er full þörf á því að gera betur varðandi þá sem í raun og veru, ég segi: þá sem í raun og veru þurfa á atvinnuleysisbótum að halda. En ég er þeirrar skoðunar og hef verið það lengi, að sumir hverjir fulltrúar bæði verkalýðshreyfingarinnar í landinu og vinnuveitenda hafi ekki framkvæmt löggjöfina um atvinnuleysistryggingar með þeim hætti sem til var ætlast og eins og hún er, þar hafi í mörgum tilfellum verið farið á snið við löggjöfina og bætur greiddar án þess að fullnægt væri þeim anda löggjafarinnar sem í raun og veru var gert ráð fyrir og er í henni, þ. e. a. s. að misnotkun hafi átt sér stað. Og það er því miður í allt of mörgum tilvikum og fleiri en þessu sem slíkt á sér stað og verður líklega seint komið í veg fyrir það, en eigi að síður er þetta, að ég held, það sem gerst hefur í allt of mörgum tilfellum. En ég vil spyrja hv. þm. Eðvarð Sigurðsson um það, ef hann heldur að þessi liður, fæðingarorlofið, verði til þess að stofna Atvinnuleysistryggingasjóði í hættu fjárhagslega séð, eins og það er núna, hvað honum sýnist þá um það ef öll skerðingarákvæði varðandi greiðslu atvinnuleysisbóta yrðu afnumin. Er þá ekki enn þá meiri voði fyrir dyrum að því er varðar stöðu sjóðsins?

Ég skal ekki, herra forseti, eyða lengri tíma í þetta að þessu sinni. Ég taldi rétt strax við 1. umr. að segja nokkur orð um málið, kannske ekki síst vegna þess hverja afstöðu ég hafði til frv. um fæðingarorlof á sínum tíma. En þó að löggjöfin hafi verið þá og sé að ýmsu leyti að mínu viti gölluð nú, þá getur óréttlætið orðið það mikið og verið beitt með þeim hætti að það verði ekki hjá því komist að löggjafinn grípi inn í. Og mér sýnist, eftir því sem þetta mál er nú komið, að það verði ekki hjá því komist að breyta þessari löggjöf í það form að ekki sé til staðar skerðingarákvæði eins og hér er nú um að ræða og er verið að beita.

Ég skal hins vegar bæta því við að sú reglugerð, sem gildir varðandi fæðingarorlofið og sett var á sínum tíma, er að mörgu leyti meingölluð og þyrfti ábyggilega endurskoðunar og lagfæringar við. Ég held að það hafi komið í ljós í fleiri en einu tilviki og á fleiri en einum stað við framkvæmd þessara mála eftir reglugerðinni, að þar þarf verulega úr að bæta ef vel á að vera. En ég skal ekki hafa fleiri orð þar um að sinni.