21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2722 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Í tilefni af allra síðustu orðum hv. 1. flm. þessa frv., Ragnhildar Helgadóttur, sem hún lét nú falla í lokin um hvað alþb.-menn kölluðu óbilgirni og hvað ekki, þá er ég ekki í þeim sporum að geta svarað fyrir viðskipti þeirra tveggja, hennar og hv. þm. Svövu Jakobsdóttur. En hún lét þess getið að málið hefði verið tekið út af dagskrá s. l. miðvikudag samkv. ósk minni. Ég veit ekki hvort ég á að segja að það hafi verið samkv. ósk. Ég var að vísu á fundi þennan miðvikudagsmorgun og við þær aðstæður að geta ekki fengið dagskrár Alþ. í hendur, en hringdi í skrifstofuna til að vita hvaða mál væru á dagskrá. Þá voru þessi frv. ekki á dagskrá enda þótt þeim hefði, ef ég man rétt, verið útbýtt daginn áður. Hins vegar þegar ég kem hér í salinn kl. 2 á fundartíma, þá er búið að útbýta nýrri dagskrá með þessum málum báðum. Þannig var ástatt fyrir mér þennan sama dag, að kl. 3 var búið að boða aukafund í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs til þess samkv. beiðni hæstv. trmrh. að fjalla um svör við fsp. 2. flm. þessa sama frv. um eitt og annað varðandi starfrækslu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Mér var ekki mögulegt að skorast undan því að vera á þeim fundi og sagði forseta frá að mér þætti ónotalegt að fá breytta dagskrá um þessi mál, sem ég hefði gjarnan viljað fylgjast með, um leið og ég kæmi í salinn, þegar fundartími væri byrjaður. Þetta var það eina sem ég sagði, og óskaði eftir því að geta verið viðstaddur umr. Það var auðsjáanlega ekki hægt með þessum hætti. Hún svaraði því úr forsetastóli, að vísu fundur ekki settur þá, að hún mundi ekki taka málin fyrir þann dag. Þetta var ástæðan fyrir því. Mér fannst alveg sjálfsagt að hún gerði þetta. En ég gerði út af fyrir sig engar kröfur og hefði lítið getað sagt þótt málin hefðu verið tekin á dagskrá, þó að mér hefði þótt það miður.

Áður en ég kem að öðrum atriðum vil ég aðeins nefna fleiri atriði úr ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hún sagði að það væri ekki eins með sig eins og þá sem hefðu verið að tala um þessi mál langtímum saman án þess að koma þeim í framkvæmd, það væri nú eitthvað annað. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem ég sagði hér við umr. fyrir tveimur árum eða tæplega það um sögu þessara mála. En ég held að ég verði ekki borinn þeim sökum af mínum vettvangi í verkalýðshreyfingunni að hafa verið einhver dragbítur á þessi mál. Ég held alveg gagnstætt. Rétt um það bil ári áður en þetta frv. er flutt 1975 tókst að tosa greiðslum atvinnurekenda til almenns verkafólks í verkalýðsfélögunum úr tveimur vikum og upp í þrjár. Ég er svo sem ekkert að hæla mér af því, en ég átti hlutdeild í því. Þetta snerti að vísu ekki öll verkalýðsfélög, því að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sem er formaður fyrir stóru félagi, einhverra hluta vegna var hann ekki með í þessu, og hans félag hafði ekki og hefur held ég ekki enn í dag nema tvær víkur greiddar til almenns fólks í sínu félagi þegar um barnsburð er að ræða.

Ég veit ekki hvað hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir átti við með því, að ég hefði aldrei talað um þessi lög frá 1975 sem lög. Ef hún les ræðu mína síðar eða jafnvel fengi að hlusta af segulbandi á það sem ég sagði, þá held ég að skjóti hér töluvert skökku við. Ég talaði um það oft sem lög, en hins vegar sagði ég — og það er rétt, ég sagði að þessum lögum hefði verið troðið inn í önnur lög þar sem þau ekki áttu heima, og við það ætla ég að standa.

Þá sagði hún enn fremur að ég hefði talað um þá bagga sem Atvinnuleysistryggingasjóði væru bundnir og færi sífellt fjölgandi, og ég hefði einkanlega og sér í lagi hneykslast yfir þeim greiðslum, þeim fjármunum sem færu til að greiða fyrir fæðingarorlof. Ég mótmæli gersamlega að ég hafi gert þetta. Það er afar fjarri. Það, sem ég var að sýna fram á með þeim tölum sem ég las upp og get endurtekið, var aðeins að staða Atvinnuleysistryggingasjóðs er þannig í dag, var þannig þegar þessi lög voru sett og er þó enn frekar núna, að það er alveg undir hælinn lagt að hann geti staðið við höfuðverkefni sitt ef á bjátar í atvinnulífinu, og það er að greiða atvinnuleysisbætur. Þetta sannaði ég með tölum úr fjárl. sjálfum í dag. Því hefur ekki verið mótmælt hér. Það getur svo sem vel verið að það sé hægt að gera þær ráðstafanir með fjármunum Atvinnuleysistryggingasjóðs að þessi hætta sé ekki fyrir hendi. Það er t. d. hægt að gera það með því að nema úr lögum ákvæði um að helmingur iðgjalda fari til þess að kaupa vaxtabréf í Framkvæmdasjóðnum. Hins vegar væri alveg nýtt ef hæstv. núv. ríkisstj. eða hvaða önnur ríkisstj. sem væri vildi fallast á þetta. Þá verður að segjast að ein almestu vandkvæði, sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefur átt við að stríða alla tíð, eru græðgi ríkisvaldsins í þetta fé, og undanskil ég þar enga ríkisstj. Það er ýmislegt annað sem hefur stuðlað að þessu, og því miður, skal ég játa, að sumu leyti andvaraleysi verkalýðshreyfingarinnar að standa vörð um þennan sjóð.

Þegar ég fyrr í dag talaði í þessu sama máli, þá var aðalerindi mitt í ræðustólinn, og ég held að það hafi komið vel fram í mínu máli, að ég var að andmæla aðdróttunum í garð stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs sem ég taldi að fram kæmu í grg. fyrir frv. sem er hér til umr. og einnig hefðu komið fram í ræðu hv. frummælanda í dag. Ég gerði þessu máli nokkur skil. M. a. reyndi ég að skýra það fyrir hv. þdm. og þá ekkert síður flm. þessa frv. sem virðast vera býsna lítt kunnugir því, hvernig skipan þessara mála er samkv. lögum og í framkvæmd. Þessu gerði ég nokkur skil í dag og ætla ekki að fara að endurtaka það. En hafi það verið rétt hjá mér, að fram hafi komið aðdróttanir í garð stjórnun Atvinnuleysistryggingasjóðs í grg. og í máli hv. frummælanda hér í dag, þá er það hreinn hégómi á móti því sem kom fram síðar í ræðum tveggja hv. þm. hér, og þar á ég við ræður hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar og Karvels Pálmasonar — og mætti kannske segja að það hefði einnig, en þó með miklu vægara og kurteisara orðalagi komið fram í ræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur áðan. Ég vil nú aðeins taka nokkur dæmi um þessi ummæli sem sýna hvað er á ferðinni og um hvað stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er sökuð.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson viðhafði þau orð hér, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefði reynt að finna lagakróka til að koma í veg fyrir greiðslur bóta í fæðingarorlofi. Hann sagðist enn fremur vefengja úrskurð stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og leiðbeiningar lagadeildarinnar eða lagaprófessorsins, og klykkti síðan út með því að segja að það væri óviðunandi að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skyldi leyfa sér að skerða bætur vegna fæðingarorlofs, taldi það algerlega ólögmætt.

Hv. þm. Karvel Pálmason er stundum ekki að skera utan af hlutunum, og er ég út af fyrir sig ekkert að finna að því, það er hans mál. Hann taldi dóm stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs alveg með ólíkindum og taldi einnig, eins og Guðmundur H. Garðarsson, að stjórnin hefði reynt að beita lagakrókum til þess að koma úrskurðum sínum fram. Hann lagði alveg sérstaklega þunga áherslu á að úrskurðir stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs skyldi ekki hafa komið fyrr en heilu ári eftir að framkvæmd laganna hófst. Ég skýrði hér í dag gang þessara mála og skýrði einnig hvert væri hlutverk stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðsins gagnvart bótum og bótaúrskurðum. Ég get endurtekið það hér, að það er alls ekki í verkahring stjórnarinnar að úrskurða bætur. Það eina, sem hún á að gera í því efni samkv. lögunum og ég tel alveg eðlilegt, er ef úthlutunarnefndir eru ekki sammála um bótarétt. Þá getur hvaða nm. sem er áfrýjað því til sjóðsstjórnar. Á sama hátt getur umboðsmaður trygginganna áfrýjað til sjóðsstjórnar. Og að sjálfsögðu getur sá, sem sækir um bætur og er ekki ánægður með úrskurð úthlutunarnefndar, einnig kært til sjóðsstjórnar. Það eru fjölmörg mál af þessu tagi sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur fengist við. Þetta er hennar verkefni. Það er fyrst í byrjun okt. sem fram koma kærur og fsp. til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs um framkvæmd fæðingarorlofslaganna, og undireins á næsta fundi eru þessi mál tekin fyrir, eins og ég lýsti í dag og þarf ekki að rekja hér nánar. Þar var engin bið á. Stjórnin hafði ekki möguleika á að gera þetta fyrr, og hv. þm. Karvel Pálmason getur haldið áfram að býsnast ef hann vill.

Þá gerðu þeir það báðir að ákaflega miklu atriði í sínu máli, bæði hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og einnig Karvel Pálmason, að stjórnin skyldi leyfa sér að leita lögskýringa til prófessora úti í bæ, eins og það var nú orðað, í þessum efnum. Mér skildist að þeir 2 af 7 stjórnarmönnum í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem tilnefndir eru af Alþýðusambandinu eða verkalýðshreyfingunni, hefðu svo sannarlega sjálfir átt að úrskurða þetta. Nú vil ég mjög vara við því að menn rugli hér saman lögum frá Alþ., sem ákveðinni stjórn, þar sem meiri hl. er kosinn af Alþ., er falin framkvæmd á, og svo samningum, sem verkalýðsfélög gera og geta deilt um skilning á við sina viðsemjendur og haft sina túlkun á. Það er allt annað en að stjórn kosin af Alþ. til að sjá um framkvæmd laga frá Alþ. geti leyft sér það sama. Ég veit það ekki, það má vel vera að þetta sé skoðun sumra flm. Ég trúi því vart að 1. flm. þessa frv. sé þessarar skoðunar.

En hvers vegna svo allar þessar árásir á stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs? Ég skil ekki hvers vegna hv. flm. viðhafa svona árásir, að mínu viti algjörlega tilefnislausar, gjörsamlega, og hvaða grundvöll þeir telja sig hafa til þess. Til þess að rifja upp svolítið fyrir þá og aðra hv. þm., þá held ég það væri ekki úr vegi að menn gerðu sér ljóst hvað felst í lögum um fæðingarorlof eða lögum um breyt. á l. nr. 57 27. apríl 1973, um atvinnuleysistryggingar, eins og lögin heita, og svo innan sviga fæðingarorlof. 1. gr. þessara laga hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Aftan við 5. málsgr. d-liðar 15. gr. l. komi nýr málsliður, svo hljóðandi:

Þó skulu þær konur, sem forfallast frá vinnu vegna barnsburðar, njóta atvinnuleysisbóta í 90 daga samtals.“

Hvað felst í þessum málslið 15. gr.? 5. málsgr. þessa d-liðar endar þannig: „Bótarétt getur enginn öðlast vegna atvinnuleysis sem stafar af veikindum hans.“ Skv. lögum um fæðingarorlof á að koma aftan við þetta og í beinu framhaldi: „þó skulu þær konur, sem forfallast frá vinnu vegna barnsburðar, njóta atvinnuleysisbóta í 90 daga samtals.“ Þetta eru lögin og lögin öll ekkert annað sagt, aðeins að veikindi í þessum skilningi, þegar um barnsburð er að ræða, skuli ekki skerða þennan rétt. Ekkert annað er sagt. Út af fyrir sig var stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs ekki í neinum vafa, þrátt fyrir það að menn væru kannske með mismunandi skoðanir um það, hvort vel hefði til tekist þarna. En eins og ég vitnaði til í dag í ræðu minni og er rétt að endurtaka, þá var svar prófessors lagadeildarinnar við því, hvort tekjur makans skuli hafa áhrif á greiðslu fæðingarorlofs, ákaflega skýrt. Hann segir alveg afdráttarlaust: Tekjur maka eiga að hafa áhrif á greiðslu fæðingarorlofs skv. tilteknum ákvæðum. Lagagrundvöll brestur alveg fyrir annarri niðurstöðu. — Ef stjórnin hefði ekki tekið þessa afstöðu, þá eru menn bókstaflega að gera því skóna að hún eigi ekki að starfa skv. lögunum, heldur að hafa geðþóttaákvarðanir um túlkun laganna. Það er þetta sem raunverulega er verið að segja þegar stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er ásökuð fyrir þennan úrskurð.

Ég ætla ekki að gera mönnum upp neinar skoðanir um það, hvað þeir hafi meint og ekki meint með þessari lagasetningu í fyrra. Það má vel vera að það sé rétt sem þeir segja, hv. flm. þessa frv., að tilgangurinn með þessum lögum hafi átt að vera allt annar en þar stendur. En það er svei mér ekki sök stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs þó að svona handabakavinnubrögð séu viðhöfð við lagasetninguna sjálfa. Það er þar sem potturinn er brotinn, en ekki í framkvæmd stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs á lögunum. Ef það er skoðun manna að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefði getað úrskurðað að þessi skerðingarákvæði skyldu ekki eiga við um fæðingarorlof, hvað er þá til fyrirstöðu að hún hefði einnig úrskurðað að þessi skerðingarákvæði skyldu ekki eiga við um aðrar atvinnuleysisbætur frekar en þessar atvinnuleysisbætur, sérstakrar tegundar að vísu? Það eru þessar árásir — algjörlega ómaklegar — á stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sem ég hef hér verið að fjalla um, bæði núna og fyrr í dag.

Ég hirði ekki um að taka mörg fleiri atriði hér. Að vísu gáfust mörg tilefni til þess, m. a. mjög svo í ræðu hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar. En það eru minni háttar atriði. Hann eyddi töluverðum tíma í að reyna að sýna fram á að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefði svíkist um eitt og annað í framkvæmd laganna og tilgreindi þar sérstaklega m. a. sérreikningana og það að hafa ekki reikninga og nákvæmar sundurliðanir á öllum bótum, hvar sem er á landinu, tiltækar fyrstu daga ársins. Hið síðara er hlutur sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur mjög reynt að gera. Hv. þm. hefur lagt fyrir hæstv. ráðh. þessara mála mikinn spurningalista, og eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar hefur stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs að beiðni ráðh. svarað þeim spurningum. Þar koma fram m. a. upplýsingar um sundurliðun á þessum málum öllum, og ég ætla ekki að fara að telja það upp. Hann hlýtur að fá það í hendur. Hann óskaði eftir skriflegu svari, og ég reikna með að hæstv. ráðh. geti afhent honum þau svör innan tíðar. Þetta ætla ég þess vegna að leiða hjá mér.

Ekki veit ég hvort það var vanþekking eða mismæli hjá hv. þm., að hann orðaði það svo að það væru úthlutunarnefndirnar sem greiddu bæturnar, hvort sem það eru atvinnuleysisbætur eða í þessu tilviki fæðingarorlof, skv. ósk Tryggingastofnunarinnar. Var þetta mismæli? Er þetta rétt eftir haft? Má ég spyrja hv. þm.? (Gripið fram í.) Nú, það kemur sem sagt í ljós að hv. þm. veit ekki hvernig þetta fer fram. Það er svo sem ósköp vel fyrirgefanlegt. Hins vegar er málum einfaldlega þannig fyrir komið, að skv. lögum um atvinnuleysistryggingar og þá auðvitað líka skv. lögum um fæðingarorlof eiga úthlutunarnefndirnar að annast þessar greiðslur nema þær óski eftir að Tryggingastofnunin geri það. Þannig liggur í málunum.

Ég skal ekki, hæstv. forseti, tefja þessar umr. lengur. Eini tilgangur minn með því, sem ég sagði hér í dag, og því, sem ég hef nú sagt, er að andmæla og andmæla sterklega þeim algjörlega ómaklegu árásum og aðdróttunum sem fram hafa komið hér á stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég hélt að það hefði hins vegar ekki þurft að fara neitt á milli mála hver var afstaða mín í dag til skerðingarákvæðanna. Ég lýsti því, held ég, nokkurn veginn með þeim orðum sem hefðu átt að vera skiljanleg hverjum sem væri. En það kom a. m. k. fram hjá einum hv. þm., Karvel Pálmasyni, að hann virtist ekki hafa annaðhvort hlustað á það, sem ég sagði, eða ekki skilið eða af öðrum ástæðum reynt að gera mér upp aðrar skoðanir. Ég sagði það mjög skýrum orðum í dag að ég væri andvígur þessum skerðingarákvæðum, hreinlega andvígur þeim. Hins vegar tók ég það fram, að ef þau væru afnumin, þá væri það herfileg mismunun ef þau væru afnumin aðeins varðandi fæðingarorlofsbætur, en atvinnulausa fólkið yrði að sitja eftir með skerðingarnar.

Þessi hv. þm. beindi líka þeirri spurningu til mín, hver væri afstaða mín til þessa frv. Ef eitthvað vantar á að það skiljist, þá get ég sagt það hér alveg berum orðum, að ef frv. kemur frá n. eins og það er hér lagt fram, með þessari mismunun sem í því felst, þá mun ég greiða atkv. gegn því. Ég vil ekki standa að slíkri afgreiðslu mála.

Ég skal ekki tefja þessi mál frekar. En ég endurtek það sem ég hef sagt við öll tækifæri í þessum umr. sem og áður, að ég álít að það sé rangt að fjármagna fæðingarorlof með fjármunum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég álít að það séu margar leiðir aðrar til, og þó á þetta fyrst og fremst að gerast í gegnum almannatryggingakerfið. Eins og ég sagði sessunaut mínum í dag, hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, er félag hans langfjölmennasta félagið sem nýtur þessara bóta. Af 64 millj., sem var búið að greiða í bætur vegna fæðingarorlofsins um áramótin hér í Reykjavík, var Verslunarmannafélag Reykjavíkur með tæpar 33 millj., og auk þess önnur verslunarmannafélög, sem hafa afgreiðslu bóta hér í Reykjavík, þá sjálfsagt á vegum Landssamband.s verslunarmanna, með bætur nokkuð á 9. millj. kr. Ég held að það þyrfti ekki nema svona eitthvað á milli 1/2 og 1% af greiddum launum samningsaðila þessa félags til þess að standa fullkomlega undir fæðingarorlofsbótum til fólks í þessu félagi. Þetta er langþyngsta félagið, og þá er, held ég, augljóst að það á ekki að vera fjárhagslegt vandamál hvernig þessi mál eru leyst án þess að gengið sé á fé Atvinnuleysistryggingasjóðs svo að það ásamt öðru nálgist það ;að gera sjóðinn ófæran til að standa við sínar upprunalegu skuldbindingar.