21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2728 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð. — Það var löngu áður en þetta frv. var lagt fram, eða þessi frv. sem hafa verið á dagskrá þessarar d. í dag, að ég hafði átt viðræður við flesta stjórnarmenn í Atvinnuleysistryggingasjóði um það, að ég hefði áhuga á að endurskoða á ný lög um atvinnuleysistryggingar, þó að þau séu ekki eldri en frá 1973, en þá fer fram heildarendurskoðun laganna, og svo þessi breyting sem gerð var á lögunum fyrir rúmu ári. Þessir aðilar allir hafa tekið því vel að standa að endurskoðun. Öllum er ljóst að skoðanir geta verið skiptar í sambandi við hverju skal breyta og hvað eigi að gera, og n. verður væntanlega til að fullu og öllu nú innan nokkurra daga.

Ég fyrir mitt leyti vil ekki ásaka stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs fyrir störf hennar. Ég tel að þessi stjórn hafi frá byrjun starfað vel og notið ágætrar forustu, og það hefur ekkert staðið á upplýsingum. — Þeir þurfa ekki að flissa sem ekkert segjast vita um þennan sjóð. (Gripið fram í.) Ja, það tekur nú tíma að svara allri þeirri romsu þegar menn vita ekki neitt og hafa aldrei lesið reikninga og segjast ekkert þekkja til laganna (Gripið fram í — Forseti: Ekki samtal.) Ef þm. getur ekki stillt sig aðeins — (Gripið fram í.) Ég ætla bara að biðja þm. að þegja á meðan ég tala — (Gripið fram í. — Forseti: Ekki samtal.) og kunna örlitla mannasiði. (Gripið fram í.) Ég ætla aðeins að láta vita hver sé mín skoðun, og það þarf enginn að fussa eða sveia, að menn hafa innt sín störf vel af hendi sem þar hafa verið í stjórn. Ég ætla ekkert að biðja þennan þm. neinnar afsökunar á þeirri skoðun minni. Hann getur haft sína skoðun á þessum hlutum, en ég hef mína. (Gripið fram í.) Það hefur ekkert staðið á formanni stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að gefa allar þær upplýsingar sem um hefur verið beðið hverju sinni — aldrei staðið á honum að gera það. Ég vildi óska að allir aðrir væru jafnfljótir með sínar upplýsingar og hann hefur verið. Það var í byrjun janúar sem hann kom með áætlun um tekjur og gjöld sjóðsins. Það má auðvitað deila um hvort sú áætlun stenst eða ekki, eins og um aðrar áætlanir. Í þeirri áætlun gerir hann ráð fyrir því, sem auðvitað kom engum á óvart, það var nýbúið að afgr. fjárl., að framlag ríkissjóðs verði 678 millj., framlag sveitarfélaga helmingur af þeirri upphæð og iðgjöld atvinnurekenda helmingur eða samtals 678 millj. á móti framlagi ríkisins. Vaxtatekjur af útlánum sjóðsins eru áætlaðar 340 millj. kr. Samtals er tekjuhlið þessarar áætlunar 1696 millj., en bótagreiðslur eru áætlaðar 885 millj. kr. Eftirlaun aldraðra eru áætluð 300 millj. kr., önnur gjöld 45 millj. og tekjuafgangur 466 millj. Tekjuafgangurinn er því ráðstöfunarfé auk afborgana af lánum sem eru 120 millj., þannig að 586 millj. kr. eru taldar vera ráðstöfunarfé sjóðsins á árinu 1977. Lögboðin kaup bankavaxtabréfa eða íbúðalána til Byggingarsjóðs eru sama upphæð og framlag ríkissjóðs eða 678 millj. kr. Skv. þessari áætlun verður að dómi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs greiðsluhalli 92 millj. á árinu 1977.

Nú vil ég taka það fram að ég tel að áætlun um bótagreiðslur sé ærið rífleg, svo að ég er ekki eins svartsýnn á að greiðsluhalli verði. Hins vegar má um það deila, og ég er ekki fær um að segja hvort skoðun mín komi til með að reynast réttari en skoðun stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Um það getur enginn aðili fullyrt svo að segja í byrjun ársins.

En við skulum líta á hvernig bótagreiðslum hefur verið háttað. Á árinu 1975 námu dagpeningar og kauptrygging 196 millj. kr. tæplega, en á s. l. ári námu þær 274 millj. rúmlega og fæðingarorlofið nam 135 millj. kr. Nú vitum við að hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs er að greiða atvinnuleysisbætur skv. ákvæðum laganna. Það er einnig hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs að koma í veg fyrir atvinnuleysi með því að hafa fjármagn til þess að lána þar sem staðbundið eða alvarlegt atvinnuleysi er. Það eru margvíslegar aðrar skyldur sem hvíla á Atvinnuleysistryggingasjóði í þessum efnum sem öðrum, og það er ósköp eðlilegt að þeir, sem kosnir eru til þess að stjórna einum sjóði, geri sér glögga grein fyrir því, hvort tekjur hans nægi fyrir útgjöldum og þeim skuldbindingum sem hann á að inna af hendi lögum samkvæmt.

Það féll í minn hlut, eftir lögin frá s. l. ári voru sett, að setja reglugerð, sem var allerfitt mál, því þá kom strax í ljós að það var ákveðinn ágreiningur við meiri hluta stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs um skilning á þessari reglugerð. „Ráðh. setur að fengnum till. stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs“, segir í lögunum, „ákvæði með reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara að því er varðar störf úthlutunarnefnda og úthlutun bóta.“ Þetta vildu ákveðnir stjórnarmenn í Atvinnuleysistryggingasjóði túlka á þann veg, að þar sem ekki væri í hinum nýju lögum ákvæði um að nánari ákvæði séu sett með reglugerð, þá gæti rn. ekki sett reglugerð um önnur atriði en þessi. Ég leitaði mér álits mjög færra lögfræðinga í þessu efni, og er talið að þó ekki sé tekið fram í lögum að nánari ákvæði séu sett í reglugerð, þá sé það hægt og hafi oft verið gert. Það var síðan gert í andstöðu við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sem leit öðrum augum á málið. Þetta er það sanna og rétta í þessu máli, og ég held að menn bæti sig ekkert með því að vera með einhverjar árásir á stjórn sjóðsins þó að menn hafi einhverjar aðrar skoðanir.

Ég tel að það, sem mestu máli skiptir, sé að samræmi sé og sjóðurinn standi við skuldbindingar sínar, eins og hann á að gera, en tel fráleitt, frá mínum bæjardyrum séð, að auka tekjur sjóðsins eða bæta sem sagt við iðgjaldaþörfina frá ríkissjóði eða atvinnurekstrinum í landinu eða sveitarfélögunum, því allt hefur það í för með sér hækkun fjárlaga, hækkun á kostnaði við atvinnureksturinn, hækkun á útsvörum eða öðrum tekjum sveitarfélaganna. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja þungar byrðar á hina ýmsu sjóði eða ríkissjóð eða aðrar stofnanir og tala svo um í hinni andránni að það verði að stemma stigu við þessari sífelldu verðbólgu sem eigi sér stað.

Hitt er svo annað mál, að um það geta verið skiptar skoðanir hvort þetta fæðingarorlof hafi átt að takast upp og vera innan Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég fyrir mitt leyti sé enga hættu við að það hafi verið gert. Hins vegar verður stjórnin eða þó sérstaklega endurskoðunarnefndin, sem fær þetta mál í heild til endurskoðunar, að endurskoða lögin í því heildarljósi, að tekjur hrökkvi fyrir útgjöldum og skuldbindingum lögum samkv. Og það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að allar ríkisstj., ekki ein einasta undanskilin, eru mjög ásælnar í fé bæði þessa sjóðs og annarra, því það er ekki létt verk að fjármagna allar þær framkvæmdir, sem er verið að vinna að, og koma saman lánsfjáráætlun á hverjum tíma, og þá fer það ekkert eftir því hvaða ríkisstj. hafi setið við völd. Ég tel það höfuðatriði þessa máls, að endurskoðun þessara laga takist giftusamlega fyrir þau málefni og það hlutverk sem þessum sjóði er ætlað, og það er ekki gert að mínum dómi með því að vera með óþarfa árásir á þá menn sem setið hafa í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs.