21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2737 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég tek hér raunar aðeins til máls til þess að bera af mér sakir. Ég vil nefnilega ekki una því, að því sé lýst yfir í ræðustóli að ég fari vísvitandi með ósannindi og þaðan af verri hluti — ég er ekkert að hafa eftir það orðbragð sem hér var haft um þá hluti sem ég hafði heimildir fyrir úr skjalavörslu þingsins og vitni að frá hv. samþm. okkar, hv. 6. landsk. þm. Í ræðu hv. 5. landsk. þm. virtist það koma fram sem eitthvert aðalatriði, hvort frv. hv. þm. hefði verið lagt fram mínútunum fyrr eða seinna eftir kl. 4 umræddan dag. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, og rétt haft eftir skjalaverði, að hann sagði „eftir 4, upp úr 4“. Eftir að mér hafði verið tjáð þetta fyrir viku var ég — það er rétt hjá hv. þm. — nokkuð undrandi. Ég spurði aftur um þetta í dag hjá skjalaverði, hvort þetta væri ekki rétt munað. Hann sagði mér að svo væri. En vitanlega er það rétt, að um hendur starfsmanna þingsins fer fjöldi mála, og það er afskaplega eðlilegt að það geti farið svo, að það sem starfsmaður þingsins eða annar segir að gerist upp úr 4, það geti eins verið á tímabilinu frá 4 til 5 eða jafnvel frá 4 til 5.30. Það skiptir út af fyrir sig ekki höfuðmáli. Það, sem hér skiptir höfuðmáli, er að eftir að hv. þm. fékk þetta frv. í hendurnar, þar sem m. a. er talað um endurskoðun atvinnuleysistryggingalaga og um þetta aðalatriði sem við erum hér að ræða um, og áður en sá frestur var liðinn, sem hv. þm. vissi að var til fyrir hugsanlega meðflm. að athuga málið, þá var þetta mál afhent í skjalavörslu þingsins. Ég hef ekki lýst hér einn eða neinn ósannindamann að neinu, og ég vil hafa það sem sannara reynist. Ég skýri hér aðeins frá algerum staðreyndum. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja hvað hv. þm. Alþb. segja um þetta efni til eða frá. Svona voru þessir hlutir, og ég veit að hv. þm. mælir ekki á móti því.