22.03.1977
Sameinað þing: 67. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

264. mál, byggingarþróun heilbrigðisstofnana 1970-1976 og ýmsar upplýsingar um heilbrigðismál

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þá ítarlegu og ágætu skýrslu um heilbrigðisstofnanir sem hann hefur látið taka saman og afhenda alþm., og einnig fyrir þá ítarlegu grg. sem hann hefur flutt hér um þessi mál.

Eins og kunnugt er höfðum við þm. Alþb. flutt sérstaka beiðni um það á þskj. 45, sem lagt var fram á Alþ. 25. okt. á þessu þingi, að ráðh. flytti hér skýrslu um þessi mál og um framkvæmd heilbrigðisþjónustulaganna frá árinu 1973. Ég tel að sú skýrsla, sem hér er lögð fram, sé mjög gagnleg fyrir alþm. og reyndar miklu fleiri aðila, sem láta sig þessi mál skipta, til umr. um málið og tillögugerðar. Það er að finna í þessari skýrslu mjög mikilvægar upplýsingar um þróun heilbrigðismála að undanförnu og stöðuna í þeim eins og hún er nú.

Það leynir sér að sjálfsögðu ekki að lögin um heilbrigðisþjónustu frá því í aprílmánuði 1973 marka hér dýpst spor. Með þeim lögum var fyrst tekið verulega á því máli að samræma nokkuð eða gera upp heildarstefnu varðandi heilbrigðisþjónustuna í landinu, þ. e. a. s. að ákveða um byggingu heilsugæslustöðva víðs vegar um landið og sjúkrahúsa. Þar var einnig ákveðin mjög verulega aukin þátttaka ríkisins í stofnkostnaði þessara stofnana. Það fer sem sagt ekki á milli mála að þessi löggjöf hefur verið hin merkasta, enda ætla ég að ekki síst fólk úti á landsbyggðinni hafi fundið hversu þýðingarmikil þessi löggjöf var.

Það er svo rétt líka að mínum dómi, að á árunum frá 1970 og fram að þessum tíma hefur verið efnt til stórátaka í okkar heilbrigðismálum. Þar er um að ræða gífurlega mikið verkefni og að sjálfsögðu er því verkefni ekki lokið enn, heldur stöndum við þar í miðju verki og miklu verki. En mér sýnist að hafi verið tiltölulega vel staðið að þeim málum og að þar stefni framkvæmdir í rétta átt.

Ég ætlaði ekki að þessu sinni — tel ekki vera aðstöðu til þess nú — að hefja hér neina almenna umr. um þessi mál, geri ráð fyrir því að hún geti orðið síðar, eftir því sem tími vinnst til, þegar menn hafa áttað sig dálítið betur bæði á þessari þýðingarmiklu og efnismiklu skýrslu, sem útbýtt var meðal þm., og eftir að þeir hafa líka fengið betur að átta sig á þeirri skýrslu sem hæstv. ráðh. hefur hér flutt. En það eru aðeins nokkur atriði, sem ég vil þó drepa hér á.

Mér sýnist að það sé orðið mjög aðkallandi að halda því verki áfram sem ráðgert var með lögunum um heilbrigðisþjónustu frá 1973, að gerð verði sú 10 ára áætlun sem þar er rætt um, og að hún verði tekin til endurskoðunar, eins og þar er líka gert ráð fyrir, því að það má búast við því að 10 ára áætlun um þróun heilbrigðisstofnana í landinu taki nokkrum breytingum því að viðhorf breytast oft á svo löngum tíma. En mér sýnist að það sé orðið aðkallandi, svo vel sem að þessum málum hefur verið staðið, að gera þessa áætlun og vinna þá áfram að henni með endurskoðun eins og gert var ráð fyrir. Ég held að það sé mjög þýðingarmikið til þess að þessi mál geti haldið áfram eftir settum reglum, eftir ákveðnu skipulagi, en þróist ekki, eins og oft hefur viljað verða hjá okkur, næstum að segja af handahófi.

Þá er annar þáttur þessara mála, sem að vísu kom ekki nema að litlu leyti inn í löggjöfina frá 1973, sem mér sýnist að þurfi að gefa sérstaklega gaum, en það er hlutur aldraðra í heilbrigðisþjónustunni. Það kemur auðvitað engum á óvart, að hlutfall aldraðra af íbúum landsins fer sífellt hækkandi, og það mun reyna í mjög vaxandi mæli á það að hægt sé að sinna vandamálum þeirra og þá ekki síst einmitt í hjúkrunarmálum. En stöðuna í þeim efnum tel ég nú vera mjög slæma. Það má segja að sú aðstaða, sem nú er fyrir hendi á því sviði, sé nær öll hér í Reykjavík og á nálægu svæði við Reykjavík, en hins vegar er alveg eftir að leysa það stóra vandamál úti á landsbyggðinni. Mér sýnist að því miður hafi verið stigið þar skref aftur á bak sem þurfi nú að taka til endurskoðunar, þar sem gert hefur verið ráð fyrir að ríkið hætti beinum afskiptum með framlagi af stofnkostnaði til þess að koma upp slíkum heimilum fyrir aldrað fólk, jafnt hjúkrunarheimilum sem öðrum, og þessi vandi sem sagt lagður að mestu leyti á herðar sveitarfélaga sem ég hef ekki trú á að leysi þessi mál.

Ég veit að vísu að það er hægt — og hefur verið gert að nokkru leyti — að túlka á vinsamlegan hátt eða með góðum skilningi ákvæði heilbrigðisþjónustulaga, þannig að það sé hægt að mæta þessum vanda að vissu leyti varðandi hjúkrunarheimili. En því fer víðs fjarri að mínum dómi að það sé á viðunandi grundvelli. Því held ég að við framhaldsskoðun þessara mála í sambandi við áætlunargerð þurfi einnig að gera ráð fyrir því að taka þennan þátt betur með til skoðunar, þ. e. a. s. þann sem snýr að öldruðu fólki og hjúkrunarheimilum þess og elliheimilum, vegna þess að þarna verður erfitt í framkvæmd að skilja á milli.

Þá er ég einnig á þeirri skoðun, að það sé rétt, sem hæstv. ráðh. kom hér að, að það sé orðið mjög aðkallandi að styrkja yfirstjórnina á rekstri hinna mörgu heilsugæslustöðva, sem eru að koma upp, og sjúkrahúsa í landinu, tryggja þar betur samræmingu en nú er og betri nýtingu með heildarskipulagi, því þó að það form sé haft á, sem nú gildir, að sveitarfélögin séu aðilar að þessum stofnunum, eins og sjúkrahúsum, að nokkru leyti, þá er reyndin að þetta eru orðnar ríkisstofnanir. Það er ríkið sem sér um og ræður byggingu þessara stofnana, eins og sjúkrahúsa, og í rauninni má segja að það sé ríkið sem rekur orðið þessar stofnanir. Því tel ég að það sé orðið mjög aðkallandi, að sinna þeim þætti að gera yfirstjórn á heildarrekstri sjúkrahúsanna í landinu sterkari til þess að koma á meira samræmdum rekstri.

Ég vil svo aðeins endurtaka það sem ég sagði áður, að ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þá ágætu og glöggu skýrslu, sem hér hefur verið lögð fram, og fyrir grg. hans. Ég vil vænta þess, að það gefist tækifæri til þess fyrir þá, sem þar hafa sérstakan áhuga á, að ræða þessi mál nánar síðar, en það verði ekki aðeins bundið við þennan tíma nú á þessum degi. En að öðru leyti tek ég undir það, að mikið hefur verið gert og allmikið stendur til að gera, og þar eru það fyrst og fremst lögin frá árinu 1973 sem marka stefnuna. Þörf er á að haldið sé áfram, ekki aðeins með beinar framkvæmdir, heldur einnig því skipulagningarstarfi sem þar var lagður grundvöllur að. En mér sýnist að það þurfi jafnvel að fara út fyrir þann ramma í sumum efnum með áætlaðar framkvæmdir, sérstaklega þennan þátt sem ég hef minnst á varðandi hlut aldraðra í heilsugæslumálum.