22.03.1977
Sameinað þing: 67. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2755 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

264. mál, byggingarþróun heilbrigðisstofnana 1970-1976 og ýmsar upplýsingar um heilbrigðismál

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég tek undir orð síðasta hv. ræðumanns. Hann þakkaði ráðh. fyrir þessa ítarlegu og greinargóðu skýrslu. Ég held líka að ekki sé hægt að neita því, að allt frá því í tíð vinstri stjórnarinnar hafa verið mjög miklar framkvæmdir á sviði sjúkrahúsmála í landinu. En ég held að hinu verði ekki heldur neitað, að þessum framkvæmdum hefur verið nokkuð misskipt eftir landshlutum. Staðreyndin er sú, að bygging nýrra heilsugæslustöðva gengur furðulega seint á nokkrum stöðum á landinn, og er ekki annað hægt en kvarta yfir því hvernig þar er staðið að málum.

Ég hef að vísu ekki kynnt mér ástand þessara mála víðs vegar um land, en fæ kannske tækifæri til þess við náinn yfirlestur þessarar skýrslu. Ég þekki hins vegar til allvel í mínu kjördæmi og veit að þar er hið versta ástand ríkjandi í þessum efnum. Og það var raunar staðfest í skýrslu ráðh., því hann ræddi um ástand mála á Hvammstanga, Blönduósi, Sauðárkróki og Siglufirði, og hann notaði í öll skiptin nokkurn veginn sömu orðatiltækin. Það var ævinlega þannig til orða tekið hjá honum, að um væri að ræða veruleg þrengsli og vandræði, og það er víst ekki ofmælt. Staðreyndin er sú, að ástandið á mörgum þessara staða er mjög alvarlegt, og það er satt að segja engin furða heldur, vegna þess að á undanförnum árum og það mörgum undanförnum árum hefur verið rætt um að bæta úr, en það hefur því miður ekki komist lengra. Það hefur ekkert verið gert árum saman.

Ég held að rétt sé að taka hér sem dæmi stað sem Blönduós nefnist. Ráðh. komst svo að orði, að bygging heilsugæslustöðvar á þessum stað væri í frumathugun. Ég er ansi hræddur um að fleirum en mér komi þetta orðatiltæki nokkuð spánskt fyrir sjónir. Hann bætti því við, að á þessu ári væri fyrirsjáanlegt að ekki yrði um að ræða neinar byggingarframkvæmdir á þessum stað, gaf sem sagt í skyn að byggingarframkvæmdir heilsugæslustöðvar á Blönduósi væru á algjöru undirbúningsstigi, eða eins og hann sagði oftar en einu sinni: að málið væri í frumathugun.

Við skulum líta á hvernig þetta mál stendur frá sjónarmiði Alþ. sem hefur fjárveitingavaldið í sínum höndum. Á þessu ári eru veittar 22 millj. kr. til byggingar þessarar heilsugæslustöðvar sem sögð er vera í frumathugun, og þetta er alls ekki í fyrsta. sinn sem fjárveiting er veitt til þessa verkefnis. Á árinu 1976 var líka veitt nokkur upphæð til heilsugæslustöðvar þar, eða 10 millj. kr., og það var ekki heldur fyrsta árið sem veitt var fé til þessa verkefnis, því enn má fara aftur til ársins 1975 þegar veittar voru 10 millj. kr. til byggingar heilsugæslustöðvar á Blönduósi. Og þá er upptalningunni enn ekki lokið. Ég get farið aftur til ársins 1974. Þá var veitt 1 millj. til þess að undirbúa byggingu heilsugæslustöðvar á Blönduósi. Og ég get gert enn betur. Ég get farið enn eitt ár aftur í tímann, eða til ársins 1973, og fundið fyrstu fjárveitinguna til þessa verkefnis, 500 þús. kr. En sem sagt núna, meira en fjórum árum eftir að fyrsta fjárveitingin er veitt til þessa verkefnis, heitir það á máli ráðh. að bygging stöðvarinnar sé í frumathugun, en búið að veita til verksins 43.5 millj. á 4 árum.

Ég vil leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. ráðh., að hann útskýri fyrir hv. þm. hvað verður um fjármagn af því tagi sem ég hef hér gert að umtalsefni. Þetta á sjálfsagt ekki bara við um þennan einstaka stað, Blönduós, heldur ýmsa aðra staði á landinu. En þegar Alþ. er í mörg ár búið að veita talsvert fé til ákveðins verkefnis án þess að rn. komi einu eða neinu í framkvæmd, þá er ekkert ósanngjarnt að spurt sé hvað verði eiginlega af þessu fjármagi og hvernig á því standi að nú fæst yfirlýsing um það að enn eitt árið muni líða án þess að nokkuð sjáanlegt gerist. Ég hef að vísu grun um að það sé skýring til á þessu sem heitir: hönnun verksins og hönnunarkostnaður, því að mér er það minnistætt að fyrir tveim árum var til umr. heilsugæslustöð á Sauðárkróki sem mjög líkt stendur á um. Það er líka búið að veita til hennar fjárveitingu undanfarin 4 ár, mjög svipaðar fjárveitingar og hafa verið veittar til heilsugæslustöðvarinnar á Blönduósi, án þess að nokkur skapaður hlutur hafi gerst á þeim stað. Þá var það upplýst, þ. e. a. s. fyrir tveim árum, að hönnunarkostnaður heilsugæslustöðvarinnar á Sauðárkróki væri áætlaður 30 millj. kr. og þegar væri búið að vinna fyrir talsverðan hluta af því fjármagni. Nú eru liðin 2 ár síðan þetta var, og má þá ætla að hönnunarkostnaðurinn hafi hækkað allverulega.

Ég vil aðeins skjóta því hér að, að í raun og veru væru það upplýsingar af þessu tagi sem hefðu verið afskaplega kærkomnar í skýrslu ráðh., — upplýsingar um hvað hefur verið gert við peningana sem Alþ. hefur verið að veita til þessara bygginga nú árum saman. En þessar upplýsingar er því miður ekki hægt að fá í þessari annars ágætu skýrslu ráðh.

Mér er kunnugt um það, að heilsugæslustöðin á Blönduósi hefur verið teiknuð aftur og aftur, stækkuð og minnkuð til skiptist, og í þetta hafa sjálfsagt peningarnir farið. En um þetta væri sem sagt mjög æskilegt að fá nánari grg. ráðh., því að okkur er ekki alveg sama hér á Alþ.í hvað peningarnir fara. Ég veit að hv. rn. hefur næsta dapurlega reynslu af viðskiptum sínum við teiknistofur. Ég held að það væri því ekki úr vegi að varpa fram þeirri spurningu í þessu sambandi, hvort ekki væri hugsanlegt að koma eitthvað skynsamlegra og heppilegra skipulagi á viðskipti rn. við teiknistofur eða að koma upp sérstakri teiknistofu á vegum rn., svo að ekki þurfi svona óhemjumikið fjármagn að renna til þessara hluta eins og raun ber vitni.

Ég læt þessi orð nægja um ástand sjúkrahúsmála í mínu kjördæmi. Ég get bara dregið það saman sem ég hef hér sagt. Það er búið að ræða um byggingu fjögurra heilsugæslustöðva á Norðurlandi vestra í mörg undanfarin ár og þar af að veita fjárveitingar til tveggja af þessum stöðvum undanfarin 4 ár án þess að nokkur skapaður hlutur hafi gerst á stöðunum sjálfum. Þetta þykir heimafólki harla einkennilegt, og ég get leyft mér að upplýsa það hér að lokum, að fólk er gjörsamlega að missa þolinmæðina gagnvart heilbrrn. hvað þessi mál snertir. Fólk lætur ekki blekkja sig árum saman á þennan hátt, og það á erfitt með að horfa upp á að það sé verið að sletta svo og svo mörgum millj. á hverju ári til ákveðinna framkvæmda án þess að nokkuð gerist.

Ég vil svo aðeins nota þetta tækifæri til að víkja að náskyldu vandamáli sem einnig er að finna í mínu kjördæmi, en það eru heilsugæslumál á Skagaströnd. Eins og menn minnast voru við samþykkt laganna um skipulag heilbrigðismála lögð niður allmörg læknishéruð. Eitt af þessum læknishéruðum, sem lagt var niður, var Skagaströnd. Þetta var mikið áfall fyrir íbúa þar um slóðir sem töldu sig hafa misst mikið. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því, þegar þessi breyting var gerð, að erfitt væri að rökstyðja það að sérstakt læknishérað væri á Skagaströnd eða sérstök heilsugæslustöð, miðað við þær breytingar sem gerðar voru víða annars staðar og stefndu í þá átt að þjappa læknisþjónustunni saman, og mátti þá kannske segja að skagstrendingar yrðu að lúta að því sama og margir aðrir. En við afgreiðslu málsins hér á Alþ. mæltist ég eindregið til þess að hagnýtt yrði bráðabirgðaákvæði í frv. þess efnis, að heimilt væri að skipa lækni sem starfaði við ákveðna heilsugæslustöð með búsetu og starfsaðstöðu á öðrum stað, og þetta gæti átt sérstaklega við á Skagaströnd. Þetta hefur hins vegar ekki orðið. Við þm. þessa kjördæmis höfum allir ritað rn. bréf þar sem við höfum eindregið óskað eftir því að þessi tilhögun verði tekin upp og einn af þeim læknum, sem ráðnir eru við heilsugæslustöðina á Blönduósi, hefði búsetu og starfsaðstöðu að hluta til á Skagaströnd. En rn. hefur ekki viljað á þetta fallast. Ég tel að þetta skipulag heilbrigðismála geti vel átt við á fleiri stöðum en Skagaströnd og að þetta mál geti haft almenna þýðingu. Og ég vil eindregið óska eftir því við hæstv. ráðh. og rn., að það athugi hvort ekki væri hugsanlegt að taka þetta erindi til jákvæðrar afgreiðslu þannig að auglýst sé eftir lækni sem ráðinn sé að heilsugæslustöðinni á Blönduósi, en hann sé búsettur á Skagaströnd og hafi þar starfsaðstöðu og taki þar á móti sjúklingum tvo eða þrjá daga í hverri viku, eins og hann raunar gerir. Ég hef aldrei skilið, að ekki væri hægt að taka upp þetta skipulag á þeim stöðum þar sem líkt stendur á og á Skagaströnd, að fyrir hendi er læknisbústaður og öll starfsaðstaða, og er þess vegna ekki þörf á því að leggja í sérlega mikinn stofnkostnað í þessu sambandi.

Mér væri sem sagt kært ef ráðh. gæti einhverju svarað til um hver væri afstaða hans til þessa máls eða hann gæti lofað því að taka þetta mál til frekari athugunar.