22.03.1977
Sameinað þing: 67. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2770 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

264. mál, byggingarþróun heilbrigðisstofnana 1970-1976 og ýmsar upplýsingar um heilbrigðismál

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svör hans, þó að nokkurs misskilnings gætti að vísu varðandi sumt af því sem ég hafði hér áður sagt. Ég minntist t. d. aldrei neitt á og átti alls ekki við heilbrigðislöggjöfina þegar ég minntist á að framlög til sjúkrahúsmála hefðu aukist í tíð vinstri stjórnarinnar. Ég átti einfaldlega við það, að framlög til heilbrigðis- og sjúkrahúsmála hefðu stóraukist á vinstristjórnartímanum, og ég held að það sé tiltölulega auðvelt að sýna fram á það, að t. d. milli fjárlagaáranna 1971 og 1972 var um mjög verulega aukningu að ræða. Ég hlustaði að vísu rétt áðan á ráðh. koma með prósentutölur sem hefði hugsanlega mátt túlka á annan veg og lesa annað út úr. Hann var þar með prósentutölur sem áttu að sýna hvað framlög til sjúkrahúsmála væru stór hundraðshluti af ríkisútgjöldum. Ég hef að undanförnu heyrt útreikninga af þessu tagi frá fleiri hæstv. ráðh. en hæstv. heilbrrh., og ég verð að lýsa því yfir að slíkur útreikningur er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Þar er sem sagt ekki verið að bera saman framlög til ákveðins málaflokks frá ári til árs og þá hugsanlega tekið með í reikninginn hvað miklar verðhækkanir hafa átt sér stað milli ára, heldur er önnur tala tekin með inn í dæmið, ríkistekjurnar á hverjum tíma, og þær geta auðvitað verið talsvert breytilegar frá ári til árs eftir því hvernig tekjustofnum ríkisins er háttað.

Það vill einmitt svo til að á fyrsta heila ári vinstri stjórnarinnar tók hún að sér að greiða ýmsan þann kostnað sem sveitarfélögin í landinu höfðu áður greitt, eins og stóran hluta af gjöldum til almannatrygginga, löggæslukostnað og ýmis fleiri gjöld. (Gripið fram í.) Sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu, já. Þá hef ég misskilið ráðh. En ég ætlaði að koma því að, vegna þess að ég hafði það í huga að ég heyrði svona samanburð nú fyrir skemmstu, að hann er afar hæpinn þegar miðað er við ríkisútgjöldin vegna þess að tekjur og gjöld ríkisins geta verið ákaflega breytileg eftir mismunandi forsendum. Það sama gildir reyndar um þjóðarframleiðsluna sem slíka. Ef um er að ræða hækkun á afurðaverði erlendis, t. d. verulega hækkun milli ára, þá telja menn sig e. t. v. geta sannað það með tilvísun til slíkra talna að raunverulega hafi t. d. framlög til sjúkrahúsmála lækkað eða hækkað eftir atvíkum. Ég held að það sé ekki nein viðmiðun sem eigi rétt á sér í slíkum tilvikum, engir útreikningar sem eigi rétt á sér, aðrir en þeir sem einfaldlega eru tölulegur samanburður milli ára og þá tillit tekið til verðbólguáhrifa. Og þá held ég að það fari ekkert á milli mála, að einmitt á vinstristjórnarárunum var tekið ákaflega stórt og merkilegt stökk upp á við hvað snertir framlög til sjúkrahúsbygginga.

Mér þótti gott að heyra að hæstv. ráðh. staðfesti það sem é g hafði sagt hér áðan um afleitt. ástand í heilbrigðismálum sums staðar í mínu kjördæmi og þá sérstaklega á þeim stað sem hann nefndi, Hvammstanga. Ég sagði aldrei hér áðan að ástandið í heilbrigðismálum á Norðurlandi vestra væri á hverjum einasta stað þar verra en annars staðar á landinu. Ég vakti aðeins athygli á því, að ástandið væri afleitt eins og viða annars staðar, mikil þrengsli, en þó hefði hvergi verið byrjað á neinum nýjum framkvæmdum við heilsugæslustöðvar, jafnvel þótt fé hafi verið veitt nú um margra ára skeið til sumra þessara staða, m. a. til tveggja þessara staða nú samfleytt í 1 ár.

Ég er reiðubúinn að óska hæstv. ráðh. til hamingju með hina glæsilegu teikningu af heilsugæslustöðinni á Ísafirði, sem ég efast ekki um að er öllum aðilum til mikils sóma. En ég vil hins vegar minna á að það hefur ekki vantað teikningarnar þegar heilsugæslustöðvar á Sauðárkróki og Blönduósi hafa verið annars vegar. Það hafa sannarlega verið gerðar margar teikningarnar og það fínar. Hins vegar hefur ekki náðst neitt samkomulag um það milli þessara þriggja aðila, þ. e. a. s. heimamanna, ráðuneytisins og teiknaranna, hvernig þessar teikningar eigi endanlega að líta út, og því hefur farið sem farið hefur, að það hefur ekkert gerst. Þetta er ástand sem er með öllu óþolandi og ég var að óska eftir að hæstv. ráðh. tæki hér til umr., því að það er alls ekki svo, eins og hann gaf í skyn, að rn. hafi alls ekkert með þessi mál að gera. Fm. verður að samþykkja teikningarnar. Það verður að ganga úr skugga um hvort viðkomandi teikningar standist þann staðal sem rn. gefur út, og það er því endanlega rn. sem hefur seinasta orðið í þessum efnum.

Ég veit að hæstv. ráðh. var orðinn óþolinmóður að bíða eftir því að framkvæmdir hæfust við heilsugæslustöð á Ísafirði og það að vonum. Og ég er það líka hvað mitt kjördæmi snertir. Við vitum báðir að það á ekki að vera þörf á því að bíða nema í mesta lagi eitt til tvö ár eftir því að teikningum af þessu tagi sé lokið. Þegar búið er að bíða í fjögur ár og stöðugt eru veitt fé án þess að nokkuð gerist, þá er auðvitað orðið um hneyksli að ræða.

Varðandi málefni Skagastrandar, sem við höfum skipst hér á nokkrum orðum um, þá vil ég nú vekja athygli ráðh. á því, að hann hefur misskilið það sem ég sagði um það efni. Það er alls ekki skoðun mín og það er alls ekki skoðun okkar þm. Norðurl. v., að við eigum að hverfa frá því skipulagi sem lögmælt er í lögum um heilbrigðismál. Við erum ekki að fara fram á að það sé sett sérstök heilsugæslustöð á Skagaströnd. Við vitum sem er, að ekki kemur að því fyrr en málin verða tekin til heildarendurskoðunar á landinu öllu, og þá verða fleiri staðir sem fá heilsugæslustöðvar. Við erum hins vegar að fara fram á að ráðinn sé læknir að heilsugæslustöðinni á Blönduósi sem hafi búsetu á Skagaströnd og þá um leið starfsaðstöðu, sem hann hefur reyndar þegar í dag því hann fer út á Skagaströnd og tekur þar á móti sjúklingum a. m, k. tvisvar í viku. Skagstrendingar mundu miklu betur geta sætt sig við þetta skipulag og telja sig búa við miklu meira öryggi í heilbrigðismálum ef þessi skipan yrði tekin upp. Og ég vek athygli ráðh. á því, að til þess að þessari skipan verði á komið þarf ekki lagabreytingu. Það er í lögunum um heilbrigðismál bráðabirgðaákvæði sem unnt er að styðjast við og er vafalaust enn í fullu gildi, því það var ótímabundið, og ég tel að ráðh. gæti raunverulega gengið frá málunum með þessum hætti á grundvelli þeirra laga sem fyrir eru. Ekki væri úr vegi að hann setti þá reglugerð sem staðfesti þessa skipan, og það getur hann alveg vafalaust gert á grundvelli núverandi laga.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan, að þetta atriði, sem ég hef hér vakið máls á varðandi Skagaströnd, á hugsanlega við á fleiri stöðum á landinu. Ég hef heyrt umkvartanir af svipuðu tagi viða að, og ég er sannfærður um að þessi skipan mála á fyllsta rétt á sér. Ég bið því hæstv. ráðh. og embættismenn rn. að taka til velviljaðrar athugunar hvort ekki væri hægt að taka jákvætt undir þessar óskir.