23.03.1977
Efri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2772 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

188. mál, réttur verkafólks til uppsagnarfrests og fastra starfsmanna til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfal

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Lög um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og um rétt þess og fastra starfsmanna til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla voru samþykkt á Alþ. veturinn 1957–1958. Þessi lög voru á sínum tíma stórmerkileg réttarbót, Verkalýðshreyfingin hafði þá um langt skeið reynt að ná fram þessum réttindum í kjarasamningum, en ekki tekist. Það var ekki fyrr en þetta haust að samkomulag náðist við þáv. ríkisstj., svonefnda vinstri stjórn, um að hún beitti sér fyrir því að hrinda þessu stórmerka réttindamáli alþýðu í framkvæmd og lögfesta ákvæði um að verkafólki, sem fengi laun sín greidd í tímavinnu eða með vikukaupi og hefði unnið hjá sama atvinnurekanda í eitt ár eða lengur, bæri eins mánaðar uppsagnarfrestur og auk þess 14 daga veikindaorlof eða leyfi frá vinnu í 11 daga sökum sjúkdóma eða slysa.

Í þessum lögum varð að sjálfsögðu að skilgreina með ákveðnum hætti hvað væri átt við með hugtakinu eitt ár, því að það var hægt að skilja það á ýmsa vegu og allir voru sammála um að einhver lágmarksskilyrði yrði að setja. Var átt við það að maður hefði unnið stöku sinnum hjá sama atvinnurekandanum á seinustu 12 mánuðum eða stöðugt og óslitið? Í þessu efni var farin millileið og talið nægja að viðkomandi hefði unnið sem næmi 3/4 hlutum dagvinnustunda á einu ári, en það voru á þeim tíma 1800 klst. Þessi tala var einfaldlega þannig fengin að margfaldaðar voru 50 vikur með 48 stundum í hverri viku og þá fáum við út töluna 2400, og 3/4 hlutar þessara stunda eru 1800 klst. á ári. Síðan þessi lög voru lögfest hefur hins vegar orðið sú breyting, að vinnustundafjöldi á viku hverri hefur lækkað úr 48 stundum í 40 stundir og samsvarandi vinnustundafjöldi á ári er því 2000 stundir. 3/4 hlutar þess fjölda eru 1500 klst.

Ég tel eðlilegt og sanngjarnt að lögunum sé breytt þannig að þau séu í fullu samræmi við vinnustundafjöldann eins og hann er orðinn, og ég tel að þetta geti skipt miklu máli fyrir marga sem þannig stendur á um að þeir eru þarna nærri mörkunum. Ég tel satt að segja furðulegt að þetta lagaákvæði skuli ekki hafa verið leiðrétt til samræmis við gildandi kjarasamninga í landinu og hreint ekki seinna vænna að þessu verði breytt.

Þetta mál er stærra og meira en margur hyggur við fyrstu sýn. Ég býst við að hér á höfuðborgarsvæðinu skipti þetta kannske eitthvað minna máli en sums staðar úti á landi. En staðreyndin er sú, að víða um land er vinna stopul, sérstaklega fyrir ýmsa hópa, eins og húsmæður. Það koma miklar eyður í vinnu þessa fólks og er því langt frá að þetta fólk nái auðveldlega að hafa verið samtals 1800 stundir í vinnu hjá sama vinnuveitandanum á einu ári. Og þetta á alveg sérstaklega við fiskvinnu og uppskipunarvinnu og ýmis hliðstæð störf.

Í þessu sambandi er athugandi að réttindin, sem fylgja því að hafa verið í vinnu í eitt ár hjá sama vinnuveitanda, eru ekki aðeins þau að viðkomandi hlýtur eins mánaðar uppsagnarfrest og 14 daga veikindaorlof ef á þarf að halda, heldur eru einnig samningar um orlof mjög tengdir þessu ákvæði. Í kjarasamningum sem gerðir voru fyrir liðlega einu ári, 27. febr. 1976, var það ákvæði í 8. gr. þeirra samninga, varðandi orlofslaun, að sá skoðast fastur starfsmaður sem hefur minnst eins mánaðar uppsagnarfrest. Ég geri ráð fyrir að allir hv. þm. viti hvað hugtakið orlofslaun þýðir.

Það táknar að viðkomandi fær ekki orlofsfé greitt inn á póstgíróreikning jafnóðum og hann vinnur fyrir launum sínum, heldur fær hann einfaldlega orlof greitt í þeim mánuði þegar hann tekur orlofið. Það eru orlofslaunin, og þessi réttindi eru bundin við þá sem hafa eins mánaðar uppsagnarfrest, en það eru svo aftur á móti einmitt þeir sem uppfylla skilyrði þeirra laga, sem ég er hér að gera að umtalsefni.

Breyting á lögunum í þá átt, sem ég geri hér till. um, mun að sjálfsögðu mjög stuðla að því að fjölga þeim sem rétt eiga til fjögurra vikna orlofs á óskertu kaupi. Og ég vek hér athygli á því, að þetta er ekkert smáræðis hagsmunamál á verðbólgutímum. Ég veit að vísu að ef verðlag er stöðugt, þá breytir það ekki ýkjamiklu hvort menn fá yfir árið 8.33% af launum greitt inn á póstgíróreikning eða hvort þeir taka, þegar þar að kemur, 4 vikna orlof á óskertu kaupi. Á því er ekki neinn teljandi munur þegar verðlagið er stöðugt. En ég þarf sannarlega ekki að minna hv. þm. á að svo er ekki, og þegar verðbólgan er 30–40% á ári, þá er ákaflega mikill munur á því hvort menn fá greidd orlofslaun eða orlofsfé. Sá, sem fær orlofsfé greitt á póstgíróreikning, fær raunverulega laun í orlofsmánuðinum sem eru í samræmi við meðallaun sem verið hafa á liðnu ári en sá sem fær orlof með óskertum launum á því augnabliki er hann tekur orlofið, hann fær vafalaust um það bil 20% hærri laun þann mánuðinn, miðað við þá verðbólgu sem nú er ríkjandi, og ég held að munurinn geti orðið allt að 40–50%, eftir því hver útkoman úr kjarasamningum verður í vor, en það kemur að sjálfsögðu þarna til viðbótar.

Ég vil biðja hæstv. forseta að hlutast til um að hæstv. félmrh. komi hér og svari fsp. sem mig langar til að bera upp við hann og ég hef gert honum þegar grein fyrir, en hann er því miður nú staddur á fundi í Nd. (Forseti: Ég var að koma af fundi ráðh. og hann tjáði mér að hann væri að fara upp í ræðustól í hv. Nd. svo það er úr vöndu að ráða að hafa hann á báðum stöðum í senn. Við getum frestað þessum umr., ef hv. þm. vill.) Nei, ég held ég ljúki máli mínu, en óska þá frekar eftir því að umr. verði frestað, þannig að ráðh. eigi þess kost að svara spurningunni. (Forseti: Við getum frestað umr. um sinn og tekið hana upp aftur síðar á þessum fundi e. t. v.) Já, en ætli ég ljúki ekki máli mínu.

Ég vildi sem sagt benda á það í þessu sambandi, að nú er algjör ringulreið ríkjandi á vinnumarkaðnum hvað snertir framkvæmd þess samningsákvæðis sem ég gat hér um, varðandi orlofsgreiðslur þeirra sem teljast fastir starfsmenn. Sumir atvinnurekendur hafa búið sig undir að standa við skuldbindingar sinar að þessu leyti, aðrir hafa greitt orlof þessa fólks, sem reiknað er með að fái þessi nýju réttindi, inn á bankareikning til bráðabirgða, en ekki til póstgíróstofunnar, og enn aðrir hafa, að því er ég veit best, virt þessi samningsákvæði algjörlega að vettugi og hafa borgað orlofsfé til póstgíróstofunnar eins og ekkert hafi í skorist og engir samningar hafi verið gerðir. Ég tel að það sé augljóst mál, að þegar orlofsárið byrjar lenda þessi mál í hinni mestu flækju og þúsundir manna munu ekki fá orlof greitt í samræmi við gerða samninga. Ég held því að búast megi við mikilli skriðu málaferla vegna óuppgerðra orlofsmála.

Ég vek á því athygli, að það er ekki þörf lagabreytinga til þess að framkvæmd orlofs geti orðið með þeim hætti sem samningaákvæðið gerir ráð fyrir. Það segir alveg skýrt í 4. gr. orlofslaganna hvernig fara skuli að í sambandi við greiðslu orlofslauna. Hitt er alveg ljóst, að framkvæmdahlið málsins er ekki orðin alveg nógu ljós og skýr, enda langt frá því að núverandi kerfi á orlofsgreiðslum í gegnum póstgíróstofuna hafi komist í viðunandi horf.

Ég vek á því athygli að á liðnum vetri var lagt fram hér á hv. Alþ. frv. um nýja skipan orlofsmála. Það var nýtt frv. um orlofsgreiðslur. Þetta frv. var afgreitt frá hv. Ed., en komst aldrei í gegnum Nd., og það er m. a. þess vegna sem þessi mál eru í hinni mestu bendu og hnút. Ég satt að segja er mjög undrandi á því að nýtt frv. skuli ekki hafa séð dagsins ljós á þessum vetri. Það var einmitt það sem ég vildi spyrja ráðh. um, hvort hann ætlaði ekki að leggja frv., sem var samþ. hér í Ed. í fyrra, fyrir Alþ. að nýju, annaðhvort í óbreyttu eða breyttu formi. Ég vil benda á að það er algerlega óhjákvæmilegt, ef ekki verður af því að orlofslögunum verði breytt á þessum vetri, að félmrh. gefi út nýja reglugerð um framkvæmd þessara mála til þess að hjá því verði komist að þessi mál lendi í einum hnút núna í vor og sumar.

Ég vil svo að lokum minna á að við stöndum frammi fyrir miklum og hörðum kjaraátökum nú innan tíðar. Verkalýðshreyfingin hefur sett fram ákveðnar kröfur, — kröfur sem ekki geta talist annað en sanngjarnar og eðlilegar. Hún gerir þær kröfur að lægstu kauptaxtar verði a. m. k. 100 þús. kr. miðað við mánuðinn og miðað við þá vísitölu sem var í nóv. s. l. Kröfurnar eru einnig á þann veg, að annað kaup hækki að sömu krónutölu og að verðbætur verði greiddar á laun að nýju. Krafan, sem lögð er fram í vor, er fyrst og fremst um það að launafólk endurheimti það sem það hefur misst á liðnum tveimur árum. En þó er boðið að vísitölukerfi verði ekki með sama sniði og hafði lengi verið hér, heldur verði hagað þann veg, að sama krónutala komi á öll laun, en ekki eins og áður var, að um verði að ræða sömu prósentuhækkun á öll laun. Verkalýðshreyfingin leggur sem sagt þyngsta áherslu á að rétta hlut þeirra sem lægst hafa launin, enda þótt aðalkrafan sé um leið sú, að allir launþegar fái nokkra leiðréttingu vegna þess sem þeir hafa misst á seinustu þremur árum.

Í þessu sambandi er vert að minna á að það er fyrst og fremst ríkisstj. sem á sök á þeirri kjaraskerðingu sem orðið hefur. Það var hæstv. ríkisstj. sem afnam vísitöluuppbætur á laun, og það var þessi sama ríkisstj. sem beitti sér fyrir gengisfellingum sem hafa leitt til þess að erlendur gjaldeyrir hefur hækkað 1 verði um liðlega 100% á tveimur og hálfu ári. Verðbólgan, sem hefur geisað nú seinustu tvö árin, er tvímælalaust að miklum meiri hluta til vegna beinna stjórnvaldsaðgerða, eins og auðvelt er að sýna fram á, og það eru þessar aðgerðir sem hafa rýrt kjörin svo að launafólk er nú neytt til þess enn einu sinni að heyja harðvítuga kjarabaráttu. Eins og það mál, sem ég hef gert hér að umræðuefni, þ. e. a. s. lög um rétt verkafólks til uppsagnarfrests og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, ber vitni um, þá hefur það verið svo að vinstri stjórnir, sem setið hafa að völdum hafa aukið rétt verkafólks á fjöldamörgum sviðum, og mætti ekki aðeins nefna það dæmi sem ég hef hér gert að umtalsefni, heldur minna á aðgerðir vinstri stjórnarinnar á sínum tíma, bæði hvað varðar styttingu vinnutímans og lengingu orlofs. En það hefur sem sagt komið í hlut hægri stjórna að rýra kjörin jafnt og þétt svo að verkalýðshreyfingin hefur óhjákvæmilega lent í vörn, eins og þróun kjaramála seinustu tvö árin hefur sýnt. Það er sem sagt útlit fyrir harðvítug átök á vinnumarkaðnum vegna þess að verkalýðshreyfingin hefur ekkert annað úrræð í að óbreyttri stjórnarstefnu en beita víðtækri vinnustöðvun. Það, sem stjórnvöld ættu nú að gera að sjálfsögðu, er að ganga til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar. Það verða að sjálfsögðu miklar launabreytingar í vor, hvort sem ríkisstj. líkar það betur eða verr. Undan því verður ekki vikist. Breytingar á launakjörum fólks eru óóhjákvæmilegar og sjálfsagðar. Þessar breytingar eru ekkert annað en afleiðing af stefnu. ríkisstj. Spurningin, sem við stöndum frammí fyrir, er aðeins sú, hvort efnahagsmálunum verður hagað á þann veg á næsta ári að þessar breytingar geti átt sér stað án þess að af því hljótist veruleg verðbólgualda. Þetta er framkvæmanlegt ef vilji er fyrir hendi, og á það hlýtur að reyna.

Það mál, sem ég hef hér gert að umtalsefni, er vissulega smátt í samanburði við þessi stóru mál sem eru efst á baugi í kjaraátökunum í vor. En ég minni samt á það hér að lokum, að þetta er mikilsvert hagsmunamál fyrir talsverðum fjölda fólks sem nú er lausráðið í vinnu, þótt það hins vegar vinni að staðaldri hjá sama atvinnurekanda og eigi því fyllsta rétt til að öðlast þann rétt sem fastráðið fólk hefur lögum samkvæmt.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr., sem ég vænti að verði frestað um sinn svo að félmrh. verði gefinn kostur á að svara fsp. minni varðandi orlofsmálin, að þá verði þessu frv. vísað til hv. félmn.