23.03.1977
Efri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2776 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

200. mál, innlend endurtrygging

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frá því að lög nr. 43 1947, um innlenda endurtryggingu, stríðsslysatryggingu skipshafna o. fl., voru sett fyrir nærfellt 30 árum hefur þeim aðeins þrisvar sinnum verið breytt lítils háttar. Tvær breytingarnar, sú fyrri í l. nr. 12/1955 og sú síðari í l. nr. 5/1964, fjölluðu um hámark á arðgreiðslu félagsins. Leyfilegur hámarksarður er nú 2% á ári yfir vöxtum á almennum sparisjóðsbókum án uppsagnarfrests í Landsbanka Íslands. Þriðja breytingin er lög nr. 61 1962, sem fjalla um breytingu fasteignaskatts og aðstöðugjalds, en félagið greiðir nú fasteignaskatt og aðstöðugjöld eftir þeim reglum sem um þau gjöld gilda á hverjum tíma.

Aðdragandinn að stofnun Íslenskrar endurtryggingar var sá, að þegar kafbátahernaðurinn byrjaði 1939 var stofnað félag sem kallað var Stríðsslysatryggingarfélag íslenskra skipshafna. Hlutverk þess var að annast stríðsslysatryggingar íslenskra skipshafna eftir því sem lög eða samningar sögðu til um á hverjum tíma. Nokkrir sjóðir söfnuðust hjá þessu félagi. Með l. nr. 106 1943 var ákveðið að þegar stjórn félagsins teldi þáverandi aðalhlutverki þess lokið skyldi nota sjóði þess sem fjárhagsgrundvöll almennrar endurtryggingar í landinu, einkum sjótryggingar. Nú var það svo, að samkv. lögum Stríðstryggingafélagsins átti að greiða mikinn hluta af eignum þess sem ágóðahluta þeirra sem iðgjöldin höfðu greitt er félagið hætti störfum. Ríkissjóður hafði á þeim árum greitt mikinn hluta iðgjaldsins fyrir fiskibátana, sem ekki sigldu með afla, og var því langstærsti iðgjaldagreiðandinn.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, skiptist efnislega í tvo þætti. Hinn fyrri fjallar um áhættufé félagsins, en sá síðari um stríðsslysatryggingu skipshafna.

Í lögum frá 1947 var áhættufé félagsins ákveðið 6 millj. kr. Það var mjög ríflegt á þeim tíma, svo ríflegt að það var mun hærra en lágmarkskröfur um hlutafé eða ábyrgðarfé vátryggingarfélaga voru þá í nágrannalöndum okkar. Samkv. heimild í 5. gr. l. hefur síðan verið bætt 400 þús. kr. við áhættuféð, en það segir lítið á móti þeirri verðrýrnun íslensku krónunnar sem orðið hefur á síðustu 30 árum. Nú er svo komið, að áhættufé félagsins er óeðlilega lágt miðað við þá starfsemi sem því er ætluð. Þó að eigið fé félagsins sé svo hátt að það fullnægi ákvæðum l. nr. 26 1973, um vátryggingarstarfsemi, varðandi það atriði, er æskilegt að félag, þar sem ríkið er stærsti eigandinn, hafi ekki lægra áhættufé en það lágmarkshlutafé eða ábyrgðarfé sem gildir fyrir önnur vátryggingarfélög.

Rýrnun áhættufjárins mæld í erlendum gjaldeyri hefur valdið félaginu verulegum óþægindum í viðskiptum við erlend vátryggingarfélög. Það hefur komið fyrir að félagið hefur misst af hagstæðum viðskiptum vegna þess að áhættufé þess hefur þótt of lágt. Mönnum getur sést yfir að eigið fé félagsins er í raun meira en það sýnist, vegna þess að bókfært verð fasteigna þess er mjög lágt. Þess er ekki að vænta að erlendir aðilar lesi reikninga svo vandlega að þeir veiti því athygli þótt þetta sé útskýrt í aths. Það er því orðið mjög aðkallandi að hækka áhættufé félagsins, og í frv. er gert ráð fyrir að það verði gert með þeim hætti að bókfært verð fasteigna verði fært upp í 90% af brunabótamati. Út á nokkurn hluta þeirrar hækkunar á eigin fé, er við það kæmi fram, yrðu gefin út jöfnunaráhættufjárbréf fyrir sexfalda upphæð innborgaðs áhættufjár. Við það kæmist innborgað áhættufé upp í 35 millj. 440 þús. Þar með er það orðið svo hátt að það samsvarar vel lágmarkskröfum um hlutafé eða ábyrgðarfé í ýmsum nágrannalöndum okkar, t. d. í Englandi. Nokkur ástæða er til að hafa hliðsjón af því, vegna þess að Endurtryggingin fær um 1/5 hluta af iðgjaldatekjum sínum af erlendum endurtryggingarsamningum. Þegar búið væri að hækka áhættuféð á þennan hátt, þá er ekki lengur þörf á að halda þeim áhættufjárábyrgðum sem félagið hefur nú. Þær eru aðeins 856 þús. kr. ábyrgð ríkissjóðs og frá Tryggingastofnun ríkisins, Brunabótafélagi Íslands og Sjóvátryggingafélagi Íslands hf. 60 þús. frá hverjum. Þessar ábyrgðir eru því felldar niður í frv., enda orðnar úreltar fyrir löngu. Þá er í frv. gert ráð fyrir að ráðh. geti síðar heimilað frekari hækkun áhættufjárins ef nauðsyn krefur, t. d. vegna áframhaldandi verðbólgu, ef hún verður ekki alveg stöðvuð.

Á styrjaldarárunum síðari voru hér í gildi lagaákvæði um að útgerðarmenn skyldu kaupa sérstaka stríðsslysatryggingu fyrir áhafnir skipa sinna. Fyrstu lög um þessa skyldutryggingu voru frá 7. maí 1940. Skyldutryggingin hélst til ársloka 1947, en féll þá niður samkv. ákvæðum í 1. nr. 43 frá 1947. Hinsvegar var stríðsslysatryggingum skipshafna haldið áfram lengi eftir það samkv. ákvæðum í samningum útvegsmanna og sjómanna, m. a. vegna hættu af völdum tundurdufla. En þær voru síðast keyptar á árinu 1972.

Ýmis ákvæði laganna frá 1947 um stríðsslysatryggingar skipshafna, svo sem um iðgjöld, upphæð bóta og fleira, eru algerlega úrelt. Því eru þau felld alveg niður í þessu frv. Hins vegar er haldið almennum ákvæðum um stríðsslysatryggingu skipshafna, svo að hún sé tiltæk ef á henni þarf að halda. Ráðh. er gefin heimild samkv. frv. til að ákveða að kaupa skuli slíka tryggingu og setja reglur um bætur, nema samið sé um það atriði milli útvegsmanna og sjómanna.

Í stuttu máli sagt er nánast verið að færa þetta frv. til nútímaverðlags, og það er auðvitað fyrst og fremst hækkun áhættufjárins sem hér er um að ræða. Breytingin í sambandi við stríðsslysatrygginguna er auðvitað nauðsynleg vegna þess að þessi 30 ára gömlu ákvæði í lögunum eru fyrir löngu orðin úrelt. Ég tel fullvíst að um þetta frv. ríki fullkomin samvinna að afgreiða það, því að það er svo sjálfsagt og eðlilegar breytingar sem frv. gerir ráð fyrir. Það er flutt að beiðni stjórnar Íslenskrar endurtryggingar, og þar eiga sæti fulltrúar ríkisins, fulltrúar þeirra aðila, sem áttu þátt að félaginu upprunalega, og tryggingafræðingar þess, sem leggja áherslu á að frv. nái fram að ganga.

Ég vænti þess að n., sem fær frv. til afgreiðslu, reyni að hraða afgreiðslu þess, því að þetta mál er mjög einfalt og það fylgir málinu mjög ítarleg grg. og nákvæm. En ef einhverra upplýsinga þarf að leita, þá bendi ég n. sérstaklega á forstjóra Íslenskrar endurtryggingar, K. Guðmund Guðmundsson tryggingafræðing, sem hefur verið forstjóri þessa félags frá byrjun, og mun hann vafalaust vera reiðubúinn að gefa allar þær upplýsingar sem um er beðið.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til heilbr.- og trn.