23.03.1977
Efri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2779 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

190. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Við hv. þm. Geir Gunnarsson flytjum á þskj. 381 frv. til l. um breyt. á l. nr. 97 frá 1976, um Framkvæmdastofnun ríkisins. Frv. mælir fyrir um stofnun Fiskeldissjóðs er falli undir lög um Framkvæmdastofnun ríkisins með líkum hætti eða sama hætti og aðrir sjóðir sem Framkvæmdastofnun ríkisins fer með, og miða 1., 2., 3., 4. og 5. gr. frv. að þeim breytingum beinlínis, svo og 9. og 10. gr. þess. 6. gr. frv. er svo hljóðandi: „Ríkissjóður leggur Fiskeldissjóði til 600 millj. kr. með jöfnum greiðslum á næstu 5 árum, í fyrsta sinn árið 1978.“ Og 8. gr., sem skilgreinir einnig hlutverk Fiskeldissjóðs beinlínis innan ramma laganna, hljóðar svo: „Hlutverk Fiskeldissjóðs er að veita lán til fiskeldis, allt að 50% af stofnkostnaði, einnig að veita óafturkræf framlög til grundvallarrannsókna og tilraunastarfsemi á sviði fiskræktar.“

Í grg., sem ég mun víkja að hér á eftir, er að finna rökstuðning fyrir því hversu æskilegt sé að fiskeldi hér á landi verði eflt með þeim hætti sem ráðgerður er í frv. En áður en ég vík að sjálfri grg. kemst ég ekki hjá því, þó í mjög litlu sé, að víkja aðeins örfáum orðum að því brautryðjendastarfi sem unnið hefur verið hér á landi í fiskeldi á liðnum áratugum við frumstæð skilyrði og lítil efni. Þetta verður ekki samhangandi sögulegt yfirlit, heldur stiklað á stóru.

Vil ég þá fyrst geta kempunnar og hugvitsmannsins Þórðar Flóventssonar í Svartárkoti, sem hóf sjálfur af eigin rammleik og af eigin hugviti fiskiklak, silungsklak og fiskirækt í Svartárvatni fyrir síðustu aldamót, en ferðaðist síðan víða um landið og kom upp klakhúsum, hafði þá að vísu kynnt sér af erlendum fræðiritum nokkuð þær aðferðir sem erlendis tíðkuðust, en byggði þó fyrst og fremst á eigin athugunum og eigin hugviti. Ummerki eftir klakhúsin hans Þórðar í Svartárkoti getur að fínna allvíða á landi hér enn í dag, og sums staðar verða þau mannvirki, sem hann hlóð með sínum sterku höndum, ekki kölluð rústir þó ekki séu þessi klakhús enn þá í notkun. Af brautryðjendastarfi Þórðar Flóventssonar í Svartárkoti mætti segja margar fróðlegar sögur og sumar undur skemmtilegar, en þær verða að bíða betri tíma og annars vettvangs.

Næst er að geta þess raunverulega, svo að stiklað sé enn á stóru, að Þórarnar tveir — e. t. v. er það ekki tilviljun að báðir hétu Þórarnar, því að það nafn tíðkast svo mjög í Öxnarfirði, það voru Þórarinn Haraldsson í Laufási og Þórarinn Jóhannsson í Krossdal — hófu silungseldi í Litluá þar fyrir norðan árið 1941 og héldu því áfram með ágætis árangri og hafa síðan báðir Þórarnar tveir sýnt mjög mikinn áhuga á því að lagt yrði fé í fiskrækt í Öxarfirði og fisheldi.

Þá væri óverðugt að geta ekki Skúla Pálssonar á Laxalóni, sem svo er nefndur, sem hóf hér fiskrækt, fiskaeldi að dönskum sið rétt eftir styrjöldina, þá fyrst og fremst ræktun regnbogasilungs til útflutnings. Hann hefur síðan 1945 lagt í það brautryðjendastarf sem fiskeldi er hér á landi alla atorku sína og allt sitt fé, unnið þarna að mínu viti stórmerkt starf, sem ég vona að honum verði síðar þakkað betur fyrir en gert hefur verið til þessa.

Það liggur í augum uppi að Veiðimálastofnunin, embætti veiðimálastjóra, hefur lagt hér þungt lóð á metaskálarnar í fiskræktarmálum. Það starf, sem stofnun hans hefur unnið við tilraunir og við fiskrækt, hefur vissulega ýtt þessum málum mjög fram á leið.

En þess ber að gæta ef við sleppum starfi Skúla Pálssonar, — og ég held að ég geti ekki stillt mig um það, fyrst ég nefni hann öðru sinni hér, að láta í ljós þá skoðun mína að betur hefðu opinberir aðilar stutt örlítið rösklegar við bakið á honum en raun hefur verið, — en að því starfi slepptu, sem laut að eldi á fiski til slátrunar, hefur öll tilraunastarfsemi hérna og öll fiskrækt miðað að því að koma upp laxfiskum, fyrst og fremst laxi og einnig silungi, í veiðivötnum okkar.

Frv. það, sem við hv. þm. Geir Gunnarsson flytjum hér, miðar fyrst og fremst að eldi á fiski til slátrunar. Ég mun leyfa mér að lesa grg., sem frv. fylgir, með nokkrum innskotum til nánari skýringar:

„Svo sem kunnugt er hafa aðrar þjóðir, svo sem sovétmenn japanir, bretar og norðmenn, þegar byrjað fiskeldi í sjó með góðum árangri. Eru þegar tiltækar upplýsingar um niðurstöður erlendra rannsókna á þessu sviði og um árangur þar sem fiskrækt hefur verið komið upp á grundveili þeirra. Nefna má laxeldi sem norðmenn stunda nú í sjó með furðugóðum árangri og nýta úrgang frá fiskiðjuverum til fóðrunar. Hefur nýting þessa ódýra fóðurs verið með ólíkindum drjúg, þannig að 4–6 kg af fiskúrgangi nægja til framleiðslu á einu kg af laxi. Miðað við núgildandi verðlag á þessu fóðri og markaðsverð á laxi mun óhætt að fullyrða, að í engri grein búskapar sé fóðurkostnaður jafnlítill og í fiskeldi, enda mun fiskúrgangurinn, sem norðmenn nota í þessu skyni, gefa meira verð en sjálf matvaran sem fiskiðjuverin framleiða úr fiskinum.“

Það má vera ýmsum í fersku minni er fréttirnar tóku að berast hingað til lands fyrir nokkrum árum um furðulegan árangur sem norðmenn næðu nú í laxaeldi í sjó. Tortryggðu ýmsir, þegar þetta spurðist hingað, að 5 kg af frosinni loðnu eða frosnu slógi, blandað með rækjuskel eða humarskel, gæfu í fóðrun eitt kg af ágætislaxi. Samkv. gömlu kenningunni var það algert lágmark að það færu 10 kg af fóðri til þess að skila einu kg af lifandi holdi. En þegar eftir var gengið kom í ljós að þessar fréttir voru sannar. Norðmenn höfðu þá þegar í nokkur ár ræktað lax í netbúrum eða hringnótum, lokuðum í botninn, í ýmsum hinna syðri fjarða við vesturströnd Noregs, þar sem sjór er hlýjastur að vetrinum, með mjög góðum árangri, og nú er svo komið að þeir framleiða með þessum hætti allt að því tvöfalt meira magn af ágætislaxi heldur en það sem þeir veiða í ánum sínum og í sjó.

Í grg. segir síðan áfram:

„Ljóst er að á landi hér fellur til fiskúrgangur sem nægja mundi til framleiðslu á þúsundum lesta af dýrmætum matfiski — og ef reiknað væri með hagnýtingu loðnu í þessu skyni, þá til framleiðslu á tugþúsundum lesta af laxi.“

Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá sérfræðingum sem stundað hafa vísindalegar tilraunir á þessu sviði hin síðari árin, er fullkomin ástæða til þess að ætla að við bestu skilyrði hér á landi mundi ekki þurfa nema 4 kg af fóðri til þess að framleiða kg af laxi. Fóðurmagnið gæti farið í hæsta lagi upp í 6 kg. fyrir kg. Reiknað verð á þessu fóðri nú, þar sem innifalinn er geymslukostnaður í frystihúsi, yrði 90 kr. fóðurkostnaður til þess að framleiða kg af laxinum sem samkv. verði undanfarinna tveggja ára ætti ekki að seljast undir 600 kr. kg.

„Tilraun, sem gerð hefur verið hérlendis á vegum Fiskifélags Íslands til laxeldis í sjó, bar ekki þann ávöxt sem menn gerðu sér vonir um, enda var til hennar stofnað af vanefnum í ýmsum skilningi.“

Hér vil ég alls ekki varpa neinni rýrð á tilraun Fiskifélags Íslands þótt hún væri gerð af vanefnum hvað fjármagn snerti. Vó þar upp á móti bjartsýnin sem stundum hefur reynst okkur íslendingum alveg prýðilega, en stundum valdið nokkrum vonbrigðum. Vanefnin lágu einnig í skorti á þekkingu á þessu sviði. Tilraun til eldis á laxi með norsku aðferðinni uppi í Hvalfirði leiddi í ljós að jafnvel þar við Faxaflóa, jafnvel í Hvalfirðinum, verður sjór of kaldur á vetrum til þess að fiskurinn geti haldið þyngd, hann megraðist þar og léttist að vetrinum, og að þar er jafnvel hætta á því, í sjálfum Hvalfirði, að hitastig fari niður fyrir 0 gráður og þá drepst fiskurinn. Hins vegar fór því víðs fjarri að þessi tilraun, sem Fiskifélagið gerði í Hvalfirði, yrði til einskis gagns, því að segja má að vegna hennar hafi fengist upplýsingar sem benda mjög eindregið til þess að ekki verði einhlítt að nota óhitaðan sjó til þessarar starfsemi neins staðar á landi hér, á öllu svæðinu frá Hvalfirði vestur og norður um land og til suðurstrandarinnar, að við gætum ekki hagað eldinu á svipaðan hátt og norðmenn, sem nota þessar hringnætur sínar inni í fjörðum þar sem skjól er fyrir haföldu. Þetta getum við ekki gert vegna þess að sjórinn er of kaldur á þessu svæði og við verðum að bregða á annað ráð.

Ég minntist áðan á tilraunir sem sérfræðingar höfðu gert hér á landi í þessu skyni, og er frá þeim að segja að þær hafa verið býsna merkilegar. Þær hafa verið gerðar á vegum Líffræðistofnunar Háskóla Íslands í samstarfi við embætti veiðimálastjóra og fyrst og fremst beinst að áhrifum umhverfisþátta á vöxt og þroska laxfiska. Þar er um undirstöðurannsóknir að ræða. En fjárskortur stendur í vegi fyrir því, að þeim tilraunum verði lokið, og torveldar jafnframt uppsetningu þeirra eldisstöðva, sem nauðsynlegar eru til sannprófunar á niðurstöðum þessara tilrauna.

„Fyrrgreindar tilraunir, sem gerðar hafa verið af hálfu íslenskra líffræðinga, hafa m. a. beinst að kynblöndun laxfiska þeirra, sem best sameina vaxtarhraða og saltþol tveggja tegunda, og einnig að því hvert vera muni æskilegt hlutfall seltu og hitastigs í vatninu.“

Frá þessum tilraunum með kynblöndun fiskanna, hitastigið og seltuþolið er það m. a. að segja, að sérfræðingarnir, sem hér um ræðir, hafa blandað saman laxi og sjóbirtingi, fengið út fisk nokkurn sem þeir kalla laxbirting og er þeim kostum búinn, að seyði ganga fyrr til sjávar, þola fyrr seltu heldur en laxaseiði, og einnig þeim kostum búin, að vegna þess að þetta verða geldfiskar sem upp vaxa, þá leggja þeir ekkert, hvorki hrogn né svif, heldur þeim mun meira í sitt gómsæta og dýrmæta hold.

Mér skilst að niðurstöður tilrauna bendi til þess, að æskilegasta seltustig eldisvatnsins sé minna en gengur og gerist í sjó, heldur eigi það að vera sem næst eðlilegu saltmagni í blóði fiskanna, þannig að þeir þurfi ekki að leggja orku í það að vinna seltu úr blóðinu aftur. Og æskilegt hitastig mun vera öllu hærra en það sem best gerist við náttúrleg skilyrði, jafnvel hér við suðurströndina.

Ég ætla mér ekki að reyna að draga hér upp glæsimynd af hugsanlegum hámarksarði af búskap af þessu tagi. Þó vil ég geta þess hér aðeins til skilgreiningar, að talið er að árlega sé þörf fyrir einn kúbikmetra af söltu vatni með æskilegu hita- og seltustigi til framleiðslu á 10 kg af laxi árlega. Þetta mundi þýða það, að við þyrftum hektara til þess að framleiða 100 tonn af laxi, sem við mundum þá ala á 400–600 tonnum af fiskúrgangi, og afraksturinn ætti samkv. þessum útreikningum að verða 50 millj.

Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið, ætti úrgangur úr bolfiskafla okkar, sem við verkum nú í fiskmjöl, að nægja til framleiðslu á 25 þús. tonnum af laxi. Ef reiknað væri með nýtingu á allri loðnunni okkar til laxeldis í ár, þá yrði framleiðslan 150 þús. tonn. Og ef við leyfðum okkur nú að reikna með milljón tonnum, sem hagsýslustofnun er farin að spá okkur af loðnu á ári, þá ætti það þá ásamt slóginu að nægja til þess að framleiða 250 þús. tonn af laxi. Það liggur í augum uppi, að hér kæmi til geysilegur fjármagnskostnaður, bæði frystigeymslur fyrir fóður í eldisþróm og eins hitt, að viðbúið er að markaðsverðið mundi breytast við þess háttar framboð. En eigi að síður er a. m. k. teorítískur möguleiki á því að við getum framleitt 254 þús. tonn af laxi með þessum hætti, breytt þessum ódýra bræðslufiski þannig í dýran fisk.

Ef maður leyfir sér að halda áfram svona fremur óábyrgum útreikningum í þessu sambandi, sláum 100 kr. af verði laxkg í þessu sambandi og reiknum með 500 kr. fyrir kg, þá ættum við að geta fengið með þessum hætti fyrir fiskúrganginn okkar og loðnuna, — mjölfiskinn, þ. e. a. s. fyrir laxinn sem við framleiddum með þessum hætti, 125 milljarða kr., og það er nú það sem danir mundu sennilega kalla „også penge“.

Enda þótt lokaniðurstöður eða sannprófun á fyrrgreindum niðurstöðum tilgreindra rannsókna liggi ekki fyrir, eins og ég sagði áðan, þá þykja líkur benda til þess að fiskaeldi með þessum hætti eða svipuðum nái ekki fullkominni hagkvæmni annars staðar en þar sem hægt er að hita upp sjóinn með jarðvarma eða heitu aðrennslisvatni frá fiskiðjuverum. Kæmi þá hugsanlega til greina að nýta einnig afrennslisvatn frá sameiginlegum hitaveitum þar sem þeim yrði komið upp, e. t. v. utan jarðhitasvæðanna. Þá yrði náttúrlega jafnframt að stjórna seltustigi aðrennslisvatnsins.

„Hins vegar hagar svo til mjög víða, að tiltækt er heitt vatn í þessu skyni. Við flest fiskiðjuverin utan jarðhitasvæðanna er bæði aðstaða til að koma upp eldisþróm og nægilegt vatn frá vélum til þess að halda sjónum volgum, og má nú heita að ekki vanti nema þennan herslumun sem fjárveitingavaldið eitt getur látið í té til þess að hægt sé að hefja hér fiskrækt í stórum stíl víðs vegar um landið.

Sem fyrr segir hafa tilraunir þær, sem gerðar hafa verið af sérfræðingum hérlendis, fyrst og fremst beinst að eldi lax og silungs, en líkur benda til þess að hægt sé að rækta á sama hátt í stórum stíl ýmis verðmæt skeldýr“ — svo sem ostrur, humar — „og hentaði sá búskapur vel með eldi fyrrgreinds sporðfénaðar.“

Ég vil taka það fram einmitt vegna þess að ég vék að Þórði Flóventssyni í Svartárkoti áður, að það mun hafa verið hann sem fyrstur manna nefndi kvikfé þessarar tegundar sporðfénað eða sporðpening, og þykir mér við hæfi að nota það heiti sem fer mjög vel í málinu.

Auk þess sem ljóst má vera að við gætum í sömu eldisþróm ræktað dýrmætan skelfisk og krabbadýr, sem þá mundu að sögn fyrrgreindra sérfræðinga vinna fyrir sér og vel það með því að hreinsa eldisþrærnar, þ. e. a. s. botnfallið fóður úr eldisþrónum — þetta hefur gefist vel erlendis — og fengið svo jafnvel enn þá verri laun á vissan hátt heldur en tíðkast nú að gjalda þjónum, þar sem þeim yrði síðan sjálfum slátrað, eftir því sem stofninn þyldi, og þau seld til eldis líka, — auk þess sem ljóst er talið að hægt væri með góðum árangri að rækta þessi krabbadýr og annan skelfisk í eldisþróunum, þá liggja fyrir niðurstöður af tilraunum með sjávarfiskeldi erlendis sem hafa gefið mjög góða raun og þá fyrst og fremst á flatfiski. Ég minnist þess, að fyrir tiltölulega skömmu var sýnd í sjónvarpi mynd af eldisstöðvum á Bretlandseyjum þar sem sólkoli var ræktaður í stórum stíl og hefur tekist að kynbæta hann og láta hann tímgast í eldisstöðvunum. Að vísu var komist þannig að orði þrisvar í þessum sjónvarpsþætti að kolinn verpti í eldisstöðvunum og legg ég nú áherslu á það, að við munum halda fornri málhefð um tímgun fiska, sem er á þá lund að þeir hrygni, kýrin ber, tíkin gýtur o. s. frv. En hvað um það, það er staðreynd að á Bretlandseyjum eru nú þegar reknar eldisstöðvar þar sem ræktaður er dýrmætur flatfiskur með mjög góðum árangri.

Þessar tilraunir, þessar eldisstöðvar yrðu af eðlilegum ástæðum einna helst fýsilegar á þeim svæðum þar sem tiltækur er heitur jarðsjór. Í þessu sambandi er eðlilegt að hugleiða sérstaklega möguleika á því að nýta jarðsjó þann. sem til mun falla í sambandi við fyrirhugaða sjóefnaverksmiðju á Reykjanesi, og geta má þess að líkur þykja benda til að álíka aðstaða muni vera til fiskræktar í Öxarfirði norður, þótt ekki hafi menn hugað eins mikið að henni enn þá eins og hér syðra.

Ég ætla mér ekki að þessu sinni að reyna að draga upp fyrir okkur neins konar efnahagslega glæsimynd af þeim möguleikum sem felast í fiskeldi. í heitum sjó og við jarðvarma. Síst vildi ég að fjárglaðir menn á Íslandi tækju álíka kipp og þegar lýst var fyrir þeim gróðamöguleikunum í sambrandi við minkana. En um hitt er ég alveg viss, að þeim peningum yrði vel varið nú sem við settum í það að gera sérfræðingum okkar, sem unnið hafa að þessum málum undanfarið, kleift að ljúka tilraunum sínum, sem eru mjög vel á veg komnar, og enn fremur gera þeim kleift að sannprófa niðurstöður, sem þegar liggja fyrir um þessar tilraunir, ef vera mætti að okkur auðnaðist þó ekki væri nema að hundraðfalda verðið sem fæst fyrir úrgangsfiskinn á þeim slóðum.

Að lokinni þessari umr. óska ég þess að málinu verði vísað til fjh.- og viðskn.