23.03.1977
Efri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2781 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

190. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Svipað mál þessu hefur borið hér á góma nokkrum sinnum áður. M. a. var það eitt af mínum fyrstu verkum hér á hv. Alþ. að hreyfa svipaðri hugmynd um að efla Fiskræktarsjóð með verulegu átaki. Ef ég man rétt var það fyrir 9 eða 10 árum, þá með 10 millj. kr. framlagi sem væri nú í dag nokkuð á annað hundrað millj. kr. Ég vil því taka undir þessa hugmynd. Hún á meira en rétt á sér, bráðnauðsynlegt er að hún komist í framkvæmd. Hitt er svo annað mál, að allt þetta mál kostar auðvitað fjármagn, og hvort þessi tala er rétt eða röng, of há eða of lítil, læt ég aðra fjalla um. Hér er nokkuð vel í lagt og er það út af fyrir sig nauðsyn og einnig nauðsyn að dreifa þessu á ákveðið tímabil.

Hins vegar fannst mér í ræðu hv. fyrri flm. frv. gæta verulegrar bjartsýni, og það er út af fyrir sig gott því menn ráðast yfirleitt ekki í þessa hluti nema vera bjartsýnir eða í starfsemi kringum fiskinn á annað borð hér á Íslandi. En ég vil nú, af því að hann nefndi minkinn í lok sinnar ræðu, vara einmitt við of mikilli bjartsýni í þessum málum. Ég taldi rétt að styðja minkaeldi á Íslandi, en ég lýsti þeirri skoðun, að við ættum að byrja á fjórum búum og helst sínu í hverjum fjórðungnum til að fá reynslu. Sama finnst mér við eigum að gera í þessum málum. Það mætti vel koma upp fjórum skipulögðum stöðvum á mismunandi landssvæðum og fá nokkra reynslu af og hefjast síðan handa með stórmiklum framlögum, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, því að þrátt fyrir það að víða erlendis er veruleg reynsla fyrir hendi, þá eru okkar aðstæður allt aðrar en erlendis. Við getum fengið upplýsingar frá rússum, sem eru lengst komnir í þessu efni, kínverjum og japönum, en ég held að samanlagt skipti það milljónum tonna sem þeir framleiða í fiskeldi. Hins vegar er meiri hluti þeirrar framleiðslu ekki í söltu vatni, heldar í fersku vatni, þó eitthvað sé blandað.

Ég á bók sem segir sögu fiskeldis dana yfir hálfa öld. Þar er lýst sigrum og þar er lýst mistökum og þeim vandræðum sem leiddi af reynsluleysi manna. Þessi bók er verulega fróðleg aflestrar fyrir alla þá er áhuga hafa á þessum málum. Við ættum að hagnýta okkur reynslu dana í þessu efni. Þeir eru áreiðanlega fúsir til að leggja okkur lið og miðla af reynslu sinni og þekkingu. Aðstaða þar er víða slík að 2–3 býli verða að nota sama vatnið, það er gegnumstreymi frá einu býli til annars. Við hér búum við miklu, miklu betri aðstæður. Við höfum bæði heitt vatn, eins og flm. undirstrikaði mjög rækilega, sem gefur þessu verulegt gildi, og auk þess mjög ferskt vatn og einnig mjög lífrænt vatn, þannig að aðstaða okkar er öll ákjósanlegri, að mínu mati a. m. k. Þess vegna er það næstum furðulegt að ekki skuli vera komið hér á skipulegu fiskeldi sem sterkri og góðri búgrein, og má undrum sæta hvers vegna það er. Það er ekki hægt að vitna alltaf í Kollafjarðarstöðina, að hún sé búin á annan áratug að gera fyrir okkur tilraunir, og enginn hefjist handa á grundvelli þeirra tilranna sem hún er að gera. Það verður að stíga það skref sem hér er boðað að eigi að ske, og ég styð það eindregið.

Við verðum að hefjast handa með því að fá ákveðna menn til að hefja fiskeldi á tveimur, þremur eða fjórum stöðum á landinu, byggt ú þeirri reynslu sem hér hefur fengist í gegnum árin og einnig erlendis frá. Ég held að hér séu aðstæður svo góðar að þetta megi ekki dragast lengur og það hljóti að vera til a. m. k. áhugasamir bændur er vilji taka höndum saman við löggjafann og framkvæma verkið ef til þess fást nægilegir peningar. Ég ætla ekki að fara út í það, hvað á að veita hér stóra styrki. Það er matsatriði. Mér virðist helmingaskiptareglan, sem sett er hér fram, sanngjörn. Áhætta er nokkur og því er eðlilegt að það séu veittir beinir styrkir og einnig nokkur hagstæð lán, en einnig er eðlilegt að viðkomandi aðili leggi eitthvað fram sjálfur. Það tryggir raunhæfan áhuga og alúð við þessa starfsemi, sem er mjög mikilvægt. Þessi starfsemi verður ekki rekin með hangandi hendi. Uppeldi fiska er mjög mikið nákvæmnisverk og verður að sinna því mjög vel og af sérstakri nýtni.

Allar vangaveltur um mörg þúsund tonn af þessum fiski leiði ég hjá mér. Það er skemmtilegt að geta reiknað þetta út og gaman. Sjálfsagt er þetta ákveðin draumsýn sem verður á næstu öld. En ég held mig nú bara við það sem við höfum hendur á í dag, og ég er viss um að það er hægt að ná mjög langt og skapa hér mörg hundruð tonn, jafnvel þúsundir tonna af góðum eldisfiski, bæði úr söltu vatni og fersku vatni. Alþingi verður að leggja fram nokkurt fjármagn. Það þarf að vera tugir millj. kr., svo að menn komist yfir lágmarksáfanga, og við eigum að sjá sóma okkar í því, íslendingar, að gera þetta átak. Það eru allar aðstæður hér á landi það hagkvæmar, að við hljótum að geta náð árangri í þessu efni. Það er furðulegt ef það tekst ekki. Þá mun fást sú reynsla sem við getum byggt á fyrir almenna starfsemi í þessari grein, og því betra því fyrr sem við hefjumst handa á þessu sviði.