23.03.1977
Neðri deild: 62. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2790 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Pétri Sigurðssyni, hv. 8. þm Reykv., að mér finnst heldur fljótt brugðið við til breytinga á þeim lögum sem hér um ræðir. Það er tæplega ár liðið frá því að gengið var frá þessari lagasetningu hér á Alþ., og ég er þeirrar skoðunar að það sé víðs fjarri að reynsla sé komin á þá löggjöf, eins og frá henni var gengið, og því sé ekki tímabært á þessu stigi að gera breytingar á löggjöfinni eins og hér er gert ráð fyrir.

Mér sýnist einnig að með breytingunni, sem hér er lagt til, sé enn frekar verið að þrengja að hinum stærri togurum varðandi veiðisvæði. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það hafi um of verið þrengt að þeim á vissum hlutum innan þessa svæðis, en nú er gengið enn lengra og þeim ýtt frá úti fyrir Breiðafirði og Snæfellsnesi. Það er augljóst mál, að einhvers staðar verða þessi skip að vera. Það ætti öllum að vera ljóst að mikill ágangur þessara togara hefur verið á miðunum úti fyrir Vestfjörðum, og það er enginn vafi á því að með þessari breytingu, sem hér er lagt til, eykst þessi ágangur enn frekar en verið hefur. Ég vil því lýsa andstöðu minni varðandi þessa breytingu. Ég tel að nú þegar sé búið að þrengja svo að miðunum úti fyrir Vestfjörðum, að það sé ekki bætandi á það sem er nú þegar, og eins og ég sagði í upphafi: ég er þeirrar skoðunar að það sé í raun og veru vart eðlilegt að gera nú nokkuð róttækar breytingar, því sumar þessara breytinga eru nokkuð róttækar, — að gera nú þessar róttæku breytingar þegar ekki er liðið heilt ár frá því að löggjöfin var sett sem nú er í gildi. Það hefði því verið ástæða til þess að fá frekari reynslu af því hvernig þessi löggjöf kæmi til með að reynast.

Ég vara mjög við því að enn frekar sé gengið í þá átt að ýta togaraflotanum svo til á eigin mið úti fyrir Vestfjörðum. Það er búið að loka hér fyrir Suður- og Suðvesturlandinu það miklu af miðum, sem þessi skip hafa verið á, að það er einsýnt mál, ef hér á enn frekar að ganga í þá átt varðandi þetta svæði sem hér um ræðir, að þá verður þeim ýtt á Vestfjarðamið. Ég þarf í raun og veru ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég lýsi mig andvígan þessum breytingum. Ég tel að það þurfi frekari reynsla að koma á löggjöfina sem í gildi er og það sé ekki tímabært að gera breytingar á henni eins og stendur. Einkum og sér í lagi lýsi ég mig andvígan því að loka frekar veiðisvæðum fyrir, sem einvörðungu verður til þess að enn frekari ágangur af þessum skipum verður á Vestfjarðarmiðum. Er nógur ágangur þegar fyrir á þau mið.