23.03.1977
Neðri deild: 62. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2801 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég tek alveg undir það sem hv. frsm. n. sagði, að hann yrði við þeirri ósk sem fram hefur komið, sem er sjálfsagt að verða við, að n. komi aftur saman til þess að ræða þær till. og viðhorf sem hér hafa komið fram við 2. umr. málsins. Slíkt hefur alltaf verið gert og er þingvani. En ég legg áherslu á það og óska mjög eindregið eftir því við n., að hún hraði afgreiðslu þessa máls, því að það er búið að vera alllengi á döfinni.

Um það geta verið skiptar skoðanir hvort eigi að breyta þessum lögum eða ekki. Þetta eru þó atriði sem eiga það víðtæku fylgi að fagna, að samtök útvegsmanna og allir þeir, sem til hefur verið leitað, hafa verið ásáttir um þessar breytingar. Sá ágreiningur, sem hefur verið mestur, var um veiðar út af Norðurlandi, og rn. tók þá till. þess vegna ekki upp. Það kemur fram í þessum till. að hér er auðvitað ekki verið að þrengja í öllum tilfellum botnvörpu-veiðar, það er víða verið að auka þær, enda hefði ekki náðst samstaða innan útgerðarmannahópsins, innan bæði Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda og meðal allra annarra útgerðarmanna, ef það væri eingöngu á annan veginn. Það kom strax í ljós, áður en þessi lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi voru fullafgreidd hér á Alþ., að það sem við kölluðum fyrir nokkrum árum stærri bátana, þeir auðvitað fóru mjög illa út úr þeirri breytingu og hafa verið mjög háværar raddir um þessar breytingar og voru þegar í stað. Við vildum gjarnan láta á þetta reyna. Varðandi það svæði út af Snæfellsnesinu sem um er að ræða, þá er það rétt að vissu marki að hægt er að rýmka fyrir bátum með reglugerðarbreytingu, en ekki að öllu leyti, ekki hvað snertir aftur hina stærri báta. Þess vegna legg ég á það áherslu að Alþ. fjalli um þetta mál, taki afstöðu til þess. Eins og formaður sjútvn. og fleiri hafa réttilega bent á, þá er auðvitað hver þm., hver þm., hver nm. óbundinn í afstöðu sinni til einstakra tillagna.

Í sambandi við stjórnun veiðanna er ekki nokkur ágreiningur. Þar hafa allir verið sammála og upprunalega frv., brbl., er auðvitað ekkert annað en leiðrétting á lögunum sem mönnum sást yfir í þeim mikla asa sem var við lokaafgreiðslu málsins.