23.03.1977
Neðri deild: 62. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2804 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

146. mál, tékkar

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, var samið af sérstakri n. sem skipuð var af fulltrúum bankanna og rn. í þeim tilgangi að gera tillögur til að koma í veg fyrir misnotkun á tékkum. Þessi n. hefur skilað áliti sínu fyrir allnokkru og gert till. sem að mörgu leyti er nú þegar komnar til framkvæmda.

Frv. þetta er einn liðurinn í tillöguflutningi þessarar nefndar. Það felur í sér aukið aðhald fyrir viðskiptavini banka og nokkra aukna ábyrgð og eftirlit af hálfu bankanna sjálfra. Allar þær till., sem n. bankanna og rn. hefur gert í þessum efnum, stefna að þessu marki: auknu aðhaldi, aukinni ábyrgð og eftirliti, og að sögn hafa þær til 1. og þær ráðstafanir, sem til framkvæmdar eru komnar, haft veruleg áhrif nú þegar.

Frv. felur það í sér að setja í tékkalög nr. 94 frá 1933, sérstök ákvæði um refsingar við misnotkun á tékkum. Þegar um misnotkun af þessu tagi hefur verið að ræða fram að þessu hefur verið stuðst við ákvæði í almennum hegningarlögum, en að ráði þeirra, sem til þekkja, er talið heppilegra að setja slík ákvæði í tékkalögin sjálf.

Hér er um að ræða ákvæði og viðurlög vegna minni háttar yfirsjóna í meðferð tékka. En þegar um er að ræða alvarlegri mál og alvarlegri misnotkun verður áfram stuðst við ákvæði í almennum hegningarlögum, þ. e. a. s. 248. gr. og 261. gr., en það eru almenn ákvæði vegna auðgunarbrota. Tilgangur með þessu frv. og með þessari breytingu er sá, að framkvæmd þessara mála verði virkari og einfaldari, verði meira til leiðbeiningar og ákæruaðild betur skilgreind. Hún á jafnframt að vera til hagræðis fyrir dómstólana.

Allshn., sem fjallaði um frv., er sammála um að mæla með samþykkt þess eins og það liggur fyrir. Fram komu hins vegar í n. skoðanir um að auka bæri ábyrgð bankanna, þannig að þeir tækju á sig ábyrgðina af því að opna reikninga fyrir viðskiptavini sína. Í því sambandi hefur verið bent á hvort ekki væri rétt að fara vægar í sakirnar og taka ekki eins alvarlega á því ef um er að ræða yfirdrátt á reikningum sem væri óverulegur og jafnvel af misgáningi. Var í því sambandi nefnt bilið 10 þús. kr. Við athugun var upplýst að n. sú, sem ég vitnaði til áður, hafi nokkuð rætt þetta mál, enda eru slíkar reglur í gildi víða annars staðar. Niðurstaða bankanefndarinnar varð hins vegar sú, að mæla ekki með slíku fyrirkomulagi að svo stöddu. Hún vekur athygli á að slík framkvæmd mundi kosta umstang, hún mundi þýða útgáfu sérstakra korta, og það hefði allmikla skriffinnsku í för með sér og gæti leitt jafnframt til nokkurrar misnotkunar engu að síður. Það hefur því orðið að ráði, að treysta á þær ráðstafanir, sem gerðar eru núna milli viðskiptabankanna annars vegar og Seðlabankans hins vegar og láta á það reyna hvort þetta beri ekki tilætlaðan árangur.

Allshn. hefur eftir atvikum fallist á að gera ekki frekar veður út af þessari ábyrgð, enda hefur verið upplýst að reikningsbankaábyrgð sé í framkvæmd upp að vissu marki. Ef um er að ræða óheimilan yfirdrátt á reikningi banka er gefinn allt að 10 daga frestur. Það eru að vísu innheimtir dráttarvextir og sektargreiðsla, en nú hefur verið fellt niður 11% sektargjaldið sem Seðlabankinn innheimti áður undir slíkum kringumstæðum. Er fullyrt að það fyrirkomulag, sem nú er, sé aðeins vægara gagnvart viðskiptavinum bankanna en það sem áður var í gildi.

Til upplýsingar vil ég geta þess, að fram kom hjá þeim, sem allshn. kallaði til viðtals við sig í sambandi við þetta frv., að árið 1975 hefðu 2–3 þús. tékkar verið innistæðulausir og komið til innheimtu hjá Seðlabanka og þar hafi samtals um 100 milljónir verið innheimtar með þeim hætti.

Herra forseti. Ég held að það sé ekki fleira sem þörf er á að taka fram í þessu sambandi. Allshn. hefur sem sagt mælt með samþykkt þessa frv., en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt.