28.10.1976
Sameinað þing: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að veita mér þess kost að mæla hér örfá orð utan dagskrár þó fjárlagafrv. sé á dagskránni. En þess hef ég beiðst af ærnu tilefni.

Þegar fréttir Ríkisútvarpsins voru lesnar í gærkvöld og kom að fréttunum af umr. á Alþ. hér í gær, þá var fjöldi hlustenda furðu lostinn. Útvarpshlustendum eru almennt kunnar þær grundvallarreglur sem gilda um fréttaflutning Ríkisútvarpsins, enda eru um þær mjög skýr ákvæði í lögum og reglum útvarpsins sem þaulræddar hafa verið á opinberum vettvangi. Það er grundvallaratriði varðandi fréttaflutning Ríkisútvarpsins, að greina skuli skýrt milli hlutlausrar frásagnar annars vegar og dóms eða mats á því, sem sagt er, hins vegar. Öllum þorra hlustenda, ekki aðeins alþm. sem auðvitað er um þetta fullkunnugt, heldur mun þorra hlustenda einnig vera um þetta fullkunnugt.

Til umr. var í gær till. þm. Alþfl. í Nd. um skipun þn. til að rannsaka gang og meðferð dómsmála. Og hvað var í fréttum Ríkisútvarpsins m.a. um þessar umr. sagt? Þar var þetta sagt orðrétt:

„Ólafur Jóhannesson dómsmrh. tók næstur til máls. Hann sagðist ekki vera andvígur slíkri nefndarskipun, ef Nd. sýndist rétt að skipa slíka n., en hann gerði ýmsar aths. við till., og má segja að lítið hafi staðið eftir af ágæti hennar að ræðu dómsmrh. lokinni.“

Svo mörg voru þau orð í fréttatíma íslenska Ríkisútvarpsins. Hér er um að ræða eitt grófasta hlutleysisbrot sem ég minnist síðan tekið var að flytja þingfréttir í venjulegum fréttatíma Ríkisútvarpsins. Hér er um að ræða mál sem snertir ekki aðeins flutningsmann till., sem hér er um að ræða, sem snertir ekki aðeins þingflokk hans. Hér er um að ræða mál sem snertir alla þm., hvern og einn þm., og alla flokka sem skipa Alþ. Það eru ekki nema 10–12 ár síðan tekið var að flytja fréttir af umr. á Alþ. í almennum fréttatíma Ríkisútvarpsins, og það var mikil framför á sínum tíma þegar sá háttur var tekinn upp. En þeim mun sjálfsagðara er að fyllstu ákvæða, sem gilda í lögum og reglum útvarpsins um óhlutdrægni í fréttaflutningi, sé gætt. En sér ekki hver heilvita maður, sér ekki hvert barn, að ummæli um það, að lítið hafi staðið eftir af ágæti tiltekinnar ræðu þegar henni hefur verið andmælt, þetta er ekki fréttaflutningur, þetta er mat á efni þeirrar ræðu sem um er að ræða, þetta er dómur um hana. Ég trúi því ekki að sá maður sé til, sem athugar málið rólega og af skynsemi, sem sér ekki að hér er um gróft og óþolandi brot á gildandi reglum um fréttir Ríkisútvarpsins að ræða.

Vegna þess að ég fel þetta ekki vera neitt einkamál hv. 1. flm. till. frá því í gær og ekkert einkamál míns flokks, heldur mál sem snertir sóma Alþingis, mál sem snertir réttindi, kröfur hvers einasta þm. um það að fyllstu óhlutdrægni sé gætt, þá hef ég leyft mér að vekja athygli á þessu hér og skýra þingheimi frá bréfi sem þingflokkur Alþfl. hefur samþ. að senda útvarpsstjóra að gefnu þessu tilefni. Máli mínu lýk ég með því að lesa þetta bréf og kynna það þar með hv. þingheimi og þjóðinni um leið, sem ég veit að lætur sér það ekki litlu máli skipta að haldin sé í heiðri reglan um óhlutdrægni sjálfs Ríkisútvarpsins. En bréfið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í fréttatíma Ríkisútvarpsins í gærkvöld voru m. a, fréttir af umr. á Alþ. um till. þm. Alþfl. í Nd um skipun þingnefndar til að rannsaka gang og meðferð dómsmála. Í fréttunum var sagt frá ræðu 1. flm., Sighvats Björgvinssonar, og ræðu Ólafs Jóhannessonar dómsmrh. Í fréttinni sagði orðrétt:

„Ólafur Jóhannesson dómsmrh. tók næstur til máls. Hann sagðist ekki vera andvigur slíkri nefndarskipun, ef Nd. sýndist rétt að skipa slíka n.. en hann gerði ýmsar aths. við till., og má segja að lítið hafi staðið eftir af ágæti hennar að ræðu dómsmrh. lokinni.“

Þingflokkur Alþfl. telur hér vera um að ræða tvímælalaust brot á 3. gr. útvarpslaga, sem segir fyrir um óhlutdrægni Ríkisútvarpsins, svo og á IV. kafla reglugerðar um útvarpið, er fjallar um fréttaflutning þess, og loks á reglum um fréttaflutning Ríkisútvarpsins, sem gefnar voru út 1. mars s.l. Í 2. gr. þessara reglna segir:

„Fréttaskýringar ber að afmarka greinilega frá fréttum og skal ávallt kynnt nafn höfundar slíkra skýringa.“

Að gefnu tilefni fer þingflokkur Alþfl. þess hér með á leit við yður, hr. útvarpsstjóri, að tafarlausar ráðstafanir verði gerðar til þess að fréttaflutningur Ríkisútvarpsins frá umr. á Alþ. verði endurskoðaður og það vandlega tryggt, að hann verði í samræmi við gildandi reglur um óhlutdrægni.“