24.03.1977
Neðri deild: 63. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2844 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

199. mál, virkjun Blöndu

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hér í umr. er nú mikil tímaþröng hjá þm. og ég hef því heitið forseta að nota aðeins örfáar mínútur, enda er kannske ekki mikil þörf á því að ég lengi hér mál mitt. Hæstv, iðnrh. hefur gert glögga grein fyrir þessu máli og ég kem auðvitað hingað fyrst og fremst upp til að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta mál og þakka ráðh. og ríkisstj. fyrir að bera þetta mál fram nú og láta í ljós von um að það verði samþ. á yfirstandandi þingi.

Að því er varðar ummæli hv. síðasta ræðumanns, hv. 8. landsk. þm., þá held ég að þar gæti nokkurs misskilnings. Stundum var kannske hægt að skilja hann svo að hann væri andvígur því að undirbúningi að Blönduvirkjun yrði hraðað. En hér er eingöngu um að ræða heimildarlög, og þegar þau eru samþykkt ber auðvitað enga nauðsyn til þess að endanlega sé ákvarðað hvenær framkvæmdir skuli hefjast og því síður hvenær þeim skuli ljúka né heldur nákvæmlega hvernig öll orkan yrði notuð. Auðvitað er hér um stefnumörkun að ræða. Það er fyrst og fremst að Alþ. taki um það ákvörðun hvort það vill leggja út í stórvirkjun á Norðurlandi — og þá þessa stórvirkjun — eða vill það ekki. Þessa ákvörðun þarf að taka m. a. vegna þess að mikill kostnaður er samfara rannsóknum nú þegar á þessu ári við Blöndu ef ákvörðun verður tekin um að virkja hana. Ef hins vegar Alþ. hafnar því og fylgir stefnu á borð við þá sem hv. 3. þm. Norðurl. v. boðaði hér, að ekki mætti virkja stórt, heldur eingöngu smátt, þá er auðvitað ástæðulaust að eyða kannske hundruðum millj. kr. í þessar rannsóknir. Ég held að þegar menn skoða þetta í þessu ljósi, þá eigi ekki að þurfa að gagnrýna það að ekki sé þegar tekin ákvörðun um hagnýtingu orkunnar, og að því er samtengingu varðar, þá er auðvitað alveg ljóst, að þegar er komin samtenging Norðurlands og Suðurlands og það má að sjálfsögðu flytja orkuna eins að norðan suður, kannske 50–60 mw. á einhverju tímabili, eins og að flytja alltaf orku norður. Mér þykir leitt, að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson skuli hafa orðið að hverfa af fundi. Ég hefði gjarnan viljað að hann væri hér og við gætum rætt þetta. Ég hef trú á að hann mundi samþykkja þessi sjónarmið þegar þau eru sett fram með þessum hætti.

Ég vík þá örfáum orðum að ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. og verð þá að byrja á því að þakka honum þau hrósyrði sem hann hafði um mig og reyndar mína — mér liggur eiginlega við að segja: að þakka honum hlý orð og árnaðaróskir í minn garð og fjölskyldu minnar, eins og stundum er sagt hér á þessum virðulega stað. En það var nú útúrdúr. Ég held að þeim hv. þm. verði að þakka það, að hann gerir kjósendum að vissu leyti auðveldara fyrir að gera upp hug sinn. Hann er ekkert dulur á sínar fyrirætlanir og sinn vilja, en oft er kvartað undan því að stjórnmálamenn hér á Íslandi og raunar víðar veiti kjósendum ekki mikið val, þeir séu meira og minna samnála um alla hluti. En það er nú einu sinni skylda okkar að vera ósammála, ef við erum það í hjarta okkar, vera það þá líka opinberlega, láta fólkið vita hverjar okkar skoðanir eru. Að því er Blönduvirkjun varðar, þá fer ekki á milli mála að hann er eindreginn andstæðingur þessarar virkjunar og hefur sagt það margsinnis og segir enn. Í okkar kjördæmi hefur fólkið því um það að velja hvort það vill þá, sem vilja virkja stórt og leggja út í meiri og minni iðnrekstur, hvort sem hann er nú kallaður stóriðja eða eitthvað annað, og hinna, sem vilja virkja smátt. Hv. þm. hefur lagt til að farið yrði í 32 mw. virkjun. Hún er að vísu allstór, en miklu minni en sú sem hér um ræðir. Alþ. verður að marka þessa stefnu, og það er mjög gott fyrir kjósendur einmitt að fá að velja á milli í þessu efni og það munu þeir vafalaust gera.

Að því er virkjun við Villinganes varðar, þá hefði ég getað verið meðflm. að þessari þáltill., sem hér er flutt, því að hún hljóðar ekki um annað en að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til þess að hraðað verði svo sem frekast er unnt undirbúningi að virkjun Héraðsvatna hjá Villinganesi og hönnun hennar, svo að þar megi, segir að vísu, megi reisa næsta raforkuver á Norðurlandi vestra. Það er ekki tekin ákvörðun um að þar skuli reisa þá næstu. Ég held að það sé mjög brýn nauðsyn að hraða rannsóknum við Villinganes. Það liggur að vísu fyrir að virkjun þar verður hlutfallslega dýrari en við Blöndu, en kannske ekki svo miklu dýrari að ekki væri hægt að ráðast í hana mjög fljótlega eftir að Blanda hefur verið virkjuð. Ef Alþ. treystir sér ekki til þess eða þjóðin telur sig ekki hafa fjárráð til þess að fara þegar í stað í Blönduvirkjun eða við fyrstu hentugleika, þá er auðvitað gott að nánari útreikningar lægju fyrir um virkjun við Villinganes eða í Jökulsánum í Skagafirði. Þess vegna hef ég ekkert á móti þessari till., síður en svo. það er alveg prýðilegt að rannsókn fari þar fram líka. En rannsóknarféð er því miður takmarkað svo að kannske er ekki hægt að gera þetta allt í sumar. En hitt verðum við að varast, og það veit ég að hv. 3. þm. Norðurl. v. vill hugleiða, að fara nú ekki að rugla menn svo í ríminu að enn einu sinni verði öllum virkjunarframkvæmdum í Norðurlandskjördæmi vestra frestað vegna rifrildis um staðsetningu þegar komið er á lokastig að taka ákvörðun um einhverja virkjun — eins og var á sínum tíma um Svartá í Skagafirði — þá gjósi upp allar mögulegar hugmyndir aðrar hjá sumum til að hindra allar framkvæmdir. Við megum ekki vera svo ógæfusamir að hafa ekki manndóm í okkur til þess að taka um það ákvörðun, og það er Alþ. sem á að gera það, hvort við viljum fara í Blöndu eða Blöndu ekki, og ef menn vilja ekki ráðast í Blönduvirkjun, þá að taka ákvörðun um virkjun við Villinganes í Héraðsvötnum og þá ekki bara með þál., heldur þá með lögum. Það held ég að sé alger nauðsytt að' verði gert á þessu þingi og enginn undandráttur verði þar frá.

Það er aðeins eitt, sem ég vil vekja hér á athygli, sem mér þótti sérlega leiðinlegt í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. Mér þótti hitt út af fyrir sig skemmtilegt, hvað hann var eindreginn í andstöðu sinni, hann er ekkert að dylja það, og menn geta þá kosið um það. En hitt þótti mér leiðinlegt, að það örlaði á nokkurs konar stríðsyfirlýsingu. Hann sagði, hv. þm.: friður og eining verður ekki — og brýndi raustina — ef ákvörðun verður tekin um Blöndu. Við erum nú einu sinni búsett í lýðræðisríki og ef yfirgnæfandi meiri hl., bæði heimamanna og Alþ., tekur ákvörðun, þá ætla ég að vænta þess og tel mig raunar vita það, að hv. 3. þm. Norðurl. v. muni ekki taka þátt í að efna til styrjaldar og verða friðspillir. Það verða mín síðustu orð.