24.03.1977
Neðri deild: 63. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2846 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

199. mál, virkjun Blöndu

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það hefur nú ýmislegt komið fram í þessum umr. sem ástæða væri til að fara nokkrum orðum um. En ég boðaði í ræðu minni áðan till. til þál. sem við höfum lagt fram og væntanlega er í prentun, og fyrir henni þarf að mæla og þá gefst tilefni til að taka til umfjöllunar eitthvað af því sem annars hefði þurft að bera hér á góma.

Ég má til að víkja nokkrum orðum að samþm. mínum, hv. þm. Pálma Jónssyni. Hann var nokkuð argur í ræðu sinni og tók talsvert upp í sig. Hann hneykslaðist mjög á ummælum mínum um tiltekna starfsmenn, jafnframt því sem hann var hneykslaður á skoðunum mínum á þessu máli almennt. Nú er það kannske skiljanlegt að maðurinn sé að verða afbrýðisamur út af hinum vinsamlegu orðum sem við Eyjólfur Konráð Jónsson látum hér fara á milli okkar þegar við komum í ræðustól, og ég neyðist nú til þess, —- það er reyndar engin neyð því að það er mér bæði ljúft og skylt að bera nokkurt lof á hv. þm. Pálma Jónsson líka, þó að hins vegar taki ég Eyjólf að flestu leyti fram yfir. En ég tel að t. d. Pálmi Jónsson, hv. þm., sé miklu betri fjármaður en hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Að vísu er Eyjólfur kannske ekki vanur fjármaður. Ég hef séð hann á ljósmynd með sauðfé, en ég held að það hafi farið illa fyrir hrútnum og að það hafi verið heldur slæmur atburður. En Pálmi er hins vegar líklega einn mesti fjárræktarmaður landsins. Ég hef séð hann ekki einasta á blóðvellinum, heldur líka í gróandi náttúrunni við fé sitt, og ég held að þar eigi hann að vera og vil bera á hann alveg sérstakt lof fyrir feitt sauðfé. Hins vegar vil ég nú taka fram, úr því að við erum farnir að ræða þetta svona frjálslega, að ég hygg að ég sé mestur hestamaður af okkur þrem.

Pálmi Jónsson, hv. þm., vék að uppgræðslu á landinu, og það er þess vert að ræða það nánar en ég gaf mér tíma til í frumræðu minni. Þessi uppgræðsla, þessir reitir sem FAO kostar þarna á heiðinni og gefa, eins og hann sagði, framúrskarandi góða raun, eru í því landi sem sekkur, og það sannar alveg sérstaklega hvað þetta er verðmætt og gott land sem þarna á að sökkva. Það eru ekki svipuð skilyrði ofar í landinu, á því landi sem upp úr stendur þegar það frjósamara og betra land er sokkið. Örfoka land er allt annað en gróið land til þess að svara áburð og ræktun.

Hann talaði með lítilsvirðingu, hv. þm., einnig um „murtuveiði“ sem hann taldi vera þarna í vötnum. Það er ekki murta til nema í einu þessu vatni. Hins vegar er til bleikja og urriði, en það er samkv. minni málkennd ekki murta. Hins vegar er murtuveiði einnig mikil hlunnindi, og silungsveiði sú, sem þarna kæmi til með að eyðileggjast, er vissulega mjög verðmæt. Ég vil ekki hafa það að hv. þm. geri lítið úr því, því að þarna er um býsna þjóðleg og skemmtileg hlunnindi að ræða.

Hann vitnaði til andstyggilegrar hugmyndar, sem ég er honum alveg sammála um að er andstyggileg, að taka vatnið frá Akri og fara með það niður í Blöndudal, þ. e. a. s. 60% af Vatnsdalsá. Ég er honum alveg sammála um að sú hugmynd er mjög slæm. En ég gerði ekkert annað en lesa orðrétt upp úr skýrslu sem Orkustofnun hefur látið frá sér fara, las orðrétt upp, og þetta var á bls. 37 og þar getur hv. þm. Pálmi Jónsson séð þetta sjálfur.

Þá ræddi hann um þær hagsbætur sem yrðu af því varðandi vegagerð í Langadal ef af þessari virkjun yrði. Nú vænti ég þess að ég megi taka það svo, ef hv. þm. leiðréttir ekki villu mína, að hann vilji bíða með að leggja þennan veg þangað til búið er að reisa þessa virkjun, og ég mun heita honum því að ég skal segja frá því fyrir norðan hver skoðun hans er á þessu efni, því að ég veit fyrir víst að ég verð spurður að því hvaða seinagangur sé á vegalagningu í Langadal. Ég verð spurður að því núna þegar ég kem heim til mín í vor, þegar við erum búnir að afgreiða þessa vegáætlun sem hér bíður okkar og við ættum raunar allir þessir þrír að vera að vinna að. Ég verð spurður að því, hvers vegna vegaframkvæmdir verði ekki meiri í Langadal heldur en koma mun í ljós, eins og ég hef verið spurður undanfarin ár. En þarna er bráðnauðsynlegt að leggja kafla sem er á lífæð í héraðinu og raunar á hringveginum, og ég tel það algera fásinnu að vera að geyma þennan veg eftir óvissum hugmyndum um það að einhvern tíma verði sett heimildarlög eða heimiluð virkjun í þessu vatnsfalli.

Hv. þm. vitnaði til samþykkta. Ég gerði það líka. Ég vitnaði og tók einmitt fram í ræðu minni hver afstaða hefði verið hjá hreppsbúum í Torfalækjarhreppi og í Blönduóshreppi eða hjá forráðamönnum Blönduóss. Ég gleymi hins vegar sýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu, en hún var reyndar klofin í málinu. Ég gat ekki um sveitarstjórn í Svínavatnshreppi eða þá samþykkt sem hún mun hafa vafalaust gert og fengið í hendur Pálma Jónssyni. Hún hefur ekki sent mér afrit af henni. Hins vegar þekki ég hreppsbúa og veit um niðurstöðu af sveitarfundi. Þar var reyndar Pálmi Jónsson viðstaddur líka. Þá ályktun las ég upp hér í ræðustól rétt áðan.

Hann lætur að því liggja að það séu skagfirðingar sem séu einir um að vilja virkjun við Villinganes. Það er mikill misskilningur hjá honum. Það var getið um þetta berum orðum í ályktun sveitarfundar í Svínavatnshreppi. Ég vil minna hv. þm. á, ef hann man það ekki, að Bólstaðarhlíðarhreppur er í Austur-Húnavatnssýslu og ég vonast til að hann haldi áfram að vera þar.

Hann nefndi það, hv. þm., að það væri 40% dýrari virkjun við Villinganes heldur en Blönduvirkjun. Ég tel víst að þarna hafi manninum orðið mismæli og hann hafi átt við að hann ætlaði að hafa orkuna 40% dýrari en þá orku sem framleidd væri við Blöndu. Nú er það svo með þessa orku við Blöndu, að til þess að hún geti orðið þessum mun ódýrari en sú sem framleidd væri við Villinganes, þá þarf að selja hana í einu lagi. Það er nefnilega mergurinn málsins, og um þetta er það sem deilan stendur.

Hann gerði mikið mál, eins og raunar hæstv. ráðh. líka, úr niðurstöðu orkuspárnefndar. Hv. síðasti ræðumaður, Sighvatur Björgvinsson, tók af mér ómakið við að ræða þessa orkuspá, og ég held að ég þurfi ekki að eyða tíma í hana. Ég vitna bara til þeirra orkuspáa sem gerðar hafa verið hér áður. Ég vitna til þeirrar orkuspár sem við höfðum hér á borðunum í fyrra. En þessi orkuspá er með veilum þáttum, eins og hv. 8. landsk. þm. gat um, og þeir þættir gera það að verkum að það er ekki æskilegt að byggja á þessari orkuspá.

Það væri freistandi að fara að ræða þau iðnaðartækifæri sem hæstv. ráðh. gat um í frumræðu sinni, og sannarlega vildi ég sjá margt af þessu risa, bæði í Norðurlandskjördæmi vestra og annars staðar. Þarna er einmitt það verkefni sem ég held að sé kannske eitt það brýnasta fyrir yfirvald iðnaðarmála á Íslandi. Hæstv. ráðh. er mikill atorku- og áhugamaður, og ég treysti því að hann geri það sem framast er skynsamlegt í því a,ð kanna þessi mál. En náttúrlega kostar öll könnun fjármuni og sumt af henni kostar of fjár. En ef það er talsvert góð von um að árangur náist, þá verður að kosta nokkru til rannsókna því að öðruvísi fáum við ekki skynsamleg;t niðurstöðu. Og það á raunar við um öll þau verk sem við tökum okkur fyrir hendur. En af iðnaðartækifærum á Íslandi held ég að það væri okkur ákaflega hagkvæmt ef hægt væri að finna iðnað af meðalstærð fyrirtæki sem ekki eru ofviða landsmönnum sjálfum, og reisa þau um hinar dreifðu byggðir. Þetta hefur tekist í sjávarútvegi, þetta hefur tekist í landbúnaði, að koma upp svona manneskjulegum fyrirtækjum sem geta veitt fólki góða atvinnu, og í iðnaði frá þessum framleiðslugreinum. En hvað iðnað varðar, sem þarf á verulegri orku að halda, væri þetta mjög mikilvægt verkefni.

Ég hef haft þá ánægju að fá tækifæri til þess að starfa að einni svona könnun. Þegar ég kom hér á þing flutti ég till. til þál. um athugun á að stækka áburðarverksmiðju ríkisins. Sú till. var samþykkt og það var skipuð n. til að gera þessa könnun, og ég var svo heppinn að fá tækifæri til þess að starfa í henni. Sú n. hefur ekki lokið störfum enn, en af því að hæstv. ráðh. gat örlítið um áburðarframleiðslu, þá vil ég nota þetta tækifæri til þess að geta þess að n. hefur nú þegar og raunar fyrir allnokkru náð talsverðum áfanga í starfi sínu. Við komumst að þeirri niðurstöðu, að það væri ákaflega hagkvæmt að reist yrði í Gufunesi saltpéturssýruverksmiðja, en saltpéturssýruframleiðsla þarf ekki mikla raforku. Það er saltpéturssýruframleiðsla í gamalli og úreltri verksmiðju með gulum reyk sem reykvíkingar þekkja, og þessi saltpéturssýruverksmiðja er ekki nógu stór. Ef hún væri helmingi stærri — eða raunar kemur reikningslega betur út að byggja nýja og hætta að framleiða í þessari — þá væri hægt að nýta þau mannvirki, sem eru í Gufunesi, af fullum þrótti. En blöndunarverksmiðjan, þ. e. a. s. lokastig framleiðslunnar, er ekki rekinn með fullum afköstum. Til þessarar framleiðslu mætti flytja ammoníak inn frá útlöndum, og ef þessi saltpéturssýruverksmiðja væri reist, þá sýndist okkur að væri hægt að lækka verð áburðar verulega, jafnvel svo að þúsundum skipti á hvert tonn. Það þarf ekki að ræða um aðra kosti þess, eins og þá að vera sjálfum sér nógir eða að losna við þennan hvimleiða reyk sem í nýtískulegri verksmiðju mundi ekki sjást. Þessa áfangaskýrslu höfum við sent til ríkisstj. og ríkisstj. sent Þjóðhagsstofnun, og þar hygg ég að hún sé enn, eða þegar ég vissi seinast. Ég verð nú að segja að mig fer nú að lengja eftir því að þeir skili álíti hjá Þjóðhagsstofnun. Það er ekki nema sjálfsagt að þeir segi álit sitt á þessu máli, en þeir mega ekki draga svarið allt of lengi við sig. Hvað varðar annan áfanga ammoníakframleiðslu, þá var það miklu flóknara og stórkostlegra mál. Þar virðist þurfa geysimikla raforku til þess að hægt sé að framleiða með hagkvæmum hætti með heimsmarkaðssölu fyrir augum. Það er framleitt í Gufunesi ammoníak í gamalli verksmiðju og er sjálfsagt að halda því áfram. En nú er fluttur inn verulegur hluti af því ammoníaki sem hér er notað. Sú könnun, sem við erum að gera, beinist að því hvort hægt sé að framleiða með hagkvæmum hætti í lítilli verksmiðju. Könnunin er í fullum gangi og ég vona að niðurstöður liggi fyrir bráðlega. En satt að segja hafa þær hugmyndir, sem ég hef fengið um þetta, ekki gefið til kynna að maður megi vera mjög bjartsýnn. Til þess að þetta geti borið sig þarf bæði ákaflega mikið rafmagn, 500 mw. væntanlega eða eitthvað því um líkt, og enn fremur þarf það að vera mjög ódýrt til þess að geta keppt við jarðgas. Svo er líka hægt að framleiða ammoníak sem aukaafurðir við olíuhreinsun.

Hvað við kom orðum Eyjólfs Konráðs Jónssonar, hv. þm., þá er það góð regla hjá okkur, sem við ættum að taka upp sem oftast, að hæla hvor öðrum. Ég er nefnilega alveg á sama máli og Eyjólfur, að við eigum að gefa kjósendum færi á að velja á milli okkar. Við eigum að reyna að vinna saman að þeim hlutum sem við höfum svo svipaðar skoðanir á að við getum unnið saman að þeim, en við eigum ekki að dylja það fyrir kjósendum í Norðurl. v. að við erum talsvert ólíkir á ýmsan hátt og viðhorf okkar til uppbyggingar atvinnulífsins í Norðurl. v. og í þjóðfélaginu yfirleitt fara í veigamiklum atriðum alls ekki saman. Það eigum við alls ekki að dylja fyrir kjósendum, enda gerum við það ekki. Það gladdi mig sannarlega, að hv. þm. var stuðningsmaður till. okkar. Ég hygg nú samt að rökstuðningur sá, sem fram kemur í grg. till., sé á þann hátt að hann hefði ekki treyst sér til að vera meðflm. að málinu.

Hann lauk máli sínu með því að skýra frá þeirri skoðun sinni, að hann óskaði eftir að það yrði ekki rifrildi um þessar virkjanir. Hann vildi nú virkja hvort tveggja um tíma. Svo vildi hann ekki rifrildi. En það er náttúrlega alveg ljóst, að á öðrum staðnum verður ekkert rifrildi. Það er líka jafnljóst, að hvort sem við viljum, við Eyjólfur, hvort sem við viljum eða ekki, þá verður rifrildi á öðrum staðnum, og ég lofa honum engu um að taka ekki þátt í því. Þá væri ég að blekkja hann, en það vil ég alls ekki gera.