28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2881 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Frsm. meiri hl. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Þáltill. um vegáætlun var til fyrri umr. í hv. Sþ. 22. og 24. febr. s. l. og hlaut þá afgreiðslu til síðari umr. og hv. fjvn. Fjvn. hefur því haft áætlunina til athugunar í mánaðartíma. Formaður fjvn., hv. þm. Jón Árnason, gat ekki nema að takmörkuðu leyti tekið þátt í störfum n. vegna veikinda, en svo sem hv. alþm. er kunnugt liggur Jón nú á sjúkrahúsi. Vil ég nota þetta tækifæri til að óska honum góðs bata og þakka honum samstarfið við athugun vegáætlunarinnar. Þá vil ég þakka nm. öllum störf þeirra að afgreiðslu vegáætlunar. Enn fremur vil ég þakka Snæbirni Jónassyni vegamálastjóra, Helga Hallgrímssyni forstjóra tæknideildar og öðrum starfsmönnum Vegagerðarinnar fyrir hvers konar aðstoð við öflun og miðlun upplýsinga og úrvinnslu verkefna, en allt þetta starfslið hefur verið til þess boðið og búið að koma til liðs við fjvn. og einstaka þm. og þingmannahópa í sambandi við gerð vegáætlunar.

Eins og fyrr segir náðist ekki fullt samkomulag í n. um skiptingu vegafjár milli kjördæma, en allir nm. standa sameiginlega að till. n. um skiptingu fjár innan kjördæmanna. Sú aðferð var höfð við skiptingu framkvæmdafjár, að fjvn. skilaði till. um fjárveitingar til heildarframkvæmda í hverju einstöku kjördæmi og jafnframt till. um ákveðnar upphæðir til Borgarfjarðarbrúar, vegar á Holtavörðuheiði og um Oddsskarð. Þm. einstakra kjördæma hafa síðan gert till. um að skipta framlögum til stofnbrauta og þjóðbrauta á einstök verk og fjvn. hefur undantekningalaust tekið undir þær till. og gert að sínum. Auk þess gerðu þm. einstakra kjördæma nokkrar till. um hreyfingar fjármuna milli stofnbrauta og þjóðbrauta sem fjvn. mælir með.

Samkvæmt sérstökum lögum er gert ráð fyrir að afla lánsfjár á 4 árum til Norður- og Austurvegar að upphæð 2000 millj. kr. Á þessu ári verður til þessa verks aflað 500 millj. kr., auk þess sem skilað verður 350 millj. kr. sem aflað var á s. l. ári og þá lánað til almennra vegaframkvæmda. Samkvæmt lögum er þessu fé þannig skipt, að 2/3 hlutar fara til að gera veg frá Reykjavík til Akureyrar, en 1/3 í veginn frá Reykjavík um Suðurland til Egilsstaða. Á þessu ári er ráðgert að verja alls 321 millj. kr. til vegarins um Suðurland til Egilsstaða, þar af 283 millj. af lánsfé Norður- og Austurvegar, og 753 millj. til vegarins til Akureyrar. Þar af 567 milljónum af lánsfé Norður- og Austurvegar. Má því segja að ráðstöfun þessa fjár til Norður- og Austurvegar hafi nokkuð bundið hendur einstakra þm. við skiptingu vegafjárins milli verka.

Eins og fram kom við fyrri umr. um vegáætlun 1977–1980 þykir mörgum þm. fé til nýbyggingar vega af nokkuð skornum skammti og langt bil vera á milli framkvæmdaþarfar og þeirra fjármuna sem áætlað er að verja til gerðar nýrra vega. Hér skal fastlega tekið undir þær skoðanir að okkar íslendinga bíða feikistór óunnin verkefni í vegagerð. Tvennt ber þar hæst: að byggja vegina svo háa, að þeir verji sig sem mest fyrir snjóum á vetrum og aurbleytu á vorin og leggja á vegina bundið slitlag svo að losna megi við ryk og aurslettur og draga úr hinu óhæfilega sliti á bifreiðum og þeirri miklu eldsneytiseyðslu sem fylgir ósléttum og illfærum vegum vetur og sumar.

Samgöngur eru öllu þjóðlífi íslendinga engu síður nauðsynlegar en blóðrásin líkamanum. Stöðvist samgöngur lamast stærri eða minni hluti daglegs athafna- og menningarlífs. Við búum að ýmsu leyti við erfiðar aðstæður til að sjá þegnum landsins fyrir öruggu samgöngukerfi. Vegalengdir eru miklar, tíðarfarið erfitt og fólkið fátt til að standa undir kostnaði við vegagerð og aðra framkvæmdaþætti samgöngumála. Stórvirki hafa þó unnist í vegagerð undanfarna áratugi, og enn verður haldið áfram, á sömu braut og áður á tímabili þeirrar vegáætlunar sem hér er til umr., þótt hægar verði farið en hugurinn girnist og verkefnin kalla á.

Enn sitjum við í skugga þeirrar efnahagskreppu sem hófst á árinu 1974, en margt bendir þó til að stærstu efnahagsörðugleikarnir séu senn að baki. Þá skiptir miklu máli að aukinni framkvæmdagetu sé í ríkari mæli beint að vegagerð og þannig með auknum þunga að því unnið að draga úr þeim aðstöðumun sem núverandi ástand samgöngumála skapar þegnunum. Margt er það sem veldur mismun á allri lífsaðstöðu þegna þessarar þjóðar, en fátt mun þó valda meiri félagslegri og efnahagslegri mismunun en einmitt ójöfn aðstaða til að njóta þeirrar þjónustu sem þjóðvegakerfi landsins veitir.

Þótt nýbygging vega sé mikið nauðsynjamál má þó hitt ekki gleymast, að viðhald veganna vetur og sumar veldur miklu um viðunandi afnot þeirra. Í vegáætluninni, eins og hún var lögð fram, er gert ráð fyrir verulegu auknu fé til vegaviðhalds. Nú er þó sú breyting gerð í till. meiri hl. fjvn., að af því fé, sem áætlað var að verja til vegaviðhalds og stjórnunar og undirbúnings, eru 200 millj. kr. færðar á nýbyggingar. 40 milljónir eru teknar af liðnum verkfræðilegur undirbúningur. Í reynd þýðir þetta að eðlileg þjónusta verður við þau verk sem í gangi verða, en hins vegar seinkar áætlanagerð og undirbúningi þeirra framtíðarverkefna sem ekki hafa fjárveitingar á þessu ári. Nútímavegagerð krefst mikillar og nákvæmrar undirbúningsvinnu, og þótt nauðsynlegt sé að gæta fyllsta aðhalds á þessu sviði sem í öðrum þáttum opinbers rekstrar er fullljóst, að langvarandi takmörkun fjárveitinga til undirbúnings verkefna í vegagerð hlýtur að koma í bakseglin, enda ekki lagt til að þessi samdráttur standi nema eitt ár. Af viðhaldi malarvega eru teknar 25 millj. kr. og af viðhaldi vega með bundnu slitlagi 40 millj. kr. Hér er um að ræða að viðhald verður dregið sem þessu nemur til næsta árs. Af liðnum vinnsla efnis eru dregnar 30 millj. kr., en af vetrarviðhaldi 65 millj. kr. Er það von manna að vegna einstaks veðurfars í vetur í öllum landshlutum nema Norðaustur- og Austurlandi komi þessi frádráttur ekki að sök. Í sambandi við það má nefna að reiknað hafði verið með auknu fé til snjóruðnings vegna breyttra reglna um snjómokstur á þjóðvegum. Er ástæða til að geta þess hér, að þessar breyttu snjómokstursreglur bæta aðstöðu ýmissa þeirra sveitarfélaga eða mjólkurflutningafélaga sem mikinn kostnað hafa borið af snjómokstri í snjóþungum vetrum. Þó eru enn langir þjóðvegir um byggðir, jafnvel heilar sveitir, sem ekki eru ruddir nema einu sinni vor og haust, nema til komi helmingur kostnaðar frá heimamönnum, og stór landssvæði búa við það fyrirkomulag að fá aðeins opnaðan veg á ríkiskostnað einu sinni í viku eða tvisvar í mánuði.

Á árunum 1978 og 1979 er ekki lagt til að gerð verði nein tilfærsla á vegaviðhaldi til nýbyggingar vega. Er þess vegna gert ráð fyrir þeirri meginstefnu í vegáætlun þessara ára að viðhald vega verði aukið og því ekki lengur haldið í því lágmarki sem nú er. Gert er ráð fyrir að á árinu 1978 verði varið 2683 millj. kr. til viðhalds samanlagt, sem er 41% meira en nú er reiknað með í krónum talið.

Fé til nýrra framkvæmda á þjóðvegum er í samræmi við síðustu breytingar á vegalögum skipt milli stofnbrauta og þjóðbrauta auk þess sem fer til girðinga og landgræðslu. Fjárveitingum er skipt á einstök verk þrjú fyrstu árin, en ekki það fjórða. Samkvæmt lögum fer svo endurskoðun fram eftir tvö ár. Ástæðan fyrir því, að ekki er skipt niður á öll 4 árin, er sú, að vegna verðbólgunnar að undanförnu hefur verið ógerlegt að gera áætlanir til lengri tíma nema reiknað sé með verðhækkunum í einhverjum mæli.

Samkvæmt brtt. fá stofnbrautir fé sem hér segir: 1977 1944 millj., 1978 2013 millj. og 1979 1990 millj. kr., en þjóðbrautir á sömu árum 476 millj., 487 millj. og 450 millj. kr. Fé þessu, ásamt því fé sem næst með verktakalánum eða öðrum bráðabirgðalánum, verður að venju varið til margra verka, stórra og smárra. Af þeim stærri má nefna sérstaklega brú yfir Borgarfjörð. Til hennar eru ætlaðar 400 millj. kr. hvert hinna þriggja ára. Er hér dregið úr vinnuhraða frá því sem Vegagerðin hefur talið lágmark og gæti orðið til þess að stöðva yrði vinnu frá hausti til vors, sem að sjálfsögðu hefur mikinn aukakostnað í för með sér. Á Vestfjörðum er m. a. ætlað að ljúka vegagerðinni um Hörgsnes og hefja endurbyggingu vegarins yfir Önundarfjörð. Haldið verður áfram lagningu nýs vegar um Holtavörðuheiði, og er þess vænst að áður en vegurinn verður kominn sunnan frá upp á háheiði verði starfshópur sá, sem velur leið á heiðinni norðanverðri, búinn að ákveða leguna allt norður í Hrútafjörð. Af meiri háttar vegaframkvæmdum á Norðurlandi má nefna framhald vegagerðar á Hrútafjarðarhálsi, lagningu nýs vegar um Víkurskarð í stað núverandi vegar á Vaðlaheiði, vegagerð á Melrakkasléttu o. fl. Á Austfjörðum verður lokið við jarðgöngin undir Oddsskarð, endurbyggður vegurinn um Egilsstaðanes og ráðist í erfiðasta áfangann á Fjarðarheiði, sem er Efri-Stafurinn. Á Suðurlandi má nefna framhald endurbyggingar Suðurlandsvegar austan Þjórsár, en ráðgert er að fullgera hann austur að Landvegamótum á tímabilinu. Þá má og nefna fjárveitingar í Eyrarbakkaveg o. fl. Í Reykjaneskjördæmi ber hæst endurbyggingu á Hafnarfjarðarvegi gegnum Garðabæ, hluta Þingvallavegar og Garðskagavegar milli Garðs og Sandgerðis.

Fjárveiting til brúagerða er mjög rýr, 300 millj. kr. árið 1977, 337 millj. kr. árið 1978 330 millj. kr. árið 1979. Hér hefur valið verið mjög erfitt og af brúm, sem áætlað er að byggja á tímabilinu, má t. d. nefna þessar: Brú yfir Gljúfurá á mörkum Húnavatnssýslna og Kolgrímu í A.-Skaftafellssýslu á árinu 1917, Eldvatn hjá Syðri-Fljótum, Prestbakkaá á Hólmavíkurvegi og Búðarárgil á Húsavík á árinu 1978 og Fáskrúð í Dölum, Miðfjarðará í Bakkafirði og byrjun á brúargerðinni yfir Svarfaðardalsá 1979. Alls eru rúmlega 30 brýr á áætlun þessara þriggja ára. Enn eru þó margar ár óbrúaðar á þjóðvegum og sýsluvegum, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar mun nú vanta 39 brýr yfir ár á þjóðvegum þar sem engin brú er fyrir, þar af 14 10 m og lengri en 25 styttri. Á sýsluvegi vantar 49 brýr þar af 14 10 m og lengri, en 35 styttri. Ríkissjóði ber að greiða byggingu lengri brúa á sýsluvegunum að fullu, en þær styttri að 1/4 hluta. Auk þessa blasir hvarvetna við þörfin á endurbyggingu eldri brúa sem ýmist eru of þröngar fyrir umferð þeirra flutningatækja og vinnutækja, sem um brýrnar þurfa að fara, eða skortir burðarþol fyrir þau tæki, annað hvort nú þegar eða fyrirsjáanlega á næstu árum. Þá er mikil slysahætta við margar gamlar brýr bæði vegna þrengsla og þess að þær vita ekki rétt við vegum þeim sem að þeim liggja. Verkefni í almennri brúargerð sýnast því óþrjótandi og sér vart högg á vatni í áætlun þeirri sem hér liggur fyrir.

Með breytingu vegalaganna nú í vetur jukust tekjustofnar til sýsluveganna verulega, bæði heimaframlagið, sem verður tvöfalt á við það sem áður var, og ríkisframlagið, sem verður 21/2-falt í stað tvöfalt áður. Tekjur af fasteignum hækka einnig verulega. Gert er ráð fyrir að í hlut sýsluvega komi ríkisframlag sem nemur 129 millj. kr. á árinu 1977, 309 millj. kr. á árinu 1978 og 360 millj. kr. árið 1979 og 1980.

Um aðra hluta áætlunarinnar er það að segja í stuttu máli, að hlutur kaupstaða og kauptúna vex í samræmi við aukningu markaðra tekna og framlag til véla- og áhaldakaupa og byggingar áhaldahúsa hefur hækkað í samræmi við aðrar hækkanir sem orðið hafa að undanförnu.

Eins og fram kemur á þskj. 428 eru niðurstöður tekjuáætlunarinnar óbreyttar frá því sem þáltill. gerði ráð fyrir í upphafi að öðru leyti en því, að inn kemur nýr líður: heimild til töku vinnulána eða annarra bráðabirgðalána til nýrra þjóðvega. Er þessi upphæð 400 millj. kr. hvort árið 1977 og 1978. Ekki er bein trygging fyrir því að hve miklu leyti þessi heimild nýtist, en gert er ráð fyrir að nota heimildina einkum í sambandi við stærri verkefni við nýbyggingu vega, svo sem fram kemur á þskj. Heildarupphæð framkvæmdafjár á vegáætlun að lánsheimildunum meðtöldum, er 3204 millj. kr. á árinu 1977 og 3347 millj. kr. á árinu 1978. Árið 1976 var tilsvarandi upphæð 2532 millj. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðar ríkisins er framkvæmdamáttur þessa fjár 1976 og 1977 mjög svipaður ef miðað er við marsverðlag beggja áranna, eða miðað við núgildandi verðlag 3114 millj. 1976 og 3204 millj. 1977. Séu hins vegar verktakalánsheimildir undanskildar er um nokkurn samdrátt að ræða, en þessar heimildir voru 250 millj. kr. 1976 og af þeim nýttust aðeins tæplega 160 millj. Svipað er að segja um fé til annarra þátta vegáætlunar: stjórnunar, vegaviðhalds, snjómoksturs o. fl. Séu fjárveitingar ársins 1976 færðar til verðlags í mars 1977 verður niðurstaðan sú að fjárveiting til þessara þátta var 1851 millj. 1976 á móti 1904 millj. 1977. Krónutalan breytist hins vegar úr 1381 millj. 1976 í 1904 millj. 1977.

Svo sem fram kemur á þskj. 428 er gert ráð fyrir lánsfjáröflun á árinu 1977, auk fyrrnefndrar heimildar til töku vinnulána, að upphæð 1600 millj. kr. og 1800 millj. kr. árið 1977. Af þessu fé verður varið 850 millj. til Norður- og Austurvegar 1971 og 500 millj. 1978 eins og fyrr er frá skýrt. Lánsfjár þessa er ætlað að afla með sölu happdrættisskuldabréfa og almennra verðtryggðra skuldabréfa ríkissjóðs, en engin ákvörðun hefur enn verið um það tekin hvernig lánsfjáráætlunin skiptist milli þessara flokka. Engar áætlanir eru um töku erlendra lána til vegagerðar á áætlunartímabilinu.

Rétt er að vekja athygli á að gerðar eru till. um nokkra tilfærslu á vegum milli vegaflokka í samráði við Vegamálaskrifstofuna og þm. viðkomandi kjördæma.

Herra forseti. Ég mun nú brátt ljúka máli mínu. Eins og áður er fram tekið er fjvn. fullljóst að þörf hefði verið á mjög auknu fé til vegagerðar til að unnt hefði verið að koma til móts við ýmsar sanngjarnar og fullkomlega eðlilegar óskir þm. um athafnir í þeim þætti samgöngumála sem hér um ræðir. Um þetta er ekki ágreiningur milli meiri og minni hl. fjvn. Eins og ég hef áður lýst eru vegamálin einn viðkvæmasti þáttur fjárfestingarmála, og þessum þætti, nýbyggingu og viðhaldi vegakerfisins í landinu, hlýtur alltaf að vera sinnt eftir því sem aðstæður frekast leyfa. Á þessar athafnir er kallað í hverri byggð, hvort heldur er í sveit eða við sjó, og öllu miðar þetta nokkuð þó flestir hefðu viljað að hraðar gengi. Svo kann að fara að markaðar tekjur ríkissjóðs, bensíngjaldið, verði nokkru hærri en áætlað er nú. Til þess benda alveg nýjar tölur um sölu bensíns í mánuðunum nóv. 1976 til og með febrúarmánuði 1977. Verði svo ganga þeir fjármunir til vegagerðarinnar og munu þeir verða notaðir til að tryggja raungildi fjár til framkvæmda og viðhalds vega eftir því sem þessir fjármunir kunna að hrökkva til. Skýrt skal þá fram tekið að engin vissa er fyrir því að tekjuauki verði á þessum líð. Fjvn. lítur svo á að heimilt sé að flytja vinnulántökuheimildir milli verkefna ef þær nýtast ekki þar sem þeim er ætlaður staður í vegáætlun, enda sé haft samráð við þm. viðkomandi kjördæma.

Loks vil ég gera grein fyrir því, að fjvn. hefur fallist á að flytja brtt. um minni háttar leiðréttingu á skiptingu fjár til stofnbrauta í Norðurlandskjördæmi eystra. Er þessi brtt. flutt samkv. ósk allra þm. kjördæmisins og mun henni verða útbýtt mjög bráðlega.

Herra forseti. Að þessum orðum sögðum leyfi ég mér að leggja til að vegáætlun á þskj. 311 verði samþ. ásamt þeim brtt., sem fluttar eru á þskj. 428, og eins þeirri till. sem ég lýsti áðan og hef þó ekki gert grein fyrir efnislega. En rétt er að taka það fram, að þar er aðeins um minni háttar leiðréttingu að ræða eða tilfærslu á milli einstakra vega í Norðurlandskjördæmi eystra. — Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.