28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2886 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Frsm. 1. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Við fyrri umr. um þá till. til þál. um vegáætlun, sem hér er til umr., lét ég þau orð falla að e. t. v. væri ástæða til að ræða við fyrri umr. um ýmis einstök atriði varðandi vegamál, svo sem skiptingu milli stofnbrauta og þjóðbrauta og ákvarðanir um skiptingu fjár á milli kjördæma. En ég gat þess að allt kæmi þetta til kasta fjvn. að meta við störf í n. og að sjálfsögðu bæri að ná sem bestu samkomulagi um þessi atriði og því væri best að gera það starf ekki erfiðara með því að festa sig um of með yfirlýsingum um þessi atriði við fyrri umr. Ég gerði því sem sagt skóna að þessi atriði yrðu rædd og metin í fjvn. og kæmu þar til minna kasta sem annarra nm. Ég hef átt sæti í fjvn. í nær hálfan annan áratug og þóttist vita nokkurn veginn hvernig að málum yrði staðið og ekki kynnst þar öðru en lýðræðislegum starfsaðferðum.

Í þáltill. um vegáætlun, eins og hún er jafnan lögð fram, eru ekki gerðar till. um skiptingu fjár til nýrra þjóðvega milli kjördæma eða til einstakra verkefna, fremur en um er að ræða í fjárlagafrv. varðandi fjárveitingar til hafnarframkvæmda, sjúkrahúsbygginga, flugvalla eða samsvarandi verklegra framkvæmda. Til þess starfar fjvn. — öll nefndin — að ræða þá skiptingu og gera um hana tillögur. Ýmist fjallar öll fjvn. um slíkar frumtillögur eða n. er skipt í starfshópa eða undirnefndir þar sem sæti eiga venjulega tveir nm. frá meiri hl. og einn frá minni hl. n., og fylgjast þá gjarnan allir nm. með hvað tillögugerð undirnefndar liður áður en þær ganga endanlega frá sínum till. til allra n. Við störf undirnefnda eru fjvn.-menn í meira eða minna sambandi við þingmenn hinna ýmsu kjördæma.

Ég sleppti því sem sagt að ræða um einstök atriði vegáætlunar, skiptingu fjár milli kjördæma og annað þess háttar vegna þess að ég taldi það stuðla fremur að samkomulagi í væntanlegum störfum fjvn. við frumtillögugerð, að einstakir nm. kæmu skoðunum sínum fram þar, en bindu sig ekki um of fyrir fram við fyrri umr. þessari viðleitni, sem ég taldi eðlilegt að viðhafa til að ekki yrði í neinu spillt möguleikum á sem viðtækustu samstarfi í fjvn., var svarað á sérstakan hátt af þeim sem að þessu sinni fóru með stjórn á störfum n. Í nærfellt einn mánuð, frá því að þáltill. um vegáætlun var vísað til fjvn., vann hún sem heild ekkert að tillögugerð að venjulegum starfshætti n., heldur sat meiri hl. n. einn að störfum með starfsliði Vegagerðarinnar og gekk frá endanlegum till. um tilfærslur á fjárveitingum milli útgjaldaliða og um skiptingu fjár milli kjördæma, bæði varðandi stofnbrautir og þjóðbrautir. Þegar þær endanlegu till., sem hér liggja óbreyttar fyrir á þskj. 428, höfðu verið fjölritaðar var kallað á minni hl. n. og ákvörðunum útbýtt.

Af því ég nefndi starfsmenn Vegagerðarinnar vil ég sérstaklega taka fram í þessu sambandi að ég hef ekkert við þeirra störf að athuga. Störf þeirra eru sem jafnan áður til sérstakrar fyrirmyndar og fyrir þau eiga þeir þakkir skyldar. En þessi nýju vinnubrögð í fjvn., sem ég hef hér gert að umtalsefni, vil ég fyrir hönd nm. Alþb. átelja harðlega. Ég hef ekki kynnst slíkum aðferðum hjá neinum þeim sem stjórnað hafa störfum n. í um það bil hálfan annan áratug sem ég hef átt sæti í n., og ég vænti þess fastlega að slíkir starfshættir verði ekki viðhafðir framvegis. Sé það ætlunin að innleiða þá starfshætti, sem nú voru viðhafðir, sé ég ekki að minni hl. n., hverjir sem hann skipa hverju sinni þurfi að hafa fyrir því að ómaka sig á fund í nefndinni.

Það er að sjálfsögðu gríðarlegur munur á því að taka þátt í að skipta einni heildarupphæð milli kjördæma eða standa frammi fyrir gerðum till. meiri hl. n., enda fór það svo að jafnvel þeir þm. stjórnarflokkanna, sem höfðu ástæðu til þess að vera óánægðastir með hlut sinna kjördæma, gátu í engu hnikað þeim till. sem meiri hl. fjvn. hafði útbýtt. Ég ímynda mér t. d. ekki annað en að stjórnarþm. úr Reykjaneskjördæmi hafi lagt sig fram um að það kjördæmi yrði ekki leikið svo grátt sem raun er á, en fjárveiting til þess lækkar að raungildi um nálega 50% frá árinu 1976. Er það þó staðreynd að af þeim 78 km af malarvegum með 1000–10 000 bifreiða sumarumferð, sem til eru í landinu, er 51 km í Reykjaneskjördæmi. En till. meiri hl. fjvn. voru endanlegar till. sem jafnvel þeir þm. stjórnarflokkanna, sem ástæðu hafa til mestrar óánægju, fengu ekki í neinu hnikað. Þar á ég sérstaklega við þm. Reykjaneskjördæmis og þm. Vestfjarða sem augljóslega eru einnig mjög grátt leiknir.

Ég legg á það sérstaka áherslu, að við, sem skipum minni hl. fjvn., eigum enga aðild að till. um skiptingu vegafjár milli kjördæma, var ekki veitt til þess neitt tækifæri. Hins vegar tókum við hver fyrir sig þátt í skiptingu þess skammtaða fjármagns, sem kjördæmi okkar fengu, til einstakra verkefna í viðkomandi kjördæmi.

Það er vissulega sérstaklega óheppilegt að staðið skyldi að störfum í fjvn. með þeim hætti sem raun varð á nú þegar í fyrsta sinn er fjallað um vegáætlun eftir setningu nýrra vegalaga. En búast má við að skiptingin geti nú um of orðið fyrirmynd að ákveðnum hlutföllum milli kjördæma og þeim verði erfitt að breyta. Satt að segja vil ég með sjálfum mér trúa því að þessi nýju vinnubrögð stafi af einhverju athugunarleysi, en ekki af sérstökum ásetningi, og á því er reginmunur. En hvort heldur er, svona má ekki standa að málum, það er engum til góðs. En færist þetta til fyrri hátta skal afgreiðslan nú gleymd og grafin og ekki frekar á hana minnst. En á það mun síðar reyna.

Ég rakti við fyrri umr. hvernig vegamálum væri komið í höndum hæstv. ríkisstj., en framlög til vegaframkvæmda hafa rýrnað með hverri nýrri vegáætlun sem stjórnarflokkarnir standa að. Vegáætlun er nú endanlega afgreidd án þess að nokkrar úrbætur hafi fengist varðandi fjármagn frá því sem gert var ráð fyrir í upphaflegu till. Til þess að niðurskurður á raungildi framlaga til nýrra þjóðvega líti ekki út fyrir að vera eins verulegur og gert var ráð fyrir í upphaflegri þáltill. hefur meiri hl. n. gripið til þeirra sjónhverfinga að flytja nokkrar upphæðir milli útgjaldaliða. Til þess þurftu stjórnarþm. að fórna því sem þeir reyndu helst að halda sig við sem jákvæðum atriðum við fyrri umr. um vegáætlunina, að ekki væri dregið eins úr fjárveitingu til viðhalds vega og til nýrra framkvæmda. Nú er lagt til að skera af viðhaldi og flytja á nýjar framkvæmdir 160 millj. kr. Af þessum 160 millj. eru 65 millj. kr. lækkun á vetrarviðhaldi og getur sú ráðstöfun verið eðlileg með tilliti til hagstæðrar veðráttu þann tíma sem af er árinu. Hins vegar tel ég mjög vafasama þá ákvörðun að lækka framlag til viðhalds bundins slitlags úr 140 millj. kr. í 100 millj. Með þessari ráðstöfun lækkar raungildi þess fjár frá raunverulegri notkun í fyrra og nemur aðeins 60% af áætlaðri þörf. Með þessu er einungis verið að ýta vandamálum á undan sér og efna til aukinna útgjalda síðar, en segja má að einmitt slíkar ráðstafanir setji mark sitt á vegáætlun nú eins og fyrri daginn hjá hæstv. meiri hl. Viðhald malarvega er lækkað um 25 millj. kr. frá upphaflegri till. og nemur nú einungis um 66% af áætlaðri þörf. Framlag til vinnslu efnis er lækkað um 30 millj. frá upphaflegri þáltill. og nemur aðeins 57% af áætlaðri þörf.

Með till. meiri hl. fjvn. um lækkun á fjárveitingu til viðhalds þjóðvega nemur sá útgjaldaliður í heild 1904 millj. kr. Sé sú upphæð borin saman við fjárveitingu í vegáætlun, sem lögð var fram 1974, kemur fram að miðað við vísitölu viðhaldskostnaðar, 2339 stig í ágúst 1974. og 7158 stig í ágúst 1977, skortir 501.4 millj. kr. á að framlag til viðhalds þjóðvega sé jafnt að raungildi og í þáltill um vegáætlun frá 1974 eða einungis 79.1% af raungildi þá.

Þá leggur meiri hl. fjvn. til að hækkað verði framlag til nýrra þjóðvega með þeim einfalda hætti að lækka liðinn verkfræðilegur undirbúningur um 40 millj. kr. Niðurstaðan verður einungis sú, að 40 millj. kr. af kostnaði við verkfræðilegan undirbúning, sem hefðu verið færðar á sinn sérstaka lið í vegáætluninni, verða nú færðar til útgjalda af viðkomandi verkum á liðnum til nýrra þjóðvega. Þetta fellur greinilega undir þá aðferð að fóðra hundinn á rófu sinni og eykur að sjálfsögðu ekki í raun fjárveitingar til nýrra þjóðvega um eina krónu. Meiri hl. finnst þetta líta betur út á pappírnum, en það eru ekki svona sannkallaðar hundakúnstir sem vantar við afgreiðslu vegáætlunar, en við höfum séð þær áður til núv. meiri hl. Þrátt fyrir tilraunir til að hækka framlög til nýrra þjóðvega með þessum hætti og þótt þessar 40 millj. kr., sem fengnar eru þannig, séu nú að öllu leyti taldar með liðnum til nýrra þjóðvega, þá verður ekki fram hjá þeirri staðreynd komist að jafnvel sú heildarupphæð, sem að hluta til er fengin með þessum hundakúnstum, verður að raungildi lægri og lægri með hverri nýrri vegáætlun sem stjórnarflokkarnir afgreiða.

Ég hef stundum áður rakið ummæli þm. Sjálfstfl. sem þeir viðhöfðu þegar Alþ. var að ræða um till. til þál. um vegáætlun fyrir árið 1974 og þær till. um framlög til nýrra þjóðvega sem þáv. ríkisstj. lagði fram. Þær till. töldu þm. Sjálfstfl. allt of lágar og þjóðin þyrfti fyrst og fremst að tryggja aukin áhríf Sjálfstfl. til þess að vegamálum væri borgið. En till. þáv. stjórnarflokka um framlög til nýrra þjóðvega jafngiltu 4527 5 millj. kr. á vegáætlun fyrir árið 1977 miðað við vísitölu vegagerðar 2094 stig í ágúst 1974 og 5804 stig í ágúst 1977–4527.5 millj. kr. í stað þeirra 2460 millj. sem stjórnarflokkarnir telja hæfilegt í ár þegar Sjálfstfl. hefur stjórnarforustu.

Sá misskilningur kom fram hjá einum hv. þm. Framsfl., þegar ég gerði þennan samanburð við fyrri umr. um vegáætlun á dögunum, að ég hefði borið saman annars vegar áætluð framlög til nýrra þjóðvega í ár og hins vegar kröfur þm. Sjálfstfl. til fjárveitinga til sömu verkefna við umr. um vegáætlun fyrir árið 1974, þar hefði verið um óábyrga stjórnarandstöðu að ræða og slíkt væri ekki hæfur viðmiðunargrundvöllur við fjárveitingar nú. Það má rétt vera að kröfur þm. Sjálfstfl. um miklu hærri fjárveitingar í Vegáætlun fyrir árið 1974 hafi verið kröfur óábyrgrar stjórnarandstöðu. En aðalatriðið er það, að við þær miðaði ég ekki í tölulegum samanburði, enda hefði það verið erfitt. Kröfur sjálfstæðismanna voru ekki lagðar fram á tölulegum grundvelli, heldur einfaldlega krafist miklu meira fjármagns en ráðgert var í þáltill. Ég bar saman till. um fjárveitingar til nýrra þjóðvega nú í ár og till., sem þáv. stjórnarflokkar, þ. á m. Framsfl., lögðu fram vorið 1974 og voru úthrópaðar af þm. Sjálfstfl. sem allt of lágar.

Síðan þm. Sjálfstfl. fengu stjórnarforustuna í landinu og aðstöðu til að efna fyrirheitin um miklu meira fjármagn til nýrra þjóðvega en samsvarar ríflega 4500 millj. kr. í dag hafa þeir með dyggum stuðningi Framsfl. skorið niður þessa fjárhæð með hverri nýrri vegáætlun sem þessir flokkar hafa staðið að, og í þeirri till., sem hér liggur fyrir, er fjármagnið að raungildi rétt ríflega helmingur þess sem þm. Sjálfstfl. þótti allt of lítið fyrir þremur árum.

Í fyrravor var svo komið á þessari braut, að skera niður framlög til vegamála, að þm. stjórnarflokkanna töldu óframkvæmanlegt að sá skammtur, sem þeir ætluðu til nýrra þjóðvega 1976, gæti verið grundvöllur til hliðstæðra fjárveitinga næstu ár á eftir, en samkv. lögum skyldi vegáætlun gilda til 4 ára. Þeir gripu því til þess ráðs að breyta lögunum og samþ. bráðabirgðavegáætlun til eins árs og láta svo líta út sem í vændum væri fyrir afgreiðslu vegáætlunar á þessu ári endurskoðun tekjustofna Vegasjóðs með því markmiði að snúa við þeirri öfugþróun sem stjórnarliðið hefur staðið að allt frá upphafi stjórnarferils síns. Og nú er ári bráðabirgðavegáætlunarinnar lokið og komið að því að afgreiða vegáætlun samkv. lögum til 4 ára. Niðurstaðan er sú, að stjórnarflokkarnir hafa ekkert gert í þá átt að endurskoða stöðu Vegasjóðs, ekkert gert til þess að tryggja Vegasjóði fjármagn í svipuðum mæli og hann hafði til ráðstöfunar í nýbyggingar vega áður en hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum. Þvert á móti leggja stjórnarflokkarnir nú til að áfram haldi sú öfugþróun sem þeir hafa staðið að: sírýrnandi fjármagn til nýbyggingar vega.

Eftir að hafa skorið niður sínar eigin till. um framlög til viðhalds þjóðvega og eftir að hafa fært 40 millj. kr. kostnað við verkfræðilegan undirbúning af þeim sérstaka útgjaldalið, sem sá kostnaður hefur verið á, yfir á nýbyggingu þjóðvega, er gert ráð fyrir að framlag til nýrra þjóðvega í ár nemi 2460 millj. kr. og er raungildi fjárveitinga til nýrra þjóðvega þó minna í ár en í bráðabirgðavegáætlun í fyrra. Ef frá eru reiknuð bæði árin verktakalán, sem enginn veit hver verða í raun í ár, nam fjárveitingin í fyrra 2116 millj. kr., en 2460 millj. kr. í ár, en það þýðir, miðað við vísitölu vegagerðar 4634 stig í ágúst 1976 og 5801 stig í ágúst í ár, að stjórnarflokkarnir gera nú ráð fyrir að lækka raungildi framlaga til nýrra þjóðvega enn um 185 millj. kr. í ár frá bráðabirgðavegáætlun í fyrra.

Séu áætlaðar fjárveitingar til nýrra þjóðvega á þessu ári bornar saman við samsvarandi fjárhæð í þáltill. um vegáætlun, sem lögð var fram vorið 1974 og Sjálfstfl.- menn töldu þá hneykslanlega lága og óframbærilega með öllu, þá er framlag til nýrra þjóðvega á árinu 1977 að raungildi einungis 54.5% af þeirri fjárhæð sem Sjálfstfl.- þm. hömuðust mest gegn 1974.

Stjórnarflokkunum tveimur, Framsfl., sem vill láta telja sig sérstakan byggðastefnuflokk, og Sjálfstfl., sem hæst hafði um nauðsyn hærri fjárveitinga til vegamála en áætlaðar voru vorið 1974, hefur með markvissri stefnu sameiginlega tekist að rýra þessi framlög um nærri helming á þrem árum. Almenningur í landinu hafði vissulega ástæðu til að ætla að af stjórnarsamvinnu þessara flokka hlytist önnur þróun í vegamálum. Áróður Framsfl. um áhuga sinn á byggðastefnu, en einn aðalgrundvöllur hennar eru bættar samgöngur um alla landsbyggðina, gaf tilefni til að búast við annarri þróun. Háværar kröfur þm. Sjálfstfl. um hærri framlög en áætluð voru 1974 til nýbyggingar vega, en þær áætlanir samsvara í dag 4500 millj. kr., hafa án efa gefið ýmsum ástæðu til að gera ráð fyrir annarri þróun en raun hefur orðið á undir stjórnarforustu Sjálfstfl.

Framtak nokkurra þm. stjórnarflokkanna í þá átt að fá samþ. lög um sérstaka fjáröflun til Norður- og Austurvegar, 500 millj. kr. á ári í 4 ár, bendir til þess að þeir ímynduðu sér að nú væri að renna upp ár aukinna umsvifa í vegamálum, því þeir lögðu ríka áherslu á að þetta fjármagn ætti að koma til viðbótar við það almenna vegafé sem a. m. k. sumum þeirra hafði þótt allt of lítið 1974. Hver hefur reynslan orðið? Við vitum hvað gerðist í fyrra. Af stórskertu heildarfé til nýrra þjóðvega töldust 350 millj. kr. vera lán frá þessari sérstöku fjáröflun af happdrættislánafé, og þær 150 millj. kr., sem varið var til Norður- og Austurvegar, voru innifaldar í þeirri heildarfjárhæð sem stórrýrnaði að raungildi frá því sem allt almennt vegafé hafði áður verið. Þrátt fyrir 500 millj. kr. fjáröflun í fyrra samkv. þessum sérstöku lögum reyndist heildarfjármagn miklu minna að raungildi en áður. 150 millj. kr. skammtur af þessu stórrýrða vegafé var þannig tekið til Norður- og Austurvegar, en 350 millj. kr. töldust skuld hinna almennu vegaframkvæmda við Norður- og Austurveg. Og við afgreiðslu vegáætlunar nú, þegar heildarfjármagnið til nýrra þjóðvega að meðtöldu fé happdrættisláns vegna Norður- og Austurvegar rýrnar enn að raungildi, eru 850 millj. kr. teknar sérstaklega í þessar framkvæmdir, þar af 350 millj. kr. vegna skuldar við Norður- og Austurveg frá í fyrra.

Í stað þess að fjármagn til Norður- og Austurvegar kæmi til viðbótar almennu vegafé hefur framkvæmdin orðið sú, að allar fjárveitingar til Norður- og Austurvegar hafa verið teknar af framkvæmdafé til vegamála sem er miklu minna að raungildi en þegar þessi lög komu til. Þau veita einungis þessum vegum forgangsrétt til 1000 millj. kr. nú á tveim árum af stórskertu heildarfjármagni til nýrra þjóðvega. Ég efast um að nokkur hv. alþm. hefði samþ. þessi lög ef vitað hefði verið með þvílíkum endemum stjórnarflokkarnir hafa staðið að framkvæmd þeirra. Það fer ekkert á milli mála að lög um happdrættislán vegna Norður- og Austurvegar samþ. þm. í fullu trausti þess og algerlega út frá þeirri forsendu að hér yrði um viðbótarfjármagn að ræða, viðbót við það fjármagn sem áður hafði jafnan verið aflað til vegaframkvæmda. Um þann skilning má vitna í ýmis ummæli frá þeim tíma er rætt var um þessa lagasetningu á þinginu.

Hv. 4. þm. Suðurl., Jón Helgason, sagði t. d. í Ed. 16. maí 1975, með leyfi hæstv. forseta: „Ég held, að ef við fáum fjármagn til viðbótar til þessara vega, þá muni það létta á og auðvelda vegaframkvæmdir alls staðar í landinu. Það, sem við erum að gera með þessu, er að reyna að fá fjármagn til viðbótar til vegagerðar.“

1. flm. frv., hv. 4. þm. Norðurl. e. Eyjólfur K. Jónsson, sagði hinn 11. maí 1976, með leyfi hæstv. forseta: „En það var öllum ljóst, bæði flm., ráðh., þeim sem andstæðir voru frv. eða kannske fylgdu því þótt þeir bentu á annmarka í sínum eigin kjördæmum og annars staðar, þá var öllum ljóst, að hér var um að ræða viðbótarfjármagn við hinar almennu fjárveitingar.“

Og í framsögu fyrir nál. um frv. hafði sami hv. þm. greinilega ætlað þessum lögum önnur örlög en þau sem raun hefur orðið á, þegar það er nú einungis forgangsréttur ákveðinna vegahluta af stórskertu heildarfé til almennra vegaframkvæmda. Þá sagði hv. þm., með leyfi hæstv. forseta: „Því hér er á ferðinni mál, sem marka mun þáttaskil í samgöngumálum landsmanna.“ Síðar í sömu ræðu sagði hv. 4. þm. Norðurl. e., með leyfi hæstv. forseta: „Rétt er að leggja á það áherslu, að hugmyndin hefur ætið verið sú, að því fé, sem með þessum hætti er aflað, sé varið til sérstakra meiri háttar verkefna án þess að skipting vegafjár á vegalögum raskist.“ Og ræðu sinni lauk hv. þm. með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta: „Á miðju þjóðhátíðarári var hringvegur opnaður um landið. Það fer vel á því í lok ársins að taka ákvörðun um mestu stórframkvæmdir í samgöngumálum hingað til og sameinast um að hrinda þeim í framkvæmd á næstu árum.“ Þessi orð voru mælt hinn 13. des. 1974.

Við höfum nú séð efndirnar á þessum fyrirheitum um stóraukið fé til vegamála og sérstaklega um það mikla viðbótarfé sem með lögunum um happdrættislán vegna Norður- og Austurvegar átti að koma ofan á það fé sem hér áður var veitt til nýrra þjóðvega. Heildarfjármagnið til allra nýrra vegaframkvæmda á árinu 1977 nemur að raungildi 54.5% af því fé sem áætlað var til framkvæmda á árinu 1974, og meðtalið í þeim 54.5% er fé fengið með sölu happdrættislánabréfa vegna Norður- og Austurvegar. Aðrar framkvæmdir hafa rýrnað þeim mun meira.

Ef þær 850 millj. kr., sem ætlaðar eru til framkvæmda við Norður- og Austurveg í ár, eru dregnar frá heildarfjármagninu, 2460 millj. kr., þá er það fjármagn, sem til annarra framkvæmda fer, 1610 millj., en heildarfjárveiting til nýrra þjóðvega á áætlun fyrir árið 1974 nam 1633.3 millj. kr., þannig að upphæðin er 233.3 millj. kr. lægri að krónutölu í ár og nemur aðeins 36.1% af verðgildi áætlaðrar fjárveitingar fyrir þrem árum.

Þetta eru nú efndirnar á fyrirheitunum um sérstakt viðbótarfé til vegamála, fyrirheitunum um mestu stórframkvæmdir í samgöngumálum hingað til. Sannleikurinn er sá, að eins og nú er haldið á málum varðandi lögin um lánsfé til Norður- og Austurvegar, þar sem þau þýða í reynd einungis skerðingu til annarra framkvæmda fyrir vegafé sem þegar hefur verið stórlega skorið niður frá því sem var fyrir setningu laganna, þá ætti að afnema þessi lög og breyta þeim í heimild til fjáröflunar til almennra vegaframkvæmda. Ef hugað er að því, hvað af þessari framkvæmd laganna leiðir, að þau séu í raun einungis forgangur ákveðinna vegahluta af stórskertu vegafé, má nefna sem dæmi að Reykjaneskjördæmi fékk til framkvæmda 1976 287 millj. kr., sem var langlægsta upphæð að verðgildi í um áratug. Nú er sá skammtur, sem meiri hl. fjvn. ákvað þessu kjördæmi, á verðlagi ársins 1976 146 millj. kr., og jafnframt átti að fylgja kvöð um að ákveðinn hluti þessarar upphæðar yrði að fara í þann hluta Norður- og Austurvegar sem liggur um kjördæmið. Ég bjóst satt að segja við því að þm. Reykjaneskjördæmis í ríkisstjórnarflokkunum mundu í þingflokkum sínum ekki fallast á eða una þessari ákvörðun meiri hl. fjvn., og svipað get ég sagt varðandi þm. Vestfjarðakjördæmis.

En ég ítreka það sem ég áðan sagði, að ef þetta á að verða niðurstaðan um framkvæmd laganna um Norður- og Austurveg, að þau þýði aðeins forgang ákveðinna vegahluta af stórskertu almennu vegafé, þá er heiðarlegra að breyta lögunum í almenna lántökuheimild til vegaframkvæmda.

Á sama tíma og stjórnarflokkarnir standa þannig að málefnum Vegasjóðs verða þeir, sem nota vegina, að greiða sífellt hærri upphæðir í rekstararútgjöldum bifreiða til að standa undir útþenslunni í rekstri ríkissjóðs, en frá árinu 1974 hefur liðurinn önnur rekstrargjöld ríkissjóðs hækkað um 4000 millj. kr. meira en svarar til almennra verðlagshækkana á sama tíma.

Heildartekjur ríkissjóðs af innflutningsgjöldum af bifreiðum og af söluskatti og tollum af bifreiðum og bensíni munu nema á þessu ári um 8150 millj. kr., á sama tíma og greiðslur ríkissjóðs á vöxtum og afborgunum lána Vegasjóðs og beint framlag til Vegasjóðs nemur 2079 millj. kr. Mismunurinn, sem hafnar í ríkissjóði, nemur 6071 millj. kr. á þessu ári, en það er nærri tvisvar og hálfum sinnum hærri upphæð en varið er til allra framkvæmda við nýja þjóðvegi í landinu í ár.

Jafnvel þótt miðað sé við fyrstu vegáætlun hæstv. núv. ríkisstj., vegáætlun fyrir árið 1975, en ekki þær sem ríflegri voru fyrir hennar tíð, kemur í ljós að raungildi nettótekna ríkissjóðs af þeim sköttum af bifreiðum og bensíni, sem ég nefndi, hefur s. l. tvö ár hækkað um tæpan milljarð kr., eða 907 millj. kr., á sama tíma og raungildi fjárveitinga til nýrra þjóðvega hefur rýrnað um u. þ. b. hálfan milljarð kr.

Það er alveg ljóst að þessi þróun getur ekki haldið áfram lengur. Þeir, sem fyrir henni hafa staðið, hljóta að fara að gera sér það ljóst. Sú aukning raungildis nettótekna ríkissjóðs af sköttum af bifreiðum og bensíni, sem ég hér nefndi, á sama tíma og ráðstöfunarfé Vegasjóðs rýrnar, er miðuð við áætlunartölur fyrir árið í ár, en ég tel lítinn vafa á að þær séu of lágar. Ég tel t. d. að ríkissjóður muni á þessu ári fá talsvert hærri tekjur af innflutningsgjöldum af bifreiðum en gert er ráð fyrir í fjárl. Í frv. til fjárlaga var innflutningsgjald af bifreiðum miðað við innflutning 3800–3900 bifreiða á árinu 1977 og í endanlegri gerð fjárl. líklega við innflutning um 4000 bifreiða, en raunveruleg tala um innflutning bifreiða á árinu 1976 reyndist 4477 bifreiðar. Það svarar líklega til um 1800 millj. kr. í innflutningsgjöld, en í fjárl. fyrir árið 1977 er gert ráð fyrir 1600 millj. kr. tekjum. Breyttar ytri aðstæður og mjög takmarkaður innflutningur bifreiða um alllangt skeið veldur því, að búast má við nokkru meiri sölu á þessu ári. T. d. seldust 153 bifreiðar í janúar 1976, en 408 bifreiðar í janúar í ár.

Ég held því að svo kunni að fara að ríkissjóður fái í sérstakt innflutningsgjald og tolltekjur af bifreiðinni hundruð millj. kr. umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárl. Svipað er að segja um bensínsöluna og söluskattstekjur ríkissjóðs af henni. Söluskattstekjur ríkissjóðs af bensíni eru áætlaðar um 1450 millj. kr. í ár. Gert er ráð fyrir í vegáætlun að magnaukning bensínsölu verði ríflega 3% á þessu ári. Miðað við að veðrátta var með eindæmum óhagstæð í fyrra á því svæði þar sem notkunin er yfirgnæfandi mest, og miðað við mjög aukna umferð það sem af er þessu ári, eru líkur á að ríkissjóður muni fá í söluskatt af bensíni allmiklar tekjur umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárl. Ég held að þegar á að fara að samþ. jafnvesældarleg framlög til framkvæmda í vegamálum eins og gert er ráð fyrir í þessari vegáætlun sé það lágmarkskrafa, að gert sé ráð fyrir að ef um umframtekjur verði að ræða hjá ríkissjóði af sköttum af bifreiðum og bensíni, miðað við það sem gert er ráð fyrir í fjárl. í ár, þá verði þeim varið til að auka framlagið til Vegasjóðs, t. d. með þeim hætti að ríkissjóður greiði verktakalán sem tekin hafa verið og tekin kunna að verða. Ef í ljós kemur, þegar líður á sumarið, að tekjur ríkissjóðs af bensíni og bifreiðum verði meira en ráð var fyrir gert, þarf að beina þessum umframtekjum til Vegasjóðs, svo að sú þróun haldi ekki stöðugt áfram að fjármagn Vegasjóðs rýrni stöðugt að verðgildi, en raungildi tekna ríkissjóðs af bensíni og bifreiðum aukist að sama skapi. Síðan er algjörlega óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til þess, að a. m. k. hluti af auknum rauntekjum ríkissjóðs af umferðarsköttum renni til Vegasjóðs til frambúðar, t. d. helmingur söluskatts af bensíni og jafnvel bifreiðum einnig. A. m. k. er ljóst að þessari öfugþróun um stöðugt minna fjármagn til vegaframkvæmda samtímis vaxandi umferð hlýtur nú að ljúka. Það getur ekki staðist að Alþ. haldi áfram þeirri stefnu að skera niður þessar nauðsynlegustu samfélagslegu framkvæmdir sem m. a. ráða úrslitum um byggðaþróun í landinu, á sama tíma og alls kyns verðbólgugróðafjárfesting einkaaðila heldur stjórnlaust áfram.

Í fyrra var reynt að breiða yfir þá ákvörðun stjórnarflokkanna að skera stórlega niður vegaframkvæmdir með því að láta líta svo út að sá niðurskurður ætti einungis að gilda fyrir það eina ár. Á þetta var lögð áhersla með því að samþ. aðeins bráðabirgðavegáætlun til eins árs, því ekki var talið stætt á að sýna þann niðurskurð sem grundvöll fjárveitinga öll þau fjögur ár sem lögin buðu að vegáætlun gilti. Nú heldur niðurskurðurinn áfram. En í stað þess að beita sömu aðferð um bráðabirgðavegáætlun í eitt ár er nú látið líta svo út að í raun sé ekki að marka þann sama niðurskurð sem felst í fjárveitingum síðari þrjú árin, heldur eigi að endurskoða tekjuöflun Vegasjóðs og jafnvel að endurskoða vegáætlun í framhaldi af því þegar á næsta ári. Betur ef satt reyndist.

En svo vill til að sumum hv. þm. stjórnarflokkanna dugði naumast sú afsökun á niðurskurði vegafjár sem fólst í því að samþ. einungis bráðabirgðavegáætlun s. l. vor. Þeir töluðu einnig þá þegar um að tíminn yrði notaður til að endurskoða tekjustofna Vegasjóðs. Hæstv. samgrh. sagði t. d. hinn 11. maí 1976 við afgreiðslu bráðabirgðavegáætlunar, með leyfi hæstv. forseta: „Það, sem ég vil segja, er að það er alveg nauðsynlegt, eins og ég kom að í dag, að endurskoða tekjuöflun til vegagerðarinnar. Ég tek undir það með hv. 2. þm. Austurl. og þeim öðrum, sem hér hafa talað, að brýna nauðsyn ber til þess arna. Ég mun reyna að verða til þess, að það dragist ekki.“

Ég þykist vita að hæstv. ráðh. hefur ekki orðið til þess að endurskoðunin hefur þrátt fyrir allt dregist og nú að ári liðnu bólar ekkert á neinum aðgerðum í þá átt að bæta hag Vegasjóðs, heldur er fjármagn til nýbyggingar vega enn skorið niður. En það hafa þó einhverjir aðrir orðið til þess en hæstv. ráðh. að endurskoðunin hefur dregist, og hæstv. ráðh. er vissulega vorkunn að þurfa að vera svo lengi í slagtogi með þeim sem virðast hafa orðið til þess að draga þessar ráðstafanir.

En nú koma samtímis niðurskurðinum á vegafé nýjar yfirlýsingar og ný fyrirheit. Við höfum séð efndirnar á fyrirheitum Sjálfstfl. um stóraukið fé til vegaframkvæmda þegar þeir fengu þau völd sem þeir hafa nú haft í þrjú ár. Við höfum sé efndir fyrirheitanna um 2000 millj. kr. viðbótarfjármagn til vegaframkvæmda með happdrættisláni til Norður- og Austurvegar. Við höfum séð efndir fyrirheitanna frá í fyrra um endurskoðun tekjustofna Vegasjóðs. Öll þessi fyrirheit stjórnarflokkanna í vegamálum og það hver raunveruleikinn hefur orðið leiðir hugann að því, að þjóðin fylgdist á dögunum með sérstökum vegaframkvæmdum á Vesturlandsvegi, á Kjalarnesi, og allir þekkja efndirnar á þeim fögru fyrirheitum sem þar voru gefin. Fyrirheit ríkisstjórnarflokkanna og efndir í vegamálum í heild eru alveg í stíl við þetta vegaævintýri, einungis miklu stærri í sniðum, loforðin jafnt og það sem kom í staðinn fyrir efndirnar.