28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2895 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Frsm. 2. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson) :

Herra forseti. Þegar till. ríkisstj. um vegáætlun fyrir árin 1977–1980 var lögð fram á Alþ. fyrr í vetur var ljóst orðið að jafnvel það tilefni, sem hæstv. ríkisstj. hafði fengið til þess að endurskoða tekjuöflun Vegasjóðs, þar sem voru ný vegalög, hafði ekki verið notað. Hæstv. ríkisstj. lagði fram till. sínar um fjármögnun vega á þessu næsta áætlunartímabili, árin 1977–1980, án þess að hafa sinnt því meginverkefni sem hennar beið, að endurskoða tekjuöflun Vegasjóðs. Það var því ekki furða þótt ýmsir kæmust að þeirri niðurstöðu að e. t. v. ætti um úrslit þessa máls að fara eins og úrslit skattalagafrv. ríkisstj. að hér væri um að ræða mál sem hæstv. ríkisstj. hefði gefist upp við að leysa, en ætlað að vita hvort Alþ. gæti fundi lausn á. Þannig hefur hæstv. ríkisstj. farið að um ýmis stærstu vandamál sem að henni hafa steðjað, eins og t. d. um skattalögin sem stjórnarflokkarnir hafa gefist upp við að reyna að leysa á sínum vettvangi en óskað eftir því við Alþ. að það tæki við vandanum af hæstv. ríkisstj. Menn héldu að e. t. v. kynni að vera svo, að ríkisstj. ætlaði að láta á það reyna hvort Alþ. væri reiðubúið til þess að sinna því verkefni sem hæstv. ríkisstj. sjálf og stuðningsflokkar hennar höfðu gefist upp við. Og það var auðséð þegar þessar till. voru lagðar fram, að það verk, sem hæstv. ríkisstj. hafði gefist upp við að vinna, að endurskoða tekjuöflun Vegasjóðs, það varð að vinna og þurfti að vinna áður en þessi vegáætlun væri afgreidd.

T. d. var þeirri stefnu haldið áfram í þessum till. hæstv ríkisstj., sem verið hefur stefna hennar undanfarin ár, að lækka framkvæmdafé að jafnaði á milli ára um 25%. Niðurstaðan var orðin sú, að á 5 s. l. árum, frá árinu 1972 til ársins 19–17, hafði framkvæmdafé til nýbyggingar vega lækkað um yfir 50%. Til þess að vegaframkvæmdir við nýbyggingar vega héldu gildi sínu árið 1977 hefði þurft að verja til þeirra framkvæmda, miðað við árið 1972, alls 5695 millj. kr. Í till. ríkisstj. var hins vegar aðeins gert ráð fyrir því að verja í þessu skyni 2260 millj. Sú tala hefur nú hækkað um 200 millj. kr. í meðförum meiri hl. fjvn. Á fimm ára tímabili hefur það sem sé gerst fyrir tilstuðlan núv. hæstv. ríkisstj. að framkvæmdafé til nýbyggingar vega á Íslandi hefur rýrnað um meira en helming. Rýrnunin á framkvæmdafénu, sem hæstv. ríkisstj. hefur af náð sinni úthlutað til vegagerðar í landinu, hefur því ekki aðeins verið jöfn og þétt frá ári til árs, heldur einnig mjög ör.

Þá kom það einnig fram í ræðu, sem ég flutti í vetur þegar till. ríkisstj. voru fyrst til umr., að frá árinu 1972 til ársins 1977 hefði það gerst, að almennar tekjur Vegasjóðs hefðu lækkað úr 5.43% af ríkistekjum í 3.63% og á sama árabili hefði framlag ríkissjóðs til vegasjóðs lækkað úr 1.18% af ríkistekjum í 0.88. Þessar samanburðartölur svo og sú staðreynd, að jafnt og þétt drægi úr framkvæmdum í vegamálum ár frá ári vegna stöðugt rýrnandi fjárveitinga til vegamála, gerðu það að verkum að tekjuöflunaraðferðir Vegasjóðs yrði að endurskoða og þá að sjálfsögðu með hliðsjón af almennri tekjuöflun ríkissjóðs og þá einkum og sér í lagi tekjum ríkissjóðs af umferðinni sem eru margfalt meiri en nemur framlagi ríkissjóðs til vegamála. Sem dæmi um það, hve tekjur ríkissjóðs af bílainnflutningi og bílaumferð eru miklu meiri en framlög sjóðsins til vegagerðar, má nefna það, að á árinu 1977 eiga tolltekjur af innflutningi á bifreiðum að nema 2300 millj. kr., söluskattur af innflutningi á bifreiðum um 1550 millj. kr., auk sérstaks innflutningsgjalds sem á að nema um 1600 millj. kr. á því ári. Tekjur ríkissjóðs af sölu á bensíni eru tolltekjur að upphæð 1250 millj. kr., söluskattur að upphæð 1450 millj. kr. Alls eru tekjur ríkissjóðs af innflutningi bifreiða og sölu á bensíni nokkuð yfir 8000 millj. kr. Á sama tíma er beint framlag ríkissjóðs í Vegasjóð á árinu 1977 hins vegar aðeins 779 millj. kr., en auk þess tekur ríkissjóður að sjálfsögðu að sér greiðslu afborgana og vaxta vegna sérstakra lána sem tekin hafa verið til vegagerðar. Framlag ríkissjóðs til framkvæmda í vegamálum er þannig aðeins brot af þeim tekjum sem hann hefur af umferðinni, því til viðbótar við þær tekjur, sem ég taldi upp áðan, eru ýmsir smærri og stærri tekjuliðir sem ríkissjóður heimtir af bifreiðaumferð og bifreiðaeign landsmanna.

Ég vakti athygli á þessu við umr. fyrr í vetur um þessi vegamál og lýsti þar þeirri skoðun okkar þm. Alþfl., að það væri algjörlega út í hött og ekki viðunandi að vegáætlun fyrir árin 1977–1980 yrði afgreidd á þessum grundvelli. Brýna nauðsyn bæri til þess að taka tekjumál Vegasjóðs til gagngerrar endurskoðunar. Ég sagði það þá og sagði það einnig á fundi með fjvn., að við þm. Alþfl. værum reiðubúnir til samstarfs við hv. stjórnarliða um slíka endurskoðun. Þá hafa tveir þm. Alþfl., Jóni Árm. Héðinsson og sá, sem hér talar, setti fram ákveðnar hugmyndir um breytingar sem yrðu liður í þessari endurskoðun. Þær hugmyndir eru m. a. á þá lund að lækka beri mjög verulega tekjur ríkissjóðs af innflutningi á bifreiðum og þ. á m. bifreiðaverð í landinu, en eins og nú standa sakir mun venjuleg meðalbifreið vera farin að kosta sem nemur tvöföldum eða þreföldum árstekjum venjulegs verkamanns sem vinnur þó upp undir 60 tíma á viku til þess að standa undir kostnaði við að framfleyta sér og fjölskyldu sinni. M. ö. o.: bifreiðar á Íslandi eru orðnar svo dýrar að venjulegur launþegi hefur ekki lengur efni á að festa kaup á nýrri eða nýlegri bifreið, en verður að eyða stórum hluta af tekjum sínum til þess að halda við gamalli og úreltri bifreið, ef hann á annað borð hefur efni á að eiga slíkt farartæki. Hefur það að sjálfsögðu í för með sér mikil útgjöld, ekki aðeins fyrir einstaklinginn, heldur fyrir þjóðarbúið í heild, — útgjöld sem hægt er að forðast, útgjöld sem hægt er að nota til betri og þarfari hluta. Jafnframt því að verð á bifreiðum yrði lækkað, sem mundi stuðla að auknum innflutningi bifreiða er yrði til þess að endurnýjun bifreiða gæti átt sér stað með eðlilegum hætti, þyrfti síðan að sjálfsögðu að endurskoða skiptingu tekna af umferðinni milli ríkissjóðs annars vegar og Vegasjóðs hins vegar í því skyni að auka hlut Vegasjóðs í tekjum af umferðinni, en lækka að sama skapi hlut ríkissjóðs. Eins og nú standa sakir er ekki gert ráð fyrir öðru á næstu árum en að innflutningur á nýjum bifreiðum verði aðeins u. þ. b. helmingur af því sem þarf til að eðlilegri endurnýjun verði við komið, og má nærri geta, hvaða áhrif það hefur á bifreiðaeigendur sem eru nú þorri allra landsmanna, þegar árum saman er ekki hægt að viðhalda eðlilegri endurnýjun á bifreiðaflotanum, þegar kaup á nýjum eða nýlegum bifreiðum eru orðin forréttindi þeirra sem efnaðastir eru í þessu samfélagi.

Á þessar hugmyndir okkar, þessar ákveðnu hugmyndir þm. Alþfl. um ýmis efnisatriði endurskoðunar á tekjuöflunarleiðum Vegasjóðs, og eins á tilboð okkar um að taka þátt í því með hv. stjórnarsinnum að endurskoða þessar tekjuöflunarleiðir, á hvorugt þessara tilboða hefur verið hlustað. Þvert á móti hefur sá háttur verið hafður á í fjvn., eins og hv. þm. Geir Gunnarsson lýsti áðan, að þar hefur ekki verið svo mikið sem rætt við okkur fulltrúa stjórnarandstöðunnar í n. á meðan málin voru enn til athugunar og endurskoðunar, á meðan enn var hægt að koma við einhverjum aðferðum til þess að endurskoða tekjuöflun Vegasjóðs og fá fram breytingar þar á. Það er ekki aðeins að þeim ákveðnu till., sem við höfum fram að flytja, hafði verið hafnað. Það var ekki aðeins aðhafnað hafði verið tilboði okkar um samstarf við hæstv. ríkisstj. og stjórnarsinna um endurskoðun á tekjuöflun Vegasjóðs og fá fram breytingar þar á. Það er ekki aðeins að þeim ákveðnu till., sem við höfum fram að flytja, hafði verið hafnað. Það var ekki aðeins að hafnað hafði verið tilboði okkar um samstarf við hæstv. ríkisstj. og stjórnarsinna um endurskoðun á tekjuöflun Vegasjóðs, heldur var líka ekki meira látið með þetta tilboð stjórnarandstöðunnar af meiri hl. fjvn. en svo, að við stjórnarandstæðingar vorum ekki einu sinni hafðir með í ráðum, eins og yfirleitt hefur þó verið gert á undanförnum árum, á meðan málefni Vegasjóðs og vegáætlunar voru enn á ákvörðunarstigi. Við vorum ekki til kallaðir í því skyni fyrr en hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsflokkar og fulltrúar í fjvn. voru búnir að velta þessum málum fyrir sér í hartnær heilan mánuð. Þá vorum við til kallaðir, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, og okkur sýndar þær niðurstöður sem orðið höfðu í þessum vangaveltum hæstv. stjórnarsinna og liggja nú fyrir í brtt. hv. fjvn.

Þessi nýju vinnubrögð, sem ég vil ekki síður gagnrýna en sá sem talaði hér á undan mér, þó ég hafi miklu minni reynslu á störfum í fjvn. en hann, hafa ekki aðeins orðið til þess að við stjórnarandstæðingar höfum ekki getað komið sjónarmiðum okkar á framfæri innan fjvn., heldur hafa þau einnig orðið til þess að okkur hefur ekki gefist ráðrúm til þess að fá ýmsar upplýsingar varðandi þessa vegáætlun sem er eðlilegt og sjálfsagt að liggi fyrir Alþ. Mér er ekki kunnugt um hvort hv. stjórnarsinnar í fjvn. hafa aflað sér slíkra upplýsinga, en það var ekki að heyra á ræðu frsm. meiri hl. n. hér áðan að svo hefði verið gert. Hafi það verið gert, þá a. m. k. var Alþ. ekki skýrt sérstaklega frá því.

Í þessu sambandi vil ég taka það fram, að ein af þeim forsendum, sem liggja að baki þeirrar afgreiðslu sem hér á að verða, er talsverð hækkun á bensínverði á þessu ári og þ. á m. hækkun sem virðist vera, eins og hún er fram lögð, hrein nettóhækkun — hrein nettóaukning á álögum á bifreiðaeigendur. Tvö dæmi hafa verið reiknuð út í sambandi við tekjuhlið þessarar till. meiri hl. fjvn. eins og hún liggur hér fyrir. Í fyrra tilvikinu er gert ráð fyrir því, að frá og með 1. apríl n. k. hækki verð á bensíni um 2.80 kr. á lítra og frá og með 1. júlí n. k. um 2.30 kr. á lítra og þar af verði sérstök hækkun um 1 kr. sem ekki verði skv. áætlaðri fylgni við byggingarvísitölu, heldur í formi nettóhækkunar á álögum á bensínsölu. Eins og menn vita hefur bensíngjaldið, sem er tekjustofn Vegasjóðs af sölu á bensíni, verið látið fylgja hækkun á byggingarvísitölu þannig að hækkun á bensíngjaldi hefur verið áætlað fram í tímann til samsvörunar við áætlaða hækkun á byggingarvísitölu. Skv. þessu dæmi, sem ég var að ljúka við að nefna hér áðan, virðist eiga að ganga lengra vegna þess að frá og með 1. júlí n. k. á sem sé að koma aukreitis hækkun um 1. kr. sem ekkert á skylt við fylgni bensíngjalds við byggingarvísitölu, heldur er um að ræða nýjar nettóálögur á bifreiðaeigendur sem nema á ársgrundvelli um 120 millj. kr. Síðara dæmið, sem liggur til grundvallar þessum till. hv. meiri hl. fjvn., er um það að bensínhækkunin verði með nokkuð öðru móti, sem sé þannig að bensínhækkun komi til framkvæmda frá og með 1. júlí n. k. og verði þá kr. 6.65 á bensínlítra, þ. e. a. s. bensínverð hækki þá um 6.65 kr. á lítra. Þar af er ráðgerð 2.55 kr. sérstök hækkun sem ekkert á skylt við fylgni bensíngjalds við byggingarvísitölu. M. ö. o.: Þarna er einnig gert ráð fyrir nýjum álögum á bifreiðaeigendur í formi hækkaðs bensíngjalds umfram það sem hækkun byggingarvísitölu gerir ráð fyrir. Og þessi nettó-álagningarhækkun nemur hvorki meira né minna en um 300 millj. kr. á ársgrundvelli. Þannig standa þeir að svokallaðri endurskoðun á tekjuöflunarleiðum Vegasjóðs í hæstv. ríkisstj. Það er ekki látið fram koma hvað til stendur, hvorki í nál. meiri hl., á fundum fjvn. né heldur þegar formaður n. gerir hv. Alþ. grein fyrir niðurstöðum hennar.

Sú afgreiðsla, sem orðið hefur hjá meiri hl. fjvn. á vegáætlun fyrir árin 1977–1980, hefur því fólgna í sér í senn sömu uppgjöf og fólst í till. hæstv. ríkisstj. fyrr í vetur um þessa sömu áætlun, og hún hefur ekki aðeins fólgna í sér uppgjöf af hálfu stjórnarfl., heldur einnig staðfastlega neitun þeirra við tilboði stjórnarandstöðunnar um samstarf um endurskoðun á tekjuöflun Vegasjóðs. Það kemur því nokkuð einkennilega fyrir sjónir þegar frsm. meiri hl. fjvn. kemur hér í ræðustól, eins og hann gerði hér áðan, og flytur í upphafi síns máls langa tölu og réttmæta fyrir nauðsyn þess fyrir framför landsins alls að vel sé að verki staðið í vegamálum. Það mætti ætla að frsm. meiri hl. fjvn. hefði í þeim orðum sínum a. m. k. verið að mæla frekar fyrir nál. okkar stjórnarandstæðinga í fjvn. heldur en nál. meiri hl. og þeirra stjórnarsinna.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þær breyt. sem orðið hafa á till. um vegaáætlun í meðförum fjvn. Hv. þm. Geir Gunnarsson hefur gert það mjög rækilega og leitt í ljós, að annars vegar er um að ræða einfalda millifærslu, þar sem aðallega er tekið fé skv. upphaflegum till. af viðhaldi þjóðvega og fært yfir á nýjar framkvæmdir. Menn muna þegar hæstv. samgrh. mælti fyrir áætluninni hér fyrr í vetur, að þá þóttist hann þó þrátt fyrir allt sjá á vegáætlun þessari einn ljósan depil, og þessi eini ljósi depill, sem hæstv. ráðh. þóttist sjá og gerði mjög mikið úr, talsvert meira en efni og ástæður stóðu til, sá ljósi depill var einmitt varðandi viðhald þjóðvega. Hann benti á að nú ætti loksins að veita nokkru meira fé til viðhalds þjóðvega, nú ætti loksins að leggja út á þá braut að bæta upp áratugagamlar syndir í viðhaldsmálum þjóðvega. Hæstv. ráðh. hefur nú ekki einu sinni verið leyft að láta loga á þessari litlu ljóstýru sinni, því meiri hl. fjvn. hefur brugðið á það ráð að slökkva á þessu litla ljósi hæstv. ráðh. og breyta vegáætlun í þá veru að nú er þar enginn ljós depill lengur, heldur allt saman jafn kolbikasvart. Nú er ekki lengur því að fagna að það eigi að gera átak í viðhaldsmálum þjóðvega. Nú er meiri hl. fjvn. búinn að afnema einnig þá merkilegu og mjög svo nauðsynlegu framkvæmd og hæstv. samgrh. þarf hér á eftir að finna einhvern nýjan ljósan punkt í þessu meirihlutaáliti. Það kynni að vera að hann yrði nokkuð lengi að leita hann uppi.

Um lántökuheimildirnar, sem settar eru hér inn, þ. e. a. s. verktakalánin að upphæð 400 millj. kr. sem ráð er fyrir gert að tekin verði á árinu 1977, er það að segja, að þeir vegagerðarmenn, sem setið hafa á fundum fjvn., hafa um það mál lítið viljað segja annað en það, að þeir telji því miður næsta útilokað að vonast megi til þess að hægt sé að fullnýta þær lánsheimildir. Hins vegar hafa þeir að sjálfsögðu ekki fengist til þess að meta það, og það hefur ekki heldur verið gert af meiri hl. fjvn., hvað megi ætla að fást muni mikið fé skv. þessum sérstöku lánsfjáröflunarheimildum til framkvæmda. Það segir hins vegar talsverða sögu að á bráðabirgðavegáætluninni fyrir s. l. ár var gert ráð fyrir að afla með þessum hætti til framkvæmda 250 millj. kr. Hins vegar tókst aðeins að afla í lántökuheimildum hjá verktökum, sem starfa fyrir Vegagerðina, 157.9 millj. kr., þ. e. a. s. það vantaði 100 millj. kr. eða tæplega það upp á að sú upphæð, sem var á bráðabirgðavegáætlun í formi lántökuheimilda hjá verktökum, næðist á s. l. ári. Var þó þar aðeins um að ræða 250 millj. kr. lántökuheimild. Nú er gert ráð fyrir því, hér á pappírunum a. m. k., að afla eigi á árinu 1977 400 millj. kr. með sama hætti. Ef menn hugsa sér að svipað gangi að ná þessu máli fram eins og í fyrra. þ. e. a. s. svipað hlutfall fáist af heimiluðu fé skv. þessari fjáröflunarleið og fékkst í fyrra, þá yrði hér um að ræða fjáröflun upp á í kringum 200 millj. kr., en ekki 400 millj. kr. eins og áætlunin gerir ráð fyrir. Hér er því um að ræða algjöra blekkingu, afgreiðslu sem er út í hött. Það er verið að reyna að setja á pappíra einhverjar fjárveitingaafgreiðslur til vegamála sem alls ekki munu standast í reynd, og það væri náttúrlega með þessum hætti alveg eins hægt að setja fjáröflun skv. þessum lið upp á kannske 800 millj. eða 1000 millj. eða 1200 millj. og verður kannske gert í næstu vegáætlun ef sömu stjórnarflokkar sitja enn við völd og ef sama stefna ræður þar enn ríkjum.

Það, sem er einnig athyglisvert í sambandi við þá afgreiðslu sem hér á að fara fram, er að farið er að nota sérstaka löggjöf um sérstakar fjáraflanir til ákveðinna stórverkefna í vegamálum sem almennt framkvæmdafé fyrir Vegasjóð. Þetta sjá menn á því, eins og kom fram hjá hv. þm. Geir Gunnarssyni hér áðan, að fjáröflunin skv. lögum um Norður- og Austurveg upp ca 850 millj. er dregin frá niðurstöðutölunni í till. um vegáætlun um framkvæmdafé til nýbyggingar þjóðvega, þá standa aðeins eftir um 1600 millj. kr. Það er hið almenna framkvæmdafé í vegamálum á því herrans ári 1977. En sagan er ekki samt öll sögð með því, vegna þess að auk þess sem hér hefur verið sagt, auk þess að aflað er fé til vegaframkvæmda með sérstökum fjáröflunum sem farið er að meðhöndla sem almennt vegafé, þá eru einnig í gildi ákvæði og samþykktir sem gera það að verkum að af almennu vegafé er tekið sérstakt forgangsfé til ákveðinna framkvæmda í ákveðnum landshlutum. Hið almenna vegafé, sem til skiptingar er, er því enn minna en þær 1604 millj. kr. sem hér voru raktar áðan, og sum af þessum forgangsverkefnum, sem fá forgangsafgreiðslu úr Vegasjóði, eru ansi stór, svo sem Borgarfjarðarbrúin. Ef hún er dregin frá og auk þess hinar sérstöku fjáraflanir í Norður- og Austurveg og auk þess sérstakar forgangsfjárveitingar af vegafé til ákveðinna framkvæmda í ákveðnum landshlutum, þá fer að verða heldur lítið eftir í kassanum hjá hæstv. samgrh. eða öllu heldur í kassanum hjá hv. fjvn., sem á að skipta því fé sem eftir stendur.

Það er auðvitað ljóst að með þeirri afgreiðslu, sem á að viðhafa hér, er a. m. k. algerlega búið að sniðganga þann tilgang sem vakti fyrir þeim sem fluttu hér á Alþ. og fengu samþykkt lög nm Norður- og Austurveg. Það er einnig búið að sniðganga tilgang þeirra manna sem hafa stutt sérstakar landshlutaáætlanir og framkvæmdir í samgöngumáham samkv. sérstökum byggðaáætunum. Tilgang alls þessa er búið að sniðganga vegna þess hvernig Vegasjóður er á vegi staddur í fjáröflunarmálum.

Sum kjördæmi þessa lands fá að njóta að vísu nokkurs góðs af þessu fyrirkomulagi. Sum þeirra fá framlög samkv. Norður- og Austurvegi til viðbótar við almenn fjárframlög af hinum litlu og sírýrnandi tekjum Vegasjóðs. Sum þeirra fá einnig framlög samkv. sérstökum forgangsfjárveitingum, eins og t. d. Norðurland og Austurland. Ekki sé ég eftir því litla fé sem afgangs er fyrir þessi tvö kjördæmi. Sum kjördæmi njóta hagræðis af hvoru tveggja. En það er aðeins eitt kjördæmi að dreifbýliskjördæmunum sem hagræðis af hvorugu nýtur. Það er kjördæmi þaðan sem ég og ýmsir fleiri þm. eru, Vestfjarðakjördæmi. Þar er ástandið þannig að á öllu áætlunartímabilinu, næstu 4 árum, verður ekki séð að neinar umtalsverðar vegaframkvæmdir verði unnar þar, því miður.

Það er ekki rétt að ræða þessa vegáætlun á grundvelli hagsmuna einstakra kjördæma og einstakra byggðarlaga. Það er eins og mig minni að hv. frsm. meiri hl. fjvn. hafi sagt í upphafi sinnar ræðu, að hér sé um að ræða framkvæmdir sem varði jafnvel meira, en flestar aðrar framkvæmdir hag landsins alls. En eins og að þessum málum er staðið undir forustu Sjálfstfl. — undir ríkisstjórnarforustu hans — og undir umsjá Framsfl., því að það er Framsfl., sá mikli byggðastefnuflokkur, sem hefur ábyrgðina og veginn og vandann af framkvæmd samgöngumála, eins og að þessum málum er staðið af þessum tveimur hv. stjórnmálaflokkum verður ekki séð að þeir vilji mikinn veg eða mikla virðingu fyrir landið allt, a. m. k. það land sem ekki hefur fengið þær afgreiðslur í fjárveitingum til vegamála sem eru þeim landshlutum bráðnauðsynlegar til þess einfaldlega að þar leggist ekki byggð hreinlega niður.

Þegar séð varð, hvernig þessi afgreiðsla ætlaði að verða, taldi ég að það væri algerlega útilokað að standa að gerð vegáætlunar til næstu fjögurra ára við þær aðstæður sem markaðar eru í þessari vegáætlun, það væri auðséð að á þessu áætlunartímabili mundi koma til þess, hvort sem hæstv. stjórn vildi eða vildi ekki, að aðstæður mundu hreinlega neyða hana til þess að fara að till. okkar stjórnarandstæðinga hér á Alþ. í vetur um að taka fjármál Vegasjóðs til endurskoðunar og færa Vegasjóði nýjar tekjur. Ég þóttist vita að þetta hlyti að gerast á árunum 1977–1978, hvort sem það yrði á þessu ári eða því næsta. Þar sem ég var sannfærður um að aðstæðurnar mundu knýja hæstv. ríkisstj. til þessa verkefnis, þá flutti ég till. um það í fjvn. að aðeins yrði afgreidd skiptingin fyrir árið 1977, þannig að um hreina bráðabirgðaafgreiðslu yrði að ræða, og fjvn. styddi þá afgreiðslu sína þeim rökum að hún teldi að þessi mál öll yrði að taka til endurskoðunar eins fljótt og unnt væri, helst strax á næsta ári, því legði hún til að vegáætlun yrði aðeins gerð að þessu sinni til eins árs með þeim hætti að framkvæmdafé yrði skipt á því ári. Á þessa till. vildu fulltrúar ríkisstj. í fjvn. eigi heldur að hlusta. Þeir hafa frá upphafi, þegar þessar till. sáu dagsins ljós hér á okkar stjórnarandstæðinga um breytingar ýmist á afgreiðsluháttum eða efnisatriðum og neitað tilboði okkar um samstarf um endurskoðun á þessum málum. Við stjórnarandstæðingar bæði í fjvn. og á Alþ. berum því enga ábyrgð á þeirri afgreiðslu sem hér á að fara fram. Hér er um að ræða verk sem hefur eingöngu verið unnið af málsvörum ríkisstj. í fjvn. og annars staðar — og beri þeir sjálfir fjanda sinn.