28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2901 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Geir Gunnarssyni og Sighvati Björgvinssyni hefur að þessu sinni verið staðið á mjög óeðlilegan hátt að afgreiðslu vegáætlunar í fjvn. Það er kannske ekki ástæða til þess að fara mörgum orðum um það hér af mér, því hefur verið greinilega lýst af þessum hv. þm. báðum. En það er þó ástæða til að taka undir það, að það ber að vara sérstaklega við því að áframhald verði á vinnubrögðum af þessu tagi, hvort sem þar er um að ræða umfjöllun um vegáætlun eða önnur mál innan fjvn. Því hefur verið lýst hér að það muni ekki a. m. k. í langan tíma hafa verið staðið að vinnubrögðum og afgreiðslu málsins í fjvn. á líkan hátt og nú hefur verið gert, og það er sérstök ástæða til þess að vekja á því athygli ef það gæti orðið til þess að slíkt ætti sér ekki stað aftur.

Ég vil taka sérstaklega undir þá gagnrýni sem komið hefur fram á þessi vinnubrögð, það er full ástæða til að átelja þau harðlega. Það gefur auga leið að til þess að ná samstöðu og einhverjum árangri við afgreiðslu máls eins og vegáætlunar er nauðsynlegt að haga vinnubrögðum á þann hátt að líklegt sé að sem víðtækust samstaða náist um afgreiðslu málsins hér á Alþ. Það hefur ekki verið gert nú og ber að harma slíkt.

Þegar hæstv. samgrh. mælti við fyrri umr. þessa máls fyrir því, þá var í raun og veru ein einasta skrautfjöður í sambandi við vegáætlun fyrir árin 1977–1980. Einasta skrautfjöðrin var sú, að nú væri veitt til viðhalds allríflegt fjármagn og þar með reynt að bæta fyrir gamlar vanrækslusyndir á því sviði. Mátti skilja á ræðu hæstv. ráðh., svo og annarra þeirra stjórnarsinna sem til máls tóku við fyrri umr., að hér væri þó í raun og veru brotið blað að því er varðaði fjárveitingar til vegaviðhalds í landinu og hversu slæmt sem allt hitt í vegáætluninni væri, þá væri þetta þó hinn ljósi punktur, og vissulega var undir það tekið, m. a. af mér.

Nú hefur það gerst síðan, að frá því að fyrri umr. fór fram hefur verið lækkað þetta viðhaldsfé um 160 millj. kr. frá því sem það var þegar áætlunin var lögð fram. Eina úrræðið, sem hv. stjórnarliðar hafa fundið til þess að fá betri svip, einhvern ánægjulegri blæ, ef um ánægju er hægt að tala í þessum efnum, á afgreiðslu vegáætlunar nú að þessu sinni, það var að taka af þessum ljósa punkti 160 millj. kr. og færa yfir á framkvæmdir. Auk þess hafa verið teknar um 40 millj. af stjórn og undirbúningi og fært yfir á nýframkvæmdir vega. Þessi tala hefur því hækkað frá því að vera 1820 millj., þegar vegáætlunin var lögð fram, í það að vera 2020 millj. þegar málið er komið hér til síðari umr. og endanlegrar afgreiðslu, þannig að mjög hefur dregið úr þeirri birtu, sem menn töldu sig sjá yfir þessum punkti við fyrri umr. og málið allt þar með þetta komið í talsvert meiri skugga nú en það var þá.

En einnig hefur orðið á sú breyting, hvort sem það er upp fundið af hæstv. samgrh. eða einhverjum öðrum úr herbúðum stjórnarliðsins, að upp eru tekin svokölluð verktakalán að upphæð um 400 millj. kr. hvort áætlunarár 1977 og 1978. Hér er auðvitað um að ræða mál sem gersamlega er ómögulegt að segja fyrir um hvernig kemur til með að verða í framkvæmd. Það er ekkert á þessari 400 millj. kr. verktakalánstölu að byggja, því að enginn veit í fyrsta lagi hvort hægt muni vera að fá slík lán, og í öðru lagi, sé það hægt, að hversu miklu leyti það verði þá hægt upp í þá tölu sem hér er gert ráð fyrir, þannig að það er ekki um að ræða raunverulega í sambandi við nýframkvæmdir vega nema 2020 millj. þó að í till. fjvn. og meiri hl. hennar sé gert ráð fyrir 2 milljörðum 420 millj., en þar eru innifalin þessi 400 millj. kr. verktakalán. Hér er því um að ræða algera óvissu, hvort það verður í raun og veru framkvæmanlegt að fá þessi verktakalán á þessu tímabili. Menn renna blint í sjóinn með að hversu miklu gagni það kemur eða yfirleitt hvort það kemur að nokkru gagni varðandi framkvæmdir í næstu árum samkv. vegáætlun.

Þá er einnig ljóst samkv. því, sem meiri hl. fjvn. leggur til, að virða á að vettugi lög um Norður- og Austurveg. Þeim lögum er kastað til hliðar. Eins og hér hefur verið tekið fram fyrr, bæði við þessa umr. svo og oft áður, var sú lagasetning gerð í trausti þess að það fjármagn, sem gegnum þá lagasetningu kæmi, yrði auk hins almenna fjár sem ætlað var til vegaframkvæmda í landinu, en ekki eins og nú hefur gerst, að hlutunum væri snúið við og að Norður- og Austurvegur nytu forgangs sem eyrnamerkt fjármagn af því almenna vegafé sem um er að ræða hverju sinni. Það væri því miklu nær, ef meiningin er, eins og allt virðist benda til. að halda með þessum hætti á málum, að afnema algerlega þessi lög heldur en að sniðganga þau á jafnherfilegan hátt og hér er gert. Og ég veit að hv. 1. flm. þess frv., sem hér að lýtur, um Norður- og Austurveginn, er mér sammála um þetta. Hér er um alger svik að ræða á framkvæmd þessara laga, miðað við þann tilgang sem þeim var ætlað að ná. Og það gefur auðvitað auga leið að þegar gert er ráð fyrir að af um 1800 millj., eins og upphaflega talan var, á að taka beint í þessar framkvæmdir 850 millj., þá er ekki mikið svigrúm til skipta fyrir þá sem eftir eru, auk þess sem blessaður hæstv. samgrh. ætlar að fá sinn hlut í tiltekna framkvæmd í Vesturlandskjördæmi, 400 millj., auk hinna 850, þannig að enn minnkar hluturinn sem eftir er til skipta til hinna. Það er því alveg ljóst að með því að standa með þessum hætti að afgreiðslu þessa máls er verið að sniðganga gersamlega lagasetninguna um Norður- og Austurveg.

Þegar hæstv. samgrh. mælti við fyrri umr. fyrir vegáætlun, þá lýsti hann því yfir að ætlan hans væri að afla tekna með sölu samkv. lögum um Norður- og Austurveg, fjáröflun að upphæð 1000 millj. kr. Nú hefur þetta breyst frá því að vera 1000 millj. niður í það, eftir nýjustu upplýsingum sem fyrir liggja frá stjórnarliðum, meiri hl. fjvn., að nú eigi að selja fyrir um 500 millj. kr. samkv. þessari sérstöku fjáröflun, þannig að þetta hefur breyst eins og ýmislegt fleira.

Eins og hér hefur komið fram og kom fram hjá hv. þm. Geir Gunnarssyni hafði meiri hl. fjvn. ekki á neinu stigi samráð við stjórnarandstöðuna um það, hvernig skipta ætti fjárveitingum milli kjördæma annars vegar í stofnbrautum og hins vegar í þjóðbrautum. Þar er um að ræða einhliða ákvörðun meiri hl. fjvn. sem var lögð fyrir tölulega nákvæmlega eins og er nú af meiri hl. fjvn. fyrir stjórnarandstöðuna innan n., þannig að meiri hl. fjvn. ber algerlega ábyrgð á þeirri skiptingu milli stofnbrauta og þjóðbrauta sem hér er lagt til að verði við afgreiðslu vegáætlunar nú. Það var talið og ýmsir töldu bæði sjálfum sér trú um og reyndu að telja öðrum trú um það, hv. þm., við afgreiðslu frv. um breyt. á vegalögum hér fyrr í vetur að með þeirri breytingu væri verið að stíga skref til þess að bæta stöðu þeirra kjördæma sem verst væru sett að því er varðaði vegaframkvæmdir. Ýmsir töldu sjálfum sér trú um þetta og gerðu í áframhaldi af því tilraun til þess að telja öðrum trú um þetta einnig. Nú liggur fyrir hver árangurinn af þessari breytingu er fyrir þau kjördæmi, sem tiltölulega verst eru sett varðandi samgöngumál. Það er a. m. k. augljóst hvernig þetta mál kemur út samkv. till. meiri hl. fjvn. varðandi Vestfirði. Ef bornar eru saman fjárveitingar frá bráðabirgðavegáætlun fyrir árið 1976 til nýbyggingar vega, vegaframkvæmda og brúa, þá lækkar krónutala fjárveitinga til Vestfjarða frá árinu 1976 til ársins 1977 um 24 millj. kr. Hagnaðurinn af þessari breytingu á vegalögum til handa Vestfjörðum frá því sem áður var er því mínus 24 millj. í krónutölu. Það er sá hagnaður sem vestfirðingar fá af þessu. Er þó, að ég held, nokkuð samdóma álit að Vestfirðir eru það kjördæmi á landinu sem verst er sett varðandi samgöngumál, þannig að ekki hefur þessi breyting á vegalögum verið gerð til þess að rétta hlut vestfirðinga. Það er ljóst af því hvernig nú er staðið að afgreiðslu vegáætlunar næstu 4 árin. Og þó að menn segi hér úr ræðustól sumir hverjir að ekki sé rétt að ræða vegáætlun á grundvelli einstakra kjördæma, þá verður að sjálfsögðu ekki hjá því komist, svo hróplegt misrétti er varðandi tillögur meiri hl. fjvn. milli kjördæma að það verður ekki hjá því komist að ræða þessa afgreiðslu einmitt á grundvelli einstakra kjördæma. Það er alveg augljóst mál að sú afgreiðsla, sem hér er lagt til að verði á framkvæmdum í vegamálum, er stórkostlegur samdráttur frá því sem verið hefur, og hefur þó mönnum þótt nóg um það sem komið var.

Ég held að það hafi verið hv. frsm. meiri hl. fjvn. sem líkti áhrifum á stöðvun samgangna við áhrif sem yrðu í mannslíkamanum við stöðvun á blóðrásinni. Líklega hefur meiri hl. fjvn. haft þessa samlíkingu í huga þegar hann skipti fjármagninu milli kjördæma í hinum einstöku framkvæmdaþáttum á vegáætlun ársins í ár. Hann hefur líklega haft í huga þessi áhrif vestfirðinga með því að leggja til að lækka stórlega fjárveitingar þess kjördæmis frá því sem áður var. Þessi líking varaformanns fjvn. um þau áhrif, sem yrðu óhjákvæmilega í mannslíkamanum ef blóðrásin stöðvaðist, er líklega leiðarljósið sem hv. þm. stjórnarliðsins í meiri hl. fjvn. hafa haft að leiðarljósi við skiptingu fjármagns til vegaframkvæmda milli kjördæma að þessu sinni. Það er engu líkara en þessir hv. þm., sumir hverjir úr Vestfjarðakjördæmi, telji ekkert saka þó að blóðrásin stöðvist í samgönguæð vestfirðinga að þessu sinni. Slæmt var ástandið fyrir og er, en það eru engar líkur á að það verði lagt neitt til um að það batni ef áfram verður haldið á sömu braut og hér er lagt til að gert verði.

Ef við lítum aðeins á þetta milli einstakra kjördæma og höfum annars vegar til hliðsjónar tölur, sem hæstv. samgrh. vitnaði til í sjónvarpsvíðtali ekki alls fyrir löngu um fjárveitingar til vegamála í hinum ýmsu kjördæmum á árunum 1965–1976, og hins vegar skiptingu fjárveitinga samkv. till. meiri hl. fjvn. á árinu 1977, þá kemur eftirfarandi í ljós:

Suðurland hafði á árunum frá 1965–1976 um 12.9% af fjárveitingum, en hefur samkv. till. meiri hl. fjvn. 14.5% af fjárveitingum ársins 1977.

Reykjaneskjördæmi hafði 28.8% á árunum 1965–1976, en fær nú samkv. till. meiri hl. fjvn. 7.6%.

Vesturlandskjördæmi, sem hæstv. samgrh. vitnaði mjög til sem dæmis um lágar fjárveitingar til vegaframkvæmda, hafði á árunum 1965–1976 9.5%, en hefur samkv. till. meiri hl. fjvn. nú 26.8% — frá 9.5% á tímabilinu frá 1965–1976 upp í það að vera 28.8% árið 1977. Minni hefði nú árangurinn mátt vera.

Svo koma Vestfirðir, það kjördæmi sem ég hygg að allir réttsýnir menn séu sammála um að sé verst sett varðandi samgöngumál. Það hafði á umræddu tímabili frá árunum 1965–1976 10.2% af fjárveitingum. En nú leggja hinir háu herrar í meiri hl. fjvn. til að þetta kjördæmi fái 10.1% á árinu 1977, sem sagt lækki. Sambærileg hækkun, ef Vestfirðir hefðu verið settir eitthvað svipað Vesturlandi, hefði átt að vera frá því að vera 10.2% svona um 25% á árinu 1977, hefðum við átt að njóta sannmælis og réttlætis samanborið við kjördæmi hæstv. samgrh., ef bornar eru saman sömu tölur og sama tímabil.

Í Norðurlandskjördæmi vestra voru á árunum 1965–1976 9.8% fjárveitingar, en gert er ráð fyrir í till. meiri hl. fjvn. nú 13%. Og Norðurlandskjördæmi eystra var fyrra tímabilið með 11.6%, en árið 1977 14.3%.

Austurlandi var fyrra tímabilið 16.2%, en er nú í till. meiri hl. fjvn. 13.7%.

Þau tvö kjördæmi, sem langsamlega verst eru sett að því er varðar samgöngur á landi innanhéraðs og milli byggða, þ. e. a. s. Vestfirðir og Austfirðir, eru lækkuð í fjárveitingum frá því, sem áður var, í þeim till. sem meiri hl. fjvn. gerir nú til Alþ. um skiptingu framkvæmdafjár. Þeir, sem verst eru settir, skulu lækkaðir. Hinir, sem betur eru settir, skulu fá meira. Þetta er réttlætið sem ríkir í hjörtum hv. þm. stjórnarliðsins í meiri hl. fjvn., og þá virðist ekki skipta máli hvort þeir eru frá Vestfjörðum eða úr öðrum kjördæmum. Þeirra réttlætishjarta virðist slá á sama hátt, hvaðan sem þeir koma, úr hvaða kjördæmi sem er.

Ég hef hér gert fyrst og fremst að umræðuefni fjárveitingar ársins 1977 og hins vegar samanburð fyrri ára. Þessi samanburður er að sjálfsögðu allhryllilegur fyrir Vestfirði og vestfirðinga. En það er kannske verra að með þessari afgreiðslu, sem meiri hl. fjvn. leggur hér til að viðhöfð verði, er verið að slá því föstu að Vestfirðir skuli næstu 4 árin vera í þessu algera lágmarki varðandi fjárveitingar til vegaframkvæmda, því að hvað sem menn koma til með að segja og hver sem sú yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj., sem mun verða boðuð, kann að vera, þá virðist vera ljóst að endurskoðun varðandi vegáætlunina á árinu 1978 á einungis að ná til þess fjármagns sem kemur umfram það sem gert er ráð fyrir í þessari vegáætlun nú. Hún á einungis að ná til þess fjármagns sem hugsanlega kæmi umfram þær tölur sem nú eru í vegáætlun, þannig að grunnurinn á að standa óbreyttur. M. ö. o.: vestfirðingar eru dæmdir til þess með þeirri afgreiðslu, sem hér er lagt til að verði, að vera í algeru lágmarki varðandi framkvæmdir í vegamálum næstu 4 árin. Og þetta er kannske enn þá alvarlegra en þó hitt, sem að vísu er mjög alvarlegt, að svona skuli vera farið með Vestfirði á árinu 1977.

Það er einnig ljóst að Vestfirðir eru eina kjördæmið, að Reykjaneskjördæmi undanskildu, sem ekki fær fjárveitingu til neins sérstaks stórverkefnis í vegaframkvæmdum á þessu áætlunartímabili. Vestfirðir eru eina kjördæmið, auk alls hins sem búið er að rekja hér, sem þannig er ástatt um, að undanskildu Reykjaneskjördæmi, sem ekkert á að fá af slíku. Og enn er bætt gráu ofan á svart með till. af því tagi sem hér er lagt til og það af þm. vestfirðinga sjálfra. Það er ekki að sjá að hv. þm. stjórnarliðsins af Vestfjörðum hafi orðið þess varir hver vandræði eða vandkvæði eru þar á samgöngum yfir vetrarmánuðina, allt frá 7 upp í 9 mánuði árlega. Það er allt útlit fyrir að þessir hv. þm. séu búnir að gleyma þessu ástandi, eða a. m. k. bera till. þeirra um afgreiðslu vegáætlunar með sér að þetta sé gleymt og grafið. Ég trúi ekki öðru en a. m. k. þeim hv. þm., sem þekkja eitthvað til á Vestfjörðum, sé ljóst að Vestfirðir eru einangraðir frá samgöngum á landi 7–9 mánuði á ári. Þeir eru á sama tíma einnig einangraðir allt upp í 3 vikur frá samgöngum á sjó á sama tíma og lokað er á landi. Og í þriðja lagi eru þeir auk þessa einangraðir frá flugsamgöngum í sambandi við flugið svo dögum skiptir, einmitt á sama tíma og lokað er á landi, lokað á sjó, þannig að allar bjargir eru bannaðar samgöngulega séð í Vestfjarðarkjördæmi á sama tíma. Þrátt fyrir þessa staðreynd geta þm. Vestf. úr stjórnarliði lagt hér til að Vestfjarðarkjördæmi sé svelt í fjárveitingum til vegaframkvæmda samanborið við önnur kjördæmi á þessu áætlunartímabili. þessi rök virðast ekki hrífa á stjórnarliða af Vestfjörðum þó að ástandið sé svona. Það virðist eitthvað enn þá meira þurfa að koma til til þess að vestfirðingar njóti jafnréttis á við aðra landsmenn í þessum tilfellum, ég tala nú ekki um ef þeir ættu að njóta einhvers sérstaks átaks, sem staða þeirra vissulega gefur tilefni til að þeir ættu að gera.

Það er ljóst af því, sem ég hef nú sagt, að það er nánast hryllingur til þess að hugsa að það skuli vera samþm. frá Vestfjörðum sem leggja til afgreiðslu af því tagi sem hér er lagt til af meiri hl. fjvn. og stutt af öllum stjórnarliðum úr kjördæminu. Þó að ég að sjálfsögðu sé allur af vilja gerður, þá skil ég ekki hvað liggur á bak við þá ákvörðun þm. Vestf. úr stjórnarliði að láta troða þannig á hlut vestfirðinga. Það hljóta einhver mikilvæg rök, sem mér er ókunnugt um, að liggja að baki því að þm. Vestf. úr stjórnarliði skuli fáanlegir til þess að leggja slíkt hneyksli til í sambandi við afgreiðslu vegáætlunar að því er Vestfirði varðar á þessu áætlunartímabili. Ég vildi gjarnan fá að heyra þau mikilvægu rök, ef til eru, frá þessum aðilum. Mér er ekki um þau kunnugt og vildi því gjarnan fá um þau að vita, ef þau eru til.

Það er alveg augljóst mál, að það eru mörg stór verkefni sem bíða úrlausnar varðandi framkvæmdir í vegamálum á Vestfjörðum eins og annars staðar í landinu. Það er því undarlegt að Vestfjarðakjálkinn skuli vera hið eina sem á engan hátt er tekið tillit til í sambandi við tillögugerð um fjárveitingar í vegamálum, vera hið eina kjördæmi sem á engan hátt er tekið tillit til varðandi þær framkvæmdir sem óhjákvæmilega verða að eiga sér stað ef ekki á enn verr að fara heldur en nú er orðið.

Ég vil svo, herra forseti, í áframhaldi af þessu aðeins gera með fáum orðum grein fyrir brtt. sem ég flyt hér, í fyrsta lagi brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og er í þá átt að reyna að rétta örlítið hlut Vestfjarða til samræmis við önnur kjördæmi. Því miður er ekki búið að útbýta þessari brtt., þannig að þm. hafa hana ekki fyrir framan sig. (Gripið fram í.) Er hún komin? Hún var ekki komin þegar ég fór hingað upp, ég hlýt að vera búinn að vera lengi hér. En þá sjá hv. þm. hver breytingin er eða hvað er lagt til að gert verði. (Gripið fram í.) Ég heyri að hv. þm. Lárusi Jónssyni sem einum af þeim ábyrgu í meiri hl. fjvn. liður illa undir lestri af þessu tagi og er það skiljanlegt. Þessi brtt. okkar er um að liðurinn 05, til nýrra þjóðvega, þ. e. a. s. stofnbrauta, lækki, þ. e. brú yfir Borgarfjörð lækki úr 400 millj. á áætlunartímabilinu árlega í það að vera 300 millj. árlega á árunum 1977–1979, en inn komi nýr líður sem merkist Breiðadalsheiði, jarðgöng, 100 millj. á ári þessi næstu þrjú ár. Hér er um það að ræða að færa 100 millj. af þeim 649 millj., sem Vesturl. á að fá samkv. till. meiri hl. fjvn. á árinu 1977, færa 100 millj. af þessum 649 millj. yfir í Vestfjarðakjördæmi til viðbótar við þær 245 millj. sem vestfirðingum er ætlað að fá á árinu 1977. Þeir fengju þá 345 millj. á sama tíma og Vesturland fær 549. Ekki er nú til mikils mælst. Þetta er sem sagt tillagan. Til viðbótar þessu er rétt að upplýsa það, að nú liggur fyrir að taka um það ákvörðun með hvaða hætti skuli framkvæma varanlega vegagerð yfir Breiðadalsheiði sem tengi Ísafjarðardjúpið við byggðina vestan heiðar. Það liggur fyrir að taka þessa ákvörðun, og þessi brtt. okkar er um að þessi ákvörðun verði tekin nú og að fjármagn verði sett með þessum hætti til framkvæmda varðandi þessa ákvarðanatöku. Og mér þykir undarlegt ef við tvímenningarnir fáum ekki stuðning a. m. k. Vestfjarðaþm. í þessu réttlætismáli.

Í öðru lagi flyt ég ásamt nokkrum öðrum hv. þm. aðra brtt. sem ekki er búið að útbýta, að ég held, en hún er um það að auka nú tekjurnar til Vegasjóðs með sérstökum hætti.

Hv. þm. minnast þess, að á undanförnum árum við hverja afgreiðslu vegáætlunar hefur verið lögð hér fram till. um hið svokallaða veggjald. Það hefur verið snúist harkalega gegn tekjuöflun af því tagi, og það virðist ekki hafa breytt neinu hversu slæm staða Vegasjóðs er hverju sinni. En höfuðrökin gegn þessari skattheimtu hafa verið þau, að með því að framkvæma hana á þann hátt, sem gert hefur verið ráð fyrir, sé svo mikið borgað í kostnað að það sé hlutfallslega lítið sem inn komi sem nettótekjur af slíkri skattheimtu og þess vegna ekki réttlætanlegt að framkvæma hana. Nú gerum við tillögu um að fara inn á nýja braut og viljum láta á það reyna í þessu öngþveiti varðandi fjármál Vegasjóðs hvort ekki er hljómgrunnur fyrir því meðal þm. — ég tala nú ekki um stjórnarliðsins — þegar við stjórnarandstæðingar hlaupum á þennan hátt undir bagga og bendum á tekjuöflun, — hvort ekki sé nú hljómgrunnur fyrir því að slík till. hljóti samþykki hér á Alþ. En þessi brtt. er svo hljóðandi :

„Greiða skal samkv. heimild í 95. gr. vegalaga um umferðargjöld af bifreiðum sérstakt hraðbrautargjald af bensíni og disilolíu á þeim stöðum sem tengjast vegakerfi með varanlegu slitlagi.

Gjaldið er staðbundið og miðast við útsölustaði á þeim landssvæðum, þar sem samfelldar hraðbrautir með varanlegu slitlagi eru a. m. k. 50 km að lengd.

Hraðbrautargjald nemur 2 kr. á hvern lítra eldsneytis og skal koma til viðbótar almennu söluverði. Gjaldið rennur í Vegasjóð til að standa undir vöxtum og afborgunum af lánum, sem tekin hafa verið til lagningar varanlegs slitlags á hraðbrautir, svo og að aukið fjármagn verði til annarra framkvæmda.

Ráðh. ákveður árlega í reglugerð hvaða útsölustaðir á landinu falla undir ákvæði 1. mgr. og hvernig innheimtu skal háttað.“

Hér leggjum við sem sagt til að farið verði inn á nýja braut til tekjuöflunar með þessum hætti á þessu svæði, þar sem búið er að koma í framkvæmd vegakerfi með bundnu slitlagi. Samkv. upplýsingum, sem við höfum í höndum frá Vegagerðinni, mundi þetta gefa á þeim svæðum sem hér um ræðir: Reykjanesi, Reykjavík, Suðurlandi fyrst og fremst, miðað við núverandi verðlag um 180 millj. á ári, og enginn útgjaldaauki kæmi þar á móti vegna þess að bensínstöðvarnar innheimtu þetta aukagjald án nokkurrar þóknunar fyrir. Það er því till. okkar að hér komi inn nýr líður varðandi tekjuöflunina, sérstök fjáröflun, sem mundi gefa á árinu 1977 um 120 millj. kr., ef við drögum frá þann tíma sem liðinn er, og á árinu 1978 184 millj. og sömu upphæð á árinu 1979, að sjálfsögðu miðað við ástandið eins og það er í dag. Það er einnig till. okkar að fjvn. sjái um skiptingu á þessum hinum nýju tekjum.

Ég tel ekki að hér þurfi að hafa frekari orð um þetta. Ég vænti þess að hæstv. samgrh. sé okkur sammála í þessum efnum og að hann sýni í verki þann hug sem hann hafði á orði við fyrri umr. vegáætlunar, að hann væri allur af vilja gerður og vildi leita allra tiltækra ráða til þess að auka tekjur Vegasjóðs, — hann komi nú til liðsinnis við okkur stjórnarandstæðinga og leggi hönd á plóginn með því að koma þessu máli í gegn sem gefur hátt í 200 millj. árlega á næstu þremur árum, þ. e. a. s. þeim árum sem hér er lagt til að skipt verði fé varðandi vegáætlun. Og ef það hefur verið sérstaklega talið nauðsynlegt og til bóta að færa 200 millj, samanlagt af vegaviðhaldi og sérfræðiþjónustu hjá Vegagerðinni á árinu 1977 yfir á auknar framkvæmdir, þá er ekki síður ástæða til þess að taka í útrétta hönd okkar, sem að þessari till. stöndum, um að fá nýjar 200 millj. árlega ofan á hitt til þess að útdeila, þannig að hægt sé að auka frekar framkvæmdir frá því sem nú er gert ráð fyrir.

Ég vænti þess sem sagt að nú sé brostin aðalröksemd og forsenda andstæðinga innheimtu veggjalds í því formi sem það hefur verið flutt hér áður og þeir einnig taki í útrétta hönd okkar sem viljum leita leiða og bendum á tekjuöflunarleiðir til þess að afla frekari tekna í Vegasjóð en hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðið hefur séð sér fært að gera á þessum síðustu og verstu tímum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég vænti að þessari till. verði einnig útbýtt innan skamms.