28.10.1976
Sameinað þing: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

1. mál, fjárlög 1977

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Það er að heyra á málgögnum stjórnarflokkanna þessa dagana, að þeir séu allánægðir með það sem þeir kalla árangur stjórnarstefnunnar í baráttu við verðbólguna og viðskiptahallann, og það var áðan að heyra á hæstv. fjmrh. að hann teldi þróunina mjög jákvæða og það væri ríkisstj. að þakka. Hver er nú raunverulegur árangur hæstv. ríkisstj. í því að kveða niður verðbólguna?

Mat á því, hvort verðbólga á Íslandi er mikil eða lítil, hlýtur ávallt að markast af ytri aðstæðum, verðlagsbreytingum á innfluttum vörum og verðbólguþróun í viðskiptalöndum okkar. Árið 1974, sem mest hefur verið vitnað til í samanburði við stöðuna nú, var meðaltalshækkun framfærslukostnaðar um 48%. Á því ári hækkaði verð á innfluttum vörum um 35% í erlendri mynt, og verðbólguvöxturinn var að meðaltali í OECD-löndunum um 68%. Þetta breyttist árið 1975. Eftir að erlendar verðhækkanir höfðu verið áður 35% 1974, þá námu þær aðeins 5% 1975 og 67% á þessu ári, þ.e.a.s.: eftir gjörbreytt ástand í þessu efni nú í tvö ár er talið að hækkun framfærsluvísitölu nemi samt sem áður 25–30%. Sé þetta haft í huga, Ytri aðstæður metnar, þá mundu án efa margir telja að verðbólgan sé jafnvel hlutfallslega meiri nú en 1974. Hækkunin frá því í ágúst 1975 til ágúst 1976 er skv. alþjóðlegum skýrslum 31.8%. Þetta er nú allur árangurinn. Hann er í raun og sannleika heldur bágur og jafnvel ótrúlega lítill.

Í skýrslu um hækkun neysluvöruverðlags í OECD-löndum kemur fram, að á 12 mánaða tímabilinu frá því í ágúst 1975 til ágúst 1976 hafi verðbólguvöxturinn að meðaltali í öllum þessum löndum minnkað um 40% frá því sem hann var 1974. Hér á Íslandi er hliðstæð tala aðeins 26%, úr 42.9% í 31.8%. Sé tekið mið af því hve stórlega hefur dregið úr verðhækkunum á innfluttum vörum og úr verðbólgu í viðskiptalöndum okkar, þá er ljóst að það er síður en svo að hæstv. ríkisstj. hafi staðið sig vel í þessum málum. Stefna hennar eða réttara sagt stjórnleysi hefur beinlínis komið í veg fyrir að dregið hafi úr verðbólguvextinum í þeim mæli sem ytri aðstæður, miklu minni hækkun á innflutningsverði og bætt viðskiptakjör, hafa beinlínis gefið tilefni til.

Sama er að segja um batann á viðskiptajöfnuði. Hallinn var í fyrra um 20 milljarðar, en menn gera sér vonir um að hann geti orðið 8–10 milljörðum minni á þessu ári. Er það þá stefna ríkisstj. sem veldur þessu? Vissulega ekki. Hvernig ætti hún að geta það? Hún er stefna hömlulausrar notkunar gjaldeyris í hvers kyns neysluvörur sem auðvelt er að framleiða hér á landi, og til þessarar neyslu eru tekin stórlán erlendis. Hverjar eru þá orsakirnar?

Í fyrsta lagi hafa viðskiptakjör batnað á þessu ári. Í öðru lagi má nefna þrjá þætti sem að mestu og út af fyrir sig skýra þennan mismun. Í júlílok hafði innflutningur skipa til landsins minnkað frá fyrra ári um 2400 millj. og innflutningur hráefnis til álverksmiðjunnar, sjálfsagt vegna þess að minna var framleitt þar í fyrra og nú er gengið á efnisbirgðir, — innflutningur hráefnis til álverksmiðjunnar hefur minnkað um 2874 millj. kr. Þetta eru samtals 5274 millj. Í fyrra var sölutregða á áli. Nú er flutt út af birgðum og útflutningur af áli og álmelmi hafði í júlílok aukist um 4149 millj. kr.

Þessir þrír liðir, sem hafa allir áhrif í sömu átt, þ.e.a.s. að bæta víðskiptajöfnuðinn, gera 9423 millj. kr. eða nálega það sem búist er við að batinn á viðskiptajöfnuði verði í heild á árinu. Stefna ríkisstj. á hér engan þátt í, nema þá helst að takmarka innflutning á framleiðslutækjum. Almennar neysluvörur flæða óhindrað inn í landið í samkeppni við innlenda framleiðslu.

Nei, það er sama hvort rætt er um verðbólguþróunina eða viðskiptajöfnuðinn. Hæstv. ríkisstj. hefur þar af engu að státa. Hagstæð þróun ytri aðstæðna hefði komið öllum almenningi að meira haldi ef ekki kæmi til ráðleysi hæstv. ríkisstj., gjaldeyrissóun og stjórnleysi á öllum sviðum.

Þegar frv. til fjárlega fyrir 1976 var lagt fram í fyrrahaust, var í aths. með frv. gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs á árinu 1975 yrðu 770 millj. kr. umfram tekjur. Þessa upphæð mundi vanta upp á að sá árangur næðist sem að var stefnt með setningu brbl. í júlí 1975 um 12% vörugjald. Sú lagasetning gilti til ársloka 1975 og átti að tryggja hallalausan ríkisbúskap á því ári. Það fór nú svo að þann halla á ríkissjóði, sem hæstv. í fjmrh. sló föstum í aths. með fjárlagafrv. að yrði 770 millj. kr. 1975, taldi síðan í fjárlagaræðu 28. okt. að yrði 1270 millj. kr., í des. að yrði 3500 millj. kr., í jan. að yrði 5000 millj. kr., taldi hann loks í byrjun maí s.l. að yrði 6450 millj. Og nú kemur fram í grg., sem lögð var fram í dag, að rekstrarhalli ríkisins 1975 hafi orðið 7533 millj. Í aths. með fjárlagafrv. í fyrrahaust var boðað að fyrir afgreiðslu fjárlaga yrðu gerðar breytingar á lögum og reglum, sem tryggðu verulega útgjaldalækkun á árinu 1976 frá því sem ella hefði orðið og með því gert kleift, eins og sagði orðrétt í grg. með frv., með leyfi hæstv. forseta: „að framkvæma umtalsverða skattalækkun með niðurfellingu sérstaks vörugjalds“.

Þannig leit dæmið út þegar fjárlagafrv. var lagt fram í fyrrahaust. Einungis 770 millj. kr. halli á ríkissjóði og fært átti að vera að tryggja mikla skattalækkun, m.a. með niðurfellingu vörugjalds. Að vísu var í því sambandi reiknað með að almenningur yrði að kaupa sig undan vörugjaldinu með því að viðlagasjóðsgjald, 2% á söluskattsstofn, sem ætlað hafði verið til að bæta skakkaföll af náttúruhamförum, yrði hér eftir notað til að bæta skakkaföll ríkissjóðs af stjórnleysi í ríkisfjármálum og viðlagasjóðsgjaldið rynni því beint í ríkissjóð.

Það gerðist reyndar hvort tveggja, að ríkisstj. hirti söluskattsstigin tvö, sem voru færð til ríkissjóðs þegar í áætlunum fjárlagafrv., og að vörugjaldinu var við endanlega afgreiðslu fjárlagafrv. einnig haldið sem tekjustofni ríkissjóðs með þeim hætti, að það skyldi lækka úr 12% í 10% 1. jan. 1976 og gilda þar til 1. sept. í ár, en lækka þá enn í 6% og gilda til n.k. áramóta. Þessi ráðstöfun að framlengja vörugjaldið var m.a. réttlætt með því, að í fjárlagafrv. hafi tekjuhlið frv. verið miðuð við óbreytt magn innflutnings frá 1975, en nýrri upplýsingar taldar henda til þess að um veituminnkun yrði að ræða. Á þessum forsendum var það m.a. byggt, að ekki fékkst gert ráð fyrir auknum söluskattstekjum í kjölfar 2 200 millj. kr. álagningar vörugjalds sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í fjárlagafrv.

Þannig var fjárl. þessa árs komið saman, og niðurstöðutölur voru þær að gert var ráð fyrir nær 1500 millj. kr. tekjuafgangi hjá ríkissjóði, jafnframt því sem nokkuð hefði þá verið á árinu 1976 greitt af yfirdráttarskuld ríkissjóðs við Seðlahankann. Skattheimta ríkisins var við afgreiðslu fjárl. á þann veg ákvörðuð, að þetta tækist á þeim grundvelli að þjóðartekjur ykjust ekki frá árinu 1975 og neyslumagn stæði í stað eða minnkaði heldur.

Þessi grundvöllur brast ekki, þvert á móti. Ytri aðstæður hafa verið að batna. Þrátt fyrir það var þó ekki langt liðið á árið þegar sýnt var að hæstv. fjmrh. ætlaði enn ekki að geta rekið ríkissjóð hallalaust þrátt fyrir betri rekstrargrundvöll en fjárl., sem áttu að skila greiðsluafgangi, höfðu verið miðuð við. 12% vörugjaldið, sem skv. fjárlagafrv. átti að falla niður í árslok 1975, en var við afgreiðslu fjárlaga ákveðið 10% til 1. sept. og 6% frá þeim tíma til áramóta, var í maí hækkað í 18% og skyldi sú hækkun vera í gildi til næstu áramóta. Í höndum hæstv. fjmrh. hafði vörugjaldið, sem hann sleppti lausu í júlí 1975, nú fengið eðli ófreskjunnar í þjóðsögunum. Sá haus, sem höggvinn var af í des., varð að tveimur í maí. 1000 millj. kr. af tekjuauka vegna hækkunar vörugjaldsins voru áætlaðar til aukinna umsvifa Landhelgisgæslu og Hafrannsóknastofnunar, en 600 millj, kr. tekjuauki af vörugjaldi og um 400 millj. kr. tekjur af söluskatti á vörugjaldshækkunina og verslunarálagningu á vörugjaldshækkunina skyldu fara til greiðslu á almennum rekstrarkostnaði umfram áætlanir fjárlaga.

Þrátt fyrir allt þetta hefur ekki verið sýnt fram á á þessari stundu, að yfirdráttarskuld ríkissjóðs við Seðlabankann verði lækkuð um 1450 millj. kr., eins og gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárl. og skattheimtan miðaðist við.

Frá síðustu áramótum og til loka ágústmánaðar hefur skuldin hækkað um 1945 millj., eða nokkru meira en á sama tímabili í fyrra, og nam í lok sept. 12 774 millj. kr.

Vegna sífelldrar útþenslu rekstrarkostnaðar ríkisins hefur hæstv. ríkisstj. því enn orðið að herða skattheimtuna á þessu ári eftir setningu fjárl., þrátt fyrir að ytri aðstæður hafi verulega batnað, því að nú er gert ráð fyrir að þjóðartekjur aukist á árinu vegna batnandi viðskiptakjara. Áður afsakaði hæstv. ríkisstj. skattpíninguna, hallareksturinn og kjaraskerðinguna með versnandi ytri aðstæðum. En nú herðir hún á þessu ári enn skattheimtuna og kjararýrnunina þegar ytri aðstæður hafa verulega batnað.

Það er fróðlegt fyrir launafólk, sem hefur búið við stórlega skert lífskjör á stjórnartíma hæstv. ríkisstj., að sjá hvernig hin stóraukna skattheimta ríkissjóðs birtist í samanburði nokkurra skattstofna annars vegar á fjárlögum ársins 1974 og hins vegar á fjárlögum ársins 1976. Innflutningsgjöld hafa á þessum tveim árum hækkað úr 8 500 í 15 500 millj. kr. eða um 7000 millj. kr. Söluskattur hefur hækkað úr 7 300 millj. í 23 300 millj. eða um 16 000 millj. kr. Tekjuskattur einstaklinga hefur hækkað úr 5 800 millj. í 7 200 millj. eða um 1400 millj. kr., en tekjuskattur félaga hefur hækkað úr 922 millj. í 1070 millj. eða um 148 millj. kr. Sé tekin saman hækkun innflutningsgjalds, söluskatts og tekjuskatts einstaklinga á fjárlögum þessara tveggja ára nemur hún samtals 24 400 millj., en hækkun á tekjuskatti félaga 148 millj. Þessar tölur segja nokkra sögu um skattastefnu hæstv. ríkisstj.

Mjög verulegur þáttur í stórhækkuðu vöruverði síðustu ára og í því, hve launafólki veitist æ erfiðara að láta tekjurnar duga fyrir nauðsynjum, eru hinir stórauknu neysluskattar. Ofan á hverja vöruverðshækkun og þjónustugjaldahækkun bætist 20% í söluskatt til ríkissjóðs. Frá fjárlögum 1974 til fjárlagafrv. fyrir árið 1977 nemur hækkun söluskatts og hið nýja vörugjald 30 600 millj. kr. Hækkunin nemur um 700 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu.

Og enn hefur hæstv. fjmrh. lagt fram fjárlagafrv. Nú hafa ytri aðstæður batnað á þessu ári, og það er gert ráð fyrir að þær batni enn frekar á næsta ári, gert ráð fyrir að þjóðarútgjöld aukist um 2%. Þessi aukning gæti þýtt 1200–1300 millj. kr, í auknar tekjur fyrir ríkissjóð. Þessar bættu aðstæður eiga þó greinilega ekki að verða til þess að slakað verði á skattheimtunni. Hún er þvert á móti aukin. Í stað þess, að 10% vörugjald var í gildi ríflega þriðjung þessa árs, á nú að innheimta 18% vörugjald allt næsta ár. Sé miðað við fjárlög ársins 1976 var áætlað að 10% vörugjald í 8 mánuði og 6% gjald í 4 mánuði færði ríkissjóði 2 330 millj. kr. Það svarar til riflega 2 500 millj. árið 1977 vegna verðlagshækkana. Nú er áætlað að 18% vörugjaldið allt árið færi ríkissjóði 5250 millj. Þar munar nær 2 800 millj, kr., og auk þess má áætla að muni um 700 millj. kr. í auknum útgjöldum neytenda vegna söluskatts á gjaldið. Tolltekjur lækka hins vegar um 600 millj.

Sé miðað við raunverulega innheimtu vörugjalds í ár, 10% gjald í 4 mánuði og 18% gjald í 8 mánuði, er hér um að ræða aukin útgjöld neytenda sem gætu numið 1200 millj. kr. með söluskatti sem leggst vörugjaldið og einnig á verslunarálagningu á vörugjaldið.

Til þess að koma fjárlagafrv. saman gerir hæstv. ríkisstjórn enn fremur ráð fyrir að hækka um 370 millj. kr. það gjald sem sjúklingar greiða einir, þ.e. gjald vegna læknishjálpar og lyfjakaupa.

Enn ein ráðstöfun til að berja saman fjárlagafrv. er að halda enn áfram á þeirri braut, sem hefur verið ein aðalstefna hæstv. ríkisstj. við fjárlagagerð, að skera niður að raungildi þær samfélagsframkvæmdir sem mestu varða almenning í landinu þegar rekstrarliðirnir hækka enn umfram almennar verðlagshækkanir. Framkvæmdir í raforkumálum eru nú á því stigi að framlag til þeirra minnkar verulega. Það verður þó ekki til þess að auka raungildi fjárframlaga til annarra framkvæmda sem mestu skipta um víðgang byggðarlaga, heldur minnka þau framlög enn að raungildi, framlög til flugvallagerðar t.d. um 10%, héraðsskóla um 23%, hafnarmannvirkja sveitarfélaga tæp 6% og framkvæmda við ríkisspítala um 20%. Og séu tekin saman framlög ríkisins til hafnarframkvæmda sveitarfélaga og til landshafna lækkar framlag til þeirra framkvæmda að raungildi um fjórðung. Framlag til landshafna lækkar úr 450 millj. í 100 millj. og er þó allt tekið að láni.

Forsvarsmenn hafnarsjóða um allt land hafa án efa átt von á því að þegar lyki hinum sérstöku hafnarframkvæmdum í Þorlákshöfn og Grindavík, þá yrði tilsvarandi upphæð eða a.m.k. nokkrum hluta jafngildrar upphæðar varið til að auka fjárveitingu til almennra hafnarframkvæmda í landinu. Ég er ekki frá því að yfirvöld hafnamála hafi jafnvel látið sveitarstjórnarmenn, sem kvörtuðu yfir að of lítið væri veitt til almennra hafnarframkvæmda meðan á þessum sérstöku framkvæmdum stóð, standa í þeirri trú að til hinna almennu hafnarframkvæmda sveitarfélaga yrði beint auknu fjármagni þegar létti greiðslu til Þorlákshafnar og Grindavíkur. Nú er þess í stað enn rýrt framlag til sveitarfélagahafnanna, en 450 millj. kr. á að verja til hafnarframkvæmda við Grundartanga til viðbótar 50 millj. kr. á þessu ári. Upphæðin á fjárlagafrv. til Grundartanga er 53% af þeirri heildarupphæð sem varið er til allra annarra hafnarframkvæmda sveitarfélaga í landinu. Það er enn ein staðfestingin á því að hæstv. ríkisstj. tekur stóriðju í eigu eða með þátttöku útlendinga fram yfir þá framleiðslustarfsemi sem er að öllu leyti í höndum landsmanna sjálfra.

Framlög til stofnkostnaðar menntaskóla, annarra en menntaskóla á Austurlandi, nema einungis um 50 millj. kr., og ekki ein einasta króna er veitt til stofnkostnaðar, þ. á m. tækjakaupa. til eins einasta fjölbrautaskóla í landinu. Er það í samræmi við það sinnuleysi sem hæstv. ríkisstj. hefur jafnan sýnt verknámi í landinu. Fleira mætti nefna af mikilvægum þáttum sem rýrna verulega að raungildi frá núgildandi fjárlögum. T.d. framlag til jöfnunar námskostnaðar og framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna, en ég mun ekki hafa frekari orð um þau mál fyrr en séð verður hvaða afgreiðslu þessi hagsmunamál nemenda fá í fjvn.

Það er heldur ömurleg niðurstaða, að nú þegar ytri aðstæður hafa verulega batnað á þessu ári og í grg. fjárlagafrv, er spáð frekari bata á næsta ári, þá rýrna enn að raungildi fjárveitingar til mikilvægustu málaflokka. Þetta gerist í kjölfar mjög verulegs niðurskurðar á undanförnum stjórnarárum hæstv. ríkisstj. Ef miðað er við að framkvæmdakostnaður hafi hækkað um 150% frá haustinu 1973, þegar fjárlagafrv, vegna ársins 1974 var lagt fram, og til þessa dags og borið saman raungildi fjárfestinga við samþykkt fjárlaga fyrir árið 1974 og í fjárlagafrv. fyrir árið 1977, þá hefur framlag til hafnarmannvirkja sveitarfélaga rýrnað um 24%, samanlagt framlag til hafnarmannvirkja sveitarfélaga og til landshafna um 45%, framlag til grunnskóla um 22%, framlag til iðnskóla um 44%, framlag til byggingar menntaskóla um 52%, framlag til byggingar héraðsskóla um 31%. Framlag til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva hækkar um 26%, en framlag til flugvallagerðar rýrnar um 30%. Þrátt fyrir þennan niðurskurð hafa fjárlög hækkað umfram almennar verðlagshækkanir vegna stórkostlegrar þenslu rekstrarliða, og hlutfall ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslunni hefur að meðaltali verði 2.2 prósentustigum hærra í fjárlögum hæstv, núv. ríkisstj. og í fjárlagafrv. hennar nú en það var að meðaltali á stjórnarárum vinstri stjórnarinnar.

Það er eftirtektarvert, að á sama tíma og sagt er í grg. fjárlagafrv. að meðaltekjur til skatts hækki á þessu ári um 26.5% þá hækka útgjöld ríkissjóðs samkv. fjárlagafrv, um 41.5%, en um 38.5% ef tekið er tillit til þess að ráðstöfun Olíusjóðs er nú meðtalin í útgjaldahlið fjárlagafrv.

Þróunin, sem verið hefur í fjárlagagerð hæstv. ríkisstj., heldur enn markvisst áfram. Raungildi mikilvægustu framkvæmdaliða rýrnar, en þáttur almennra rekstrargjalda verður sífellt stærri. Vaxtagjöld í A- og B-hluta fjárlagafrv. fyrir næsta ár eru áætluð 8373 millj. kr. og hafa hækkað um 6711 millj. kr. frá fjárlögum ársins 1974. Vaxtagjöldin munu á næsta ári verða 3809 millj. kr. hærri en á þessu ári. Hækkun vaxtaútgjalda — hækkunin ein á næsta ári — nemur riflega öllu áætluðu framlagi úr ríkissjóði næsta ár til hafnarframkvæmda sveitarfélaga, grunnskólabygginga, sjúkrahúsabygginga sveitarfélaga, framkvæmda við ríkisspítala, heilsugæslustöðva og læknisbústaða og flugvallaframkvæmda. Einungis hækkun vaxtaútgjalda á einu ári nemur hærri upphæð en áætluð framlög ríkisins til allra þessara framkvæmda.

Því hefur nokkuð verið haldið fram í málgögnum stjórnarflokkanna, að aðhalds hafi verið gætt varðandi rekstrarútgjöld ríkisins. Staðreyndirnar um útþenslu rekstrarliða í tíð núv. hæstv, ríkisstj. sýna að sjálfsögðu allt annað. Í grg. með fjárlagafrv. fyrir næsta ár er greint frá því að taxtahækkanir launa séu áætlaðar 37.7%, eðlilega nokkru hærri en áætluð hækkun meðaltekna á árinu, vegna þess að meðtaldar í taxtahækkununum eru umsamdar grunnkaupshækkanir á næsta ári. Launaliður í fjárlagafrv. hækkar hins vegar ekki í heild um 37.7%, heldur um 49.8% eða þriðjungi meira en taxtahækkanirnar einar gefa tilefni til. Að sjálfsögðu hlýtur jafnan að vera um einhverja eðlilega magnaukningu að ræða, t.d. í kennslumálum, en þessi mismunur er svo mikill að hann gæti í heild numið 1.5 milljarði kr. í fjárlagafrv.

Það er látið koma fram í grg. fjárlagafrv., að talsverður þáttur í útgjaldaauka stafi af endurhótum í dómsmálakerfinu, Menn skyldu því ætla, miðað við umr. undanfarið, að þessar hækkanir kæmu fyrst og fremst fram í embættum í Reykjavík þar sem vandinn hefur legið. Þegar nánar er skoðað kemur hins vegar í ljós að útgjaldaaukningin, sem fellur á dómsmrn., er fyrst og fremst annars staðar en hjá þeim embættum — t.d. er hækkun launakostnaðar hjá lögreglunni í Reykjavík 41%, þ.e.a.s. lægri en heildarhækkun launaliðar sem er 49.8%. Hækkun annarra rekstrargjalda hjá sama embætti er 37%, en meðalhækkun þess liðar í fjárlagafrv. er 58.2%. Hækkun launakostnaðar hjá borgarfógetaembættinu er 44% og hækkun annarra rekstrargjalda 22%. Hjá borgardómaraembættinu hækka laun um 64%, en önnur rekstrargjöld um 37%. Þetta eru embættin í Reykjavík. Hins vegar er hækkun launakostnaðar hjá bæjarfógetanum á Akranesi 76.7% og annarra rekstrargjalda 83%, hækkun launa hjá sýslumanninum í Borgarnesi 45%, hækkun annarra rekstrargjalda 70.2%, hækkun launa hjá sýslumanninum í Stykkishólmi 88.8% og annarra rekstrargjalda 60%, — heildarkostnaður við löggæslu í Stykkishólmi hækkar um 168%, Grundarfirði 66%, Ólafsvík 70%, Hellissandi 84%, —- hækkun launakostnaðar hjá sýslumanninum á I'atreksfirði 84%, önnur rekstrargjöld hækka um 72.5%, hækkun launakostnaðar hjá bæjarfógetanum í Bolungarvík 63.3%, önnur rekstrargjöld hækka um 87.2%, heildarkostnaður við löggæslu í Bolungarvík hækkar um 97.3%, önnur rekstrargjöld hjá sýslumanninum í Hólmavík hækka um 91.2%, launakostnaður hjá sýslumanninum á Blönduósi um 67.1% og önnur rekstrargjöld hækka um 134.5%. Svona má lengi telja. Löggæslukostnaður á Ólafsfirði hækkar um 101%. Launakostnaður hjá sýslumanninum og bæjarfógetanum á Húsavík hækkar um 133.7%, önnur rekstrargjöld um 166.7% og yfirstjórn þess embættis hækkar um 117.7%, löggæslukostnaður á Húsavík um 151.5%. Raufarhöfn um 152.5%, löggæslukostnaður á Þórshöfn um 215.3%, Seyðisfirði 1155%, Vopnafirði 79.1%. Önnur rekstrargjöld hjá sýslumanninum í Höfn á Hornafirði hækka um 123.8%, launakostnaður hjá sýslumanninum í Höfn um 75.1%, löggæslukostnaður í Vík í Mýrdal um 241.2%, á Hvolsvelli um 150.4%, launakostnaður hjá bæjarfógetanum í Vestmannaeyjum um 104.7% og löggæslukostnaður í Eyjum um 104.4%. Allir kostnaðarliðir hjá embætti sýslumannsins á Selfossi eru hins vegar algjörlega óbreyttir að krónutölu frá fjárlögum í ár. Þar eiga útgjöld ekki að breytast um eina krónu Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Önnur rekstrargjöld hjá bæjarfógetanum í Keflavík hækka um 146%, löggæslukostnaður í Keflavík og Njarðvík um 90.2%, Grindavík um 100.9%, Hafnarfirði um 98.4%. Aðhaldsemin, sem Morgunblaðið telur að stundum sé fyrir hendi í ríkisrekstrinum, er því fólgin í því að þeir aðilar, sem annast innheimtu fyrir ríkissjóð og hafa fé hans undir höndum, hafa eytt langt umfram fjárlög og nú er þessi umframeyðsla tekin góð og gild og útgjaldaliðir hækkaðir í fjárlagafrv. í beinu samræmi við eyðslu án heimildar, þeir aðilar hækkaðir mest sem mestu hafa eytt umfram heimildir fjárlaga.

Það má geta þess um aðhald í sambandi við þessi mál, að óskir um fjölgun starfsliðs á skrifstofu bæjarfógetans í Hafnarfirði voru bornar undir fjvn. s.l. vor og samþ. að fjölga stöðum um sem svarar 11/2 stöðu skrifara, einnig um stöðu skrifstofustjóra, og enn fremur var samþ. að breyta 11/2 skrifarastöðu í eina stöðu fulltrúa. Þetta taldi n. vel að verið og þetta ætti að vera hámarksskammtur. Nú er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir því að til viðbótar þeirri fjölgun, sem fjvn. samþ. fyrir fáum mánuðum og leit á sem hámarksfjölgun, verði bætt 4 nýjum stöðum skrifstofumanna.

Þær miklu hækkanir, sem varða dómsmrn. í fjárlagafrv., virðast ekki fyrst og fremst til þess gerðar að bæta úr seinlæti í dómsmálakerfinu, heldur er fyrst og fremst um að ræða till. um hærri fjárveitingar á fjárlögum til almenns rekstrarkostnaðar við embætti bæjarfógeta og sýslumanna þar sem hvað minnst hefur staðið á varðandi dómsmál. Það er auðvitað fráleitt þegar reynt er að láta líta svo út að með stórfelldum hækkunum á almennum rekstrarútgjöldum við embætti sýslumanna og bæjarfógeta, þ.e.a.s. með lögfestingu eyðslu umfram fyrri fjárlagaheimildir, sé verið að koma til móts við óskir almennings um fljótvirkari meðferð dómsmála. Þar þarf sjálfsagt eitthvað annað til.

Á hliðstæðan hátt var svo látið líta út, að ein aðalástæðan fyrir hækkun vörugjaldsins s.l. vor væri stóraukin starfsemi Hafrannsóknastofnunar. Nú er með fjárlagafrv. ákveðið að láta innheimta 18% vörugjaldið allt næsta ár, og ætla mætti að í frv. kæmi fram að hluti af stórhækkun þess frá fjárlögum, sem samþ. voru í des. í fyrra, væri veruleg hækkun fjárveitinga til þessarar stofnunar vegna hafrannsókna, fiskleitar og tilrauna með nýtingu fiskstofna sem ekki hafa verið nýttir áður, eins og það var látið heita í efnahagsmálafrv. í vor þegar vörugjaldið var hækkað. Staðreyndin er sú, að fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunarinnar hækka um 35.1% þegar fjárlög hækka um 42.1% Launakostnaður hjá stofnuninni hækkar frá fjárlögum, sem samþ. voru í fyrra, um 34.3% þegar laun hækka almennt í fjárlögum um 49.8%. Önnur rekstrargjöld hjá stofnuninni hækka um 55.1% þegar sá liður hækkar að jafnaði um 58.2% í fjárlagafrv. Þetta sýnir ásamt öðru að stórauknum tekjum ríkissjóðs af vörugjaldi er ekki varið til greiðslu á sérstökum nýjum verkefnum Hafrannsóknastofnunar. Fjárveiting til hennar er lægri að raungildi en á fjárlögum sem samb. voru í fyrrahaust úður en vörugjaldið var hækkað.

Nú kynni einhver að segja, að að því er varðar það sem ég rakti áðan um hækkun á launakostnaði og liðnum öðrum rekstrargjöldum sé aðeins um að ræða embætti fógeta og sýslumanna sem nú séu raunhæfari áætlanir um, þar sem umframeyðsla sé nú lögfest sem grundvöllur og verðlagshækkunum bætt ofan á. En sé litið til launakostnaðar hjá stofnunum ríkisins í B-hluta fjárlagafrv. kemur svipað í ljós varðandi hækkanir launa og á tíðum hækkanir liðarins önnur rekstrargjöld. Hækkun launakostnaðar takmarkast ekki við þau 37.7% sem taxtahækkunin nemur, og hliðstæða sögu er að segja um hækkun annarra rekstrargjalda. Ég skal rekja dæmi, en tek þó ekki framleiðslufyrirtæki.

Byggðasjóður, launakostnaður hækkar um 155%, úr 29 millj. í 88 millj., og önnur rekstrargjöld um 272%, úr 9.4 í 35 millj. Happdrætti Háskóla Íslands, launakostnaður hækkar um 53%, önnur rekstrargjöld um 63%. Háskólabíó, launakostnaður hækkar um 52%, önnur rekstrargjöld um 64%. Ríkisútgáfa námsbóka, Skólavörubúð, launakostnaður hækkar um 100%. Lánasjóður ísl. námsmanna, launakostnaður hækkar um 50%. Ríkisútvarp, hljóðvarp, launakostnaður hækkar um 50%, önnur rekstrargjöld um 91%. Ríkisútvarp, sjónvarp, önnur rekstrargjöld hækka um 129%. Þjóðleikhús, launakostnaður hækkar um 39%, en önnur rekstrargjöld um 129%, úr 40 millj. í 91.7 millj. Sinfóníuhljómsveit, laun hækka um 46,5% eða talsvert umfram taxtahækkun, enda þótt fjvn. hafi s.l. vor samþ. að felldar yrðu niður óheimilaðar stöður, en þess sjást ekki merki á frv. að eftir þeirri samþykkt hafi verið farið. Fríhöfn á Keflavíkurflugvelli, launakostnaður hækkar um 73%. Flugmálastjórn, Keflavíkurflugvelli, launakostnaður hækkar um 60%. Tilraunastöðin á Hesti, launakostnaður hækkar um 53%, á Reykhólum 56%, Skriðuklaustri 53%, Sámsstöðum 49%. Fiskimálasjóður, launakostnaður hækkar um 89%. Byggingasjóður ríkisins, launakostnaður hækkar um 47%, úr 48 millj. í 71 millj. Lánasjóður sveitarfélaga, launakostnaður hækkar um 50%, Bjargráðasjóður um 50%, Tryggingastofnun ríkisins um 50% og heildarlaun úr 118 millj. í 181 millj. Brunabótafélag Íslands, launakostnaður hækkar um 100%, úr 60 í 100 millj. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, launakostnaður hækkar um 54%, úr 123 millj. í 190 millj. Lyfjaverslun ríkisins, launakostnaður hækkar um 61 %, Innkaupastofnun ríkisins um 56%, Borgartún 7 um 360%, úr 2.7 milli. í 12.5 milli. Póstur og sími, launakostnaður hækkar um 52% eða ríflega um 1 milljarð kr. Áhaldahús vegagerðar, launakostnaður hækkar um 55%. áhaldahús vitamálastjórnar 55% og flugmálastjóri, launakostnaður hækkar um 53%.

Þetta sýnir að hjá svo til hverri einustu ríkisstofnun í B-hluta fjárlagafrv. vex launakostnaður verulega meira en svarar til almennrar taxtahækkunar í fjárlagafrv. Það er ljóst að gert er ráð fyrir kostnaðarauka í þessum stofnunum langt umfram raunverulega taxtahækkun, t.d. hjá Pósti og síma um 270 millj. kr., hjá Tryggingastofnun ríkisins um 20 millj. og hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins um 20 millj. Þetta er aðhaldið.

Fyrst ég nefni Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, þá má geta þess í leiðinni að gert er ráð fyrir að tekjur af rekstri hennar aukist nm 1230 millj. frá núgildandi fjárlögum. En þrátt fyrir alla þessa hækkun er ekki einni einustu krónu varið til þess að auka tekjur Gæsluvistarsjóðs, en með framlagi sjóðsins er staðið fyrir framkvæmdum í sambandi við meðferð drykkjusjúkra. Það er óbreytt að krónutölu og lækkar um fjórðung að raungildi.

Því er haldið fram, að launaliðir svo og útgjaldaliðir almannatrygginga séu nú raunhæfar áætlaðir í fjárlagafrv. en að jafnaði áður, þar sem í útgjaldatölunum er reiknað með umsömdum taxtahækkunum á næsta ári og hækkun tryggingabóta í samræmi við það. Þetta er að vissu leyti rétt. Slík fastbundin kjaraákvæði hafa að jafnaði ekki legið fyrir, og þá hefur verið óeðlilegt að gera ráð fyrir óumsömdum hækkunum, eins og á hinn bóginn er sjálfsagt og óhjákvæmilegt að taka slíkar hækkanir með í reikninginn þegar þær liggja fyrir við undirbúning fjárlaga. Samt sem áður held ég að flestum sé ljóst, að þrátt fyrir að fræðilega séð eru launaliðir raunhæfari en stundum áður vegna þess, sem ég hef hér rakið, muni þær taxtahækkanir, sem koma til á næsta ári samkv. samningum sem gerðir voru s.l. vor, engan vanda leysa í kjaramálum. 5% hækkun 1. febr. og 4% hækkun 1. júlí duga skammt í því efni. Það er óraunsæi að ímynda sér að annað og meira gerist ekki í kjaramálum en að þessar umsömdu hækkanir komi fram. Þar fyrir held ég því ekki fram að áætla eigi í fjárlögum fyrir slíkum viðbótarhækkunum launa, en þessar horfur í kjaramálum sýna að launaliðirnir og útgjaldaliðir almannatrygginga eru í raun óraunhæfari en ætla mætti við fyrstu sýn. Auk þess má á það benda, að ekki er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir áhrifum af auknum launaútgjöldum vegna áhrifa af verðlagshækkunum umfram umsamin rauð strik svokölluð. Nú þegar hinn 1. nóv. kemur til framkvæmda 3.11% launahækkun af þessum sökum sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í fjárlagafrv. Sú hækkun mun valda útgjaldaaukningu á næsta ári um 1300 millj. kr., þannig að nú þegar eru fjárlög í raun komin upp í 85.3 milljarða og hækka þar með um 41.4%. Hvað gerist varðandi rauða strikið 1. febr. á næsta ári veit að sjálfsögðu enginn, en allt þetta sýnir að enda þótt umsamdar taxtahækkanir á næsta ári séu meðtaldar í útgjöldum fjárlagafrv., þá eru launaliðir og útgjöld almannatrygginga óraunhæfari í reynd en margur kynni að ætla.

Ég hef hér minnst nokkuð á launaliði, taxtahækkun og hækkun meðallauna og vil í framhaldi af því vekja athygli á því, að í grg. um álagningu tekjuskatta í aths. með fjárlagafrv. kemur fram, að tekjuaukning einstaklinga var á árinu 1975 32%, en ekki 28%, eins og reiknað var með við ákvörðun skattvísitölu við afgreiðslu núgildandi fjárlaga. Ég hef aflað mér upplýsinga um að nettótekjur einstaklinga til skatts hækkuðu að meðaltali um 30.1 %, en ekki um 25% eins og áætlað var við ákvörðun skattvísitölu í fyrra. Það þýðir, að sé við þá reglu miðað, að skattvísitala eigi hverju sinni að hækka jafnt og meðaltekjur til skatts, ætti skattvísitala á núgildandi fjárlögum að vera 130 stig í stað 125 stiga. Sé framreiknað frá þeirri tölu, 130 stigum, sem hefði átt að gilda við skattlagningu í ár, og miðað við 26.5% hækkun meðaltekna á þessu ári, eins og gert er í frv., leiðir það til þess að skattvísitala í fjárlögum ársins 1977 ætti að vera 164 stig, en ekki 158 stig eins og í þessu frv. er lagt til. Ég tel að hér eigi skattgreiðendur rétt á leiðréttingu vegna of lágrar skattvísitölu við álagningu s.l. vor og Alþ. eigi af þeim sökum að ákvarða skattvísitölu á fjárlögum fyrir árið 1977 í samræmi við það og ákveða hana 164 stig í stað 158, miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir á þessari stundu.

Eins og ég rakti fyrr í ræðu minni hafa framlög á fjárlögum til nauðsynlegustu samfélagslegra framkvæmda lækkað mjög verulega að raungildi í tíð þeirrar hægri stjórnar sem nú fer með völd. Samtímis hafa fjárlög í heild hækkað umfram almennar verðlagshækkanir vegna þess að þáttur rekstrarútgjalda vex stöðugt á kostnað framkvæmdaliða. Þessi þróun hefur verið höfuðeinkenni í fjárlagaafgreiðslu hæstv. núv. ríkisstj., og hún setur enn mark sitt á það fjárlagafrv. sem hér er til umr. T.d. hækkar liðurinn önnur rekstrargjöld í fjárlagafrv. nú í heild um 58.2% á sama tíma og vísitala framfærslukostnaðar er talin hækka um 25-30%. Hæstv. ríkisstj. telur verðbólguna vera að minnka, en hækkun liðarins önnur rekstrargjöld er meira en tvöfalt meiri í fjárlagafrv. nú en hækkun þessa liðar var við afgreiðslu núgildandi fjárlaga, og við afgreiðslu fjárlaga ársins 1975 hækkaði liðurinn um 86.2%. Frá fjárlagafrv. ársins 1974 til fjárlagafrv. fyrir árið 1977, þ.e.a.s. í tíð núv. ríkisstj., hefur liðurinn önnur rekstrargjöld í A- og B-hluta fjárlaga hækkað úr ríflega 3600 millj, kr. í nær 14 200 millj., þ.e.a.s. verður á næsta ári um 10 600 millj. kr. hærri en 1974 og hefur hækkað um nær 200% á þremur árum. Ef þessi líður, heildarupphæð annarra rekstrargjalda, hefði hækkað sem svarar almennum verðlagshækkunum á þessum árum, þá væri hann á árinu 1977 ríflega 4000 millj. kr. lægri en nú er áætlað í fjárlagafrv., en það er upphæð sem er ríflega helmingur af öllum áætluðum tekjuskatti einstaklinga á næsta ári. Þetta er býsna merkur minnisvarði um fjármálastjórn hæstv. fjmrh. sem taldi það auðvelt verk árið 1974 að skera ríkisútgjöld niður um upphæð sem svarar til 11000–12000 millj. kr. í dag. Einstökum stofnunum, eins og t.d. Hagstofu Íslands, hefur tekist að halda hækkun annarra rekstrargjalda innan ramma almennra verðlagshækkana á þessum tíma og þó gert heldur betur. Það mætti koma fram ýmsum þörfum verkefnum fyrir helming þessarar upphæðar á hverju ári, en þessi útþensla rekstrarliðanna hefur gengið út yfir framkvæmdaliðina og hækkað fjárlögin og skattheimtuna umfram almennar verðlagshækkanir.

Fjárveiting til uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir hækkar um 910 millj. frá núgildandi fjárlögum eða um 102%. Sú aukna fjárhæð, sem varið er til að greiða niður verð á landbúnaðarafurðum fyrir útlendinga, hækkunin á einu ári, nemur 21 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu, og heildarupphæðin, sem verja á í þessu skyni, nemur 1800 millj. kr. á næsta ári. Það þýðir að verja á upphæð, sem nemur 41 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu, til að koma 4–5 þús. tonnum dilkakjöts og verulegu magni annarra landbúnaðarafurða ofan í útlendinga. Þessi tala hækkar í 56 þús. kr. á fjölskyldu ef á dæmið er tekin sú upphæð, 660 millj. kr., sem talið er að verði varið til útflutningsuppbóta á þessu ári umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum. Við þetta væri ekki svo mikið að athuga ef þessi upphæð væri innheimt af almenningi til þess að greiða niður verð á íslenskum matvælum handa vannærðum þjóðum. En því er því miður ekki að heilsa. Við greiðum þessar fjárhæðir til þess að ríkustu þjóðir heims, bandaríkjamenn, svíar og aðrar norðurlandaþjóðir, fáist til þess að kaupa þessar vörur. Á sama tíma og niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum til útlendinga hækka um 102%, um 910 millj. kr., og greiða verður 660 millj. kr. sem varið verður umfram áætlun fjárlaga í ár, og á sama tíma og skattheimta hækkar um 24 000 millj. kr. á næsta ári, þá hækkar framlag til niðurgreiðslna innanlands um einar litlar 134 millj. kr. eða um 2.7%. Þar loksins kom að hækkun sem vegur létt í fjárlögunum. Enda er hér um að ræða fjárveitingu sem er þess eðlis að hún dregur úr verðhækkunum brýnustu lífsnauðsynja almennings og verðbólgu og kemur sérstaklega að gagni því fólki sem eyðir stærstum hluta tekna sinna í matvælakaup, þ.e.a.s. barnafjölskyldum og lífeyrisþegum. Þegar kemur að útgjaldalið sem stuðlar að öllu þessu, þá hækkar hann um 2.7%. Betur að því aðhaldi væri beitt víðar.

Fjárlög hafa hækkað umfram verðlags- og launahækkanir, rekstrarliðir hafa hækkað langt umfram almennar verðlagshækkanir, raungildi framlaga til samfélagslegra framkvæmda hefur minnkað, niðurgreiðslur á matvælum handa ríkustu þjóðum heims eiga nú að tvöfaldast, en niðurgreiðslur fyrir íslenska neytendur svo til að standa í stað að krónutölu. Allt á þetta sinn þátt í versnandi lífskjörum launafólks í stjórnartíð hægri stjórnarinnar sem ráðgerir nú við afgreiðslu fjárlaga að skattar af innflutningi og seldum vörum og þjónustu og vörugjaldi verði á næsta ári um 45 000 millj. kr. hærri en á fjárlögum 1974.

Þegar fjárlög voru samþ. í fyrra, fyrir tæpu ári, taldi hæstv. ríkisstj, að til þess að standa undir ríkisútgjöldum dygði að vörugjald næmi 10% í 8 mánuði og 6% í 4 mánuði. Nú, þegar ytri aðstæður eru verlega hag stæðari en áður og í aths. með fjárlagafrv. er byggt á að víðskiptakjör batni um 2% á næsta ári, er til grundvallar skattheimtu ríkissjóðs lögð innheimta 18% vörugjalds allt árið. Þetta er ekki gert til þess að auka framlög til framkvæmda ríkisins þrátt fyrir hækkun fjárlaga um 24 000 millj. kr. Beinlínis minnka framlög til verklegra framkvæmda í heild að krónutölu og nær allir þættir verklegra framkvæmda rýrna enn að raungildi. Það ætti að vera launþegum eftirminnilegt um frammistöðu ríkisstj., að í fyrra voru þeir, þegar fjárlagafrv. var lagt fram, látnir kaupa sig undan 12% vörugjaldi með því að viðlagasjóðsgjald, sem jafngilti 2% söluskatti, félli í ríkissjóð. Nú eru launþegar við framlagningu þessa fjárlagafrv. látnir sitja uppi með söluskattsstigin tvö og þar á ofan ekki 12% vörugjald, sem átti að hverfa í fyrra, heldur 18% vörugjald. Þessi aukna skattheimta á sama tíma og ytri aðstæður batna og framlög minnka til verklegra framkvæmda hlýst af gegndarlausri útþenslu rekstrarliða, þ. á m. gífurlegri hækkun vaxtakostnaðar, um 3 800 millj. kr. á einu ári, vegna stórfelldrar skuldasöfnunar.

Það blasir nú við launafólki að sú hægri ríkisstj., sem fer með völd í landinu, leggur nú ofurkapp á að efnahagsbatinn af hagstæðari víðskiptakjörum verði notaður til að standa undir áframhaldandi stjórnleysis- og sóunarstefnu ríkisstj., en falli ekki að neinu leyti í hlut þess fólks sem arðinn skapar og hefur búið við stórskert lífskjör í tíð hægri stjórnarinnar. Það er því ljóst, m.a. af því fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir, að ríkisstj. stefnir að áframhaldandi stríði við launafólk í landinu.

Í kjaramálum kraumar nú og sýður á hverjum vinnustað og stéttarfélagi. Það er víst, að menn geta deilt um það hvort sjóða muni upp úr við Kröflu, en um hitt verður ekki deilt, að þess er ekki langt að bíða að hvarvetna sjóði upp úr í kjarabaráttunni, og þegar það gerist þá munu ríkisstjórnarflokkarnir reka sig á það, að launafólk lætur ekki skammta sér þau kjör sem þessir flokkar stefna nú að, m.a. með því fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir.