28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2914 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Við höfum hlýtt hér á málflutning hæstv. samgrh. og framsöguræður fyrir nál. meiri og minni hl. hv. fjvn. í því stóra þingmáli sem hér liggur fyrir til umr. og afgreiðslu, till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1977–1980. Neikvæður og allstóryrtur málflutningur stjórnarandstæðinga í þessu máli nú kemur auðvitað ekkert á óvart. Líklega hefði í því tilliti verið nokkurn veginn sama hvernig vegáætlunin var úr garði gerð á meðan sú hefð liggur í landi, að stjórnarandstaða telur það sjálfsagða skyldu að rifa niður hvert það mál sem frá stjórninni kemur. Því miður verð ég þó að segja að of mörg sannleikskorn hafa falist í gagnrýni stjórnarandstæðinga. En hitt vil ég segja og þá sérstaklega við minn kæra kollega, hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, að hans skellinöðrumálflutningur og brýningar í þessu máli eru harla ólíklegar til þess að fá nokkru áorkað um afstöðu mína í þessu máli. Ég hafði þegar ráðið hug minn þegar ég sá hvert stefndi með vegáætlun, og því hafði málflutningur hans og annarra andstæðinga stjórnarinnar ekki hin minnstu áhrif á mig í því sambandi.

Ég hafði annars ekki ætlað mér að hafa mörg orð í þessu máli og ekki heldur að vitna í margar tölur úr vegáætluninni sem við þm. höfum verið að rýna í undanfarnar vikur, okkur óneitanlega til lítillar gleði flestra þeirra. Hv. þm. kannast víst nú orðið við flestar þessara talna.

Það er eðlilegt og nauðsynlegt að stjórnarþm. hverju sinni reyni að ná sem mestri samstöðu og eindrægni í þeim málum sem ríkisstj. þeirra stendur að og er ábyrg fyrir. Það þykir jafnan lítið drengskaparbragð að svíkjast undan merkjum þegar erfiðleikar steðja að. Þetta geri ég mér fyllilega ljóst, en þá ekki síður hitt, að þegar árekstur verður og það harður árekstur milli viljans til samstöðu annars vegar og samvisku og sannfæringar hins vegar, þá hlýtur hið síðarnefnda að ráða úrslitum um endanlega afstöðu.

Það er því síður en svo, af neinni léttúð af minni hálfu né heldur með glöðu geði að ég verð að segja það hér, að ég tel mér ekki fært að standa að samþykkt þeirrar vegáætlunar, sem hér liggur fyrir hv. Alþ. Mín helstu rök eru þessi :

Nú vil ég þó bæta við, áður en lengra er haldið, að yfirlýsing hæstv. samgrh. rétt áðan, sem mér var ekki kunnugt um að kæmi fram þegar ég punktaði niður þessi orð mín heima, hún hefur mildað hug minn mjög og mér sýnist málið horfa nokkuð öðruvísi við. Og ég vil þakka honum sérstaklega og ríkisstj. allri fyrir að þessi yfirlýsing hefur verið gefin, og má hún verða okkur þm. til nokkurrar hugarhægðar þó að því miður verði að játa að stundum hefur reynst fallvalt að treysta um of á gefnar yfirlýsingar.

Það er staðreynd, sem ég hygg að allir hv. þm. viðurkenni, að nægilega góðar samgöngur um landið allt eru ein meginforsenda þess að byggðir landsins fái þrifist og þróast með eðlilegum hætti. Framkvæmd atvinnumála, menntamála, heilbrigðis- og félagsmála veltur á því hvernig að samgönguþættinum er búið. Þetta liggur svo í augum uppi að ég þarf ekki að fjölyrða um það frekar nú, enda margoft búið að sýna fram á það hér í sölum Alþ. að undanförnu bæði af mér og fjölmörgum þm. öðrum.

Það er jafnframt staðreynd, sem ekki verður í móti mælt, að fjárframlög til samgöngumála hafa dregist saman á undanförnum árum að raungildi, bæði að því er varðar fastar tekjur Vegasjóðs og bein framlög ríkissjóðs.

Á öllum þeim þrem þingum, sem ég hef setið á, hefur hæstv. samgrh. lagt áherslu á að nauðsynlegt væri að auka tekjustofna Vegasjóðs a. m. k. að því marki að þeir fylgdu verðlagsbreytingum hverju sinni. Undir þetta sjónarmið hefur, að því er ég hygg, meiri hl. þm. tekið kröftuglega, þ. e. a. s. þeir sem á annað borð hafa tjáð sig um málið. Samt hefur ekkert gerst í þessa átt. Þannig er hlutur Vegasjóðs í bensíngjaldi nú aðeins helmingur af því sem var fyrir nokkrum árum, eða 25%. Af heildartekjum ríkissjóðs af umferðinni í formi innflutningsgjalda, tolla og söluskatts af bifreiðum og bensíni rennur aðeins um fjórðungur til vegamála. Í máli hæstv. samgrh. fólust ákveðin fyrirheit um lagfæringu á þessu. Við höfum heyrt þetta áður, og ég er sannfærð um að hæstv. samgrh. hefur gert sitt til að þessi endurskoðun og aukning á tekjum Vegasjóðs mætti komast í framkvæmd, en það hefur þrátt fyrir það ekki orðið. Þetta er auðvitað þeim mun hörmulegra sem vitað er að skuldasöfnun okkar erlendis er það mikil nú að mælirinn er fullur og meira en það nú í bili. Það er þó augljóst að þau stórátök í vegamálum, sem fram undan eru, verða ekki framkvæmd nema með stórum hagkvæmum lánum til langs tíma erlendis frá, strax þegar við höfum náð þolanlegu jafnvægi í lánapólitík íslenska ríkisins út á við. Orkumálin hafa notið forgangs hvað erlendum lánum viðvíkur á þeirri forsendu að þar séu annars vegar gjaldeyrissparandi framkvæmdir með tilliti til hinnar rándýru olíu sem innlendir orkugjafar eiga að leysa af hólmi. Ekki verður því andmælt.

Ekki verður því andmælt heldur að við gerum ekki allt í einu. Við getum ekki í einu haft marga forgangsmálaflokka í gangi sem við spörum lítt til hvað fjármagnsveitingar snertir. En einhvern tíma hlýtur þó að koma að því að eitthvað dragi úr hinni geipilegu fjármögnun orkumálanna. Og hversu oft hefur ekki verið bent á það, að lagning varanlegra vega þýðir stórkostlegan sparnað bæði að því er snertir viðhald vegakerfisins og endingu bifreiða, og hver skyldi treysta sér til að mæla með því sem framtíðarskipan að við eyðum 400–500 millj. kr. árlega í að moka snjó af vegum um landið allt sem ekki hafa enn verið byggðir upp úr snjó? Þó að nokkuð hafi rofað til í efnahagsmálum okkar á síðasta ári með hækkuðu útflutningsverðlagi og batnandi viðskiptakjörum við útlönd, þá er þó enn þörf á strangri aðgát og aðhaldi í fjármálum ríkisins og opinberum framkvæmdum. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að það er ekki fyrst og fremst vegna þess að fjárframlög ríkisins til þessarar vegáætlunar séu of lág þegar á heildina er lítið með tilliti til þess sem að framan er sagt, það er ekki vegna þess að ég lýsi óánægju minni með vegáætlunina sem við erum að ræða hér um. Óánægja mín og andmæli beinast fyrst og fremst að því hvernig áætlunin er upp byggð og hvernig staðið er að skiptingu þeirra fjármuna sem til skiptanna eru. Hér tel ég mig raunar komna að kjarna málsins ásamt því atriði sem ég dvaldi nokkuð við áðan um tekjuöflun til Vegasjóðs.

Ég tel að með því að taka inn á almenna vegáætlun lögbundna stóráætlun um Norður- og Austurveg sem tekur ásamt Borgarfjarðarbrú megnið af almennu vegafé, — ég tel að með því sé komið aftan að Alþ. og gengið þvert á yfirlýsingar hæstv. samgrh. og annarra þeirra er stóðu að löggjöfinni um áðurnefndan Norður- og Austurveg. Ég hef farið í gegnum umr. í þingtíðindum frá árinu 1974, í nóv. og des., þegar fjallað var um þetta mál. Frv. hljóðaði upphaflega upp á 1200 millj. kr. happdrættislán til Norðurvegar, en var breytt í meðförum n. í 2000 millj. kr. lán til Norður- og Austurvegar. Í ræðum 1. flm. frv., Eyjólfs Konráðs Jónssonar, og hæstv. samgrh., Halldórs E. Sigurðssonar, kom það skýrt og greinilega fram að þetta stórátak ætti ekki að skerða vegaframkvæmdir annars staðar á landinu. Á þetta hefur þrásinnis verið bent í þessum umr. Margir þm. aðrir, þ. á m. ég og fleiri dreifbýlisþm., tóku þátt í þessum umr. og lýstu stuðningi sínum við frv. í trausti þess að staðið yrði við þessar yfirlýsingar, að önnur byggðarlög aðrir landshlutar mundu ekki þurfa að líða fyrir að umrætt stórátak í vegamálum kæmist í framkvæmd. Hæstv. samgrh. komst m. a. svo að orði í þessum umr. og les ég þá beint upp úr þingtíðindum, nóvemberhefti 1974, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ánægjulegt og reyndar vitað að þm. hafa almennt áhuga á vegagerð, enda er hún eitt af mestu nauðsynjamálum okkar því að hún er undirstaða undir því að við getum haldið uppi byggð um landið allt og komið raunverulegri byggðastefnu í framkvæmd. Það þarf ekki orðum að því að eyða að það eru viðskiptin sem gera það að verkum að fólk flýr af þessum og hinum stað. Það er flutningur á framleiðsluvörum bænda og annarra, er búa úti á landsbyggðinni, neytendanna, og það er líka flutningur á vörum sem hér hefur verið skipað upp og héðan fara til þeirra aftur. Það þarf ekki orðum að því að eyða að það þarf að vinna að gerð vega um allt land, því að þótt mikið hafi verið gert er mikið ógert.“

Ég efast ekki um að hæstv. ráðh. Halldór E. Sigurðsson hafi mælt þessi orð af heilum hug í nóv. 1974 þótt svo dapurlega hafi til tekist að vegáætlun 1977–1980 gangi ónotalega í berhögg við ræðu hans og fleiri ábyrgra manna á Alþ. Ég veit að hæstv. samgrh. einn saman er hér ekki um að saka hvernig til hefur tekist, þar á ríkisstj. öll að sjálfsögðu sinn hlut að máli. Og ég veit að fyrsti flm. og upphafsmaður þessa lagafrv. um Norður- og Austurveg, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, er litlu ánægðari en ég er í dag og að þessi þróun mála var alls ekki það sem fyrir honum vakti.

Ég hef rætt hér nokkuð um vegáætlun almennt án þess að fjalla um einstaka liði hennar. Ég er þegar orðin langorðari en ég hafði ætlað mér í upphafi. Ég get þó ekki lokið máli mínu án þess að minnast fáeinum orðum á skiptingu fjárveitinga milli hinna einstöku kjördæma.

Ég veit að þm. landsbyggðarinnar eru allir óánægðir með sinn hlut, sérstaklega með það hve naumt er skammtað til þjóðbrautanna, hinna eiginlegu byggðavega sem daglegar samgöngur fólksins til sjávar og sveita innan byggðarlaganna byggjast á. Ég fæ ekki betur séð með tilliti til þess, hve litlu við höfum úr að spila til vegaframkvæmda nú, að þá sé titt umtöluð lagasetning um Norður- og Austurveg, svo nauðsynleg og æskileg sem sú mikla framkvæmd er, orðin til stórra vandræða sem ekki er séð fyrir endann á verði ekki brugðið á einhver betri ráð en nú er gert til fjármögnunar almennra vegaframkvæmda.

En ég ætla aðeins, áður en ég lýk máli mínu, að minnast á skiptinguna milli kjördæma, þótt ég eigi það auðvitað á hættu að verða ásökuð um skæklatog og hreppapólitík ef ég minnist á þarfir eigin kjördæmis. En hvað um það, þá hlýt ég að vekja athygli hv. þm. á þeirri staðreynd, að samkvæmt sannreyndum tölum frá Vegagerð ríkisins um hlutfallstölu kjördæmanna í vegafé á árunum 1965–1976 eru Vestfirðirnir þar næstlægstir með 10.2%, Vesturland var þá 0.7% lægra. En í ár lækkar hlutfall Vestfjarðanna enn í 10.1% og er nú enn næstlægst á eftir Reykjaneskjördæmi sem hin 11 árin, sem ég tiltók, hafði hlutfallið 28.8%. Ég vil sérstaklega leggja áherslu á og taka það fram, að í þessari prósenttölu til Vestfjarðakjördæmis frá árunum 1965–1976, þ. e. 10.2%, er allt það fé sem fór til Vestfjarðaáætlunar, eða að svo miklu leyti sem unnið var samkvæmt þeirri áætlun á þessum árum, sem mundi þá sennilega vera árin 1965, 1966, 1967 og 1968. Það hefur nefnilega oft verið vitnað til þess hve Vestfirðir hafi haft mikinn forgang meðan Vestfjarðaáætlunin var í gangi, og það er fróðlegt að fá þetta fram nú. Ég tel mig hafa öruggar heimildir fyrir þessum upplýsingum.

Það er stundum haft á orði að það sé allt að því fráleitt að bera saman hlut kjördæma í vegaframkvæmdum eftir prósentu. Það kann vel að vera rétt. En höfum við einhverja aðra trúverðugri aðferð til viðmiðunar og mats á því hvað hæfilegt er og sanngjarnt þegar skipting vegafjár er annars vegar? Alls staðar, um landið allt nema á svæðinu hér í kringum Reykjavík, bíða óþrjótandi verkefni í vegagerð og þá auðvitað tvímælalaust mest í þeim landshlutum sem landfræðilega eru erfiðastir. Enginn vafi getur leikið á að þar verða Vestfirðir og Austurland efstir á blaði.

Hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson, sagði í umr. sem ég hef áður vitnað til um Norður- og Austurveg, í niðurlagi einnar ræðu sinnar, orðrétt upp úr þingtíðindum, með leyfi forseta:

„Það er eðlilegt, þegar um fjármuni er að ræða og hagsmuni heilla byggðarlaga, heilla landsfjórðunga, að þá verði að því spurt hvað sé sanngjarnt, hvað sé réttlátt og á hvern hátt þær fjárhæðir, sem aflað er, komi að sem bestum notum. Ég er vongóður um að það sjónarmið verði nú ráðandi hér í hv. Alþ.“

Hafi hv. þm. Ingólfur Jónsson heill mælt. Þessi orð eru eins og töluð út úr mínu hjarta, og ég geri ráð fyrir að þegar hann mælti þessi orð hafi hann átt við öll kjördæmi landsins, en ekki aðeins eigið kjördæmi. Það tel ég mig nokkurn veginn örugga um.

En það er ekki einungis að Vestfirðir verði illa úti á vegáætlun á yfirstandandi ári. Ekkert af þeim aðkallandi stórverkefnum, sem þar bíða, á við Oddsskarð á Austurlandi, Borgarfjarðarbrú á Vesturlandi, að ekki sé minnst á Norður- og Austurvegsframkvæmdirnar upp á 2000 millj. kr. á næstu 4 árum, — ekkert af þessum stórframkvæmdum, sem brýnastar eru á Vestfjörðum, er fært á blað í þessari vegáætlun nema ef nefna mætti 43 millj. yfir torfæra hálsa í Austur-Barðastrandarsýslu og 55 millj. kr. í brúargerð yfir vöðin í botni Önundarfjarðar, hvort tveggja á árinu 1979.

Breiðadalsheiðin, sem við þm. Vestf. höfum þráfaldlega gert að umtalsefni hér í þingsölum í vetur, er lokuð og algjör faratálmi allajafna um helming ársins. Hún einangrar gersamlega norðurhluta Vestfjarða frá syðri byggðum landsfjórðungsins. Jarðgöng í gegnum háheiðina, sem mundu þýða lausn að nokkru leyti a. m. k. á þessu vandamáli, munu hafa mikinn kostnað í för með sér, en þó fjórum til fimm sinnum minni, að því er áætlað er, heldur en brúin yfir Borgarfjörð.

Það er heldur ekkert minnst á endurbætur á Óshlíðarveginum milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur sem nú orðið telst stórhættulegur til umferðar. Og það hefur víst alveg gleymst að eftir er að ljúka hringveginum í kringum Ísland með tengingu Djúpvegar við aðalvegakerfi landsins. Ekki er heldur nefndur á nafn vegur yfir Steingrímsfjarðarheiði, tiltölulega stuttur vegarspotti sem mundi gegna því mikilvæga hlutverki að tengja Strandasýslu öðrum byggðum Vestfjarða um Djúpveginn. Strandamenn una því að vonum illa og hafa gert lengi að vera þannig afskornir frá meginhluta kjördæmisins bæði í atvinnulegu og félagslegu tilliti.

Ég vil í því sambandi, þegar ég tala um tengingu Djúpvegarins, geta þess að í umr. um Norður- og Austurveg á sínum tíma var beinlínis tekið fram í framsöguræðu 1. flm. frv. að gert væri ráð fyrir 270 millj. af fé til Norður- og Austurvegar til þess að vinna að tengingu Vestfjarða við aðalvegakerfi landsins. Ég hef hvorki í fyrra né nú í ár séð örla á þessari fjárveitingu eða broti af henni til þessa verkefnis.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um Vestfirði. Ég veit að þm. úr öllum kjördæmum geta talið upp fjöldamörg brýn verkefni sem þeim liggja á hjarta. En mér er nær að ætla að flest þeirra skipti ekki jafnmiklum sköpum fyrir samgöngur í þeirra kjördæmum og þau verkefni sem ég hef hér nefnt sérstaklega að því er varðar Vestfjarðakjördæmi. Ég held að við hljótum, Vestfjarðaþm., í trausti þeirrar yfirlýsingar sem ríkisstj. hefur gefið nú nýverið, að vænta þess að verkefni eins og Breiðadalsheiðin verði tekið inn á vegáætlun, þegar sú áætlun, sem nú liggur hér fyrir, verður endurskoðuð, og mér skildist á hæstv. samgrh. að það yrði jafnvel á næsta ári. Ég vil bæta því við og minna á að Breiðadalsheiðin gegnir ekki aðeins mjög veigamiklu hlutverki að því er varðar landssamgöngur, heldur gæti hún orðið veigamikill þáttur í því að skapa meira öryggi í flugsamgöngum við norðurhluta Vestfjarða heldur en nú er.

Um brtt. þær við vegáætlun, sem fyrir liggja frá hv. meiri hl. fjvn. um heimildir til verktakalána upp á 400 millj. kr., vil ég segja það, að mér finnst þær í rauninni harla lítil sárabót og lítt traustvekjandi með reynslu af slíkum verktakalánum áður. Og tillögum um skerðingu á framlögum til viðhalds vega, sem undanfarin ár hefur verið í algjöru lágmarki, hlýt ég að mótmæla.

Ég harma það í einlægni sagt, að sú vegáætlun, sem hér er verið að afgreiða frá Alþ. eftir nýjum vegalögum, skuli úr garði gerð eins og raun ber vitni, ekki síst vegna þess að ætla má þar sem nú er verið að afgreiða fyrstu vegáætlun eftir nýjum vegalögum, að þá sé hún að vissu leyti stefnumótandi. Hún felur í sér stefnumótun að mínu mati sem ég er ekki samþykk, og mun ég því ekki taka þátt í afgreiðslu þessarar vegáætlunar nú. Ég vona og treysti því að hæstv. ríkisstj. með hæstv. samgrh. í broddi fylkingar í samgöngumálum, sem ég veit að hefur gert og gerir sitt besta til þess að ná fram hlut vegamála sem skaplegustum, — ég vona að þessi áætlun, sem liggur nú fyrir, eigi eftir að taka breytingum þegar á næsta ári, að það finnist leiðir til þess að auka tekjur til Vegasjóðs. Því er það að ég mun sitja hjá við atkvgr. um þessa vegáætlun með sýnu jákvæðari og mildari hug en áður en ég heyrði yfirlýsingu hæstv. samgrh.