28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2927 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað að taka þátt í þessum umr. sem eru óneitanlega keimlíkar umr. um fjárlög á undanförnum árum, þó að mér finnist persónulega að keyrt hafi um þverbak hvað snertir hinar sífelldu umræður um byggðastefnu- og byggðajafnvægismál nú á hinum síðari árum. Það er stundum sagt — að vísu á það að vera í gamantón — að það virðist svo við þessar umr., bæði um vegalög og fjárlög, að reykvíkingar eigi engan mann á þingi. Enda sést þegar skoðuð eru þingskjöl bæði í mæltu og rituðu máli, að meginhluti starfstíma þingsins fer í það skæklatog sem er á milli hinna ýmsu kjördæma um það, hvort þessi vegarspottinn eða hinn, þessi brúin eða hin skuli gerð nú eða næsta ári. Til þessa fimmta hluta þingmanna, a. m. k. 17 af 60 þingmönnum sem eru þm. Reykv., heyrist ákaflega lítið í þessari eilífu baráttu. Það er eðlilegt að þeir, sem fylgjast með, leggja það á sig að fylgjast með störfum þingsins, hafi það í gamantón að Reykjavik og reyndar Stór-Reykjavík, suðvesturhorn landsins, eigi nánast enga þm. Það er þess vegna ekki úr vegi að eytt sé örfáum mínútum til þess að segja frá því ástandi er ríkir á þessu svæði um þau efni sem er fjallað um í vegalögum, rétt eins og nauðsynlegt væri að undirstrika það við umr. um fjárlög.

Mér er tjáð af þeim, sem gerst til þekkja, að t. d. strætisvagnar Reykjavíkur, sem keyptir eru og reknir af skattfé reykvíkinga, að mestu notaðir af lægst launaða fólkinu í bænum vegna víðfeðmis bæjarins og nauðsynjar á að komast til og frá vinnu sinni, þeir séu reknir með halla þrátt fyrir mjög góða forustu forstjóra þessa fyrirtækis — halla sem er allverulegur þungi á baki reykvíkinga, þó að þeir aki aldrei einn metra út fyrir borgarmörk Reykjavíkur. Er þá ótalið það slit sem reykvíkingar verða að bera á götum sínum og vegum. Þessir sömu skattþegnar verða síðan að bera kostnað vegna viðhalds á götum sínum og vegum vegna aksturs annarra bifreiða eðlilegs aksturs bifreiða úr öðrum landshlutum. Er ekki kominn tími til þess að menn minnist þess, að Reykjavík og Stór-Reykjavík, þ. e. Suðurnesin, eru til og þurfi ekki að þiggja brauðmola, eins og nú er, af borðum landsbyggðarinnar og sætta sig við að bíta í það súra epli, eins og gerst hefur undanfarin ár, að taka við rekstri skipa sem fást ekki rekin eða landsbyggðin vill losna við, — hvort tveggja er þó staðreynd. Þetta sama fólk er í dag að berjast við að fá tryggingu fyrir 100 þús. kr. mánaðarlaunum, það mun vera meginuppistaða þess fólks sem þessa vagna notar og götur Reykjavíkur. Vegna lágra tekna sinna á það þess engan kost að eiga bifreiðar. En sömu menn geta svo talað um það í fullum alvöruþunga að héðan megi gjarnan koma óþrjótandi peningar til uppbyggingar vega annars staðar úti um hinar dreifðu landsbyggðir, og eru ekkert feimnir við að halda því fram.

Ég sagði áðan, ég skal ekki eyða í það löngum tíma að bera saman tekjur landsbyggðarmanna og annarra. Þeir eru síst ofsælir af sínum kjörum. Sjálfsagt þarf að skipuleggja betur nýtingu þeirra peninga, er til vegamála fara út um landsbyggðina, en það verður ekki gert með því að eyða meginhluta af starfstíma þingsins í þetta margnefnda skæklatog þingmanna landsbyggðarinnar.

Mér hefur skilist að fénu sé dreift of víða og komi að mun minni notum vegna þess hve framkvæmdir eru óskipulagðar, a. m. k. illa skipulagðar. Ég held að það væri nær fyrir þessa hv. þm. að snúa sér að því að skipuleggja betur nýtingu þess fjármagns sem mögulegt er að láta til vegaframkvæmda hverju sinni, á ég þar jafnt við viðhald vega og nýbyggingu,í stað þess að togast á um þessar brýr og þá vegaspotta sem á hverju ári er mögulegt að leggja. Þolinmæði reykvíkinga og suðurnesjamanna hvað þetta snertir er ekki óþrjótandi. Hún á sinn endi eins og gjaldgeta þeirra, sem best sést á þeim halla sem ég áðan nefndi og er staðreynd, þrátt fyrir að því er talið er að bestu manna yfirsýn mjög hagkvæman rekstur Strætisvagna Reykjavíkur, þeirra nauðsynlegu farartækja sem engan veginn nota aðra en sína eigin vegi, þ. e. a. s. vegi sem lagðir eru fyrir skattfé reykvíkinga sjálfra. Það þarf því engan að undra, sem fylgjast með umr. hér á Alþ. og leggja það á sig að lesa mál manna og tillöguflutning, þó að það flögri að mönnum að tímabært sé orðið að gera landið að einn kjördæmi.