28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2937 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ef ég hefði ekki verið kvefaður og veikur í hálsinum hefði ég sennilega talað talsvert langt mál út af þessari síðustu ræðu. En ég skal ekki gera hana mjög að umtalsefni. Þó vildi ég gjarnan að sá hv. ræðumaður, sem var að ljúka máli sínu, rifjaði örlítið upp hvað hefur verið að gerast í vegamálum hérna að því leyti til sem þau koma reykvíkingum við ekki síður en öðrum. Hann hefur eflaust ekki orðið var við að það hafi verið steyptur og malbikaður vegur hér um Ártúnsbrekkana og út frá Reykjavík í átt til Vesturlandsvegar. Hann hefur auðvitað ekki heldur orðið var við að það hafi verið malbikaður vegur frá Reykjavík í áttina til Suðurlandsundirlendisins um Hellisheiði. Hann hefur eflaust ekki heldur orðið var við að það hafi verið steyptur vegur hér milli Reykjavíkur og Keflavíkur og lagt í allmiklar vegaframkvæmdir sem reykvíkingar þurfa mjög á að halda, sem sagt út frá Reykjavík. Hann mætti t. d. skoða þá einföldu tölu, að á síðustu vegáætlun, — og ekki aðeins á þeirri síðustu, þær voru fleiri, — var varið rétt í kringum helmingi af öllu nýbyggingarfé vega í landinu í svonefndar hraðbrautir sem voru nálega allar hér á þessu svæði. Þeir, sem stunda skæklatog fyrir kjördæmi, eins og ég og aðrir fleiri, sem eru þm. landsbyggðarinnar, þeir eiga enga hraðbraut, fengu ekki eina einustu krónu af helmingnum af öllu vegafénu sem ráðstafað var hér í fyrra. Það skyldi þó ekki vera að sumir þm. reykvíkinga fylgdust ekkert með því hvað er verið að samþykkja fyrir þá og aðra þegar er verið að ganga m. a. frá vegáætlun. En hvað um það, af ýmsum ástæðum hef ég nú ekki tíma til að ræða frekar um þessa sérkennilegu ræðu sem mér fannst býsna skothend í þessu öllu saman. En ég vil segja hér nokkur almenn orð um afgreiðslu þessarar vegáætlunar.

Það, sem sérstaklega vekur athygli mína við afgreiðslu þessa máls nú, er það, að þegar þetta mál kom fram til fyrri umr. á þessu þingi urðu miklar umr. um þessa vegáætlun. Þm. úr öllum flokkum ræddu mikið um málið og nær allir lýstu yfir mikilli óánægju sinni með þessa vegáætlun og töldu enda flestir og þar allmargir úr hverjum flokki fyrir sig að í rauninni væri ekki hægt að standa að afgreiðslu málsins á þeim grundvelli sem áætlunin gerði ráð fyrir. Auk þessa komu svo fram tilboð frá fleiri en einum þm. og m. a. frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar um að menn væru reiðubúnir til þess að standa að því með ríkisstj. að afla Vegasjóði frekari tekna til að reyna að komast út úr þessu öngþveiti sem við værum komin í. Og ég hygg að þegar málið var sent til fjvn. til skoðunar hafi nær allir þm. búist við því, að eitthvað slæði til að gera til breytinga á þessari vegáætlun, því að það var bent á svo marga annmarka á málinu að ég a. m. k. skildi það þannig, að það hlyti að vera nokkuð samdóma álit manna að það hlyti að þurfa að taka þannig á afgreiðslu málsins að hér yrðu gerðar verulegar breytingar á.

En fjvn. hefur haft málið til athugunar í alllangan tíma og niðurstaða hennar liggur nú hér fyrir. Í stuttu máli sagt hefur niðurstaða hennar orðið þessi: Engin ný tekjuöflun. Áætlunin skal í meginatriðum samþykkt eins og hún var. Örlitlar tilfærslur sem raunverulega segja ekki neitt í sambandi við þá miklu óánægju sem hér kom fram við fyrri umr. Það á að hnika þar til minni háttar breytingum, sem í rauninni breyta engu um meginsvipinn. — Sú almenna óánægja, sem hér kom fram með tillögugerðina að því leyti til, að gert var ráð fyrir að fella niður hinar sérstöku vegáætlanir sem hafa verið í gangi, þ. e. a. s. Austurlandsáætlun, Norðurlandsáætlun, Djúpveginn, og svo allar umr. sem urðu um framkvæmdina á lögunum um Norður- Austurveg, það hefur ekkert tillit verði tekið til þessarar óánægju, sem þarna kom fram, og þeirra ábendinga, sem hér vorn gefnar við fyrri umr. málsins. Það er alveg stigið yfir það þó að menn úr öllum flokkum hafi tekið undir þessar aðfinnslur. Allt kemur í sama búningi frá fjvn. og menn eiga aðeins að renna þessu niður. Það eitt fáum við svo í sambandi við afgreiðslu málsins, að þó að ýmsir stjórnarstuðningsmenn geti auðvitað ekki leynt óánægju sinni með afgreiðslu málsins og komi hér upp og segist sumir þeirra ekki geta tekið þátt í afgreiðslu málsins í þessum búningi og aðrir eru mjög óhressir, þá reyna menn þó að sætta sig við það að e. t. v. hafi þeir hresst eitthvað örlítið, segja þeir, við það að hæstv. ráðh. hafi gefið yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstj. og svolítið líður þeim betur við þessa yfirlýsingu. Um hvað var svo þessi yfirlýsing?

Jú, í fyrsta lagi var hún um það, að sú vegáætlun, sem hér liggur fyrir, eigi í rauninni aðeins að gilda út þetta ár, það eigi að taka hana á nýjan hátt til endurskoðunar á næsta hausti, sem sagt ein vandræðaframlengingin enn sem menn hafa einmitt verið að glíma við að undanförnu vegna þess að menn sjá að það er í rauninni ekki hægt að standa að framkvæmd vegamála með þeim tekjum sem úr á að spila. Ég kalla þá góða sem hressast við að fá svona yfirlýsingu. Sem sagt: þetta er ómögulegt eins og það er, en það má kannske segja um ríkisstj. eins og sagt hefur verið, að það er kannske von á hví að Eyjólfur hressist í þessum efnum, þó að ég efi nú að allir Eyjólfar hressist á þessu.

Hinn þáttur yfirlýsingarinnar var sá, að ríkisstj. hefði ákveðið að lýsa því yfir að hún vilji standa að framkvæmd laganna um Norður- og Austurveg þannig að lögin nái tilgangi sínum. Ja, Jesús minn, hugsa sér þetta, ríkisstj. hefur ákveðið að hún geti fallist á að framkvæma gildandi lög þannig að þau fái að ná tilgangi sínum! Það er nú annaðhvort að menn hressist við þetta ! En ég verð að segja það, að ég þarf miklu meira til í þessum efnum til þess að ég sætti mig við þessa afgreiðslu. Ég hressist ekkert við þetta ekki á nokkurn hátt, mér finnst að þetta sé í sömu sjálfheldunni og áður.

Auðvitað er kjarni málsins sá, að það er allt of lítið fé til vegamálanna í heild til framkvæmda. Það er kjarni málsins, það vita allir það, að þau þrjú ár, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur haft með vegamálin að gera, hefur hún verið að lækka fjárveitingar til vegagerðarmála jafnt og þétt, svona í kringum 25–30% á ári miðað við framkvæmdamátt fjárins, og þetta er komið í algjört óefni. En auk þess hefur svo Alþ. raunverulega og ríkisstj. bundið sig með sérstökum lögum og sérstökum samningum við tilteknar framkvæmdir í vegamálum sem auðvitað kosta peninga. Og ef á að standa við þau lög og þá samninga sem þar hafa verið gerðir, þá auðvitað er vandinn svo mikill að það er í rauninni engin leið að standa að framkvæmd vegáætlunar á þessum grundvelli — engin leið. Í þessu liggur vandinn. En hæstv. ríkisstj. hefur enn ekki fundið neina leið út úr þessu.

Ég fyrir mitt leyti harma þetta. Ég tel að hér séu menn í algjörum vandræðum. Það, sem mér hefur litist hvað lakast á í þessum efnum, er það, að hæstv. samgrh., sem ætti að vita gerst um þessi mál, hefur bæði við fyrri umr. málsins og nú aftur við síðari umr. málsins verið að gera eiginlega lítið úr þessum vanda, finnst mér. Hann er alltaf að undirstrika það, að þegar hann líti á fjárveitinguna sem heild til vegaviðhalds og alls þess sem tengist vegamálum, þá sé ekki um mikinn niðurskurð að ræða. Hann virðist sætta sig í aðalatriðum við þetta ástand og það hreinlega skil ég ekki, vegna þess að vandinn, eins og bent hefur verið á áður í þessum umr., liggur í því að sá hluti þessa fjármagns, sem á að ganga til nýbyggingar vega, er allt of lítill. Þó að líka skorti fjármagn í vegaviðhald og í sambandi við yfirstjórn vegamála, sem eflaust er því að vegaviðhaldið er orðið mjög kostnaðarsamt, þá er það þó mín skoðun að sá háttur málanna standi í hlutfalli við það, sem áður var, betur nú en hinn hlutinn, sem snýr að nýbyggingarframkvæmdum. Það er þar sem niðurskurðurinn hefur verið stórkostlegastur. Og þetta byggist m. a. á því, að tekjurnar, sem úr er að spila, hafa farið minnkandi hlutfallslega við annað.

Mig langar svo til að víkja hér að nokkrum atriðum sem snerta sérstaklega kjördæmi mitt, eins og þetta kemur þar út. Ég ætla mér ekki að fara að telja hér upp vegi í mínu kjördæmi þar sem verulega þörf er á miklum framkvæmdum. Til þess þyrfti ég mjög langan tíma að telja það allt saman upp og gera því sómasamleg skil, því að ástandið er svo hroðalegt þar — og það er auðvitað miklu víðar á landinu. En ég hlýt að vekja athygli á því, að svo illa sem stendur á hjá okkur í Austurlandskjördæmi með framkvæmdir í vegamálum, þá var það svo, að við tengdum vonir okkar við a. m. k. tvö atriði varðandi þessi mál þar sem við þóttumst hafa bindandi samning og reyndar bindandi löggjöf sem snerti okkur. Annars vegar var Austurlandsáætlun, og ég þarf að víkja örfáum orðum að því hvernig raunverulega er til hennar stofnað, því að mér finnst að það sé eins og farið að fyrnast hér hjá ýmsum þingmönnum hvernig t. d. Austurlandsáætlun kom til og hver var meiningin með Austurlandsáætlun.

Ég veit að allir hv. þm. kannast við það þegar ráðist var á sínum tíma í svonefnda Vestfjarðaáætlun og aflað sérstakra tekna til að standa þar að ákveðnum vegaframkvæmdum og í sambandi við það að bæta þar samgöngumál. Sú áætlun varð mikið umdeild á sínum tíma, hvernig hún hefði m. a. komið inn í þingið og á annan veg. En í framhaldi af þeirri áætlun og þeim framkvæmdum á Vestfjörðum varð samkomulag um að það væri þörf á að gera hlíðstætt átak í vegagerðarmálum í öðrum landshlutum. Það var ráðist í nokkrar framkvæmdir á Vestfjörðum sem mjög lagfærðu hin aumu vegamál í þeim landshluta á þessum árum, þó að auðvitað fari mjög fjarri að þá hafi öll mál verið leyst í vegagerðarmálum þeirra á Vestfjörðum það vissu allir. Þetta var bara myndarlegt átak út af fyrir sig, en málið var ekki leyst til neinnar fullnustu.

Í framhaldi af þessu varð samkomulag um að næst skyldi koma Austurlandsáætlun, og um hana var samið á þann hátt sem ég hef tilgreint hér áður í umr. Það var samið af öllum þm. Austurl. með ákveðinni undirskrift við tvo ráðh., fjmrh. Magnús Jónsson og samgrh. Ingólf Jónsson, um að það skyldi varið til Austurlandsáætlunar samtals 300 millj. kr., 60 millj. á ári, í tiltekin verkefni sem voru bæði tilgreind og merkt greinilega inn á kort. Auðvitað voru þessi verkefni það takmörkuð að þau leystu ekki nema hluta meira að segja af þeim vanda sem þarna var við að glíma því að þörfin var miklu meiri, en samningur fékkst ekki um meira. Síðan var staðið að framkvæmdinni þannig, að eftir því sem verðlag hækkaði og hver áfangi áætlunarinnar varð dýrari í reynd voru fjárveitingar hækkaðar. Þannig var reynt að standa við gert samkomulag í þessum efnum. En það hefur ekki tekist betur en svo, að enn þá stendur talsvert eftir af þessari áætlun eða framkvæmd hennar. Og ég verð að segja það, að það hefur aldrei hvarflað að mér fyrr en nú að það væri ætlunin að svíkja þetta samkomulag, — hreinlega svíkja það, hlaupa frá því. Það kom mjög skýrt fram um þetta leyti, að hér var um sérstakt átak að ræða í vegagerðarmálum á Austurlandi, sem var óháð hinni almennu vegáætlun og gert beinlínis ráð fyrir því, að af hinni almennu vegáætlun kæmu viðbótarfjárveitingar við það, sem var í Austurlandsáætlun, til þess að hægt væri að ljúka við tilteknar vegalagningar, enda sýna auðvitað fyrri vegáætlanir að af Austurlandsáætlun var í tiltekinn veg á þessu svæði ákveðin fjárhæð og af almennu áætluninni var ákveðið að taka í sama veg víðbótarfjárhæð. Það átti sem sagt ekki með þessari sérstöku áætlun að skerða á neinn hátt hlutdeild Austurlands í úthlutun vegafjárins almennt, því að þá hefði Austurlandsáætlun auðvitað verið til einskis, ef hún hefði átt að takast þannig að það, sem var veitt til Austurlandsáætlunar, hefði átt að dragast frá því sem átti að veita í kjördæmið allt til annarra vega. Við þm. á Austurlandi hefðum þá aldrei treyst okkur til að samþykkja Austurlandsáætlun. En það var, eins og ég segi, engin deila um það, hvernig að þessu var staðið. En nú er allt í einu farið inn á þá braut að fella niður Austurlandsáætlun, þó að það sé óumdeilanlegt að eftir stendur verulegur hluti af framkvæmdinni. Eitt stærsta verkið sem enn er óunnið það er að vísu tekin upp fjárveiting til þess núna, en það er bara á kostnað almennra vegagerðarmála á Austurlandi. Það skerðir bara okkar hlut. Það er allt og sumt, sem gerist. Auðvitað er á þennan hátt hlaupið frá Austurlandsáætlun.

Ég verð að segja það, að ég er alveg undrandi á að þm. af Austurlandi, þó að þeir á sínum tíma hafi ekki staðið að því að gera þetta samkomulag, skuli geta stutt það nú að afgreiða vegáætlun á þennan hátt. Það skal ég alveg ábyrgjast að hefðu þeir, sem m. a. gerðu þessa áætlun á sínum tíma, Eysteinn Jónsson og Jónas Pétursson, verið hér, þá hefðu þeir aldrei tekið í mál að það yrði hlaupið frá þessu samkomulagi sem þarna var gert. Þeir hefðu aldrei tekið það í mál. En það er sem sagt staðreynd sem við stöndum frammi fyrir að nú er þetta lagt til.

Mjög svipað er farið að varðandi Norðurlandsáætlun. Það var líka mjög skýrt, þegar var farið að veita fjármagn í Norðurlandsáætlun, að þá var þar um að ræða að leysa meiri háttar verkefni á svæðinu, þau verkefni sem rúmuðust tiltölulega illa innan hinnar tiltölulegu lágu almennu áætlunar. Þarna átti að verða um viðbótarframkvæmdafé að ræða og var það á sínum tíma. En nú sem sagt hverfur Norðurlandsáætlun. Og þó að áfram sé haldið við þau verk, sem Norðurlandsáætlun fjallaði um, er framkvæmdafé dregið frá því fjármagni sem annars átti að fara til Norðurlands.

Ég harma það fyrir mitt leyti að svona skuli staðið að þessu, og ég vil segja þeim það, sem standa að þessari afgreiðslu, að það þýðir ekkert fyrir þá að reyna að telja sjálfum sér eða öðrum trú um að þeir standi við það sem áður var gert í þessum efnum af því að nú séu þessir vegir áfram í vegáætlun. Þeir eru með í fjárveitingunum að nokkru leyti, en á þeim grundvelli sem er allt annar en sá sem áætlanirnar voru byggðar á, því að þær voru byggðar á því að þar ætti að vera um viðbótarfjármagn að ræða, án þess að það kæmi niður á hinum almennu fjárveitingum til viðkomandi umdæma. En ég verð nú að segja það, að ég verð a. m. k. að vona að þó að svona sé staðið að þessu núna, þá fáist menn þó til þess við endurskoðunina, sem fram fer á næsta hausti, að taka á þessum málum aftur á annan veg en nú er gert og þeir fallist á að það beri að ljúka við Austurlandsáætlun, sem er takmörkuð við alveg ákveðnar framkvæmdir, og það beri einnig að hafa með Norðurlandsáætlun og setja upp nýja vegáætlun, þegar hún verður endurskoðuð, á þessum grundvelli. Það er nauðsynlegt að mínum dómi, ef á að komast eitthvað áfram með meiri háttar verk í umdæmunum, að taka svona séráætlanir. Það er útilokað að ætla að fella þetta alveg inn í hina almennu áætlun, og það er einmitt það sem ég tel að hæstv. samgrh. hafi gert rangt varðandi sitt mikla áhugamál, varðandi Borgarfjarðarbrú, sem er að mínum dómi merkileg framkvæmd og á eflaust eftir að verða að miklu gagni. Það átti auðvitað að fjármagna það verk án þess að það bitnaði á öðrum fjárveitingum af almennu tagi. Ástæðan til þess, að þessi ónot koma upp víða um landið út í framkvæmdina í Borgarfirði, byggjast á því að mönnum er stillt frammi fyrir því að það fjármagn, sem fer í brúna, kemur á þeirra kostnað, það verður til þess að skera niður nauðsynlegar fjárveitingar til mjög aðkallandi verka annars staðar. Auðvitað átti að leysa þetta mál með sérstakri lántöku eða sérstakri fjáröflun og standa þannig að verki. En þetta hafði ég sérstaklega að segja um Austurlandsáætlun.

En gagnvart okkur á Austurlandi er þó hinn hluturinn enn þá verri, sem snýr að Norður- og Austurvegi, og ég vil a. m. k. koma því á framfæri m. a. við hv. þm. Eyjólf K. Jónsson, sem átti stóran hlut að því að lög um Norður- og Austurveg voru sett, af því að mér fannst í hans máli hann eiginlega vera að óska okkur til hamingju með það, sem ættum Austurveginn í þessari löggjöf, að við hefðum nú fengið okkar, en það hallaði heldur á hjá honum. Ég ætla mér ekkert, af því að ég hef ekki kynnt mér það nægilega, að fara að metast á við hann um hvor hafi nú sloppið betur út úr þessu við það að það hefur alls ekki verið staðið við löggjöfina. En ég skal benda á hvernig við komum út úr þessu núna.

Frsm. fjvn. orðaði það svo, að það væri gert ráð fyrir að af fjármagni Norður- og Austurvegar, sem væri nú á þessu ári 850 millj., 500 millj. í seldum bréfum fyrir þetta ár og 350 millj. frá lánveitingu fyrra árs, 850 millj., ætti þriðji partur að fara í Austurveg, frá Reykjavík og austur um til Egilsstaða, þ. e. a. s. 283 millj. kr. Það er auðvitað ekki uppgert mál á milli okkar, skulum við segja, þm. af Austurlandi og þm. af Suðurlandi, hvernig ætti að skipta þessari upphæð á milli okkar. Þeir virðast hafa valið þá leið meiri hl. fjvn. að slá því föstu, að af þessu fé, sem á að fara í Austurveginn, eigi 60% að fara í Suðurlandskjördæmi, en 40% í Austurlandskjördæmi. Ég hafði reyndar alltaf hugsað mér að það færu 50% á hvort svæðið fyrir sig. En það skiptir ekki höfuðmáli. Út frá þessu sagði hv. frsm. fjvn., að af þessu fjármagni, 283 millj., færu 170 millj. í Suðurlandskjördæmi og 113 millj. í Austurlandskjördæmi.

Nú hef ég farið yfir þessar fjárveitingar eins og þær liggja hér fyrir, og það eitt er alveg víst, að það er engin leið að fá leiðina um Austurlandskjördæmi þar sem Suðurlandskjördæmi þrýtur á austurleið og Austurlandskjördæmi byrjar, eftir því sem aðalvegurinn liggur til Egilsstaða, og ég nem að sjálfsögðu staðar við hreppamörkin hjá Egilsstöðum því að þangað nær vegurinn samkv. lögum, þá er ekki með nokkurri leið hægt að fá út úr þessari fjárveitingu núna nema 72 millj. Það er ekki til meira þó að allt sé talið, þó að hin almenna áætlun okkar hefði átt að leyfa okkur að veita eitthvert fjármagn í veginn t. d. um Austur-Skaftafellssýslu. Enginn hafði reiknað með því að Austurvegurinn ætti að þjóna okkur á þann hátt að við fengjum fé af Austurvegi, en í staðinn fengjum við enga fjárveitingu eins og veitt hefur verið árum saman til þessarar vegagerðar, t. d. um alla Austur-Skaftafellssýslu, — ekki eina krónu. En þó að sem sagt allar fjárveitingarnar til veganýbyggingar séu teknar af þessu svæði, þá koma ekki út nema 72 millj., ekki einu sinni þessar 113 millj., það er ekki til. Og ef menn vilja fara í það, sem auðvitað er alrangt miðað við lögin, að taka 25 millj. þarna til viðbótar sem veittar eru og flokkast undir hraðbraut innan Egilsstaðahrepps, á milli flugvallar þar og inn í aðalþorpið, 25 millj. kr., þá komast menn ekki heldur upp í 113 millj. þó að þeir geri það, sem er auðvitað rangt.

Það er því ekkert um það að villast að við austfirðingar fáum ekki það fé sem rætt er um að við eigum að fá af fjármagni Norður- og Austurvegar, það fáum við ekki. Og við fáum auðvitað ekki heldur það sem um hafði verið samið í sambandi við Austurlandsáætlun. Allt þetta verður svo að taka þannig að það fjármagn, sem tekið er bæði þarna í Oddsskarð og eins til Austurvegarins, allt þetta fjármagn verður svo að dragast frá því sem okkar kjördæmi átti að fá úr hinni almennu áætlun. M. ö. o., og það vil ég segja m. a. til þeirra sem stóðu að löggjöfinni um Norður- og Austurveg, hún er okkur algerlega einskis virði, við fáum hreinlega ekkert út úr henni, ekki neitt. Það fór auðvitað ekkert á milli mála, að það, sem við áttum við með því að við fengjum þarna okkar hluta af þriðja parti af Austurvegi, það var ætlað til þess að gera hin stærri átök á þessari leið, m. a. um Breiðamerkursand, sem að nokkru leyti hefur verið unnið, og svo aftur fyrir Hvalneshorn, en nú er þetta sem sagt tekið á hinn veginn, að þetta er bara dregið frá okkar almennu fjárveitingum og útkoman verður þessi.

Ef við leggjum svo saman til þess að sýna aðeins hvernig við komum út úr þessu, allar fjárveitingar sem fóru til okkar til nýbyggingar vega á s. l. ári, þá voru þær 320 millj. En allar fjárveitingar, sem þessi vegáætlunartillaga felur í sér nú, eru 332 millj. eða 12 millj. hærri upphæð. Taki maður svo breytingarnar á framkvæmdakostnað sem eru gefnar upp í vísitöluútreikningi frá Vegagerðinni, þá kemur í ljós að okkur skortir, miðað við það að halda sama framkvæmdamætti og var á s. l. ári, rétt tæpar 70 millj. Hins vegar kemur í ljós að með sama útreikningi er talið að heildarfjárveitingin hafi rýrnað um 185 millj. kr., en okkar hlutur skerðist um tæpar 70, svo að við höfum þá tekið laglegan hluta af þessari heildarskerðingu. En við áttum samkv. reglum að njóta að einhverju leyti Austurlandsáætlunar, sem við höfðum samning um, og áttum að njóta að einhverju leyti laga um Norður- og Austurveg, en þessi verður útkoman hjá okkur. Þetta er auðvitað alveg hraklegt.

En ég veit ekki í rauninni til hvers er að vera að tala um þetta hérna. Þetta er eins og að skamma öfugan mann, að vera að skammast út af þessu hér. Það er auðvitað hugsanlegt að bæði hæstv. ráðh. og þeir fjvn.- menn, sem hér eru, vilji taka þetta eitthvað til athugunar þegar endurskoðunin fer fram á næsta hausti. En líklega verður að geyma það að gera þetta upp við rétta menn þangað til næst verður kosið, því að það er auðvitað ekkert um að villast að svona nokkuð eins og þetta getur ekki gerst. Ég er búinn að taka þátt í samstjórn áður, og ég veit að svona nokkuð getur ekki gerst ef fjórir þm. frá Austurlandskjördæmi, þrír frá Framsfl. og einn frá Sjálfstfl., hafa hér fylgst alveg með málum og ef þeir hefðu rekið hnefa sína í borðið á réttum tíma, það er alveg útilokað. Þeir hljóta því að bera á þessu beina eða óbeina ábyrgð.

Ég skal svo stytta mál mitt, en aðeins gera hér örstutta grein fyrir tveimur brtt. sem ég stend að því að flytja hér við áætlunina.

Það er í fyrsta lagi brtt. á þskj. 434 sem ég flyt ásamt Ragnari Arnalds. Í þeirri till. er gert ráð fyrir því að ríkissjóður greiði til Vegasjóðs á þessu áætlunartímabili sem nemur helmingi af söluskattstekjum sínum af bensíni. Ég tel að sé mjög sanngjarnt að ríkissjóður geri þetta. Hann hefur fengið stórauknar tekjur vegna verðhækkunar á bensíni og fær sennilega miklu meiri tekjur en voru áætlaðar. Ég er á því að það hefði verið eðlilegt að ríkissjóður hefði lagt þetta fram til viðbótar af sinni hálfu. Ég skal hins vegar taka það fram, að ég hefði fyllilega verið til viðtals um að afla Vegasjóði tekna með alveg nýjum tekjustofni til viðbótar við það sem ríkissjóður hefði lagt fram, en ekki hefur tekist nein samstaða um það hér, og því flyt ég enga till. um það. En ég tel sjálfsagt að sýna þessa till., og því leggjum við hana fram, þar sem við gerum ráð fyrir að ríkissjóður leggi fram þetta viðbótarfjármagn til Vegasjóðs. Í till. er svo tekið fram, að til þess sé ætlast af fjvn. að hún skipti því fjármagni, sem þarna er um að ræða og kann að verða umfram það sem ráðstafað verður við afgreiðslu þessa máls með því að samþykkja hér einstakar útgjaldatill. eða hækkunartill. sem fyrir liggja, en þessu verði fyrst og fremst ráðstafað af fjvn.

Hin till., sem ég flyt, er á þskj. 435 og hana flyt ég ásamt Helga F. Seljan. Þar leggjum við til að tekin verði inn í liðinn til nýrra þjóðvega nýr líður, sem er Austurlandsáætlun. Við leggjum til að til Austurlandsáætlunar verði varið sömu fjárhæð öll þessi ár og var á s. l. ári, 177 millj. kr., og minna getur það að mínum dómi ekki verið. Hér er ekki um hreina hækkun að ræða upp á 177 millj., því að við leggjum til að í staðinn fyrir liðinn til Oddsskarðsvegar, 100 millj. kr., komi Austurlandsáætlunin sem heild með 177 millj. og síðan verði þeirri fjárhæð allri skipt á þessar framkvæmdir sem enn eru óunnar af Austurlandsáætlun. Að sjálfsögðu yrði þar framkvæmdin við Oddsskarð tekin upp og þá gengju 77 millj. á árinu 1977 til annarra verka sem tilheyra Austurlandsáætlun.

Mér þykir rétt að það fari fram atkvgr. um þetta til þess að það komi alveg skýrt fram hver er afstaða manna hér til að standa við þessa áætlun sem gerð var á sínum tíma og ég hef hér rætt nokkuð um.

Herra forseti. Ég skal svo ekki lengja þetta frekar, enda komið hér langt fram yfir eðlilegan fundartíma. En ég er mjög óánægður með þessa afgreiðslu og vona að fyrir næstu endurskoðun átti menn sig á því að það er ekki hægt að halda áfram afgreiðslu vegáætlunar á þann hátt sem gert hefur verið.